Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1990/ Vertíðarspjall 1990

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Hilmar Rósmundarson

Vertíðarspjall 1990

Nýliðin vetrarvertíð fór mjög eðlilega í gang, upp úr áramótunum. Heldur var þó rólegt yfir hinum hefðbundnu vertíðarbátum, og innan við helmingur þess flota lagði afla á land í janúarmánuði. Þetta stafar af því að þeim útvegsbændum fjölgar, sem telja að útgerð í janúar svari vart kostnaði, og einnig spilar sóknarmarkið inní, þar sem þeir bátar sem róa samkvæmt því kerfi, mega aðeins vera á sjó í 35 daga í janúar og febrúar.

Okkur sem orðnir erum gamlir í hettunni finnst vertíðarbragurinn hafa breyst æði mikið. Í gamla daga létu hörðustu formennirnir beita línuna sína á gamlársdag. Þá fór ársaflkoma bátanna og þar með sjómannanna eftir því hvern afla vertíðin gaf, og þá skiluðu mars og aprílmánuður verulegum hluta af ársveltunni, og ekki er mjög langt síðan netabátarnir voru í startholunum um áramót, og lögðu netin jafnvel á nýársnótt, til þess að ná góðu plássi í Kantinum. Nú er svo komið að jafnvel á þeim tíma, sem aflavonin er mest, verða hörðustu sjósóknarar að liggja í landi heilu og hálfu vikurnar í skaplegu veðri, vegna þess að þeim er ýmist skammtaður aflinn, eða dagarnir, sem þeir mega vera á sjó, nema hvort tveggja sé. Illu heilli verður víst að viðurkenna að einhver stjórnun og skömmtun sé nauðsynleg, en það er stór spurning hvort hún eigi að vera í höndum einhverra misviturra pólutíkusa, sem margir hverjir þekkja tæpast haus á fiski frá sporði, og sem eins og nýjustu dæmin sanna, hika ekki við að nota hrossakaupa aðferðina í þessu stóra máli, þegar þeim hentar. Sjálfsagt breytist þetta allt til hins betra, þegar nýju fiskveiðilögin taka gildi um næstu áramót. Þá verður ekkert sóknarmark, og þá geta allir þeir, sem ekki hafa haft tök á að verða sér úti um góðan kvóta, klárað sinn litla skammt t.d. í apríl og slappað svo af, það sem eftir er ársins með því fólki, sem unnið hefur við aflann bæði til sjós og lands.

„Brotherhood of man“. Bræðurnir Friðrik og Benóný Benónýssynir um borð í bát sínum Gullborgu VE 38.

Þetta var nú útúrdúr, ég var víst beðinn um að setja á blað nokkrar línur um síðustu vetrarvertíð, og er þá best að byrja á smá hugleiðingu um veðráttuna, en eins og allir vita ræður hún miklu um sjósókn og aflabrögð. Vertíðin í vetur var ein af þeim verri hvað veðráttu snertir, langir og strangir hafáttarkaflar gengu yfir með tilheyrandi sjólagi. Þetta bitnaði harðast á minni bátunum, en stærsti hluti Eyjaflotans nú, eru það öflug skip að sjórinn er sóttur þegar það er leyfilegt, og veiðar stundaðar í veðrum, sem engum hefði dottið í hug að reyna fyrir nokkrum árum. Það var því fast sótt, og menn reyndu að taka sóknarstoppin þegar verst leit út með veður. Togararnir fengu góðan afla strax upp úr áramótunum, og í nokkurn tíma fengu þeir og sterkustu togbátarnir mjög þokkalegan afla í Grindavíkurdýpi og djúpt út af Reykjanesi. Sá fiskur hélt sig að mestu utan við 200 faðma dýpi, og gekk mjög lítið upp á grunnið, og virtist hann hrygna úti í dýpinu. Reyndar höfðu sjómenn hér talið að svo væri, þar sem þorskurinn hefur að mestu haldið sig í djúpköntunum hér síðustu vertíðar. Sá fiskur, sem þarna veiddist var mjög misstór, allt frá aulum niður í undirmálsfisk, en það sem óeðlilegt var við þennan afla var, að jafnvel í undirmálsfiskinum voru farin að myndast hrogn. Talið hefur verið að þorskur þyrfti að lifa í 5 til 6 ár til þess að verða kynþroska, og væri þá kominn langt yfir undirmálsstærð. Þarna hefur eitthvað gerst í náttúrunni, sem menn átta sig ekki á, en trúlegasta skýringin er sú, að þessi smái fiskur hafi alist upp við þau skilyrði, að þó hann sé kominn á kynþroskaaldur hafi hann ekki náð meiri stærð. Hin skýringin á þessu fyrirbæri er sú að þorskur hrygni mun yngri en talið hefur verið, en það er því miður talið mjög ósennilegt. Ekki veit ég til þess að nein aldursgreining hafi farið fram á þessum fiski. Óhætt er að segja að vertíðin hafi verið togurunum hagstæð, og í apríllok höfðu þeir skilað álíka afla á land og á sama tíma 1989.

Þrír kunnir aflamenn. Guðmundur Ingi Guðmundsson á Hugin. Sigurður Georgsson á Suðurey, Sigurjón Óskarsson á Þórunni Sveinsdóttir.

Loðnuskipin byrjuðu strax upp úr áramótum, þar sem þau áttu flest nær allan árskvótann óveiddan, vegna mjög lélegs afla á haustvertíðinni, en í þá fimm mánuði, ágúst til desember, sem verið var að eltast við loðnuna varð heildaraflinn aðeins 54 þúsund lestir. Loðnuveiðin var góð fyrri hluta vetíðarinnar, og í janúar veiddust 203 þúsund lestir og 306 þúsund í febrúar. Margir fóru að taka það rólega við veiðarnar, lágu í landi sumir heilu vikurnar meðan veiði var góð.
Tekist hafði að selja nokkuð af frystri loðnu, og verulegt magn af loðnuhrognum og ætluðu menn að bæta sinn hlut með því að geyma nokkra farma til þessarar vinnslu. En skyndilega datt allur botn úr veiðunum, og í marsmánuði öfluðust aðeins 103 þúsund lestir og þar af leiðandi náðist aðeins að frysta 2300 lestir af hrognum. Loðnufrystingin gekk einnig erfiðlega vegna þess hve loðnan var smá.
Afleiðingar af þessu aflaleysi loðnuskipanna í mars urðu þær að flest skipanna áttu eftir nokkuð af kvóta sínum þegar veiðum lauk, og sum verulegt magn. Óhætt er að fullyrða að afkoma loðnuflotans er léleg á þessu loðnuári og allt önnur en hún hefur verið. Hvað framtíðin ber í skauti sínu er vandséð, þessi skip hafa lítið annað að byggja á en loðnuna, að vísu hafa flest þeirra einhvern rækjukvóta, en hann virðist ekki verðmætari en það, að margir kjósa heldur að binda skipin í marga mánuði, þó að það sé að sjálfsögðu engin rekstrarlausn.

Jóhann Karl Spánarkonungur kom í heimsókn til Eyja og brá sér um borð í Bjarnarey VE þar sem Steingrímur Sigurðsson, upplýsti hann um leyndardóma togveiða. Útgerðarmaðurinn, Sigurður Einarsson var með í för (til að túlka yfir á spænsku?)

Sem fyrr segir fór hinn svokallaði vertíðarfloti rólega af stað, og í janúar lönduðu aðeins 16 togbátar og 4 netabátar. Fljótlega verð vart við fisk, og var botnfiskaflinn í mánuðinum nánast sá sami og í janúar 1989. Með febrúar jókst bæði sókn og afli, og mun meira veiddist af þorski og ýsu, en í sama mánuði á síðustu vertíð, en ufsaafli dróst nokkuð saman. Togbátarnir, sér í lagi þeir stærri, fengu ágætis glefsur, og netabátarnir, sem nú voru orðnir 12 á móti 9 í fyrra, fengu ágætis þorskafla í Kantinum, það góðan að þegar líða tók á mánuðinn, urðu sumir þeirra að flýja með netin sín úr ágætis þorskafla og reyna að finna annan fisk. Heildar botnfiskaflinn í febrúar var 4540 lestir á móti 3430 lestum árið áður og áfram var haldið, en þó ekki á fullu.

Togarar og bátar tóku löng sóknarstopp, og lágu iðulega í landi heilu vikurnar. Netabátar fækkuðu netum, og lögðu áherslu á ufsa, ýsu, löngu og þannig gekk það út vertíðina. Litlu togbátarnir bættu sinn hag verulega á síðustu vikum vertíðarinnar, en þá fengu þeir ágætis kolakropp, sem þeir sendu út í gámum, og fengu gott verð fyrir. Kolinn var óvenju seint á ferð þetta árið, og það er greinilegt að einhver skilyrði hafa valdið því að bæði hann, og reyndar annar fiskur hrygndi seinna nú en í venjulegu árferði, og jafnvel nú í maí er hluti fisksins ógotinn. Litlu netabátarnir og trillurnar hafa verið að reyta á ýmsum blettum hér í kring, en erfið veðrátta hefur nokkuð rýrt þeirra hlut. Í heild má segja að vertíðin hafi verið mjög góð, og ég held að óhætt sé að fullyrða, að hefðu hin mörgu boð og miklu bönn ekki verið í gildi, hefði þessi vertíð orðið ein af þeim stóru hér.

Nú verður ekki lengur um það deilt hver sé stærsta verstöð landsins. Á þessu ári er úthlutað hingað samkvæmt aflamarki 38.252 þorskígildum af botnfiski og eru það 10,43% af heildarúthlutun. Þegar kvótakerfið var tekið upp 1984, varð okkar hlutur 32.931 þorskígildi eða 8,52% af heildinni. Þessi aukning stafar af því að fiskibátunum okkar hefur fjölgað verulega og þeir stækkað. Árið 1984 var hæstum aflakvóta úthlutað til Reykjavíkur eða 44.055 þorskígildum, sem var 11,40% af heildarúthlutun, á þessu ári fara 29.900 þorskígildi til höfuðborgarinnar eða 8,15%. Borgarbúar hafa því í auknum mæli snúið sér að einhverju öðru og arðvænlegra en fiskveiðum.
Enn hafa Eyjamiðin reynst gjöful, og enn hafa Eyjasjómenn sýnt áræði og dug við það að ná í aflann. Það er liðin tíð að þeir standi upp úr, sem duglegastir eru við að sækja sjóinn, og liprastir við að ná í fiskinn. Nú gildir það að hafa fjármagn eða aðgang að fjármagni, og að vera lipur við að ná sér í kvóta.

Á rúllunni.

Um næstu áramót ganga í gildi lög um nýja fiskveiðistefnu. Í þeim felst meðal annars það nýmæli að ákveðinn hluti kvótans skuli fara í sérstakan sjóð. Hlutverk hans á að vera tvíþætt. Helming þess afla, sem í sjóðnum verður skal selja hæstbjóðanda, og nota það fé, sem þannig fæst til þess að kaupa og úrelda gömul skip. Hinn helminginn á að selja eða afhenda án endurgjalds þeim sem einhverra hluta vegna hafa misst kvóta. Einu sinni var sagt að þeir myndu veiða flesta fiskana, sem gætu lært að hugsa eins og þorskurinn, en með stofnun á kvótasjóðakerfi, sem trúlega á eftir að eflast og aukast, gæti svo farið að þeir fengju að veiða flesta fiskana sem best þóknast þeim, sem yfir þessum sjóðum ráða hverju sinni.