Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1988/Hvað er á döfinni?
Útibú Hafrannsóknarstofnunar
Útibú Hafrannsóknarstofnunar í Vestmannaeyjum á sér ekki langa sögu, en mjór er mikils vísir. Í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja í fyrra var greint frá stofnun útibúsins og hefur forstöðumaður þess, Hafsteinn Guðfinnsson, góðfúslega orðið við beiðni okkar um að greina nokkuð frá starfseminni.
Til upplýsinga fyrir sjómenn, útgerðarmenn og aðra eyjamenn ætla ég í stuttum pistli að gera grein fyrir þeim rannsóknarverkefnum sem nú er unnið að í útibúi Hafrannsóknastofnunar í Vestmannaeyjum. Mörg verkefni kom til álita að vinna en fá voru valin. Þótti hyggilegra að hafa verkefnin færri og vinna með einhverjum árangri að þeim. Reynt var að einskorða val verkefna við hluti sem eru í deiglunni hér í Eyjum. Þó tengjast þau öðrum verkefnum við Hafrannsóknastofnunina í sumum tilfellum.
ÁHRIF FRIÐUNAR Á FISKGENGD OG FISKMAGN VIÐ HEIMAEY.
Verkefnið ,,Áhrif friðunar á fiskgengd og fiskmagn við Heimaey" hefur það að markmiði að kanna hvort fiskur (aðallega þorskur og ýsa) muni aukast innan friðunarmarka, miðað við svæði utan friðunarlínu sem ekki er verndað. Hluti af þessu verkefni er að fylgjast sérstaklega með því hvort smáfiskur aukist þegar líður á friðunartímabilið. Þá er einnig ætlunin að kanna svæðið suður af Eyjum (Helliseyjar-Súlnaskerssvæðið) með tilliti til smáfisks. Sumir sjómenn halda því fram, að þarna sé um miklar uppeldisstöðvar að ræða. Þá er einnig ætlunin að Kanna hvort breyting verður á tegundasamsetningu og aldurs/lengdardreifingu innan hins friðaða svæðis eftir því sem líður á friðunina.
Nokkrir leiðangrar hafa verið farnir á hið friðaða svæði frá því í haust á togbátnum Björgu VE 5. Togað hefur verið á hefðbundinni togslóð innan og utan 3. mílna línunnar. Niðurstöður hafa í megin dráttum verið þær, að fiskmagn er lítið á svæðinu, hvar sem dýft er niður trolli. Enn er allt of skammur tími liðinn frá því að friðun var ákveðin (eitt ár), til þess að hægt sé að vænta verulegra breytinga. Ég tel lágmark að ætla slíkri friðun 3 til 5 ár til að skila einhverjum árangri. Þó verður á friðunartímanum sífellt að fylgjast með svæðinu og athuga hvort nokkrar breytingar verði á fiskgengd og fiskmagni.
Nokkur umræða átti sér stað hér í Vestmannaeyjum á árinu 1987 um nauðsyn þess að friða einhver svæði hér í nágrenni Eyjanna, í þeim tilgangi að auka fiskgengd. Skoðanir manna voru að vonum skiptar. En að lokum náðist samstaða um að loka 3. mílna svæði frá fjöruborði Heimaeyjar. Þó gildir sú lokun einungis allt árið austan Heimaeyjar. Vestan megin er aðeins lokað frá 1. september að hausti fram til 1. febrúar sama vetur, en opið frá 1 feb. til 1. sept. Sú reglugerðarlokun sem nú er í gildi rennur út 1. feb. 1989. Hljótt hefur verið um þessi mál nú síðustu mánuði. Er spurning hvort ekki sé rétt að fara að huga að þessum málum aftur, einkum þegar tillit er tekið til aflaleysis hér á grunnslóðinni í kringum Eyjar á vertíðinni sem nú er nýliðin. Til dæmis mætti hugsa sér, að friðun umhverfis suðureyjarnar skilaði árangri þegar fram í sækti.
Á þessum slóðum er ungviði að vaxa upp, þó ekki sé ljóst í hve miklum mæli. Einnig eru þarna hrygningastöðvar síldar, sem fengju vernd í leiðinni.
Hugsanlega þyrfti slík friðun ekki að ná nema eina og hálfa mílu út frá fjöruborði. til að bera árangur. Þessu er hér varpað fram til athugunar fyrir þá sem hlut eiga að máli. Ef einhver ráð eru tiltæk til að auka fiskgengd hér á heimaslóð eigum við að notfæra okkur þau.
KÖNNUN Á ALDURSOG LENGDARDREIFINGU ÞORSKS OG ÝSU í REYNISDÝPI.
Annað verkefni, sem unnið er að á þessu ári er ,,Könnun á aldurs og lengdardreifingu þorsks og ýsu á Víkinni, Reynisdýpi og á Kötlugrunni. Lengi hafa menn vitað að fiskur af þessum svæðum er óvenju vænn og stór miðað við fisk af öðrum svæðum hér sunnanlands. Niðurstöður mælinga og aldursgreininga þorsks frá þessum slóðum frá fyrri árum, benda til að hann sé óvenjulega stór miðað við aldur. Þannig hafa fengist þarna fiskar sem eru 70 til 90 cm, en aðeins 3 til 4 ára gamlir. Jafngamlir fiskar eru hinsvegar vinjulega 45 til 65 cm. Þess vegna er forvitnilegt að kanna aldurslengdarsamband þorsks og ýsu af þessum slóðum nánar og bera niðurstöðurnar saman við mælingar á fiski af öðrum svæðum. Ef niðurstöðurnar sýna að marktækur munur er á lengd miðað við aldur hjá fiski af þessu svæði miðað við önnur hér við suðurströndina, er hugsanlegt að verkefnið verði víkkað út á næsta ári, og kannað hvað valdi slíkum vaxtamun. Er þá átt við önnur atriði en hitastigsmun, sem vitað er að veldir mismunandi vaxtahraða, t.d. magn og fjölbreytni fæðu. Einnig gæti verið fróðlegt að merkja fisk af þessum svæðum, til þess að ganga úr skugga um hvort hann er mjög staðbundinn þ.e.a.s. hvort hann dvelst á sama svæði árið um kring, eða hvort hann leitar á önnur "mið" eftir æti.
Rannsóknarskip í þessu verkefni er m/b Álsey VE.
ATHUGUN Á GRÓDURMAGNI OG UMHVERFISÞÁTTUM í SJÓNUM VIÐ VESTMANNAEYJAR.
Heiti þriðja verkefnisins er ,,Athugun á gróðurmagni og umhverfisþáttum í sjónum við Vestmannaeyjar.
Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna gróðurmagn og frumframleiðni yfir eins árs tímabil. Sýnum verður safnað tvisvar í mánuði frá maí til október en einu sinni í mánuði frá nóvember til apríl. Samhliða verða gerðar mælingar á ýmsum umhverfisþáttum sem hafa áhrif á vöxt svifþörunganna (t.d. hita, seltu og næringarefnum). Slíkar rannsóknir hafa ekki fyrr verið gerðar svo títt og samfellt við Vestmannaeyjar. Með slíkri athugun fæst góð vitneskja um vorkomuna í sjónum, um breytingar á magni svifþörunganna, svo og um þær breytingar sem verða á plöntusamfélaginu frá vori til hausts. Aðrir mælingaþættir gefa hugmynd um ástand sjávar umhverfis Vestmannaeyjar frá vori til hausts.
Vitað er að svifþörungar eru mjög mikilvæg fæða fyrir fiskaseiði þegar kviðpokastiginu sleppir.
Þá eru seiðin búin með þá næringu sem þau fengu í nesti út í lífsbaráttuna, og verða nú að rannsókn sem þessi gefur hugmynd um magn þörunganna, en segir ekkert til um seiðafjölda eða það hvernig klak tekst. Hinsvegar er mun líklegra að fleiri seiði komist á legg í þeim árum sem magn þörungagróðurs er mikið á sama tíma og kviðpokastiginu lýkur. Magn þörungasvifs hefur einnig geysilega mikið að segja fyrir allar átutegundir, og er beinlínis fæða fyrir átuna. Því má segja að vöxtur og fjölgun átunnar sé háð því að nægilegt þörungasvif vaxi upp hvert vor.
LANGLURURANNSOKNIR.
Síðasta verkefnið, sem hér verður getið um, lýtur að langlúrurannsóknum. Verkefnið er unnið í samvinnu við sérfræðinga á Hafrannsóknastofnun.
Tilraunaveiðar á langlúru hófust 1986 og árið 1987 veiddust um 5 þúsund tonn af þessum flatfiski. Veiðar eru stundaðar af dragnótabátum, og hefur áhugi fyrir þessum veiðum farið vaxandi. Þó hefur aflinn farið minnkandi fyrstu mánuðina á árinu 1988 miðað við sama tíma árið 1987. Fremur lítið er vitað um stofnstærð. Nokkur gögn hafa þó safnast í togaraleiðöngrum síðustu ára, svo og með mælingum úr lönduðum afla.
Þau atriði sem ætlunin er að kanna eru fjölmörg. Í fyrsta lagi á að athuga útbreiðslu og magn stofnsins, ásamt hrygningarsvæði og hrygningartíma. Í öðru lagi á að fylgjast með lengdar og aldurssamsetningu landaðs afla. Í þriðja lagi þá verður fylgst með kynþroskahlutfalli eftir aldri, lengd og kyni. Í fjórða og síðasta lagi verður hugað að sókn og afla eftir svæðum og árstímum. Á grundvelli þeirra gagna sem þannig safnast er ætlunin að gera tilraunir til stofnstærðarútreikninga þannig að hægt verði að gera tillögur um heppilega ársveiði, án þess að ganga of nærri stofninum. Vegna þessa verkefnis er einn rannsóknaleiðangur fyrirhugaður á vegum Hafrannsóknastofnunar. Áætlað er að hann fari fram um mánaðarmótin júni-júlí á r/f Árna Friðrikssyni.
NIÐURLAG
Auk ofangreindra verkefna er stöðugt unnið að gagnasöfnun fyrir hafrannsóknastofnun úr lönduðum afla. Þau gögn eru notuð með öðrum til stofnstærðarútreikninga á nytjastofnum okkar.
Í lokin vil ég beina því til sjómanna, að vera ófeimnir við að hafa samband við útibúið, og láta skoðanir sínar í ljósi varðandi hafrannsóknir hér við land. Einnig væri mjög skemmtilegt að fá hugmyndir frá sjómönnum um verkefni, sem þeir telja æskilega eða nauðsynlegt að framkvæma. Hafrannsóknastofnun hefur marg lýst því yfir að aukin tengsl milli sjómanna og hafrannsóknarmanna séu nauðsynleg og að þau ættu að vera sem mest og best. Til að svo geti orðið verða báðir aðilar að leggja sitt af mörkum.
Hafsteinn Guðfinnsson