Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1988/Sjómennska

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Sigurður Sigurfinnsson

Þetta er einhver elsta ljósmynd sem til er af Vestmannaeyjahöfn. Myndin er tekin talsvert frir síðustu aldamót, jafnvel um 1870
Sjómennska


Það sem hér fer á eftir er úr rétt 100 ára gamalli ritgerð sem Sigurður Sigurfinnsson, hreppstjóri, samdi og birtist í Fjallkonunni í nokkrum tölublöðum. Er þessi grein sem og flest annað sem Sigurður skrifaði, einkar skilmerkilegt og á fullt erindi til fólks í dag og gœtu sumir kaflarnir verið fullboðlegir sem útskriftarrœða úr sjómannaskólum.
Þetta er í fyrsta skipti sem grein þessi birtist í heild á prenti.

BETRA ER AUTT RÚM, EN ILLA SKIPAÐ


Þegar talað er um að efla annan aðalatvinnuveg landsmanna, sjávarútveginn, er oft spurt þannig: Með hverju á að efla hann? Þessi spurning heyrir einna helst undir úrlausn sjómannanna, því þeim ber öðrum fremur að vita hvað þá vantar og að þekkja annmarkana. En sveitabændum, sem landbúnað stunda og öðrum, sem lítið eða ekkert þekkja til sjómennsku, sjóferða og skipalags, er síður ætlandi að geta gefið bendingar til eflingar sjávarútvegi. Það er ótal margt á að líta, þegar á að fara hugsa til þess, að bæta sjávarútveginn, því honum er í svo mörgu ábótavant. Það er margt, sem útheimtist til þess, að hafa gott bú í sveit. Gildur, hagsýnn og hygginn bóndi á góðu búi, borinn saman við slóða, trassa og letingja á niðurníddu hreysi, sýnir ljósast hvað það er, sem helst eflir landbúnaðinn. Í sinni röð er því líkt varið með sjávarútveginn. Fyrst þarf þekking á honum og öllu sem að sjómennsku lýtur, til þess að geta lagfært annmarkana. Það eflir ekki sjávarútveginn, þegar sveitabóndi er að gefa sig við sjómennsku fáar vikur á ári, máske eina vertíð í senn. Hann tvískiptir huga sínum og starfsviði. Hann reisir sér þar með oft hurðarás um öxl, því svo framt sem hann ætlar að verða nokkuð nýtur maður til annars hvors, landbúnaðar eða sjávarútvegs, þá er önnur atvinnugreinin nóg og meir enn nóg handa honum. Vilji hann stunda hvorutveggja, er hætt við að hann verði lítt nýtur í báðum stöðum. Fari hann í útver að haustinu, forsómar hann allar jarðabætur og sérhvað annað, sem gera þarf við búið á þeim hentugasta tíma ársins til þeirra hluta. Fari hann í útver vetrarvertíðina, sem er einna líklegust til hagsmuna fyrir hann við sjóinn, sleppir hann fyrst allri stjórn á heimili sínu, og öllu eftirliti, sem getur verið honum á við marga fiska. Skepnur sínar og heyforða afhendir hann máske konu sinni eða öðru kvenfólki og unglingum, sem skepnuhirðing og gegningar geta verið ofvaxnar í illviðrum og harðindum. Sé hann við sjó að vorinu, er það hinn dýrmætasti tími til jarðyrkju, garðræktar og jarðabóta, sem hann þannig lætur ganga úr greipum sér. Þegar sveitamaður, sem ekki getur stundað sjó nema endrum og sinnum, kemur í verið, er hann ókunnur flestu eða öllu, sem að sjómennsku lýtur. Setjum svo, að hann kunni einhvernveginn áralagið, og þó máske ekki nema að nafninu. Til þess að verða nú nýtur í þessari stöðu sinni, og maður með mönnum, þarf hann að fara að læra margt viðvik, sem að sjómennsku lýtur. Vera má að hann þekki mörg fargögn á skipinu og ýmislegt, sem gera þarf, enn allt verður þetta ótamt hjá honum, og hætt við handaskolum ef fljótt þarf til að taka. Sé hann hneigður fyrir sjó og gefinn fyrir sjómennsku, tekur hann fljótt og liðlega allri tilsögn og verður allnýtur sjómaður, þótt hann varla jafnist við hinn margreynda og alvana sjómann. sem er upp alinn við sjó og stundar hann alltaf. En ef sveitamaðurinn er sjósjúkur og ekki hneigður fyrir sjómennsku, er hætt við að hann verði skipverjum og formanni til skaða og vandræða, ef hann er illa lyntur, aflar hann sér óþokka, ef hann er stirður, verður hann til tafa, ef hann er latur, verða allir óánægðir með hann, og því fleiri sem eru á sama skipi með einhverju þessu marki brenndir, því skaðlegra er það fyrir skipverja og skipseigendur. Þessháttar mönnum er betra að vera heima og annast bú sitt og heimili, sem þeir geta verið góðir við, þó þeir séu óhæfir til sjómennsku. Óhæfir sjómenn spilla sjávarútveginum enn efla hann ekki, því betra er autt rúm en ill skipað. Það er ekki einhlýtur vegur til að græða á 12 sjávarútvegi, að koma út mörgum misjöfnum skipum með einhverju rusli, stundum ekki nema fáar vikur á ári, stundum ekki nema eina vertíð eitt ár í senn. Eins og það er affara betra og arðsamara fyrir sveitabóndann, að hafa færri skepnur feitar og velfærar með nægu fóðri, heldur enn fleiri höfðatölu af fénaði, sem er vesæll og fóðurlaus, eins er það kostnaðarminna og betri aflavon, að hafa færri og betri skip með góðum sjómönnum, sem æfinlega stunda sjó, heldur enn margar lélegar fleytur með ýmsum samtíningi, sem ganga eitt og eitt ár eða lítinn part af árinu í senn. Það tíðkast víða að senda drengi (unglinga) í útver. Þetta er mjög varasamt, ef drengurinn er ekki hneigður fyrir sjómennsku, því sé hann það ekki, venst hann frá því, sem hann má verða nýtur til, en hneigist að hægð og hugsunarleysi, og ef til vill ómennsku, við sjóinn. Ég er sannfærður um, að verferðir margra sveitadrengja hafa haft skaðleg áhrif á þá og þeirra framtíð.

Þessi ljósmynd af fiskibátum á „Legunni“ er tekin um 1926.
AÐ GÆTA BETUR GAGNS OG SKYLDU


Þá er annar Þrándur í götu sjávarútvegsins, sem er stjórnleysi margra formanna og óhlýðni margra háseta í ýmsum greinum. Það er ekki sjaldgæft í sumum veiðistöðum, að formenn og þeir, sem fyrstir koma til skips, þegar búið er að kalla. verði að bíða eina til tvær klukkustundir altilbúnir. Stundum er búið að setja á flot, og þar er beðið eftir einhverjum skipverja. Þetta er óþolandi, og ætti með engu móti að líðast. Stundar bið í landi getur oft gert mikinn skaða með afla og annað. Séu margir á sama skipi þannig óhlýðnir, er það því verra, en ef það er aðeins einn eða tveir, er það lítilsigldur formaður, sem ekki fer á undan þeim, og kennir þeim þar með, að gæta betur gagns og skyldu sinnar. Það er heldur ekki svo fáheyrt, ef tvísýnt sjóveður er, að þeir sem seinast koma til skips haldi þessháttar fyrirlestra á götunni eða við skipið: "Ég kem nú seint, mér fannst ekki liggja meira á í þessu, skárra er það "Gudduganið", eru margir rónir? Ég held ég flýti mér ekkert! Hvert á að róa? Hvar er sjóveður? Þið eruð ekki búnir að sjá út fyrir sjóveður í dag! Ætli fiskurinn geti ekki glápt á ykkur? Eigum við að fara að róa? Þessar ómennsku úrtölur hafa oft þau áhrif, að tíminn dregst enn meir, og stundum er róðrinum slegið á frest og beðið eftir vindinum, og hann tekur af skarið og gerir enda á þrætunni. Ef formaðurinn fer sínu fram og rær, enn er hvorki líkur snældu né vinhana, fær hann það orð hjá þessháttar mönnum, að hann sé einþykkur og óráðþæginn. Þegar komið er í fiskileitir, gera sumir hásetar það að list og vana, að renna ekki fyrr enn aðrir eru farnir að draga, segjandi: "Ég held ég bíði nú og sjái, hvort það verður vart. Ég held ég leggi mig þangað til einhverjir draga. Ég renni ekki fyrr enn þið sýnið hann". Þegar þeir sem fyrst renndu eru búnir að draga 2-3 fiska, fara þessar kempur að hreyfa sig með þessum orðum: "Ég mun eiga að fara að renna? Gefið þið mér beitu, sem hafið dregið, og ljáið mér hníf, ég gleymdi mínum!" Að stundu liðinni kemur hljóð úr horni: "Mér þykir hann tregur hér, hvert á að fara? Heim! Heim! hér verður ekki vart, það þýðir lítið að vera að gogga hér fýluna allan daginn! Ég fer að leggja í lykkjuna. Þarna siglir einn, og annar rær heim á. Ekki hafa þeir fengið mikið". Sé nú formaðurinn táplaus gufa, leiðist hann heim af þessum úrtöluöndum. Þegar lent er, heyrast stundum þessháttar spurningar og svör: "Þessi hefir séð hann! Hvar hefir hann verið? Kemur annar, alveg hlaðinn! Eigum við ekki að róa út aftur? Það þýðir nokkuð! Viljið þið fara að elta hina? Það er eins gott að fara heim að bæ, eins og að elta þessar gandreiðir og setuhunda!!" Þessháttar menn eru óhæfir til sjómennsku, og það gerir allt annað en efla sjávarútveginn, að formenn stundi sjó með þvílíkum piltum.

Ekki er heldur heillavænlægt, að formaðurinn sé daufur og dofinn. Kalli hann iðulega með þeim seinustu, kemur það óánægju og leiðindum inn hjá góðum sjómönnum; leiti hann illa eftir fiski, eða sé óþolinmóður þegar um lítið er að tefla, og ekki er von á betra annarstaðar, er hætt við að hann fiski ekki, og þá er búið við því að hann fái ekki góða háseta, sem er þó af öllum góðum formönnum álitið eitt af aðalskilyrðum fyrir að fiska. Ef formaðurinn er afundinn og ónotalegur, eða hranalegur og uppstökkur við háseta sína, er búið við því, að hann missi mannhylli; sé hann óafgerandi með það sem gera þarf, einkanlega ef mikið liggur við, eða kærulaus og óaðgætinn, missir hann traust sinna háseta, og er þá allhætt við að allir hinir betri fælist frá honum, og hann verði að sínu leyti sjávarútveginum til niðurdreps. Góðir hásetar gegna ætíð kalli formannsins undir eins, og séu þeir hindraðir á einhvern hátt gefa þeir það þegar til vitundar, svo ekki þurfi að bíða eftir þeim. Þegar til skips er komið, hlýða þeir boðum formannsins í öllu. Þeir hvetja til að róa sem fyrst, ef gott er, en sé tvístig með róður, segja þeir sína meiningu hreint út með tveimur, þremur orðum, en láta formanninn að öðru leyti ráða hvað framkvæmt er. Þeir hafa kapp og fylgi að komast í fiskileitir, og hvetja og örva hvern annan með fjörugum upphvatningum; þegar komið er í fiskileitir, renna þeir undir eins og stunda færi sitt með miklum áhuga og góðri viðleitni. Þeir hafa gætur á að andþóf fari vel, ef ekki er legið við stjóra. Þeir láta aldrei gleymast að leggja á þiljur, þegar fiskur er kominn til þess, þar það er mjög áríðandi, svo sjór geti runnið til í skipinu ef það er lekt eða það fær ágjöf. Þeir hlýða boðum formannsins, að skera fiskinn á háls undir eins og hann er innbyrtur, því það er fyrsta skilyrði fyrir góðri fiskverkun. Þeir bregða fljótt við, að hafa uppi, leggja út árar, setja upp, draga upp segl, og sérhvað annað, sem formaðurinn skipar. Þeir ausa ætíð þegar þarf og hafa góður gætur á öllum fargögnum, sem þeir fara með. Þeir leggja vel upp árar á siglingu, svo þær geti ekki stungið á (rist í), sem getur bæði brotið þær og keipana, og snúið skipinu og orðið þar með að slysi. Þeir festa upp öll bönd, sem seglum halda, þannig að ekki sé nema eitt bragð með lykkju á klampa þeim eða nál, sem fest er við, svo ekki þurfi nema eitt handbragð til að leysa, enn hvorki rykki né snúninga. Þeir vita ætíð, hvar hvert band er, þótt myrkur sé og þeim er eins tamt að vísa til þess, og að finna það, án þess að leita. Góðir hásetar sjá, um að allt sé sem greiðast og eru fljótir ef brátt þarf til að taka. Þeir horfa vandlega fram fyrir skipið og kringum það, og segja formanninum, eða þeim sem stýrir, fljótt og greinilega til þess, sem varúðar vert er í kring, eða á leiðinni. Þegar lent er eru þeir við skipið, þar til búið er að setja það forsvaranlega undan sjó og hagræða því, skorða það og binda og láta sérhvert fargagn á sinn stað. Hlut sinn hirða þeir og verka sem best þeir geta, og láta sér mjög annt um, að fiskur þeirra geti orðið sem fallegust vara. Hirðulausir slóðar þar á móti kæra sig ekkert um, hvernig þeir fara með fisk sinn og afla; þeir fleygja honum óþyrmilega, rífa úr honum hrygginn einhvernveginn, og fleygja honum svo óhreinum, blóðugum og söndugum í hrukkum í hlaðann, salta hann svo bæði misjafnt og lítið; úr saltinu þvo þeir hann illa, fergja hann lítið, og þurrka hann sem minnst þeir geta komist af með; því næst hugsa þeir mest um það að koma fiski sínum þannig til reika í búðina, ýmist með góðu eða illu. Þegar því er lokið, væri óskandi að enginn væri svo óskammfeilinn, að hrósa sér af þessari meðferð sinni á afla sínum og aðferð við kaupmanninn. Ill meðferð á afla sínum og óvandaður fiskur hefir svik og pretti í för með sér, svik við þann sjálfan sem selur, svik við aðra sjómenn, sem vanda vöru sína, og svik við kaupmanninn, en þessi svik færa öllum, sekum og saklausum, skaðann í heimgjöld.

Þessi skemmtilega og sögulega mynd er tekin á tímabilinu 1921-1925 og sýnir fiskibátana liggjandi á „Legunni“ og nokkra upp í Botni þar sem nú er athafnasvæði Eimskips. Bryggjan lengst t.v. er Tangabryggjan, austan núverandi olíutanka Esso reist um 1915 og stækkuð og endurbætt 1924. Bryggjan t.h. vestan Básaskers var reist 1920 af Gísla Magnússyni. Stóð hún þar sem nú er aðkeyrsla að Herjólfi. Bygginglengst ti hægri er Fiskimjölsverksmiðjan og vantar á hana reykháfinn sem reistur var 1925.
VEL ER ÞESS GÆTT, SEM GÆTINN GEYMIR


Góðir formenn stunda vel sjó og róa þegar færi gefur, enn forðast þó slyddu róðra og veður. Þeir kalla háseta sína með þeim fyrstu, og keppast við að róa fyrstir þegar gott er. Þeir halda ekki langar ráðstefnur til að afgera hvert skal fara í fiskileitir, heldur hafa þeir oftast ráðið það fyrirfram. Þeir hafa kapp og fylgi og komast þangað sem þeim líst vænlegast með fisk, en gleyma því þó aldrei að hafa nákvæmar gætur á loftsútliti, veðri og vindi og velja sér leið og mið eftir því sem hagkvæmast sýnist í hvert skipti. Þeir kynna sér fyrirfram strauma, sem eru á leið þeirra og haga ferðum sínum nokkuð eftir þeim ef þurfa þykir. Þeir eru fljótir til, ef illa lítur út eða ef veður breytist snögglega til hins verra, og úrræðagóðir og afgerandi þegar eitthvað misjafnt ber að höndum. Þeir gæta þess vandlega að láta fara vel á skipi sínu og hlaða það ekki of mikið, þó fiskur bjóðist yfirfljótanlegur, því þeir vita, að ofhleðsla er ein með hættulegustu yfirsjónum sjómanna á opnum skipum og að hún einsaman hefir kæft margan bátinn og drekkt margri skipshöfninni. Þegar bráðan ber að með vind eða ágjöf á hlaðið skip, horfir góður formaður ekki í það að fleygja undir eins út fiski eða annari vöru til að létta það og sjá öllu sem best borgið. Hann stýrir vel og leitast við að verja skip sitt ágjöf sem mögulegt er. Hann ekur seglum eftir vindi og minnkar þau undir eins og þörf gerist (sem er þegar skipið fer að taka nokkuð yfir á hlé). Hann lætur sér enga læging þykja í því að dragast aftur úr þeim, sem siglir ógætilega, heimskulega og gikkslega. Hann brúkar varúð og aðgætni hvarvetna ef hann siglir þar sem misvindi er eða hviður af fjöllum, lætur hann vissa háseta sitja við dragreipi og ristog, til að gefa eftir svo að seglin geti sigið undir eins ef hviða kemur sem getur á augabragði velt skipinu um, ef allt stendur fast. Góður formaður hefur ætíð hugfast þá miklu ábyrgð og vanda, sem á honum hvílir, og það að ógætni, hugsunarleysi og hirðuleysi eru skaðlegustu leiðtogar formanns.
Hann veit að ekki einungis hans líf, heldur allrar skipshafnarinnar er á hans ábyrgð á stundum. Hann teflir aldrei á tvær hættur nema í lífsnauðsyn. Hann aflar sér þeirrar þekkingar, sem hann getur fengið og nauðsynleg er fyrir formenn á opnum skipum, svo sem að hafa ætíð með sér áttavita (ef róa skal nokkuð langt) og læra að þekkja áttirnar á honum og stýra eftir þeim ef þoka er eða myrkur, til þess staðar, sem hann hefur áður miðað við áttavitann og hann vill ná til. Hann geldur varhuga við beitivindi og straumnum, ef hann liggur á flötu skipi og ekki sést til lands en verður að sigla eftir áttavita.
Góður formaður kynnir sér „reglur fyrir stjórn og siglingu", ef hann getur átt kost á því. Hann forsmáir ekki heldur að hafa með sér á sjó lýsi eða olíu og þau fargögn sem þar tilheyra, sem allir sjómenn, sem reynt hafa, hrósa sem vörn mót ágjöf og sjógangi. Góður formaður er glaður, viðfelldinn og uppörvandi við háseta sína. Hann er reglusamur og leiðbeinir þeim með góðu í öllu sem að góðri sjómennsku lýtur og reynir til að gera þá sem allra fyrst nýta og dugandi sjómenn. Hann leiðbeinir einnig þeim sem hann sér það henta í því sem að formennsku lýtur þegar fram í sækir. Hann hvetur þá til að vanda verkun á afla sínum og hirða hann sem best og leiðbeinir þeim í því. Hann hirðir vel um skip sitt og ver það fyrir sjó og vindi og heldur því hreinu þegar landlegur eru. Hann gætir þess nákvæmlega, að allt sé áreiðanlegt og í góðu standi, sem því tilheyrir. Góður formaður hefir það hugfast, að sóðaleg umhirðing á skipi, trassaskapur með segl þess og áhöld, er formanninum til skammar, skipseigendum til skaða og skipverjum máske til slysa.

Vestmannaeyjahöfn um 1935. Vesturhluti Básaskersbryggju tilbúinn.

Um skipasmíðar og skipalag hefir verið allmikið rætt og ritað á seinustu árum. Er það gleðilegur vottur þess, að þessu mikilvæga atriði hvað sjávarútveginn snertir verði framvegis meiri gaumur gefinn og þekking aukist á því sem öðru, þegar tilfinningin er vöknuð. Það er engum efa bundið, að vont skipalag og vond skip eru víða þröskuldur á framfaraleið sjávarútvegsins með öðrum annmörkum. Auðvitað geta menn drekkt sér á góðu skipi, ef farið er ógætilega og illa að ráði sínu, en það er ekki skipunum að kenna, en sum skip eru svo gerð, að naumast er mögulegt að flotast af á þeim, ef nokkuð ber út af. Það er líkt á komið með góð og vond skip í sjó að leggja og duglegan hest og ónýta bikkju, ef á að ríða yfir torfærur og vond vötn. Á vanmetagripunum leggja menn algjörlega líf sitt í vogun.
Þegar talað er um slysfarir og skipskaða, verður sumum á að segja: „Það vóru uppi dagarnir fyrir þeim". „Ekki verður feigum forðað og ekki ófeigum í hel komið". En ég er ekki þeirrar trúar. Ég hef þá meiningu að náttúrulegar orsakir liggi til þeirra skipskaða og slysfara, sem árlega verða við Ísland.
Þessar orsakir eru sumpart ill veður og stormar, sem koma skyndilega úr óhagkvæmum áttum, brim og grynningar. Sumpart vont skipalag og vond skip. Sumpart margvíslegt þekkingarleysi sjómanna. Sumpart sjálfskaparvíti svo sem ofhleðsla, ofsigling og ýmislegt hirðuleysi og óaðgætni í sjóferðum. Það er tilfinnanlegt að heyra þá skipskaða og mannskaða sem verða hér við land ár eftir ár og þar verður lítil bót á ráðin, en þó tekur út yfir að heyra, hvernig sumir skipskaðar og mannskaðar vilja til. Hvað getur það kallast annað en svívirðilegt þegar einhver siglir sig um fyrir heimskulegt kapp eða metnað? Hann hefir ekki viljað minnka segl (rifa) eða fækka þeim, þegar of hvasst var orðið til að sigla með öllu, eða hann hefir verið á litlum bát að metast við annan á stærra skipi. Annar hefir róið út í ófært og stytt daga sína með því móti. Þriðji hefir setið lengur enn aðrir og beðið þannig á sig ófært veður og aldrei náð lendingu. Fjórði hefir ofhlaðið skip sitt og ekki viljað eða tímt að fleygja út aftur í tíma og því sokkið þegar farið var að sigla og komin ágjöf og þá fleygt út lífinu. Fimmti hefir verið drukkinn og svo viti sínu tjær að hann hefir ekki haft stjórn á neinu. Þetta og þvílíkt háttalag á töluverðan þátt í skipsköðunum, en það eru líka skipin sjálf og skipalagið sem hjálpa mikið til á sumum stöðum. Það er ekki svo sjaldgæft, að góða skipið hefur komist af með öllu heilu og höldnu, þar sem vonda skipið hefir farist á sama tíma á sömu leið, vegna ókosta sinna. Það er því mjög áríðandi að skipin séu svo góð og vel löguð sem mögulegt er, en til þess að skip séu góð þurfa þau að hafa fjóra aðalkosti, n.l. ganga vel undir árum, sigla vel, vera stöðugt (ekki völt) og góð undir farmi (verja sig vel ágjöf). Enn um það eru nokkuð breyttar skoðanir hvernig skipalag skuli vera til þess að geta haft þessa kosti.
Skip getur gengið vel undir árum en verið bæði valt og vont til siglingar. Skip getur verið gott til siglingar, en vont undir farmi. Skip getur verið gott undir farmi, en vont til siglingar og gengið illa undir árum. Skip getur verið gott til siglingar og undir farmi, en gengið illa undir árum.

Afladagur og mikil umsvif á Bæjarbryggju.

Nú vil ég benda á, hvernig skipin þurfa að vera löguð til að hafa þessa kosti. Til þess að skip gangi vel undir árum, þarf botn þess að vera langur og ná sem best frameftir. Sé hann stuttur og kúlumyndaður er hætt við að skipið höggvi upp og niður þegar bára er á móti, eða dýfi sér of mikið við áratogið (átakið) sem hindrar skrið þess. Til þess að skip sé stöðugt má það ekki vera botnlítið.
Til þess að skip sé gott undir farmi, má það ekki vera stokkreist, allra síst á kinningunum að framan eða á skutinn að aftan. Síðan (hliðin) þarf að liggja öll dálítið út, vera ávöl (kúpt) og bogadregin aftur og fram. Kinnungar þurfa að vera bogadregnir aftur og fram, liggja allsstaðar út, en vera þó bungumyndaðir á að líta utanfrá. Ennfremur þarf skipið að vera reist aftan og framan. Betra er að framstefni sé lítið eitt bogið, til þess að kinnungar verði betur bungumyndaðir og viðtökin betri en ekki með snjallri beygingu eða lið á einum stað, svo sem um samsetningar. Til þess að skip sigli vel (n.l. flytji lítið í beitivind, sé stöðugt, velti vel frá sér og hlaupi vel) þarf það að vera snarsogað (sem er: að [-2 neðstu umförin rísi vel), en botninn svo út.
Skuturinn sé skábyrtur, n.l. vel þunnur neðst og þykkni ekki að mun fyrr en síðan byrjar (um reisunmfarið) og sé kringdur að ofan, síðan sé ekki stokkreist, heldur rísi smátt og smátt og liggi allsstaðar nokkuð út svo skipið þoli betur að hallast. Barkinn má heldur ekki vera stokkreistur, kinnungarnir þurfa allsstaðar að liggja jafnt út og vera bungumyndaðir og bogadregnir aftur og fram. Að ofan sé barkinn nokkuð kringdur, en þó ekki miklar hnútur á kinnungunum framarlega. Að neðan nái botninn fram undirstefnið á neðstu umförum, en ekki má hann vera alltof breiður um reisuumfar.

Þessi yfirlitsmynd til hægri, af höfninni er tekin um 1940 og Básaskersbryggja hefur tengst Tangabryggjunni.


Það er mjög áríðandi, að viðtök á skut og barka á skipi séu góð, svo það verjist vel ágjöf og sé gott að taka á móti bárum á siglingu. Viðtakagott skip lyfir sér betur á báruna (ölduna) heldur en frammjótt, viðtakalaust og fleygmyndað skip. Fleygmyndaða skipinu, sem er flatbotnað, stokkreist og með stutta síðu og þar að auki viðtakalaust aftan og framan, er hætt við að smjúga í báruna og undir hana í beitivindi, velta um, ef hvasst er og ógætilega er siglt, stinga undir (fara í kaf) að framan í undanhaldi o.fl.
Ég veit það að margir lofa þau skip sem víða tíðkast hér við land, sér í lagi við Faxaflóa, sem eru mjó, stokkreist, fleygmynduð og viðtakalaus, fyrir það þau gangi vel undir árum og seglum. En það er athugandi að flestir þeirra þekkja ekki önnur skip og ,,hverjum þykir sinn fugl fagur". Ég neita því ekki, að hin fleygmynduðu og viðtakalausu skip gangi lítið eitt betur undir árum en hin skábyrtu og viðtakagóðu skip, því ég hef reynt bát frá Faxaflóa nokkurn tíma, sem þótti þar góður. En þessi kostur, þó hann sé óneitanlega góður, einkanlega í mótvindi, verður léttvægur í mínum augum þegar ég þarf að hafa hálffermi af grjóti eða öðru í seglfestu og skipverjar verða allir að liggja eða sitja niður í botni á skipinu og úti í síðunni með grjótinu til þess að það velti ekki um, ef nokkuð er hvasst og ég get búist við það stingi undir trjónunni til fulls, ef um vont er að tefla. En á hinum skábyrtu og viðtakagóðu skipum þarf enga seglfestu og hver má sitja í sínu sæti á sinni þóftu og öllu er óhætt meðan sjór er voðbær og þau verða varin fyrir stórvægilegri ágjöf. Það er mikill ókostur á opnum bátum að þurfa að hafa seglfestu af grjóti eða öðru til að halda þeim á kilinum ef hvasst er. Það er líka ókostur ef þeir eru ágjöfulir. En aftur er það mikill kostur á skipi að það þurfi ekki seglfestu en sé gott og áreiðanlegt til siglingar þá vont er og gott undir farmi. Því er miður að margir sjómenn hafa ekki góða þekkingu á skipum og skipalagi. Þeir halda oft að það sé best í þeirra eigin veiðistöðu. Þó er verra að margir skipasmiðir eru lítið betri (þó þeir séu margir sjómenn). Þeir eru margir langt frá því að hafa glögga hugmynd um hvert skipalag sé áreiðanlegt og gott. Mörgum hættir við að lofa sitt lag, en kannast ekki við yfirburði annars skipasmiðs eða skipalag sem geta þó oft átt sér stað í ýmsum greinum. Sumt af þessu er eðlilegt. Fyrst vantar flesta íslenska skipasmiði lærdóm og kunnáttu til að geta smíðað skip eftir reglum og máli. Í öðru lagi hafa þeir oft lítil laun og engu betri en aðrir óbreyttir og verkfæralausir erfiðismenn. það er oft tekið lítið tillit til ýmsra óþæginda, svo sem tólaslit, fataslits, óþverra og kulda um vetrartíma, sem skipasmiðir verða ævinlega að sætta sig við fremur enn margir aðrir smiðir. Þeir eru oft fátækir og hafa ekki annað að hást upp á enn vesöl daglaun. Það er alltof lítið gert til þess að hvetja þá til að taka sér fram í iðn sinni. Það er ekki hvöt í því að sjá ofsjónum yfir þeirra lítilfjörlegu daglaunum og telja þau máske eftir. Það er alllíklegt að það hefði góð áhrif á skipasmíði og skipalag yfir höfuð ef þeir skipasmiðir sem fram úr sköruðu fengi opinbera viðurkenningu fyrir starf sitt, eins og t.d. bændur í sveit sem fram úr skara í búskap og dugnaði. Það hvetti þá til að leggja meira í sölurnar og kostnaðinn til að fullkomna sig og fræða í iðn sinni og ná meiri framförum en almennt gerist. Þeir gætu einnig keypt sér tól og ýmisleg nauðsynleg verkfæri, ef þeir hefðu til einhvers lítils að vinna sérstaklega. Ég skal t.d. benda á ,,bökunarkistu". Hún er nauðsynleg við skipasmíðar. Bökun í henni er miklu hreinlegri, skemmdaminni og fljótari enn bökun yfir glóð eða í smiðju. Ég geng út frá því, að bökun sé nauðsynleg á byrðingi í vindingum á skipi (aftan og framan) til þess að fá gott lag á því.
Það gæti líka haft góð áhrif á skipalag og skipasmiði, ef þeir ættu stöku sinnum fundi með sér og kynntust betur hver öðrum, þar sem því yrði við komið, enn slepptu ýmugust, sem sumstaðar á sér stað meðal skipasmiða. Með því móti gætu skipasmiðir lært ýmislegt hver af öðrum sem til umbóta og hagsmuna heyrði í þessari grein. Ég efast um, að skipasmiðir þyrftu að fara í útlendan skóla til að læra skipasmíðar til þess að fá gott og hagkvæmt skipalag.

Frá kappróðri á Sjómannadegi 1933. Lóðsbáturinn Brimill fyrir miðri mynd.

Ísafold flutti í fyrra grein um hina nýju aðferð og skipalag hr. Sigurðar Eiríkssonar, sem fyrst smíðar grind skipsins eftir ,,teikningu" og byrðir svo utan á hana o.s.frv. Það er óefað að þessi aðferð er góð og tekur hinni vanalegu mikið fram, þeirri að smíða skip eftir sjón (af handahófi), er sum verða ómynd, sem þarf að laga aftur og kannski oftar enn einu sinni áður en þau geta kallast góð. Ég hefi séð skip eftir hr. S.E. og leist mér mikið betur á lagið á þeim enn á nokkurt annað opið skip sem ég hefi séð við Faxaflóa. En við þessa aðferð hr. S.E. er það athugandi. að skipasmiðir, sem ekki kunna að „teikna" geta ekki búið grindina til á þann hátt, en hana mætti smíða eftir skipi eða bát, sem mönnum líkaði vel við og væri áreiðanlega góður. Þó er sá annmarki á því að sinn vill oft hafa hverja stærðina og þær verða næstum eins margar og skipin, en skipasmiðurinn í sumum veiðistöðum er ekki nema einn. Með sömu skoðun þyrfti ef til vill eins margar grindur og skipin. Það er ennfremur athugavert að þessháttar grind kostar svo mikið, að flestum fátækum skipseigendum eða skipasmiðum mundi það ofvaxið. Kostnaðarminna og jafnvel fljótara mundi verða fyrir sæmilega greindan skipasmið sem væri nokkuð að sér í reikningi að búa sér til reglur og mál sjálfur á þann hátt, að mæla nákvæmlega á ýmsum stöðum það skip sem vel hefur reynst í öllum greinum og búa til eftir því uppdrátt til að smíða eftir. Skipalag er mjög ólíkt og margbreytt hér á landi og má heita að sitt skipalagið sé í hverri veiðistöðinni og aftur í sumum veiðistöðum sitt skipalagið með hverju lagi. Skipalag í V-Skaftafellssýslu, Rangárvallasýslu og Vestmannaeyjum er mest frá brugðið skipalagi í hinum öðrum veiðistöðum og landsfjórðungum. Í sýslum þessum eru vetrarvertíðarskip að sönnu nokkuð ólík að lagi og misjöfn að gæðum. En það eru sameiginlegir kostir við þau, að þau eru öll stöðug, viðtakagóð og afburðagóð, enda þarf þessara kosta með við þann sjó og þær lendingar sem er að eiga á ströndinni milli Þjósár og Hjörleifshöfða. Það er allt annað, að lenda við sandana á suðurströnd Íslands fyrir opnu hafi, eða innfjarða í víkum og vogum, t.a.m. kringum Faxaflóa, enda held ég að fæst skip við Faxaflóa dygðu þar. Sá galli er þó á mörgum þeim skipum, sem brúkuð eru við sandana í Þykkvabæ, Landeyjum, Eyjafjöllum og Mýrdal, að þau sigla ekki vel. Veldur því nokkuð þekkingarleysi á seglalögun og seglaútbúnaði, en helsta orsökin er að skipin eru of hælþykk og ekki nógu undirskörp.
Þar á móti eru vetrarvertíðarskip í Vestmannaeyjum öll góð til siglingar og ég ímynda mér að þau séu hin bestu hér við land, bæði til siglingar og „í sjó að leggja", sem kallað er, að fráteknum sumum nótabátum, sem Norðmenn hafa við síldveiðar á austurlandi og víðar. Vestmannaeyjaskip eru víst hin stærstu og traustustu að allri gerð hér við land. Seglbúnaður þeirra er allur mjög vandaður, enda hefur Eyjamönnum farið fram á scinustu árum i ýmsum atriðum, er lúta að góðri sjómennsku, t.d. telja það nú allir sjálfsagt að rifasegl og setja lægra ef skip fer að taka nokkuð yfir á hlé, en fyrir nokkrum árum þótti það minnkun og löðurmennska. Einnig hafa allir formenn með sér áttavita á sjó og flestir kunna „reglur fyrir stjórn og siglingu". Það er auðvitað, að skip þessi eru nokkuð erfið undir árum og þó helst til setnings. Mætti mikið létta setninginn með vindu eða skoruhjólum o.fl. ef menn vildu kosta til þess, en flestir óska þó eftir að róa á þessum skipum fremur en minni bátum sem nú eru farnir að tíðkast. Ég efast ekki um að sum Vestmannaeyjaskip væru afbragðs fyrirmyndir fyrir skipasmiði og sjómenn í öðrum veiðistöðum, hvað lögun og seglabúnað snertir og væri þess háttar skipalag tekið upp og brúkað með aðgætni og skynsemi (þó skipin væru nokkuð minni) í þeim veiðistöðum þar sem oftast verða skipsskaðar, myndi slysfarirnar verða miklu sjaldgæfari enn þær nú gerast. Nú er því miður þessum ágætis skipum að fækka á Eyjunum með ári hverju. Er það vissulega afturför. En orsakir til þess eru allt aðrar enn að skipalagið og útbúnaður allur sé ekki gott. Þetta kemur fyrst og fremst af langvinnu fiskileysi. Í öðru lagi af ýmsum óþarfa kostnaði skipseigenda, sem elt hefir eftir af frá gyllinárum og óreglutímum Eyjanna. Og í þriðja lagi af heimskulegri heimtufrekju margra háseta.
Fyrir 20 árum gengu frá Eyjunum 11 stórskip, en í vetur stendur til að þau verði aðeins 5 og svo minni bátar. Eitt þessara skipa er bráðum orðið forngripur, það er 52 ára gamalt, annað er 28 ára. Það er 34 fet á lengd (að ofan) 25 fet á kjölinn, 10 fet og 3 þumlungar á vídd um miðjuna og 3 fet á dýpt. Í seglum þess eru rúmar 100 álnir af venjulegum segldúk. Þessi tvö skip eru lík að stærð. Hin 3 eru lítið eitt minni. Öllum þessum skipum má sigla svo lengi sem sjór er voðbær án þess að hafa í þeim seglfestu úr landi, enda tíðkast það ekki á minni bátum, því skipalag útheimtir það ekki. (Aðeins þegar farið hefir verið út í óveður að hjálpa skipum hefir verið tekin dálítil seglfesta). Samt er það dæmalaust. að Vestmannaeyjaskip hafa siglt sig um þegar skipskaði hefir orðið. Það eru fallsjóir (ólög) og ágjöf, sem hafa kæft þau skip sem farist hafa (er sést hefur til) og máske stundum ofhleðsla, sem í öllum veiðistöðum er mjög hættuleg og varúðaverð. Fyrir 30 árum tíðkaðist „spritsigling" á hverju Eyjaskipi, en síðan er hún aflögð og brúkuð „lokkortusigling" (2 rásegl tvíþrírifuð, ekki nema 1 „fokka"), sem þykir í öllu tilliti betri, fyrst hægari og viðráðanlegri, og hættuminni þegar við stórsjó, kastvind og hviður af fjöllum er að tefla.

Helga VE 180 dregur uppskipunarbát til hafnar.
FÆSTUM VERÐA SÍN SLYS AÐ HAPPI


Þegar spurt er að, hvað útheimtist til að efla sjávarútveginn, verða aðalatriðin: Meiri þekking smiða og sjómanna með skipasmíðar og skipalag, en all víða tíðkast. Meiri þekking sjómanna á ýmsu, er að sjómennsku lýtur. Meiri varúð og aðgætni meðal sjómanna en gerist. Sjómenn þurfa að tryggja betur líf sitt með góðu skipalagi og góðum skipum með hentugri seglbúnaði en hingað til. Sjómenn þurfa að meta eins mikið að hafa ætíð með sér lýsi eða olíu til þess að verja sig ágjöf, eins og að hafa með sér trogið til að ausa með þegar á gefur. Sjómenn þurfa að stofna ábyrgðarsjóð í hverri veiðistöð fyrir skip sín og báta til að tryggja þar með hina stopulu eign sína. Mannskaðinn bætist ekki með peningatjóninu þegar skipin farast. Sjómenn þurfa að stofna styrktarsjóð í hverri veiðistöð fyrir ekkjur sínar og börn, ef dauðann ber að skyndilega af slysförum. Þess háttar sjóður getur verið ánægjusamur og góður styrkur fyrir nauð staddar ekkjur og föðurlaus börn. þegar sjómenn sem eru giftir og feður drukkna. En þeir geta líka orðið besta meðal til að létta sveitarbyrðar og minnka sveitarútsvörin, sem aukast oft stórum þegar margir drukkna úr einu fátæku sveitarfélagi og láta eftir sig örsnauðar ekkjur og ómálga börn. Það væri fegra og hyggilegra fyrir sjómenn að leggja árlega nokkrar krónur til þess að stofna þess háttar styrktarsjóð, heldur en að eyða jafnmiklu og þeir eyða á sumum stöðum fyrir brennivín og ýmsan óþarfa. Það er alltof víða sem drykkjuskapur tíðkast við sjóinn í útverum og í sjóferðum, sérílagi í kaupstöðum. Þessi ósiður, sem bæði er svívirðilegur og skaðlegur, fyrst fyrir alla sjómenn og þó allra mest fyrir formenn, þyrfti að afleggja með öllu. Það mundi álitinn vitlaus sjómaður sem fleygði hlut sínum í sjóinn að kvöldi þegar lent væri. En hvað gerir sá, sem eyðir hlutnum að meira eða minna leyti fyrir brennivíni? Hann breytir enn fávíslegar enn þó hann fleygði fiskinum aftur í sjóinn. Sjómenn þurfa að láta sér skiljast að sá formaður sem drekkur svo í sjóferðum, að hann verður að einhverju leyti viti sínu fjær, er ekki hæfur til að ráða fyrir skipum og mönnum og ætti ekki að álítast verðugur að bera formannsnafn.
Embættismaður sá, sem drekkur svo að honum verður á í embættisverkum, er álitinn óverðugur stöðu sinnar. Hvað er þá ekki sá formaður, sem stofnar lífi og eignum háseta sinna í sýnilega hættu með drykkjuskap? Sá skaði, manntjón og slysfarir, sem drykkjuskapur sjómanna hefir valdið er ekki skrásettur. Það vill enginn særa tilfinningar eða ýfa saknaðarundir viðkomandi ættingja og vina með því að lýsa í svipinn orsökunum. En endurminningin geymir dæmin svo að þau eru ekki vandfundin. Í allmörgum veiðistöðum gengst það við, að menn róa nestislausir og sumir jafnvel fastandi og sitja svo á sjónum allan daginn, og sumstaðar hafa þeir ekki vatn með sér að drekka. Þetta er heimskulegur og skaðlegur ósiður sem ætti að afleggjast sem allra fyrst. Það segir sig sjálft, hvort sjómenn þyldu ekki betur kulda og vosbúð, hrakningar og erfiði, ef þeir hefðu ætíð mat og svaladrykk með sér á sjóinn, heldur en að vera oft sárhungraðir, stundum myrkranna á milli á sjónum oft 12-18 klst. í landi þurfa allir fæðu á réttum tíma og það þó þeir séu aðgerðalausir. Hvers vegna skyldi menn ekki eins þurfa hennar á sjónum? Verið getur, að menn finni lítið til svengdar á sjónum þegar allt gengur að óskum, en það er oft sem ekki gengur eftir vild. Það eru dæmi til þess, að menn hafa neyðst til að drekka sjó við þorsta, en allir munu geta því nærri, hversu hollt það er og endurnærandi.


Það er mjög líklegt, að bjargráðanefndir, sem víða hafa komist á fót fyrir framúrskarandi dugnað og framkvæmd séra O.V. Gíslasonar, hafi góð áhrif á sjávarútveginn yfir höfuð, en þær þyrfti að ákveðast með lögum og starfsvið þeirra, svo síður sé hætt við að þær líði undir lok þegar foringjann þrýtur. Einnig þyrfti lög, sem ákvæði skyldur og réttindi formanna og háseta á opnum skipum. Loksins þyrfti að stofna tímarit, sem kæmi árlega út til leiðbeiningarog fróðleiks í öllu sem lyti að sjómennsku, skipalagi og útbúnaði, fiskveiðum og meðferð afla. Í því ætti að birtast greinilegar skýrslur, sem bjargráðanefndum væri gert að skyldu að gefa árlega, um aflaupphæð, bátatal, veiðarfæri og sjómannafjölda í hverri veiðistöðu á hverri vertíð. Sömuleiðis slysfarir og orsakir þeirra og hvernig álítist að hefði mátt koma í veg fyrir eða sneiða hjá þeim.
Gamall formaður