Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1987/Synti í gegnum brimgarðinn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Synti í gegnum brimgarðinn


Eins og fram kemur í greininni hér á undan komst ferðafólkið ekki úr Sandinum og til Eyja vegna þess að ekki var lendandi við Sandinn. Einar þurfti aftur á móti að mæta úti í Eyjum og brá því til þess ráðs að synda út í gegnum brimgarðinn og ná þannig til skips.
Í Morgunblaðinu 10. ágúst 1940 birtist grein eftir Ólaf Lárusson, héraðslækni, þar sem hann greinir frá þessu ferðalagi og því afreki Einars að synda til skips. í niðurlagi greinarinnar er eftirfarandi að finna.
,,Auk þessarar ferðar hefur Einar sýnt starfsfólki þá miklu velvild að fara með það í smáferðir um Eyjuna. Bæði helga daga og rúmhelga.
Þó annríki hafi verið, hefur hann farið með það uppúr hádeginu, þegar best hefur viðrað, í sólbað undir Löngu, þar sem er ágæt baðstöð — sandur og sjór á móti suðri undir Klettinum. Eru það hyggindi, sem í hag koma, því, ef að er gáð, er heilbrigði starfsfólksins það sem á veltur. Ferðir þessar hafa orðið til þess að skapa samúð og kynning milli atvinnurekandans og verkafólksins.
Einar er ósínkur að verja svo þúsundum skiptir til að hýrga og gleðja og bæta aðbúð þess á ýmsan hátt í verksmiðjunni.
Næstu tímar munu enn betur leiða í ljós þann nýja og holla anda í þessum málum, sem verið er að innleiða hér á þessu sviði og mun þykja merkilegt, þegar tímar líða.
Þess var getið, að starfsfólkið hefði komið hingað til Eyja með Laxfossi úr Reykjavík. En hvernig komst Einar út? Hann ruddi sér sjálfur braut út úr brimgarðinum — hann er þaulvanur sundmaður — og synti út í bát, sem beið hans utan brimgarðsins. Hann vildi út — lá á að komast heim vegna skips, sem beið afgreiðslu hér, og greip til krafta, sem hann sjálfur hafði og dugðu honum vel. Einar var vel til forystu fallinn og vonandi nýtur hann tryggðar og trausts góðs starfsfólks, góðra samherja á sviði atvinnulífsins.“

Mynd þessi er tekin af Einari í umræddri ferð, er hópurinn náði inni í Þórsmörk. En þangað höfðu þau farið ríðandi, er hópurinn dvaldi að Heimalandi.