Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1989/Verðandi 50 ára

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Verðandi 50 ára

Hinn 27. nóvember s.l. haust voru 50 ár liðin frá stofnun skipstjóra og stýrimannafélagsins Verðanda í Vestmannaeyjum. Tildrögin að stofnun félagsins voru það nauðsynjamál að reisa vita á Þrídröngum. Síðan varð þróunin sú að Verðandi varð stéttarfélag skipstjórnarmanna í Evjum en jafnan reiðubúið að eiga hlut að öðrum góðum málum, ekki hvað síst í björgunar- og öryggismálum sjómanna.
Þessara merkistímamóta var veglega minnst nú í haust með miklum ársfagnaði í Samkomuhúsinu og útgáfu á myndarlegu afmælisriti þar sem saga félagsins er m.a. ítarlega rakin í máli og myndum. Þá ákvað stjórn félagsins í tilefni af þessum tímamótum í félaginu að beita sér fyrir því að reisa 30 m háan kross austur á nýja hrauninu til að þakka þá mildi að hér varð ekki manntjón í náttúruhamförunum 1973. Hefur þegar verið hafist handa um þessa framkvæmd og er þess getið annars staðar hér í blaðinu.
Núverandi stjórn Verðanda skipa þessir: Sveinn R. Valgeirsson, formaður; Jón Bondó Pálsson, varaformaður: Richard Sighvatsson, gjaldkeri: Gísli Einarsson, gjalderi: Ægir Ö. Ármannsson, ritari: Sigurjón Gunnlaugsson, ritari.
Sjómannadagsblaðið óskar þeim Verðandamönnum til hamingju með afmælið, þakkar gott samstarf gegnum tíðina og árnar félaginu og félögum þess heilla í framtíðinni.

Margt góðra gesta sótti hóf Verðanda. Hér afhendir Guðjón A Kristinsson, formaður Farmanna og fiskimannasambandsins, Sveini Valgeirssyni gjöf í tilefni tímamótanna
Þeir Guðfinnur Þorgeirsson og Haraldur Hannesson voru gerðir að heiðursfélögum Verðanda í haust. Formaður félagsins Sveinn Valgeirsson stendur á milli þeirra.
Fjórir aflakóngar á árshátið Verðanda, Sigurjón Óskarsson, Óskar Matthíasson, Guðmundur Ingi Guðmundsson og Hilmar Rósmundsson