Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1991/Bankað á himnahlið
Bankað á himnahlið
Sjómaður í hrakningum á heiðum uppi
Oftast er það algengast þegar sjómenn segja frá minnisstæðum atburðum að þeir gerist í eða við sjó. Hitt er fátíðara að sjómenn komist í hann krappan á heiðum uppi. Hér segir Norðfirðingurinn Ágúst Magnússon frá einstökum hrakningum sem hann lenti í um síðustu áramót. Raunar fylgdist þjóðin með þessum hrakningum og leit björgunarsveita og var hvoru tveggja rækilega lýst í fjölmiðlum. Höfundurinn er nemandi við Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum.
Ég ætla hér á eftir að segja frá ævintýraferð sem ég fór um síðastliðin áramót. Allt byrjaði þetta í haust er leið þegar ég var að tala við vin minn fyrir austan. Okkur fannst báðum að við ættum að gera eitthvað óvenjulegt um áramótin; eitthvað sem gæti skilið annað eftir sig en brunnar rakettur, fyllirí, böll og partýstand sem var orðin föst rútína hjá okkur. Þessi áramót áttu sem sé að vera svolítið sérstök.
Margar hugmyndir skutu upp kollinum og ýmsar ágætar en að lokum var ákveðið að fara í fjallaferð. Upphaflega átti ferðin að taka fimm daga en raunin varð aldeilis önnur eins og verður nánar lýst hér á eftir.
Óhöpp strax í upphafi.
28. desember var lagt af stað frá Neskaupstað. Smávægilegar breytingar voru gerðar á fyrirfram ákveðinni ferðaáætlun vegna þrítugsafmælis, þannig að fyrsti "skálinn", sem við gistum í, var
Gíslastaðir í Skriðdal. Þar var haldin heljarmikil veisla sem stóð fram á nótt. Daginn eftir vöknuðum við eldhress kl. tíu og var ákveðið að leggja af stað um hádegi. Ekki gekk það fyrirhafnarlaust; bílarnir neituðu að fara í gang. Mikið frost hafði verið um nóttina og var bensínið frosið í bensíndælunum. Við höfðum verið svo uppteknir af því að hella ísvara í aukabensínið að við gleymdum að hella á bílana sjálfa. En fljótlega voru bílarnir komnir í gang og lögðum við af stað skömmu eftir hádegi. Leiðin lá inn að Öxi á Breiðdalsheiði en þar ætluðum við að hitta nokkra Breiðdælinga sem voru á þremur jeppum.
Þegar við komum að Öxi, á tilsettum tíma, bólaði enn ekkert á Breiðdælingum. Við biðum nokkra stund en ákváðum síðan að aka á móti þeim. Á leiðinni yfir heiðina vildi svo óheppilega til að baula brotnaði á framdrifskafti annars bílsins og voru nú góð ráð dýr; engin aukabaula til staðar og framdrifið því óvirkt. Eftir nokkrar vangaveltur datt okkur í hug að nota rafgeymafestingu í stað baulu og reyndist það prýðis lausn.
Bíllinn út af, bilað stýristengi.
Uppi á heiðinni hittum við svo Breiðdælinga og héldum förinni áfram áleiðis inn í Bjarnarhíði. Á leiðinni þangað gekk nú ekki allt eftir teikningunni. Vandræðin voru aðallega vegna snjóleysis og urðum við þess vegna að fylgja veginum. Hann var ekki alltaf auðfundinn enda tekið að rökkva og urðum við að senda mann gangandi með stiku á undan bílunum. Það gekk svo sem ágætlega nema hvað hægt miðaði með því móti og urðu menn nokkuð þreyttir á þessum seinagangi. Loks brast þolinmæðin, einn bílstjóranna tók sig til og þrusaði bara beint af augum. Það hefði hann betur látið ógert, hann missti bílinn út fyrir vegarkantinn og var nær búinn að velta honum. Og aðkoman var ekki falleg, bíllinn hékk á vegarbrúninni og vó þar salt. Farþegarnir stukku út úr honum í dauðans ofboði og við hin fylgdumst með. Skyldi hann velta eða ekki? Nú vantaði bara kranabíl sem að sjálfsögðu var ekki til staðar þannig að við urðum að redda þessu sjálf. Það gekk svo sem ágætlega að koma bílnum aftur á fjóra fætur en í hamaganginum slitnaði stýristengið í honum. Sú hugsun læddist að mér að kannski ættum við ekkert að vera að fara þetta, allt var búið að ganga á afturfótunum síðan við lögðum af stað. Og auðvitað er maður ekki með svona stýristengi í vasanum, frekar en að rennismiður gangi með rennibekk á sér.
Það var orðið áliðið, sól löngu gengin til viðar og var ákveðið að snúa til baka. En fyrst urðum við að tjasla stýristenginu saman og var brugðið á það ráð að skera niður drullusokk til að búa til annað tengi. Allt gekk það upp að lokum og var þá haldið til baka heim að Gíslastöðum.
Breytt áætlun.
Morguninn eftir var reynt að finna annað stýristengi og á meðan var reisan skipulögð upp á nýtt. Ákveðið var að renna upp á Fljótsdalsheiði og þaðan upp í Snæfellsbúðir en þær eru í austanverðu Snæfelli. Reddingin á stýristenginu tók lengri tíma en áætlað var og lögðum við ekki af stað frá Gíslastöðum fyrr en um kvöldmatarleytið. Veður var stillt og gott en þó lá þoka yfir.
Næsta stopp var við vegamót og lágu leiðir þaðan bæði austur og vestur með Snæfelli. Vegurinn til austurs lá inn að Snæfellsbúðum og fylgdum við honum. Eftir u.þ.b. 15 mínútna keyrslu frá vegamótunum stönsuðum við. Skyggni var þá farið að versna og vorum við búin að tapa af veginum. Þá ákváðum við að snúa við og halda inn í Laugarfellsbúðir, sem eru tæpan kílómetra frá vegamótunum, þar sem við töldum vonlaust að komast inn í Snæfellsbúðir að sinni. Ástæðan var einföld, mikið er um skurði og læki á leiðinni sem óskemmtilegt væri að lenda ofan í.
Okkur þótti öruggara að reyna frekar daginn eftir í birtunni og fylgja þá veginum.
Ferðin að Laugarfellsbúðum gekk að óskum en þar máttum við byrja á að ryðja snjó út úr skálanum, bjuggum síðan um okkur og gengum fljótlega til hvílu.
Morguninn eftir gengum við frá skálanum og rituðum nöfn okkar í gestabókina ásamt fyrirhugaðri ferðaáætlun. Og nú lá leiðin að nýju upp í Snæfellsbúðir.
Náttúrufegurð á fjöllum uppi.
Veður var bjart og gott og mátti sjá sólina gægjast yfir fjöllin í austri. Við stönsuðum oft á leiðinni. Útsýnið var stórkostlegt og stolt austurhálendisins blasti við okkur í norðri; Herðubreið, fannhvít og tignarleg. Snæfellið, tæpir 1400 metrar á hæð, skartaði einnig sínu fegursta, fegurra en nokkru sinni fyrr. Geislar sólar léku um hátindinn; þennan tind, sem yfirleitt er þakinn skýjaslæðu, fengum við nú að sjá í allri sinni dýrð. Já, ég myndi kalla það forréttindi að fá að sjá hálendi Íslands, umvafið morgunroðanum, á síðasta degi ársins. Þó var þetta aðeins forsmekkurinn að því sem við áttum eftir að sjá.
Því nær sem dró að Snæfelli jókst snjórinn og urðum við að moka okkur inn í sjálfar búðirnar, svo mikill var snjórinn. Byrjað var á að kynda upp skálann og síðan var brösuð nautasteik af mikilli list. Þegar við höfðum jórtrað kjálkavöðvana máttlausa af seigu kjötinu fórum við út í nóttina og horfðum á Snæfellstind baðaðan bláleitu tunglsljósi. Slík var kyrrðin að heyra hefði mátt flugu reka við. Eftir að við höfðum glápt úr okkur glyrnurnar, þanið lungun og hlustað á þögnina góða stund, héldum við inn, skáluðum í kaffi og kakói og svældum nokkra áramótavindla.
Eitt langar mig að minnast á í sambandi við fjallaferðir að vetrarlagi. Nær undantekningarlaust eru skálarnir sjálfir svo vel staðsettir að þeir gnæfa upp úr snjónum. En til að finna náðhúsin þyrfti helst að hafa íssjá. Kamrarnir eru yfirleitt fenntir í kaf. Því mátti þarna sjá ferðalangana í hinum ýmsustu stellingum úti um víðan völl þegar að því kom að skila áramótasteikinni.
Farið villur vegar á nýju ári.
Risið var úr rekkju um tíuleytið morguninn eftir, á nýársdag, og átti nú að taka veður en einhverra hluta vegna heyrðist ekkert í útvarpi. En þar sem kominn var fiðringur í bensínfætur bílstjóranna var ráðist í að þrífa skálann og gera klárt til brottfarar. Það var svo um hádegi sem lagt var af stað heimleiðis. Reynt var að fylgja vegaslóðanum þar sem hann stóð upp úr fönninni og gekk það ágætlega þar til áðurnefnt stýristengi brast í sundur einu sinni enn. Viðgerð á því tafði okkur nokkuð á annan tíma. Á meðan hrönnuðust upp ský og skyggni fór versnandi. Síðan fór að snjóa. Að viðgerð lokinni keyrðum við upp á næsta vegarslóða en svo óheppilega vildi til að við beygðum til vinstri í stað þess að beygja til hægri. Þessi örlagaríka beygja hafði það í för með sér að við ókum í hring.
"Heilög María guðsmóðir!" gellur allt í einu við í farþega í öðrum bílnum. "Eru þetta ekki Snæfellsbúðir?"
Ökumaður lítur á hann og hugsar: "Borgarbarn með óráði!" en segir: Hvað er þetta maður, ertu blindur, þetta er grjót!"
"Nei, þetta er sko ekki grjót!" svarar borgarbarnið og lítur haukfránum augum upp í hlíðina.
Blstjórinn lítur aftur á grjótið og kannast ansi vel við það. Brúnt og grænt grjót með bárujárnsþaki er ekki algengt og hann öskrar á borgarbarnið:
"Heyrðu, þetta eru Snæfellsbúðir, af hverju sagðirðu mér það ekki strax?" Já það var ekki um að villast, þetta voru Snæfellsbúðir. Nú var skotið á ráðstefnu og þingað um hvað gera skyldi. Sumir vildu þegja og ekkert segja. Aðrir vildu keyra og gera bara meira. Niðurstaða þingsins varð sú að fara upp í búðirnar, taka af bensínbirgðum sem við áttum þar og byrja upp á nýtt. Á leiðinni upp í búðir bilaði á nýjan leik baula í framdrifsskafti annars bílsins. Fór þá hinn bíllinn uppeftir meðan ný baula var sett í þann bilaða. Af fyrri reynslu hafði það lærst að gott væri að hafa nóg af slíkum gripum meðferðis.
Bilað drif, óveður í aðsigi.
Og nú var ballið byrjað. Fyrrnefndar hrakfarir voru aðeins upphafið. Eftir nokkurra kílómetra akstur henti enn eitt óhappið. Annar bíllinn fór niður gegnum ís og komst ekki upp af sjálfsdáðum. Hinn bíllinn þurfti því að draga hann upp við vægast sagt slæmar aðstæður; komið var myrkur og snjókoma tekin að ágerast.
Í átökunum við að koma bílnum upp, dundi enn eitt óhappið yfir. Drifskaftið í dráttarbílnum fór skyndilega í veikindafrí. Það brotnaði hreinlega í sundur og aldrei slíku vant var enginn rafsuðuvír með í förinni. Það var því óumflýjanleg staðreynd að sá bíll hafði aðeins annað drifið inni. Þó svo að einungis afturlappirnar væru í lagi var ekki gefist upp og var það ótrúlegt hvað bíllinn gat á öðru drifinu.
Við hlíðar Hafursfells var skyggni orðið mjög slæmt. Farið var að hvessa og færið að þyngjast um of fyrir bfl á einu drifi. Ákveðið var að taka hann í tog og reyna aða draga hann upp eftir. Vel gekk að draga hann upp og til að halda honum í slóð þurfti að draga hann niður hlíðina líka. Þegar niður kom, var skollið á aftakaveður og skyggni orðið lítið sem ekkert. Við vissum að stutt var eftir í vegamótin, því var ákveðið að skilja bilaða bílinn eftir á meðan hinn kannaði aðstæður. Við vissum líka af gili skammt frá vegamótunum sem óskemmtilegt hefði verið að heimsækja. En það þýddi lítið að leita í þessu skyggni enda skóf jafnóðum í hjólförin. Þá tókum við þá ákvörðun að bíða af okkur veðrið og halda áfram er því slotaði. Við hituðum okkur kaffi, drógum upp spilin og gáfum í Ólsen Ólsen. síðan fór hver í sinn poka og gekk til náða.
Skilaboð að handan?
Morguninn eftir, er við vöknuðum, sýndist okkur útlitið svart, veðrið var gersamlega glórulaust, Kveikt var á útvarpinu og það fyrsta sem við heyðum var lagið "Knock, knock, knockin, on Heavens's door með Guns 'N Roses. Það var rétt eins og þetta væru dulin skilaboð frá almættinu eða þá svona góð grínsending frá RÚV, því að lögin sem fylgdu í kjölfarið voru t.d. "Stormy Weather" og "Hingað og ekki lengra." Inn á milli þessara laga heyrðum við að leit væri hafin af okkur. Við reyndum þá að hafa samband við Gufunes gegnum SSB-talstöð en þær sendingar fuku út í veður og vind eins og reyndar kvöldið áður er við höfðum reynt hið sama. Svo uppgötvuðum við að spóla hafði brunnið yfir í loftneti og var það því óvirkt.
Í útvarpinu gátum við fylgst með ferðum björgunarsveitarmanna og var það góð tilfinning að vita af þeim. Lýsir þetta vel fórnfýsi þeirra manna, er starfa í sveitunum, að vera tilbúnir að fara af stað í hvaða veðri sem er, hvenær sem er. Það var líka erfið aðstaða hjá okkur, að geta ekkert látið vita um ferðir okkar. Sérstaklega þó þar sem ekkert amaði að. Okkur þótti leitt að þurfa að raska ró leitarmanna og etja þeim út í vitlaust veður.
Dagurinn leið og ekki lagaðist veðrið. Það versnaði ef eitthvað var. Leitarmönnum miðaði hægt áfram og tíminn var lengi að líða. Enn ein grínsending kom frá RÚV til leitarmannanna með laginu "I still haven't found what I'm looking for". Við drápum tímann með því að spila Ólsen Ólsen. Það vantaði bara jólabókina og konfektið, þá hefði þetta verið eins og heima í stofu. Við hituðum kaffi og kakó og höfðum það bara gott, miðað við aðstæður. Aldrei varð okkur kalt þar sem við gátum hitað bílana upp með gasprímus.
Salernisvandamál.
Þó var eitt vandamál sem erfitt var að leysa. Það var klósettvandamálið. Það var nær vonlaust að fara út úr bílunum, slíkur var skafrenningurinn. Það var erfitt að halda í sér og við vorum farin að emja af sársauka. Á endanum ákváðum við að létta á pínunni með því að míga í kókflösku. Það var heldur neyðarlegt en neyðin kennir naktri konu að spinna. Ekki dugði flaskan enda laust, því tókum við bensínrör, tróðum því niður um gat á gólfinu og migum gegnum það. Þetta reddaði okkur strákunum en kvenfólkið neyddist til að fara út í hríðina til að létta á sér. Þótt sú athöfn tæki ekki lengri tíma en eina til tvær mínútur hjá þeim, komu þær snjóhvítar og gegnblautar inn í bílinn aftur og urðum við að skella þeim ofan í svefnpoka til að koma hita í þær á nýjan leik. Það vandamál var leyst en annað var eftir, hvernig komast skyldi til byggða. Við vissum að leitarmenn myndu birtast von bráðar. Þeir fylgdu örugglega veginum og þar sem við vorum á honum gátu þeir tæpast farið framhjá okkur.
Leitarmenn nær skotnir niður.
Það söng í loftnetunum og bílarnir vögguðu undan vindinum. Þetta hafði sljóvgandi áhrif á okkur en skyndilega vöknuðum við upp við vélarhljóð. Við rýndum út í myrkrið og sáum þá ljós snjóbílanna. Það var ólýsanleg tilfinning að sjá þessi ljós. Adrenalíníð rauk af stað í æðum okkar og neyðarblysin voru rifin upp. Fyrsta skotið reið af en ekkert gerðist. Leitarmennirnir virtust ekki taka eftir okkur.
Ljóskastarar voru þá tendraðir og annað skot reið af. Það var engan árangur heldur. Leitarmennirnir héldu bara áfram án þess að verða varið við okkur. Mikið fát kom á okkur við þetta því heldur þótti okkur það illt ef snjó¬bílarnir ækju framhjá. Þriðja skotinu var þá miðað beint að leitarmönnum og hæfði það annan snjóbílinn. Þá fyrst tóku þeir eftir okkur. Mikil gleði greip um sig þegar þeir sneru við og fagnaðarlætin voru gífurleg. Þetta gefur e.t.v. nokkuð góða mynd af því hve virkilega slæmt skyggnið var. En þarna urðu miklir fagnaðarfundir og fannst mér leitarmennirnir gleðjast meira yfir að sjá okkur en við að sjá þá. Þrotulaus og erfið leit þeirra var loks á enda, takmarkinu náð. Það gladdi þá sérstaklega að sjá okkur öll heil á húfi.
Fyrsta verk okkar var að hlaupa í farsímann hjá þeim og hringja í ættingjana. Það sem helst plagaði okkur þennan tíma sem við dvöldum í bílunum var að þeir myndu hafa áhyggjur af okkur.
Öðruvísi áramót.
Og þar með er fátt sögulegt að greina meira. Förin til byggða gekk tíðindalaust og vel. Í lokin vil ég færa þakkir öllum þeim sem stóðu að og aðstoðuðu við leitina að okkur, þá sérstaklega Hjálparsveit skáta á Fljótsdalshéraði og Björgunarsveitinni Gró frá Egilsstöðum. Einnig á RÚV þakkir skildar, útsendingar þeirra gerðu okkur kleift að fylgjast með ferðum leitarmanna.
Í upphafi sagði ég að ætlun okkar félaganna hefði verið sú að halda öðruvísi áramót, óvenjuleg áramót. Og víst urðu þau hvort tveggja, líklega hefur ekkert okkar órað fyrir því í upphafi hvern enda þetta áramótahald fengi. Enda hefði þá sjálfsagt aldrei verið lagt af stað, hefði það verið fyrirfram vitað.