Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1988/Vélskólinn
Menntun sjómanna er mörgum hugleikin og sannast þar hiðfornkveðana: "Býr að fyrstu gerð". Kristján Jóhannsson, höfundur þessa pistils hefur til margra ára veitt Vélskólanum forstöðu, en skólinn er nú sem deild innan Framhaldsskóla Vestmannaeyja.
Í haust byrjaði kennslan þann 2. september og má ætla að margir hafi verið farnir að bíða óþreyjufullir eftir því að fá að svolgra í sig fróðleikinn. Samt sem áður voru fáir sem létu innrita sig í skólann.
Í 1. stigi á haustönn var einn nemandi utanskóla. 1. stigið stendur í rúma þrjá mánuði og útskrifast þaðan vélaverðir.
Í 2. stigi byrjuðu 3 nemendur, en við áframhaldandi nám í öðru stigi voru 3 nemendur. Einnig stunduðu tveir nemendur nám í 2. stigi utanskóla.
Við annaslit þann 18. desember voru í fyrsta skipti afhent viðurkenningarskjöl fyrir veittan stuðning við Framhaldsskólann og þá um leið Vélskólann. Fyrir gjafir til Vélskólans fengu viðurkenningarskjöl Hraðfrystistöðin og útgerð Sæfaxa og Sjafnar.
Á vorönn var miklu fjölmennara lið. Þá stunduðu 10 nemendur nám í 1. stigi og 5 í 2. stigi. Væntanlega útskrifast á þessu skólaári 13 vélaverðir og 3 vélstjórar eftir nám í 2. stigi. Er það áhyggjuefni hversu fáir sækja í 2. stigið.
Nú í vor eins og sl. vor mun Vélstjórafélagið í Vestmannaeyjum afhenda þeim nemanda sem bestum árangri nær í vélfræðigreinum og ástundun viðurkenningu félagsins, sem er „Vélstjóraúrið". Að þessu sinni er það Vignir Sigurðsson sem fær þá viðurkenningu fyrir árið 1987-88.
Í tilefni af því að byggja á nýtt verknámshús við Framhaldsskólahúsið var farin ferð norður til Akureyrar og skoðaður þar Verkmenntaskóli þeirra Akureyringa. Tilgangurinn með ferðinni var m.a. að sjá fyrirkomulagið á vélstjórakennslunni hjá þeim. Í þessa ferð fóru Páll Zóphoníasson tæknifræðingur, Guðmundur Elíasson tæknifræðingur, en þeir tveir sjá um hönnun og teikningar nýja verknámshússins, Ólafur Hreinn Sigurjónsson skólameistari, Karl Marteinsson vélstjóri og vélvirkjameistari og undirritaður.
Er skemmst frá því að segja að þarna sáum við dýrasta kennslutæki á Íslandi, svokallaðan „vélarúmsskermi" sem ætlaður er til kennslu og þjálfunar fyrir vélstjóra. Mikil áhersla virðist vera lögð á vélstjóranámið þar og vel búið að skólanum og voru menn greinilega stoltir yfir því sem komið er. Mættu Vestmannaeyingar læra nokkuð af því.
Þann 25. mars sl. komu hér menntamálaráðherra, Birgir Ísleifur Gunnarsson og forsætisráðherra Þorsteinn Pálsson og skoðuðu skólann. Hefur það aldrei gerst áður að menntamálaráðherra skoði Vélskólann hér og hvað þá forsætisráðherra. Voru menn hér óviðbúnir, en reyndu að sýna á sér betri hliðina. Ef til vill ber þessi heimsókn vott um breyttar áherslur í menntamálum. Að það verði í alvöru farið að gera verkmenntuninni hærra undir höfði, heldur en hingað til hefur verið gert Formaður Vélstjórafélags Íslands kom hér í heimsókn þann 20. apríl og hélt fræðsluerindi um félagsskap vélstjóra fyrr og nú. Einnig var fjallað um réttindamál, launamál og önnur mál sem tengd eru vélstjórum. Því miður gat Vélstjórafélagið hérna ekki sent sinn fulltrúa á fundinn.
Að síðustu kemst ég ekki hjá því að minnast á Slysavarnaskólann. Í síðasta Sjómannadagsblað skrifaði ég að „kennslu í meðferð björgunarbúnaðar, viðbrögð og skipulag á hættustundum hafi að mínu mati ekki verið sinnt sem skyldi og væri ekki í námsskrá Vélskólans. Þyrfti að bæta úr þessu, því vélstjórar væru sjómenn ekkert síður en aðrir um borð í skipinu."
Þann 8. febrúar sl. var eins og úrbót þessara mála lægi á borðinu. Þá bauð Friðrik Ásmundsson, skólastjóri Stýrimannaskólans, mér að Vélskólanemar gætu verið með Stýrimannaskólanemum á námskeiði í björgunar- og slysavörnum sem byrjaði 9. febrúar. Að vísu var þetta stuttur frestur, en ég kannaði áhuga nemenda Vélskólans til þessa og voru allir áhugasamir um að komast á námskeiðið. Hringdi Friðrik í Þorvald Axelsson skólastjóra Slysavarnaskólans og kom þá í ljós að það væri ekki öruggt að Vélskólanemendur gætu verið með í námskeiðinu sem halda átti í Básum. Sagði Friðrik mér að ég gæti talað við Þorvald þegar hann kæmi með Herjólfi. Gerði ég það, en fékk ekki svar öðruvísi en ég ætti að hringja í Stefán Ólaf Jónsson í Menntamálaráðuneytinu og sækja um námskeið fyrir Vélskólann hjá honum. Þó væri nægjanlegt fyrir Stýrimannaskólann að Friðrik hefði samband við Þorvald beint. Þorvaldur gisti hér á Hótel Þórshamri og sagði að ég skyldi hringja í sig þangað eftir kvöldmatinn. Gerði ég það og fékk þá svarið að Vélskólinn gæti ekki verið á námskeiðinu. Daginn eftir, þann 9. febrúar, tjáði ég Ólafi H. Sigurjónssyni hvernig málin hefðu farið og þar með að ég bæði ekki Þorvald Axelsson oftar um námskeið fyrir nemendur Vélskólans. Ólafur gekk í málið og var lofað öllu fögru. Meðal annars lofaði Þorvaldur því að þetta kæmi ekki fyrir aftur. Reiknað yrði með nemendum Vélskólans í námskeiðin framvegis. Nú er kominn 1. maí, kennslu lokið og próf að hefjast, en ekki örlar á slysavarnaskólanámskeiði fyrir Vélskóla Vestmannaeyja. Mér þykir það mjög leitt að þetta skuli hafa farið svona vegna samskiptaörðugleika. Með bestu kveðju til sjómanna.
Kristján Jóhannsson, vélfræðingur