Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1987/Aflamet Sigurðar RE 4

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Einstætt aflamet:


Nótaskipið Sigurður með 47 þúsund lestir loðnu á þessari vertíð


Sunnudagskvöldið 22. mars s.l. kom aflaskipið Sigurður RE með fullfermi af loðnu í sínum síðasta veiðitúr á þessari loðnuvertíð. Þar með var skipið búið að slá öll aflamet hérlendis og þótt víðar væri leitað því alls er skipið búið að landa 47 þúsundum lesta af loðnu frá því loðnuvertíð hófst í haust (nánar tiltekið í lok september).
Að þessu tilefni brá tíðindamaður sér um borð í Sigurð umrætt sunnudagskvöld og tók skipstjórann í þessari veiðiferð tali, en það var Kristbjörn Arnason (á móti honum er Haraldur Ágústsson með skipið).
Kristbjörn (Bóbi) var lítillátur að venju og sagðist vart vita hversu mikið þeir væru búnir að fiska, þeir héldu áfram þar til útgerðin segði stopp. Kvóti Sigurðar væri löngu búinn, en þeir hefðu verið að veiða kvóta og rest frá öðrum bátum Hraðfrystistöðvarinnar og það væri sennilega alveg rétt að þeir væru komnir með 47 þúsund tonn og öruggt ef Sigurður og Garðar hefðu staðfest það.

Kristbjörn Árnason, skipstjóri.


Bóbi sagði 15 manna áhöfn á skipinu og hefðu litlar breytingar orðið á áhöfninni frá því að skipið hóf loðnuveiðar fyrir mörgum árum. Það ásamt frábæru skipi og góðum búnaði geri þeim kleift að skila slíkum árangri. Þá taldi hann mun meira af loðnu á miðunum nú, en hann hefur reynt á liðnum árum og ekki hefði frábær veðrátta dregið úr góðum árangri við veiðarnar. Í lokin hafi svo komið ganga vestan að, sem hafi hleypt miklu lífi í lokasprettinn. Ekki vildi Bóbi fullyrða mikið um loðnurnagnið á miðunum í ár, hins vegar hafi verið mikið um loðnu og húnfundist mjög víða, sem ætti að gefa vonir um fengsælt framhald þessara veiða.
Til gamans fengum við Bóba til að segja okkur frá stærð þeirra nóta sem notaðar væru um borð í Sigurði og sagði hann stærri nótina rúma 100 faðma djúpa og um 300 faðma á lengd (þannig að þeir gætu snurpað umhverfis góðan íþróttavöll).
Nótin væri sennilega um 30 tonn að þyngd, þegar hún kæmi þurr úr netagerðinni.
Minni nótin væri aftur á móti tæpir 50 faðmar á dýpt og um 170 faðmar á lengd. Hann áréttaði að veiðarfærin yrðu að vera rosalega sterk, því oft væru mikil átök við veiðarnar, skipið stórt og oft kastað í þungum sjó. Menn yrðu að vera vel á verði, því það væri ekkert gamanmál að fá nótina upp í henglum. Veiðarfæri eins ogstærri nótin kostaði sennilega 15 milljónir.
Bóbi sagði að nú færi nótin í eftirlit og geymslu hjá Ingólfi, en skipið í venjubundið viðhald. Mannskapurinn færi aftur á móti í langþráð frí, þaðværi nú langt um liðið frá því að sumir þeirra hefðu sést heima. Sjálfur sagðist Bóbi halda norður til Húsavíkur, en þar ætti hann lítinn þilfarsbát. sem hann stundaði netaveiðar á eitthvað fram á vorið. Að öðru leyti tæki hann lífinu með ró fram að næsta úthaldi. Ekki vildi hann gera mikið úr öðrum veiðiskap sínum, en viðurkenndi þó að sér væri mikil ánægja að ganga á fjöll og hafa þá stundum byssu með, ef svo vildi til að hann rækist á rjúpu í hátíðarmatinn. Að öðru leyti væri útiveran og gangan sér andleg og líkamleg styrking.
Þegar tíðindamaður yfirgaf skipið eftir þetta stutta spjall var nótin að hluta komin á bílpall og löndun í fullum gangi. Greinilega menn sem kunna vel til verka, samstilltir og áhugasamir.
Heildarafli Sigurðar á loðnuvertíð 1986-1987 varð afls 46.861 lest og reyndist aflaverðmætið um 50 milljónir.

Aflaskipið Sigurður RE 4.