Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1988/Vinar minning

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Vinar minning


Kjartan Sigurðsson

Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja hefur borist þessi vinarminning um Kjartan Sigurðsson frá Framnesi. Þar sem höfund greinarinnar langar til að minningin um góðan dreng varðveitist á síðum þessa rits, er hún birt hér.

Kjartan Sigurðsson frá Framnesi var fæddur 23. ágúst 1943 í Skógsnesi í Gaulverjahreppi í Flóa í Árnessýslu. Foreldrar hans voru, Sigurður Guðjónsson frá Framnesi og Margrét Magnúsdóttir frá Skógsnesi, þau áttu saman þrjá syni, en þau slitu samvistum eftir fárra ára hjúskap.
Við þau hjúskaparslit fylgdu tveir sonanna Margréti, þeir Þórarinn Öfjörð og Sveinn Ármann, en föður sínum fylgdi Kjartan. Sigurður var í einu herbergi í Framnesi hjá systur sinni Guðlínu Guðný og manni hennar Jóhanni Weihe, gekk Guðlín Kjartani í móður stað. Sigurður faðir hans drukknaði hér í Vestmannaeyjahöfn 6. maí 1955. Bernska Kjartans leið líkt og annarra drengja hér í Eyjum, á þeim tíma voru höfnin og bátarnir aðal leikvangur þeirra og svo fóru þeir sem gátu í sveit á sumrin.
Kjartan fór mörg sumur í sveit til föðursystur sinnar Annýar Guðjónsdóttur sem bjó ásamt manni sínum Guðmundi Guðmundssyni í Flóa.
Það fór vel á með Kjartani og uppeldissystkinum hans í Framnesi þeim Guðjóni og Helenu Weihe, fósturmóður sinni var hann afar kær. Hann unni henni sem hún væri móðir hans. Þeir uppeldisbræður Kjartans og Guðjón áttu margt sameiginlegt enda ekki nema tvö ár á milli þeirra, Kjartan fæddur 1943 og Guðjón 1945, þó var einkum tvennt sem batt þá saman fyrir utan uppeldið og skyldleikann, það var áhugi þeirra á íslensku glímunni og leikfimi. Þessar íþróttir báðar voru mikið stundaðar á blettinum við Framnes. Nutu þeir fyrst í stað leiðsagnar Sigurðar föður Kjartans sem var einn af bestu glímumönnum Eyjanna. Hann keppti þrisvar um Grettisbeltið í Íslandsglímu í Reykjavík og í tvö skipti varð hann þriðji í þeim glímum. Eftir að hann féll frá nutu þeir tilsagnar móður sinnar Guðlínar sem hafði góða þekkingu á glímu og kunni öll glímubrögðin. Seinna lá leið þeirra beggja á íþróttaskólann í Haukadal í Biskupstungum hjá Sigurði Greipssyn, þó voru þeir ekki þar á sama tíma. Kjartan var mjög góður glímu- og fimleikamaður. Fór hann öll leikfimisstökk aftur á bak og áfram á blettinum við Framnes. Kjartan fór ungur að taka þátt í íþróttum og 12 ára vann hann sinn fyrsta verðlaunapening var það fyrir hlaup. Hann gekk hér í Barnaskólann og Gagnfræðaskólann.
Eftir fermingu fór hann á sumarsíldveiðar við Norðurland með Steina á Sjöfninni, það mætti segja að þar hafi grundvöllurinn verið lagður að ævistarfi hans sjómennskunni, þó gerði hann hlé á henni endrum og eins og vann þá í landi bæði í vélsmiðjunni Magna og á netaverkstæðum. Þótti hann góður verkmaður bæði til sjós og lands, duglegur og ástundunarsamur, þó að Bakkus hafi stundum fylgt kom það aldrei niður á vinnu hans.
Hann var stýrimaður (með undanþágu) á mörgum bátum, einnig kokkur. Kjartan var víðlesinn og minnugur og átti gott með að læra.
Kjartan var barngóður, nutu börn uppeldissystkina hans þess, og þeim þótti vænt um hann, því Kjartan var varla kominn inn úr dyrunum þegar hann kom í heimsókn, þá voru börnin komin upp í fang hans og þar vildu þau vera, og alltaf biðu þau spennt eftir að Kjartan frændi kæmi heim úr söluferöum með bátum sem sigldu með aflann, því hann kom jafnan færandi hendi úr þeim ferðum og aldrei brást hann trausti þeirra, alltaf mundi hann eftir þeim þó að freistingarnar væru margar í erlendum höfnum. Síðustu árin sem Kjartan lifði réri hann á bátum frá Akureyri og Ísafirði. Hann var einmitt á báti frá Ísafirði þann örlagaríka dag 16. októberr 1972 er hann drukknaði í köldu veðri í Ísafjarðardjúpi.
Vinur