Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1988/Páll Oddgeirsson og minnisvarðinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Halldór Guðjónsson:

Páll og minnisvarðinn


Sjómannadaginn í ár ber upp á 5. júní 1988, fœðingardag Páls Oddgeirssonar, frumkvöðuls og helsta baráttumanns fyrir því að minnisvarði um drukknaða og hrapaða yrði reistur. Þá eru einnig 100 ár frá því Páll fœddist og að því tilefni birtum við hér úr ,,Minningarriti", sem Páll gaf út einu ári eftir að minnisvarðinn var reistur. Höfum við valið formálann, sem Halldór Guðjónsson, þáverandi skólastjóri Barnaskólans ritaði. Páll Oddgeirsson andaðist 24. júlí 1971.

Hjónin Matthildur Ísleifsdóttir og Páll Oddgeirsson

Sunnudaginn 21. okt. 1951 var afhjúpað minnismerki drukknaðra við Vestmannaeyjar - hrapaðra í björgum eyja - og þeirra sem líf létu í flugferðum. Forsaga þessa máls hefst á Þjóðhátíð Vestmannaeyja 2. ágúst 1935. Flutti þá Páll Oddgeirsson, kaupmaður ræðu fyrir minni sjómanna og stofnaði nefndan dag sjóð í því augnarmiði að reist yrði veglegt minnismerki í Vestmannaeyjum. 16 ár liðu við sæld og sorg, störf og stríð. Hvort við köllum 16 ár langan eða skamman tíma fer eftir viðhorfi og viðmiðun okkar til atburðakeðju lífsins. Sé miðað við tíma minninganna og tíma hinnar eilífu framvindu mannlífsins, þá skiptir engu máli, hvort árin eru það, sem við köllum mörg eða fá, en hitt skiptir máli, að á þessum tíma var stöðugt unnið af elju, staðfestu og þrautseigju og stefnt að ákveðnu marki. Fylgt ákveðinni hugsjón, sem skyldi komið í framkvæmd, fyrr eða síðar, og hvort sem með eða móti blési.
Páll Oddgeirsson var frá byrjun sjálfkjörinn formaður sjóðsstjórnar, sem hann myndaði. Hinir fyrstu meðstjórnendur hans munu hafa verið: Þorst. Jónson, skipstj. sem lengst af var ritari stjórnarinnar, Kr. Linnet, bæjarfógeti fyrsti gjaldkeri og Gísli Wíum, kaupm. Við brottför Kr. Linnets frá Vm. tók Runólfur Jóhannsson, skipasmíðameistari við gjaldkerastörfum og hafði þau með höndum æ síðan. Auk þessara manna hafa ýmsir aðrir verið í stjórn sjóðsins, eða kosnir sem nefndarmenn félagssamtaka til þess að leggja málefninu lið. Það er ekki á mínu færi að fara nánar út í það, hve margir hafa á einn og annan hátt, stutt að framgangi málsins. En um hitt fer ekki tveim tungum, að hinn leiðandi maður og driffjöður málsins frá byrjun var Páll Oddgeirsson. Hann barðist fyrir framgangi þess í 16 ár, svo að af bar, með þeim áhuga, dugnaði, festu og þrautseigju, sem ætíð leiðir hvert mál til sigurs að lokum.
Páll Oddgeirsson fluttist til Vestmannaeyja barn að aldri, 1889, með foreldrum sínum, séra Oddgeiri Guðmundsen og Önnu konu hans.
Ungur að aldri mun Páll hafa sýnt atorkusemi og framfarahug. Lagði hann á margt gjörva hönd hér í Eyjum um áratugi. Lengst af stundaði hann kaupsýslu og útgerð og var á þeim sviðum athafnalífsins framsækinn og bjartsýnn. En hið merkasta og minnisstæðasta í fari hans og framtakssemi tel ég störf hans í þágu landbúnaðar og ræktunar. Í ræktun landsins hefir hann ætíð séð hvorttveggja samtvinnað: Hið nytsama og nauðsynlega annars vegar og hið fagra og menningarlega hinsvegar. Hefir hann á því sviði, ekki hvað sízt, sýnt atorkusemi og bjartsýni, og í stjórn Búnaðarfélags Vestmannaeyja var hann ætíð einn af helztu brautryðjendum og framfaramaður hinn mesti.
P.O. hefir frá bernsku fest órofatryggð við Vestmannaeyjar og brennandi áhuga á að fegra þær og prýða, enda geyma ýmsir staðir minningu verka hans á því sviði. Aðeins vil ég nefna Oddgeirshóla, svæði sem hann ræktaði og lagfærði svo smekklega, og sem síðan er hvort tveggja í senn minnisvarði um jarðræktar og fegrunaráhuga hans sjálfs og geymir jafnframt minningu hins ástsæla sóknarprests, föður Páls, sem svæðið er kennt við. En séra Oddgeir þjónaði hér í Eyjum sem sóknarprestur og menningarfrömuður um 35 ára skeið.
Sjálfur hefi ég reynslu af áhuga og velvilja P.O. í skóla og uppeldismálum bæjarins, og er óhætt að segja, að hann hefir fátt látið sér óviðkomandi, sem til heilla horfa fyrir Vestmannaeyjar.
Þessi fáu orð um líf og starf P.O. hér, mættu opna fyrir okkur öllum þau sannindi, að hinn mikli áhugi hans á að koma minnismerkismálinu fram var slunginn tveim megin þáttum fagurra hugsjóna.
Í fyrsta lagi að heiðra minningu og störf Vestmannaeyinga, bæði lífs og liðinna og í öðru lagi óvenju vel vakandi og innileg átthagatryggð. Og hugsjónin rættist. Takmarkinu var náð.
Afhjúpun minnismerkisins fór fram sunnudaginn 21. okt. 1951. Athöfnin hófst með messu í Landakirkju. Sóknarpresturinn séra Halldór Kolbeins prédikaði og snérist ræða hans um minningu hinna föllnu og tilgang og tákn minnismerkisins. Að lokinni messu sneru allir kirkjugestir, auk fjölda annarra, sem ekki höfðu haft rúm í kirkjunni, að minnismerkinu. Stóðu menn þá heiðursvörð um merkið fyrir hönd sjómannasamtakanna í bænum. Guðir veðra og vinda lýstu blessun sinni yfir athöfninni með fögru, björtu og blíðu veðri. Hófst svo athöfnin úti með söng og aðstoð Lúðrasveitar Vestmannaeyja. Fyrir afhjúpun voru þessir sálmar sungnir og leiknir: Á hendur fel þú honum, Þitt lof, ó Drottinn. Eftir afhjúpun: Faðir andanna, Ó Guð vors lands. Á eftir ræðu Páls Oddgeirssonar töluðu: Ólafur Kristjánsson, bæjarstjóri, fyrir hönd bæjarfélags Vestmannaeyja og gat þess sérstaklega, að hér væri um að ræða fyrsta minnismerkið, sem reist er í þessum bæ, og því einkar mikils um vert, að jafnframt því, sem það væri veglegur minnisvarði hinna föllnu, þá væri það líka mikil bæjarprýði.
Steingrímur Benediktsson, kennari, talaði fyrir hönd safnaðarins og [[Landakirkja|Landakirkju. Bauð hann merkið velkomið á kirkjulóðina og benti sérstaklega á, að eftir að Kvenfélag Landakirkju hefði afgirt og prýtt lóð kirkjunnar, þá hefði eins og af sjálfu sér komið fyrir allra sjónir hinn ákjósanlegasti staður fyrir minnismerkið.
Er það og mála sannast, að þar með hvarf, eins og dögg fyrir sólu, allt misræmi í skoðunum manna um staðarval. Þarna var merkið komið, gegnt kirkjudyrum, í frjálsu umhverfi, smekklega lagfærðu með áframhaldandi möguleika á aukinni fegurð allt í kring, enda hefir P.O. getið þess, að hann vonaðist til, að einmitt á þessum stað yrði sýnt og sannað, að trjágróður gæti þrifist í Vestmannaeyjum. Má fullyrða að staðurinn og umhverfið gerir mikið til að skapa almenna ánægju og þann kristilega samúðaranda, sem að lokum varð um framkvæmd þessarar hugsjónar.
Páll Oddgeirsson hafði skipulagt framkvæmd þessarar athafnar mjög smekklega og að sjálfsögðu flutti hann aðalræðuna, enda fer hún hér á eftir sem eitt aðal efni þessa rits.
Frú Þórdís Guðjónsdóttir, Svanhóli, afhjúpaði merkið og kom þá í ljós glæsilegt listaverk, standmynd af sjómanni í fullum klæðum.
Fæstir höfðu séð líkanið áður og höfðu sjálfsagt gert sér misjafnlega háar hugmyndir um fegurð þess og listrænt gildi.
Allt í einu hvarf hjúpurinn, og listaverkiö blasti við allra augum í tign sinni og glæisileik. Mér fannst sem ósýnilegar öldur dulins heima, öldur samstillingar og kærleiksanda, líða um manfjöldann og sameina hugi allra í lotningu og þögulli bæn til æðri máttarvalda og þökk og virðingu við minningu og störf hinna föllnu, sem hið listræna merki táknaði svo fagurlega.
Mátti segja, að fegurð listaverksins, hátíðleiki athafnarinnar og allt umhverfi í veðurblíðunni legðist á eitt um að gera þessa stund áhrifaríka, já. ógleymanlega. Það var líkast því að finna svipi hinna föllnu líða um sviðið, svo lifandi urðu minningar liðinna ára, minningar um horfna vini, störf þeirra, dáðríki og dug. Já, við horfðum öll á listaverkið í hrifningu. En á þeirri stundu hafa vafalaust líka birst á sýningartjaldi hins innra manns, fjölda viðstaddra, ótal myndir liðinna tíma. Myndir, sem endurvöktu hálfgleymdar sorgar og saknaðarstundir, andvökunætur og hugarstríð, en einnig myndir ljúfra minninga tryggra vina, bræðra og samstarfsmanna í lífsbaráttu liðinna ára.
Það er að sjálfsögðu ætíð álitamál, hvernig slíkt minnismerki eigi að vera. Hvort á að leggja meiri áherslu á fegurð og hreinleika í línum og stíl eða hið táknræna, þ.e. eðli og tilgang þess, er að baki liggur. Og sé hið táknræna látið ráða mestu, hvaða atriði þess á þá að láta skipta mestu máli, vera aðalatriðið? Flestir munu nú á eitt sáttir um, að giftursamlega hafi til tekist og bæði þessi áminnstu sjónarmið njóta sín í verkinu.
Guðmundur Einarsson. listamaður, frá Miðdal, hefir gert líkneskið, sem stendur á allháum fótstalli. Er sjálft líkanið, sjómaður í fullum klæðum með tilheyrandi áhöldum, glæsilegt listaverk og sameinar sem best má verða hin tvö sjónarmið: fegurð og táknræni. Merkið er að vísu til minningar um fleiri en sjómenn, eða þá, sem Ægir hefir heimt til Helju. En það eru þó fyrst og fremst sjómenn, sem byggja þessar Eyjar og flestar fórnir hafa fært. Og það sem ég tel best um listaverkið er einmitt það, að það minnir einkum á hreysti sjómannsins og störf þeirrar stéttar, og er því réttilega hvort tveggja í senn, minnismerki hinna föllnu og hinna lifandi og starfandi, hraustu sjómannastéttar í Vestmannaeyjum. Stéttar, sem aldrei mun gefast upp í baráttunni við hamfarir hafsins, er um Eyjarnar lykur.
Þótt sjávarguðinn eigi sjálfsagt enn eftir að krefjast nýrra fórna úr hinni virðulegu og glæsilegu fylkingu sjómannastéttarinnar, þá munu nýir menn, hraustir og hugdjarfir, lyfta merki þeirra, sem féllu, lyfta merki stéttarinnar í sigursælli baráttu fyrir sér og sínum og almennri framíðarheill Vestmannaeyja. Guð blessi störf þeirra og minningu.
Halldór Guðjónsson