Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1991/Síðasta ferð Dorado
Síðasta ferð Dorado
Þegar útflutningur fisks í gámum hófst hér fyrir alvöru, sjómönnum og útgerðarmönnum til ótvíræðs ábata, varð snemma ljóst að hinn eiginlegi farskipafloti Íslendinga dugði hvergi nærri til að anna bæði þeim verkefnum svo og öðrum sem til féllu. Forsvarsmenn skipafélaganna brugðust við með þeim hætti að verða sér úti um leiguskip sem annast skyldu þennan gámaflutning milli Íslands og Evrópu, auk þess sem nýta mætti þau til annarra verkefna ef svo bæri undir.
Þessi skip voru mönnuð erlendum áhöfnum, samkvæmt leigusamningi, og líkast til hefur útgerðinni ekki leiðst það ákvæði þar sem slíkt hafði í för með sér nokkru minni útgjöld í mannakaupi. Þetta hafði í för með sér talsverðar deilur milli skipafélaga og sjómannasamtaka, deilur sem ekki sér enn fyrir endann á. Hafa sumir tekið svo djúpt í árinni að fullyrða að þetta sé upphafið að því að farmannastéttin íslenska líði undir lok. Væri illt ef svo væri en það er svo allt önnur saga sem ekki stendur til að rekja hér.
Eimskipafélag Íslands tók skipið Dorado á leigu í apríl 1987 til þessara flutninga. Eigandinn var þýskur útgerðarmaður, Christoph Sahl, en aftur á móti var skipið skráð undir svonefndum þægindafána, skráð á Antigua, sem þýðir mun minni útgjöld útgerðar en væri það t.d. skráð í evrópskri höfn. Dorado var svo til nýtt skip, smíðað í Hamborg 1985, og þótti henta vel til flutninga fyrir Eimskip enda höfðu þeir skipið á leigu allt fram til ágústmánaðar á síðasta ári eða í rúm þrjú ár.
Skipið var í margvíslegum verkefnum á þessum tima, m.a. siglingar á ströndinni, Ameríkusiglingar en þó var aðalrútan Reykjavík - Vestmannaeyjar - Immingham - Bremerhaven. Og það var þessi rúta sem Vestmannaeyingar könnuðust hvað best við, hingað kom skipið frá Reykjavík og sigldi rakleiðis héðan til Immingham í Bretlandi með gámafisk.
Aðalverkstjóri Eimskips hér í Eyjum á þessum tíma var Georg Þór Kristjánsson. Hvað skyldi hann hafa um skip, skipstjóra og áhöfn að segja:
Ég kynntist Kalla Steffens strax og hann kom í fyrstu ferðina með Dorado og líkaði einstaklega vel við manninn og raunar því betur sem ég kynntist honum meira. Ég held að það sé erfitt að finna annað eins ljúfmenni og hann. Enda sagði ég við hann einu sinni að þótt hann vœri Þjóðverji, væri ábyggilega ekki snefill af þýsku blóði í honum. Nú var Eimskip á sínum tíma með tvö leiguskip í flutningum, Dorado og Tinto. 1988 voru ekki lengur verkefni fyrir þau og var þá leigusamningnum sagt upp. En ég get fullyrt að það var eingöngu vegna þess hve öllum líkaði vel við Kalla skipstjóra að samningurinn um Dorado var endurnýjaður. Nú var stœrstur hluti áhafnarinnar Filippseyingar og oft hafa Þjóðverjar litið niður á þann þjóðflokk. En ekki Kalli, hann kom fram við þá eins og jafningja sína eins og reyndar alla sem hann átti samskipti við. Mikilmennska eða yfirgangur fyrirfannst ekki hjá honum. Þá gekk hann œvinlega til allra verka um borð, var alltaf fyrstur manna að hlaupa til ef einhvers staðar þurfti með. Hann er t.d. einhver alflinkasti kranamaður sem ég hef séð til. Hann hefur haldið tryggð við mig og raunar fleiri Íslendinga, sendir mér kort svona af og til, hringdi í mig rétt fyrir síðustu jól til að afsaka að hann hefði ekki sent jólakort. Svo kom kort frá honum að ég held tveimur eða þremur dögum seinna. Ég sé virkilega eftir honum.
Svo mælti Georg Þór en hann var einn af hvatamönnum þess að sá sem þetta ritar dreif sig, ásamt spúsu sinni, í þá síðustu ferð sem Dorado sigldi milli Íslands og Bretlands á vegum Eimskips (í bili að minnsta kosti.)
Málið var að greinarhöfundur hafði fullan hug á að sækja heim á nýjan leik kunningja sína frá þar liðnu sumri á Bretlandi. Og þar sem greinarhöfundur er þekktur að því að vilja helst ekki fara troðnar slóðir, hvorki í ferðalögum né öðru, þótti honum við hæfi að leita hófanna á fari með skipi, helst gámaskipi. Forvígismenn gámaútflutnings voru þessum hjónakornum einkar velviljaðir, bæði Snorri Gámavinur og Georg Þór vildu allt til þess gera að af slíku gæti orðið og svo varð.
Skömmu fyrir þjóðhátíð var von á Dorado hingað á leið út og sá tími hentaði okkur einstaklega vel. Allt var klappað og klárt, við yrðum meira að segja einu farþegarnir í ferðinni. Og á föstudegi hafði Georg Þór samband, skipið væri að lesta gáma og líklega yrði farið síðdegis. Rétt væri þó að kíkja á kajann, taldi hann, svona upp úr hádegi, til að fá nánari fregnir.
Greinarhöfundur gerði eins og fyrir var lagt, hélt niður á Binnabryggju um tvöleytið, þar var þá Georg Þór og kallaði til hans að best væri að hann talaði við skipstjórann sjálfan. Kallaði síðan í grannvaxinn mann á dekkinu, sem var í óðaönn að herða niður gáma. Sá vippaði sér upp á bryggjuna og kom að bílnum. Ég taldi í fáfræði minni að hér væri kominn bátsmaður ellegar annar umboðsmaður skipstjóra sem fært gæti mér skilaboð um mætingartíma. En mér til mikillar undrunar kynnti Georg Þór manninn fyrir mér sem skipstjórann um borð, Carl Steffens.
Í einfeldni sinni hafði greinarhöfundur haldið að skipstjórar á farskipum væru líkt og kóngar í ríki sínu og snertu sem minnst á verki. En þarna fauk sú skoðun á bak og burt. Þessi brosmildi maður á bryggjunni í rauðgulum samfestingi, með hlífðarhjálm á höfði, var sjálfur skipstjórinn og lét sig ekki um muna að taka þátt í störfum háseta sinna. Þetta var bláeygður maður og glaðbeittur, ávarpaði mig á ensku og bauð mig innilega velkominn um borð í Dorado. "Vertu kominn um borð fyrir sex," sagði hann, " við förum sennilega um það leyti."
Stundarfjórðungi fyrir sex vorum við Katrín mætt um borð, þar tók á móti okkur geðugur Filippseyingur og lóðsaði okkur upp á fjórðu hæð í brúnni. Þar var okkur vísað til herbergja og jafnframt tjáð að kvöldmatur væri á borð borinn og væri okkar vænst þar ef við vildum þiggja. Í borðsal var kvöldverður til reiðu, kalt borð með tesopa, hreint ljómandi matur eins og við áttum eftir að fá að kynnast betur. Að máltíð lokinni héldum við upp á fjórðu hæð á ný.
Í setustofu skipstjóra stóð þá yfir eitt herjans mikið partý. Þar sem þetta var síðasta ferð skipsins á vegum Eimskips var kveðjuveisla um borð og lá við að menn táruðust. Seinna skildi ég hvers vegna. En svo kom Gísli lóðs um borð og lengur varð ekki beðið, út skyldi haldið.
Í síðasta sinn sigldi Dorado út úr Vestmanneyjahöfn, með hraunið svart og úfið á stjórnborða og klettana, snarbratta og móleita á bakborða. Aftansólin rauð bergið litum beggja vegna, litasinfónía fegurri en annars staðar gefst. Hafi skip sál, sem ég ekki efast um, þykist ég þess fullviss að í huga þessa skips var þetta sinn tregi, ekki síður en í huga skipverja; líklega sæju þeir þennan stað nú í síðasta sinn, stað sem ég síðar vissi að þeir höfðu tekið við ástfóstri.
Vistarverur okkar hjónakorna voru ekki af verra taginu. Nú var Dorado nýlegt skip þannig að við töldum okkur vita að ekki væri boðið upp á tros. En farþegaklefinn tók fram björtustu vonum okkar. Tvær rúmgóðar kojur (að sjálfsögðu), góður legubekkur, borð og stólar, fataskápar, víðáttumikið snyrtiherbergi með sturtu og þvottavél. Og fyrir framan setustofa með sófum og borðum, ásamt kæliskáp fullum af hinum aðskiljanlegustu drykkjarvörum. Væri tekinn drykkur úr þeim skáp, bað skipstjórinn þess að merkt væri við á blað, "svona ef þið munið eftir," sagði hann og kímdi við.
Úr brúnni horfðum við á Eyjar smækka smám saman uns þær loks hurfu í roðagull sjávar, tókum þá á okkur náðir.
Nú er e.t.v. rétt að segja nánar frá skipi og skipshöfn.
Dorado var smíðað í Hamborg 1985, 1599 brúttótonn. Mesta lengd 88,6 metrar og mesta breidd 15,6 metrar. í því er 2220 hestafla vél af Versilagerð og 750 kw ásrafall. Veitir ekki af þar sem skipið er sérsmíðað til gámaflutninga, getur tekið 256 gáma, þar af 40 frystigáma sem útheimta allnokkurt rafmagn.
Nafnið Dorado mun spænskt að uppruna og myndi útleggjast á íslensku sem "Sverðfiskur." Eins og áður sagði var skipið skráð á Antiguaeyjum og sigldi undir fána þess ríkis þótt fátt væri um borð sem minnti á heimahöfn skipsins, annað en flaggið.
Þeim bar saman um það um borð að þetta væri gott skip, "listaskip," sagði súpercargóinn. Mjúkt í hreyfingum, enda lestun hagað í samræmi við öryggi og þægindi; sá heföi verið illlæknanlegur af sjóveiki hefði hann fundið til slíks um borð, nánast eins og á stofugólfi allan tímann. Raunar hið ágætasta veður yfir hafið. Meira að segja hún Katrín sem helst ekki fer ógrátandi með Herjólfi, hafði fótavist allan tímann.
Skipstjórinn:
Maðurinn snöfurlegi, sem ég hafði lítillega kynnst á bakkanum heima (og hélt að væri háseti), skipstjórinn um borð, hét Carl Steffens, 48 ára Þjóðverji en eins lítið Þjóðverjalegur og nokkur maður getur verið. Ef til vill er ein ástæðan sú að hann er kvæntur danskri konu og á heimili sitt í Danmörku. Við byrjuðum á því að ræða saman á ensku, síðan þótti mér við hæfi, þegar ég víssi að hann var þýskur, að prófa þýskuna en að lokum urðum við ásáttir að láta samskiptin fara fram á dönsku. Og fáa hef ég heyrt fara betur með það ágæta tungumál bjórs og beykiskóga. Þessi Hamborgarþjóðverji (sem var sko akkúrat enginn þjóðverji) viðurkenndi sjálfur að hann væri miklu meiri Dani en Þjóðverji.
Flestum sínum frístundum sagðist hann eyða hjá konu sinni í húsi þeirra á Jótlandi. Raunar væri vart hægt að tala um fjölskyldulíf, frekar en hjá öðrum farmönnum, en hann sagðist virkilega njóta þess að búa í Danmörku, þar væri fólk sér einhvern veginn nákomnara en í Þýskalandi.
Og ég komst að því að Carl Steffens er haldinn algjörri veiðidellu. Hvers konar veiðiskap stundar hann þegar færi gefst, fiskveiðar, bæði á sjó, ám og vötnum og skytterí. M.a. hafði hann farið til rjúpna á íslandi og í gæs og þótti hvort tveggja gott. Þá sagðist hann stunda kanínuveiðar í Danmörku og Þýskalandi og kvað það "meget god sport." En hámark allrar sportveiðimennsku átti hann þó eftir, hann hafði aldrei komist í lundaveiði, hafði heyrt um slíkt af afspurn og var forvitinn að vita meira. Ekki kæmi mér á óvart þótt hann bankaði upp á næsta sumar og hermdi upp á mig loforð um slíka veiði,
Carl Steffens er eins ólíkur skipstjóra á fragtskipi og ég gæti frekast imyndað mér. Ég hafði alltaf ímyndað mér slíka menn sem heldur þumbaralega og lítt þess fallna að blanda geði við óbreytta. En því var ekki að heilsa þarna um borð. Ef eitthvað þurfti að gera, ef bilaði pera í ljósi, þá vatt hann sér í úlpu ellegar samfesting og klifraði sjálfur upp til að skipta. Sjálfur fór hann og þvoði gluggana í brúnni á hverjum morgni, því auðvitað stóð þessi dánumaður vaktir til jafns við stýrimennina. Mér er til efs að slíkt lítillæti fyrirfinnist víða, jafnvel ekki á minnstu fiskibátum hér við land.
Carl Steffens lauk stýrimannsnámi í Þýskalandi og hefur verið skipstjóri frá 1965, þar af á Dorado frá upphafi og furðar víst engan á. Mörgum gæðamanninum hefur greinarhöfundur verið með til sjós en fáum sem komast í samjöfnuð við þennan danska Þjóðverja.
Og heldur betur hækkaði greinarhöfundur upp í loftið þegar skipstjórinn tók að hlaða lofi á Íslendinga. Hann var um tíma á "ströndinni" sem kallað er, sigldi þá milli hafna á íslandi og kynntist fjöldanum öllum af Íslendingum. Þegar hann komst að því að þessi ferð yrði tíunduð í næsta Sjómannadagsblaði sagði hann: "Sá ma du sige at Islænderne har min störste respekt!" Því er hér með komið á framfæri.
„Súpercargóinn:"
Það er ekki að ástæðulausu sem þetta orð er haft innan gæsalappa. Orðið "súpercargó" er alls ekki góð og gild íslenska en hingað til hefur ekki verið fundið orð á íslensku sem gæti fullþýtt þetta hugtak. "Súpercargó" er fulltrúi útgerðarinnar (Eimskips) um borð, eini íslendingurinn í áhöfninni, þarf ekki að standa vaktir um borð en sér um allt er varðar lestun og losun skipsins, alla útreikninga þar að lútandi, ásamt því að gæta hagsmuna útgerðarinnar. Slíkur maður er um borð í flestum ef ekki öllum leiguskipum sem íslenskar útgerðir hafa á sínum snærum.
"Súpercargóinn" er hvað næst því sem kalla mætti fyrsti stýrimann, þeir deila nokkuð jafnt með sér ábyrgð, hann og skipstjórinn. Skipstjórinn ber ábyrgð á siglingu skipsins en "súpercargóinn á farminum.
"Súpercargóinn" um borð í Dorado hét Ómar Hillers, Íslendingur sem rakið gat föðurætt sína til Danmerkur og þarf því vart að spyrja hvaða tungumál þeir notuðu sín í milli hann og skipstjórinn. Ómar er Selfyssingur að uppruna en býr í Reykjavík, 46 ára gamall og hefur alið mestan sinn aldur hjá Eimskip, fyrst sem messagutti og háseti en síðan sem stýrimaður og skipstjóri. "Súpercargó" var hann búinn að vera á Dorado í tvö ár og kunni því ljómandi vel, "varla hægt að hugsa sér betra, " sagði hann. Allri áhöfn skipsins bar hann hið besta orð, skipstjórinn einstakur og "Flipparnir" prýðismenn, betri en margir þeir Íslendingar sem ég hef unnið með. Hér er rétt að útskýra að "Flippar" er gælunafn á Filippseyingum en flestir skipverjar voru þarlendir.
Nú er rétt að árétta að "súpercargó" hefur ekki vaktskyldu um borð en Ómar tók ævinlega kvöldvaktina, "svona til að halda sér í formi", sagði hann. Að auki gekk hann til hinna margvíslegustu verka, til að mynda aðstoðaði hann oft vélstjórann ef eitthvað fór úrskeiðis í kælingu eða frystingu á gámum. Einhvern veginn þótti mér þarna um borð eins og menn ynnu ekki störf sín af skyldurækni einni saman, heldur væri þar viss ánægja, jafnvel fullnæging sem því fylgdi að skila góðu verki. Og þá var ekki spurt um yfirvinnu eða aukatíma.
Svo sem ef til vill gefur að skilja, spjölluðum við Ómar öllu meira saman þarna um borð en aðrir, þjóðernið gefur slíkt til kynna, auk þess sem við könnuðumst lítillega hvor við annan frá fyrri tíð. Hann sagðist skilja við þetta skip og áhöfnina með söknuði. Þetta hefði verið einstaklega góður og skemmtilegur tími þarna um borð. Rútan þægileg og góð, þann tíma sem þeir hefðu verið í gámasiglingunum.
„Ekki veit ég hvað tekur við hjá mér eftir þennan túr," sagði Ómar. "En gott má það vera ef það slær þessu við."
Fyrsti vélstjóri:
Fyrsti vélstjóri og raunar eini vélstjórinn um borð var arabi, Mustapha Darid frá Casablanca í Marokkó. Mér þótti það næsta undarlegt að einungis einn vélstjóri skyldi vera um borð í jafnstóru skipi. En um borð í Dorado er vélarúmið svo til sjálfvirkt, þannig að vaktskylda hans var lítil sem engin, helst ef eitthvað bilaði sem hann þurfti að koma til skjalanna. Og þetta var maður sem kunni sitt fag, skotklár á öllum hlutum, hið eina sem honum mislíkaði var ef kokkurinn gleymdi að bera honum kjúkling þegar aðrir fengu svínakjöt því eins og sannur múslími bragðaði hann ekki þann mat. Hann var fullnuma frá vélskóla í Þýskalandi, talaði mjög góða þýsku og ágæta ensku.
Mér þótti þetta ekki sérlega ábyrgðarmikið að hafa aðeins einn vélstjóra um borð í skipinu og spurði skipstjórann að því einhverju sinni hvð gert yrði ef hann einhverra hluta vegna yrði óvinnufær eða félli frá. Og Carl svaraði af sínu lítillæti: "Sa tror jeg, jeg kan redde det, jeg kan jo en smule dernede." Þar hafði maður það, kafteinninn var líka annar vélstjóri.
Áhöfnin:
Allir aðrir en hér hefur verið greint frá að framan voru "Flippar", þar á meðal 1. og 2. stýrimaður. Aldrei varð ég var við nokkuð sem hét kynþáttahatur eða lítilsvirðing í garð þessara undirmanna á skipinu. Þeir voru meðteknir eins og jafningjar, þarna unnu allir að sama markmiði, hvort sem þeir voru ljósir á hörund eða dökkir. Eina skiptingin var sú að yfirmenn snæddu í öðrum matsal og þar með upptalið. Stýrimennirnir tveir stóðu sínar vaktir og var fyllilega treyst enda sagði Ómar þá báða úrvals navígatora. Báðir voru þeir fyrirtaks enskumenn sem og aðrir í áhöfninni enda var enska "opinbert" tungumál um borð þó svo að danska væri yfirleitt töluð í brúnni og þýska í vélarrúmi.
"Matsveinninn, William, var mikill öndvegiskokkur, hafði látið filippínska matargerð mæta afgangi, eldaði að vestrænum hætti en hið fíngerða austræna yfirbragð matseldarinnar sveif þó yfir vötnum. Flinkur maður sem og raunar aðrir um borð.
Hásetunum kynntist ég minnst um borð í Dorado enda voru þeir lítt í því að "kássast" upp á farþegana. En þetta voru ágætlega viðræðugóðir piltar sem höfðu á orði að Ísland væri gott land; "We'll miss it," sögðu þeir.
Ekki að undra. Eftir því sem "súpercargóinn"sagði mér eru það forréttindi á Filippseyjum að komast í skiprúm. Að sjálfsögðu eru þeir ráðnir fyrir lægri laun en vesturlandabúar en á móti kemur að skattheimta af launum þeirra er lítil sem engin. En umboðsmaðurinn, sá sem útvegar plássið, heimtar drjúgan skerf af laununum í sinn vasa. Þrátt fyrir það eiga þessir piltar gott eftir af launum sínum til að senda fjölskyldunni heim í hverjum mánuði enda taldir hálaunamenn þar austur frá. Þeir lifa spart, berast lítt á og skemmtanalíf er þeim flestum hverjum framandi. Siglingarnar milli Evrópu og Íslands voru þeim mjög kærkomnar sérstaklega vegna þess að þar tókst þeim yfirleitt að breyta tollinum sínum í beinharða peninga, sjálfir drukku þeir lítið sem ekkert af honum. Það var stórfé í augum þessara manna að geta fengið tvö þúsund krónur fyrir viskíflösku sem þeir keyptu úr tolli á 400 og tryggði gott viðurværi fjölskyldunnar í hálfan mánuð að minnsta kosti. Engin furða þótt þeir litu með söknuði til þess að hætta slíkum gósensiglingum og fara þess í stað að skrölta um Miðjarðarhafið þar sem lítt var upp úr braski með toll að hafa.
Fleira kvikt um borð:
Hér að framan hefur verið getið mannskaps um borð. En fleira var með lífsmarki um borð í Dorado í þessari ferð og fara nú eflaust einhverjir að leiða getum að rottugangi ellegar flóm og lúsum. En engu slíku var þar að dreifa, enda menn þarna þrifnir með afbrigðum og þvoðu þvotta sína daglega í stórri þvottavél á fyrstu hæð. Svona sem útúrdúr er mér það sérlega minnisstætt þegar sjálfur skipstjórinn mátti standa í biðröð með þvottinn sinn í tvo tíma til að komast að í þvottavélina og annað eins eftir straubrettinu. Slíkt hefðu kollegar hans í íslenska flotanum varla látið bjóða sér; líklega látið einhvern þvo fyrir sig.
En þetta var útúrdúr. Um borð voru átta ferfætlingar í básum frammi á dekki, bakborðsmegin. Átta hestar á leið til Þýskalands. Mér varð til þess hugsað þegar ég fyrst barði þá augum á leiðinni út frá Vestmanneyjum hvort ekki væri söknuður í hug þeirra þegar þeir litu jöklana í hinsta sinn, kvíði því fylgjandi að hverfa frá hreinu lofti og grænu grasi; að halda á vit þess óþekkta, líkt og þræklar frá Afríku á leið til Ameríku fyrrum.
En þessir hestar virtust haldnir einstöku jafnaðargeði og langlund. Þrátt fyrir að standa upp á endann í fjóra sólahringa nærfellt, sýndist það engin áhrif hafa á þá. Að vísu virtist glaðna yfir þeim þegar þeim var gefið, hvort sem það var ánægjan yfir matnum ellegar félagsskapnum. Og natnari hirðingarmenn en Filippeyingang hef ég ekki séð , á gjafatíma virtust hestar og menn þar sameinast; það var eins og þessir annars óskyldu aðilar sameinuðust í því að deila hver með öðrum því að vera fjarri ættjörð sinni; maður og hestur urðu eitt.
Þá hefur verið sagt undan og ofan af skipi, fólki og fénaði og mál að halda ferðinni áfram.
Svo sem þeir þekkja, sem siglt hafa yfir hafið, er það langt í frá tíðindamikil sigling. Hreinn viðburður er ef skip kemur í sjónmál, mestan tímann er siglt einskipa. Og sjaldan verða menn líklega jafn einmana og á miðju Atlantshafi, líklega helst á miðju Kyrrahafi sem slíkt gerist.
Þar sem farþegarnir um borð voru ekki þjáðir af sjósótt (enda ekki veður til slíks) undu þeir löngum stundum í brúnni og greinarhöfundur skemmti sér við að æfa ýmsar varíasjónir í staðsetningum (misjafnlega gáfulegar). Í flestum tilvikum fór hann nokkuð nærri réttum stað skipsins en í öðrum skeikaði slíku að hann hefði sennilega verið settur af sem kafteinn hefði hann á annað borð verið slíkur. Annars var tækjakostur slíkur um borð í Dorado að helber óþarfi var að reyna staðsetningar með gömlum og grónum aðferðum, nýju græjurnar virtust öllu nákvæmari og fór það satt að segja eilítið í taugarnar á siglingafræðikennaranum.
Svo kom sú langþráða stund þegar Súlsker birtist. Það hefur mér einhvern veginn alltaf þótt stór stund, allar götur síðan ég sigldi með Friðriki Ásmundssyni á Öðlingi yfir hafið með gamalt logg og segulkompás og átti hreint ekkert von á að hitta á Bretland. Allt stemmdi það þó í þá daga og svo var einnig nú enda vanir menn á ferð hvoru tveggja sinn.
Sigling um Pentil er nokkuð sem menn sofa ógjarnan af sér (að minnsta kosti ekki á útleið). Einhverju sinni komu óprúttnir togarajaxlar því inn hjá óreyndum að venjan væri sú er nýgræðingar sigldu gegnum Pentil að þeir slægju ónefndu lífæri sínu þrívegis í lunningu. Ekkert var imprað í slíkum tilfæringum þetta sinn enda allir innvígðir í Pentil, utan konan um borð, Katrín, sem ekki hafði heldur rétta líffærið til slíkra manúveringa. Því var sigling gegnum Pentil heldur tíðindalítil, utan það að sigld var grunnslíð, farið innan við Stromu sem undirritaður hafði ekki farið fyrr, þrátt fyrir nokkrar siglingar um Pentil. Ómar "supercargó" stjórnaði þeirri siglingu og sagði að á ákveðnu falli væri sú leið mun fljótfarnari.
Duncanby Head kom og fór og sömuleiðis Kinnaird Head. Þá tók við sigling suður með Bretlandsströndum, sigling sem sumum þykir hrútleiðinleg en öðrum viðburðarík; fer þá jafnan eftir hvort menn eru á vakt á nóttu eða degi. Til að mynda getur það verið einkar viðburðaríkt að vera á vakt sé siglt framhjá Peterhead þegar snurvoðarbátarnir eru að koma út að morgni og helst þarf að víkja fyrir hverjum og einum. Stundum hafa menn gefist upp á þeim siglingareglum og látið slag standa. Enn hefa ekki orðið slys af þeim sökum svo ég viti um enda líkast til góðir siglarar og flestu vanir frá Perterhead.
Löngum hefur það verið nokkurs konar lokatakmark þeirra, sem sigla á Hull og Grimsby, að sjá Flamborough Head vitann. Svo var og að þessu sinni. Einhvern veginn fannst manni það boða góða heimvon þegar Flamborough sást. Og einhvern veginn styttist það sem eftir var. Þegar Ijósin birtust loksins fyrir oddann, var eins og maður væri að koma heim. Haldið var inn til Immingham, einhverrar óvistlegustu borgar sem um getur á jarðríki; þar gefur lítt að sjá annað en hafnarmannvirki og spúandi reykturna. En þarna var fyrirheitna landið í okkar augum; þangað var förinni heitið.
Það lá við að okkur færi eins og Filippseyingum og hestum við Íslands strendur þegar að því kom að kveðja þetta ágæta fólk um borð; það var engu líkara en við værum að kveðja fósturjörðina. Slík var dvölin um borð í Dorado. Allt hafði lagst á eitt um að gera þessa ferð ánægjulega, veður, skip, áhöfn. Við gátum þó horft fram á góðar viðtökur á Bretlandi. En áhöfnin á Dorado; á leið suður til Miðjarðarhafs, vissi lítt hvað þeirra beið; nær að þeir bæru ugg í brjósti; að vita af næstu áætlun; skjögti fram og aftur um það haf. Ekki allir ánægðir; hefðu sjálfsagt viljað taka rútuna aftur norður á bóginn.
En þarna var kvaðst á bakkanum í einhverri óyndislegustu borg veraldar; kvaðst með von um að hittast einhvern tíma aftur; kannski í Miðjarðarhafinu, kannski í Danmörku, kannski í lundaveiði á Íslandi; hver veit.
Að lokum. Áhöfnin á Dorado, allir sem einn og einnig þeir í Vestmanneyjum sem redduðu þessari ferð:
Bestu þakkir.