Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/Gamlar minningar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Eyjólfur Gíslason:

Gamlar minningar


Það mun hafa verið um svipað leyti og Eyjasjómenn byrjuðu að nota þorskalínu (1897) að fyrst sáust útlendir togarar við Eyjar. Þeir voru þá kallaðir „trollarar" og hélst það nafn fyrstu áratugi þessarar aldar. Fljótlega fjölgaði þessum skipum svo að á fyrsta tug þessarar aldar munu þau hafa skipt hundruðum. Eg man að eitt sinn, í vestan rok-stormi, taldi ég 136 „trollara" þaðan sem ég stóð við austurgafl Búastaða. Þeir lágu í vari austan við Eyjar, inni á Vík, í Flóanum, austur að Ál og suður fyrir Bessa og fjöldi „trollara" hefur þá legið á Stakkabótinni og þar í vari.
Oft voru stórir hópar af þessum skipum sem trolluðu hvert á eftir öðru, austur og vestur á Álnum, milli Rangársanda og Eyja, og urðu menn að horfa á þetta, oft dag eftir dag, án þess að geta nokkuð aðhafst.

Enskir togarar í vari. Algeng sjón við Eyjar á fyrri helmingi aldarinnar fram til 1952, þegar landhelgin var færð út í 4 sjómílur. Myndin er tekin á gömlu Urðunum 1945-'50

Margir af þessum „trollara-skipstjórum" urðu þaulkunnugir á bestu fiskimiðum við Eyjar og mátti með sanni segja að þeir trolluðu inn í hvern hraunkrika og þar sem fiskjar var von.
Eitt mátti þó segja mörgum af þessum skipstjórum til hróss, að ef óttast var um báta, sem ekki náðu í höfn, voru þeir boðnir og búnir til leitar þegar þeir voru beðnir þess.
Landhelgi var þrjár mílur frá landi og voru það dönsk herskip sem gættu landhelginnar. Eyjasjómönnum þóttu yfirmenn þessara skipa misjafnlega dugmiklir við að taka togarana sem toguðu oft að landsteinum og sandfjörum og höfðu þá breitt yfir nafn og númer skipsins.
Þegar náðist í þessa sökudólga komu herskipin með þá inn á Víkina og lögðust þar. Oftast fengu þeir þann dóm að afli og veiðarfæri voru gerð upptæk og var því þá þegar skipað öllu í land og selt á uppboði.
Oftast fengu skipstjórarnir keypt veiðarfærin og var þá strax aftur róið með þau um borð í togarana.
Mannskapurinn um borð vann við að koma trollunum út í skipin og hífa þau upp á dekk og byrjaði svo strax að slá þeim undir og gera klárt til köstunar.Þegar öllum fiskinum úr skipunum hafði verið skipað upp, á Stakkhelluna eða bryggjustubbana, var hann talinn í kasir og hafðir 25 til 50 fiskar í hverri, eftir stærð fisksins. Rauðspretta, sem oft var mikið af í þessum afla, var mæld í körfum og hafðar 5 til 10 körfur í boði. Kola vildi helst enginn kaupa og fékkst jafnvel ekki hærra boð en tvær til fimm krónur í alla kösina. Kolinn var þá notaður sem áburður á tún og svo til eldiviðar þegar hann var orðinn þurr, líkt og þorskhryggir o.fl. sem þá var notað til eldsneytis.
Þessi fiskuppboð í Eyjum voru kölluð ,,trollaraaxjónir" og var þar oftast mættur hópur fólks, konur og karlar.Ein var sú Eyjakona sem keypti oft drjúgar fiskhrúgur. Það var Guðrún á Sveinsstöðum, móðir Ársæls á Fögrubrekku og þeirra systkina. Guðrún var hinn mesti dugnaðarforkur og mikil búkona. Sagt var að á þessum fiskuppboðum hefði Guðrún gefið þeim olnbogaskot sem næst henni stóðu og sagt: „Þið eigið ekki að vera að bjóða í á móti konunum".
Oft var margt landmanna úr nærsveitum Rangárvallasýslu á þessum uppboðum og sumir keyptu sér þar soðningarforða til ársins. Eitt sinn var í þeirra hópi gamall maður sem labbaði um með strigapoka í handarkrikanum og var að skoða fiskakasirnar. Þar voru þá staddir nokkrir Eyjamenn. Tóku þeir pokann af karli og völdu í hann góðan fisk, svo mikið sem þeir ætluðu að karlinn gæti borið, og lyftu síðan pokanum á bak honum. Karlinn sneri sér þá að þeim og þakkaði þeim fyrir, en bætti við sposkur á svip: „Mikið hefðuð þið nú gefið mér hefðuð þið átt það sjálfir".
Ég sendi öllum Vestmannaeyingum bestu kveðjur og óskir um ánægjulegan sjómannadag.
Eyjólfur Gíslason frá Bessastöðum

Enskur gufutogari, Rosalind, byggður 1907
Vestmannaeyjahöfn um 1910. Á ytri höfninni, Víkinni, liggja erlendir togarar og flutningaskip. Í forgrunni Básasker. Á bóli liggur einn fyrstu vélbátanna, en uppi í fjörunni í Botninum er Portland VE 97, sem Friðrik Benónýsson í Gröf faðir Binna var með. Til hœgri er Austurbúðin og „Eilífðin"
STRÁKAR AÐ AFLOKNUM KAPPRÓÐRI Á SJÓMANNADAG 1951 Sveinn Gíslason Hvanneyri, Matthías Guðjónsson Miðhúsum, Páll Guttormsson, Sveinn Halldórsson Kalmarstjörn, Birgir Guðsteinsson, Sigurður Hallvarðsson Pétursborg, Eyjólfur Martinsson, Sigurður Tryggvason, Gísli Sigmarsson Byggðarenda, Ágúst Bergsson, Ingi Ingvarsson Birtingarholti. Efri röð: Sveinn Valtýsson, Hlöðver Pálsson Þingholti, Sigurbjörn Ólafsson Hólmgarði, Hannes Haraldsson Fagurlist, Richard Sighvatsson Ási, Birgir Pálsson Þingholti.