Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1990/ Smáfiskadráp

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Óli Hans Gestsson

Smáfiskadráp

Höfundur þessarar greinar, Óli Hans Gestsson, er frá Neskaupstað. Hann stundaði nám við Stýrimannaskólann hér frá 1987-1989 og lauk prófi II. stigs vorið 1989 með ágætiseinkunn. Greinin, sem hér birtist, Smáfiskadráp, er lokaritgerð hans í íslensku við skólann og var ein í hópi þriggja ritgerða sem hlutu verðlaun fyrir vönduð vinnubrögð og vel skrifaðan texta.

Á undanförnum árum hefur mikið verið fjallað um í fjölmiðlum, smáfiskadráp á togurum og bátum. Þessar fréttir hafa oft á tíðum verið þess eðlis að almenningur í landinu er farinn að halda að íslenskir sjómenn svífist einskis í smáfiskadrápinu. Nýjustu dæmin um þetta eru núna síðan í vetur, þegar Gæslan hefur tekið þrjá báta og einn togara fyrir of litla möskvastærð. Fréttaflutningur af þessum málum hefur í flestum tilfellum verið mjög á einn veg. Sjómenn hafa verið sakaðir um að nota vísvitandi of litla möskva og jafnframt verið ýjað að því að þeir klæddu pokann að innan eða eitthvað þaðan af verra. En í þeim málum sem minnst var á voru allir skipstjórarnir sýknaðir nema einn sem var með of smáriðið í hluta pokans.

Staðreyndin virðist vera sú að Gæslan sé farin að leggja sjómenn í hálfgert einelti út af örfáum millimetrum. En Gæslan hefur haldið fram sér til málsbóta að henni sé falið að starfa eftir mjög einstrengingslegri reglugerð. Þessi reglugerð Nr. 125/1979 og 353/1984 er talin vera ein af fáum slíkum stofnanaframleiddum reglugerðum sem ekki er hægt að túlka nema á einn veg. Í reglugerð þessari segir meðal annars um möskvastærð:
"Lágmarksstærð möskva í a.m.k. 8 öftustu metrum botnvörpu og flotvörpu skal vera 155 mm." Af þessari reglugerð höfum við Íslendingar gumað okkur, þegar við viljum sýna hvað okkur er annt um að vernda fiskistofnana. Jafnframt því að nota stærri möskva en flestar aðrar þjóðir, montum við okkur af fullkomnu eftirlitskerfi með veiðunum og fljótvirku kerfi til að banna þær með skyndilokunum. Með þetta allt í huga mætti ætla að smáfiskadráp við Íslandsstrendur væri í lágmarki.
En reyndin er samt önnur, meginuppistaðan í afla í botnvörpu er þorskur 50 til 65 cm langur. Þetta hlýtur að leiða hugann að því hvort allar þær friðunaraðgerðir sem beitt hefur verið undanfarin ár hafi náð tilgangi sínum. Eins mætti spyrja hvort þetta sé nýtt vandamál eða hvort þetta hafi alltaf verið svona?

Ekki eru neinir smátittir á ferðinni enda myndin tekin um borð í netabát..

Við skulum líta á nokkur atriði í þessu sambandi.
Frá árinu 1978 höfum við notað 155 mm möskva en árin 1976 til 1978 var notaður 135 mm möskvi. Árin þar á undan var leyfileg möskvastærð 120 mm þ.e.a.s. að allan þann tíma sem Bretar og aðrar þjóðir stunduðu hér fiskveiðar með botnvörpu, var leyfður mun minni möskvi en í dag. Og þar sem ungviðið hefur alltaf verið til í sjónum og sóknin hér áður fyrr var gífurleg, hlýtur smáfiskur að hafa verið veiddur í stórum stíl. Við skulum muna eftir því að fyrir útfærslu landhelginnar voru hér mörg hundruð erlendra togara, ásamt innlendum skipum, allt umhverfis landið.
Það kemur líka fram ef maður les ævisögur togaramanna frá fyrrihluta aldarinnar að smáfiskur var veiddur í miklu magni.

Í togarasögu Magnúsar Runólfssonar er t.d. minnst á mikið smáfiskamok á Hvalbakssvæðinu og eins fyrir norðan land. Magnús sem um tíma var skipstjóri á enskum togurum upp úr 1920, segir líka frá því að togaraskipstjórar hafi oft á tíðum hreinlega verið beðnir um að leggjast í smáýsu vegna þess að hana hafi vantað á markað erlendis.

Eins og áður sagði notaði allur þessi floti erlendra og innlendra skipa vörpur með 120 mm möskva. Í dag er það sannað mál að í gegnum þessháttar vörpur sleppur sáralítið af fiski sem er 40 cm eða lengri. Það mætti því ætla að þetta hafi verið sannkölluð gjöreyðingartæki. Og þar sem lítið eftirlit var með þessum veiðum og engin tök á skyndilokunum, er þá ekki rökrétt að álykta sem svo að stofriinn hafi verið ofveiddur gengdarlaust? En það merkilega er að það er ekkert sem bendir til að svo hafi verið. Samkvæmt skýrslu Hafrannsóknarstofnunar, hér eftir nefnd Hafró, árið 1988 um heildarþorskafla tímabilið 1950-1976 var meðaltalsaflinn 423 þús. tonn á ári. Árið 1976-1987 var meðaltalsaflinn hinsvegar ekki nema 362 þús. tonn.
Það er líka athyglisvert að síðan við íslendingar fórum að ráða algerlega sjálfir yfir okkar fiskimiðum, hefur skv. skýrslum Hafró hrygningarstofn þorsks stórlega minnkað og aldrei verið minni en nú. Þetta verður að teljast mjög einkennilegt, því markmiðið, með öllum okkar aðgerðum þ.e. útfærslu landhelginnar, kvótakerfis, stækkun möskva o.s.f. var að vernda fiskistofnana.
Spurningar hljóta því að vakna um hvernig hægt var að halda hér uppi 400 til 500 þús. tonna afla af þorski áratugum saman, með veiðarfærum sem drápu nánast hvað sem var.
Um svör við þessum spurningum eru fiskifræðingar heldur ekki sammála.
Sérfræðingar Hafró hafa haft um það kenningar að geyma eigi fiskinn í sjónum þar til hann hafi náð einhverri ákveðinni kjörstærð. Þessi kjörstærð er reyndar dálítið loðið hugtak, en fiskifræðingar halda því fram að þá fyrst megi veiða fiskinn þegar hann hafi náð þessari stærð.
Segja má að undanfarin ár hafi stjórnvöld að mestu farið eftir þessum kenningum þegar þau hafa ákveðið fiskveiðistefnuna á hverjum tíma.
Á hinn bóginn hafa verið settar fram kenningar um hið gagnstæða og störf starfsmanna Hafró sögð byggjast á röngum forsendum.

Afbragðsmatur er ýsan heit ef hún er bæði væn og feit soðin í sjóarblandi. (Hallgr. Pétursson)

Dæmi um þetta eru kenningar þeirra Jóns Kristjánssonar og Tuma Tómassonar sem þeir settu fram árið 1983.
Megininntakið í kenningum þeirra félaga er, að vegna friðunar smáfisks sé fjöldi þeirra orðinn of mikill miðað við þá fæðu sem til skiptanna er. Þeir Jón og Tumi rekja aukningu smáfisks í afla til þeirrar friðunarstefnu sem tekin var upp árin 1976 - 77. Sem sé að það standist engan veginn að ætla sér að geyma fiskinn í sjónum til betri tíma. Þeir telja að vegna fjölda einstaklinga aféti fiskarair hvern annan og það leiði síðan til hægari vaxtar þeirra sem eftir lifa og aukningar dánartölu.
Þeir benda síðan sérfræðingum Hafró á að það séu einföld sannindi í dýrafræði, að vöxtur einstaklinga í stofni fari eftir fæðuframboði til handa hverjum og einum. Þessu til stuðnings benda þeir á ýmis þekkt dæmi úr vötnum upp til heiða, þar sem gefið hafi góða raun að grisja í þá fiskistofna sem þar voru fyrir. Við það hafi einstaklingunum fækkað en meiri fæða verið til skiptanna handa þeim sem eftir lifðu. Við þetta hafi síðan vaxtarhraði fiskanna aukist verulega.
Jón og Tumi segja að hafinu megi líkja við risastóra heiðartjörn og þar gildi um margt sömu lögmál. Þess vegna halda þeir því fram að auka eigi veiðar á smáfiski og þar með grisja fiskistofnana, svo fæðuframboðið á hvern einstakling aukist.

Með þessar kenningar þeirra félaga á bak við eyrað er mjög athyglisvert að fletta ársskýrslu Hafró 1988. Í því ágæta riti eru birtar allar helstu upplýsingar um árangur „geymslustefnunnar."
Þar segir m.a. í kafla 1.2. um vöxt og kynþroska: "Á árunum 1981 til 1983 var meðalþyngd þorsks eftir aldri lítil en fór aftur vaxandi á árunum 1984-1985. Meðalþyngd á síðasta ári var mjög svipuð og árið 1985 og 1986 en tölur um meðalþyngd fyrstu fimm mánuði þessa árs (88) benda til þess að meðalþyngdin fari nú aftur minnkandi." Og í kafla 1.5. segir:
"Meðalþyngdin hefur lækkað um 4% árið 1988 miðað við árið 1987 og er gert ráð fyrir því að meðalþyngd eftir aldri verði 5% lægri árin 1989-1991 en árið 1988."
Síðan er það sérstaklega tekið fram í lok kaflans að, "á síðustu árum hefur þorskstofninn búið við hagstæð lífsskilyrði."

Togaramenn telja netin meiri skaðvald en trollið.

Hérna passar greinilega ekki allt saman. Eða hvernig stendur á því að við hagstæð lífskilyrði í sjónum, 155 mm möskva, skyndilokanir og annað þessháttar, þá hefur meðalþyngd þorsks lækkað. Og ekki nóg með það, heldur á hún eftir að lækka enn frekar í nánustu framtíð. Þetta veldur því að ósjálfrátt fer maður að hugsa um heiðartjörn fulla af smáum silungi sem hafi lítið að éta.
Annað sem vekur athygli í skýrslu Hafró eru öll þau línu og súlurit sem þar er að finna. Oft hefur verið sagt, að jafnvel hinum stærsta sannleika mætti hagræða með línuriti. En sennilega er það ekki á færi leikmanns að dæma um það. Hins vegar finnst manni dálítið skrítið að skoða línuritin í kafla 1.3. og 1.4.
Þar er annarsvegar stillt upp í súluriti stærð þorskárganga, talið í milljónum fiska. Þar kemur fram að frá 1960 til 1986 hefur stærð þorskárganga verið vel í meðallagi, þó með einstaka frávikum.
Hins vegar er línurit um stærð hrygningarstofns þorsks. Þar kemur í ljós að hrygningarstofninn hefur með nokkrum sveiflum minnkað frá því að vera um 800 þús tonn árið 1960, niður í um 300 þús tonn árið 1986.
Nota Bene: annarsvegar milljónir fiska, hinsvegar þús. tonn. þetta er einkar áhugavert eftir að hafa lesið kafla 1.2. en þar stendur:
„Kynþroski eftir aldri hefur breyst á sama hátt og meðalþyngd eftir aldri."

Og þá vaknar spurningin, hvernig litu þessi línurit út ef notaður væri sami mælikvarði?
Þar sem sannað er að kynþroskaaldur fiskanna færist neðar og meðalþyngd þeirra minnkar, er þjá ekki eðlilegt að hrygningarstofninn „léttist" um einhver þúsund tonn? Fjölda kynþroska einstaklinga, hlýtur eftir þessu að dæma, að hafa fjölgað verulega. Það liggur því beint við að álykta að þarna sé dregin upp í það minnsta skekkt ef ekki alröng mynd af ástandinu. Hrygningarstofninn sé í raun og veru mun stærri en tonnatalan ein sér gefur til kynna. Enn kemur heiðartjörnin upp í hugann.

Um það hvorir hafi rétt fyrir sér, er sjálfsagt hægt að deila endalaust. En þar sem geymslukenningin hefur verið framkvæmd hér á landi í næstum tvo áratugi, mætti ætla að hægt væri að fá marktæka niðurstöðu. Og í reynd hafa menn greint ákveðinn árangur. Helsta niðurstaðan sem menn hafa komist að er sú að geymslan hafi mistekist, þrátt fyrir hagstæð lífsskilyrði í sjónum. Smáfiskinn verði því að friða enn meira en nú er gert, með lokunum svæða, hert eftirlit o.s.f.v. Aðaltalsmenn þessara aðgerða eru sérfræðingar Hafró með stjórnvöld á bak við sig og svo grátkór útgerðarmanna á Suðurnesjum. Þessi grátkór hefur undanfarin ár vælt yfir öllu smáfiskadrápinu sem togaraflotinn á að vera valdur að. Það er togaraflotanum að kenna að fiskur er hættur að ganga á hefðbundin vertíðarsvæði. Togararnir með sínar stórtæku vörpur séu búnir að veiða allan fisk, segja þeir, áður en hann nái á hrygningarstöðvarnar. Úlfur, Úlfur, hrópa þeir Suðurnesjamenn í einum kór.

Í Fiskifréttum 15. júlí 1988 er Dagbjartur Einarsson í Grindavík spurður álits á fiskveiðstefnunni. Hann segir:
„Ég er ekki í nokkrum vafa hvað á að gera. Það á að leyfa fiskinum að stækka mikið meira og eina leiðin til þess er að loka stórum svæðum fyrir togurum. Dagbjartur sagði það sína skoðun að vel væri hægt að geyma þorskinn í sjónum. Þetta væri eins og gríðarstórt fiskabúr, fiskurinn færi ekkert í burtu."
Geymslustefnan á sér því greinilega víða dygga stuðningsmenn og þess vegna lítil hætta á að frá henni verði vikið. Að minnsta kosti ekki á meðan stjórnvöld eru henni jafnfylgjandi og raun ber vitni. En á Alþingi hafa efasemdaraddir þó heyrst, og jafnan miklar umræður farið fram þegar þessi mál hafa verið rædd þar. Í janúar 1988 sagði Sighvatur Björgvinsson t.d. í þingræðu, að hann teldi þær kenningar fiskifræðinga, um að geyma fisk í sjónum þar til hann yrði stærri, vera fjarstæðu og ekki sæmandi fræðimönnum. Hann benti á, máli sínu til stuðnings að þetta hefðu Kanadamenn ætlað að gera fyrir nokkrum árum. Árangurinn hefðu þeir talið að ætti að skila sér árið 1987.
Þá töldu þeir að þorskstofninn ætti að gefa af sér um eina milljón lesta. Raunin varð hinsvegar sú að aðeins helmingur þess magns veiddist, og á þessum raunum Kanadamanna hefðu fiskifræðingar enga skýringu.

Suðurnesjamenn og fleiri sem aðallega gera út á net, halda því fram að smáfiskadráp sé sök togaramanna.

Af þessu má sjá að smáfiskurinn er víðar vandamál en á Íslandi, og sjálfsagt verða menn seint sammála um leiðir til úrbóta. En eitt er alveg ljóst og það er að smáfiskur kemur til með að verða veiddur áfram í miklu magni. Til að sannfærast um það þarf ekki annað en lesa kafla 1.1. í skýrslu Hafró en þar segir m.a:
"Gert er ráð fyrir því að þrír af hverjum fjórum fiskum sem veiðast á þessu ári verði 4 eða 5 ára þorskur."
Og samkvæmt töflu 21.1. er 4 og 5 ára þorskur 1,6 til 2,5 kg að þyngd.
Það liggur því fyrir að uppistaða þorskaflans nú og á næstu árum verður smáþorskur, hvað sem líður öllum boðum og bönnum. Hvort sem menn vilja viðurkenna það eða ekki, þá er það staðreynd að stóri fiskurinn er ekki til í því magni sem útgerðin þarf til að standa undir sér. Það hefur líka sitt að segja að þjóðarbúið er að stórum hluta rekið fyrir peninga úr veiðum og vinnslu á smáfiski. Ef menn ætla að fara að friða smáfiskinn í enn meira mæli en nú er gert, þá er hætt við að byggðar verði færri verslunarhallir fyrir sunnan og það er ekki gott mál. En samt er aldrei að vita hvað "geymslusinnuðum" sérfræðingum verður ágengt við þá menn sem þessum málum ráða.

Hér á undan var vitnað í mann sem líkti hafinu við heiðartjörn og annan sem líkti því við fiskabúr. Hvort sem við viljum líkja hafinu við tjörn eða búr, veltur framtíð okkar á því að vel takist til um nýtingu þess. Og ef við getum líkt hafinu við heiðartjörn og fiskabúr, þá getum við líka spurt sjálfa okkur þeirrar spurningar, hvort við séum á réttri leið í verndun smáfisksins?

Helstu heimildir:
Hafrannsóknarstofnun: Fjölrit Nr. 11 og 14,
Nytjastofnar sjávar og umhverfisþættir.
Sjávarfréttir: 10,11, tbl. 1983 og 1. tbl. 1984.
Fiskifréttir : 5, 27, 29, 32, og 42 tbl. 1988. Togarasaga Magnúsar Runólfssonar.
Dagblaðið / Vísir : 23/11 1983 og 7/1 1988.
Sjómannaalmanak: Reglugerð um möskvastærðir botn og flotvörpu.