Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/Aflakóngur vetrarvertíðina 1986

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sigurgeir Jónsson:


„Einhver fallegasta músík sem ég hlusta á eru Straussvalsar“.


Sjallað við aflakóng Vestmannaeyja 1986, Sigurð Georgsson


Sigurður Georgsson á Suðurey VE-500 er aflakóngur á vetrarvertíð að þessu sinni. Hann er svo sem ekki óvanur þeim titli, þetta er þriðja árið í röð sem þeir á Suðurey eru aflahæstir.
Sá sem þetta skrifar, rölti heim til Sigga laugardaginn 10. maí í hið árlega spjall og Siggi hafði við orð, hvort ekki væri bara hægt að klippa eitthvað út úr gömlum blöðum um sig, hann væri eiginlega orðinn þurrausinn. Því var að sjálfsögðu ekki ansað, heldur var sest inn í stofu, Fríða hellti upp á könnuna og húsbóndinn náði í fimm eða sex stjörnu koníak upp í skáp.

Þið byrjuðuð allra báta fyrstir á netum.
Já, það var rétt eftir áramótin, 4. janúar held ég. Eg fór beint út í kant. Það var ekki mikil traffík þar þá, einn bátur auk okkar.

Hvernig var fiskirí í janúar?
Það var svona kropp, 165 tonn held ég að við höfum fengið. Það var ekki dautt. Hitt er svo spurning hvernig þetta kemur út peningalega. Þetta náði ekki tryggingu, það vantaði eitthvert smotterí upp á það. Það er alla vega enginn stórgróði hjá útgerðinni af þeim mánuði.

En febrúar betri?
Já, það fór fljótlega að sjást þorskur í febrúar og síðan hefur þetta verið alveg ágætt. Við erum komnir með í land núna eitthvað í kringum 1390 tonn, en vorum í fyrra með 1404 tonn þann fimmtánda maí. Ég hef trú á að við náum þeirri tölu fyrir lok.

Hvað hefur mikið af því farið í gáma?
Við byrjuðum ekki að setja í gáma fyrr en eftir páska og höfum sett í einn gám vikulega. Það hefur komið mjög vel út peningalega, enda líka góður fiskur sem settur var í gáma. Annars virðist það ekkert vera neitt lakara hjá þeim sem hafa sent allan sinn fisk í gáma, óflokkað, meira að segja karfinn hefur komið út með ágætisverð.

Hvað finnst þér um gámaútflutning?
Ja, það eru náttúrulega ýmsar hliðar á því máli. En eins og einhver sagði, ef það er hægt að flytja fiskinn svona beint út og fá hærra verð fyrir hann þannig, þá er náttúrlega óþarfi að vera að frysta hann.

Hvar hefurðu haldið þig með netin í vetur?
Ég er búinn að vera svo til á sama stað allan tímann. í kantinum á líklega svona tólf mílna belti út af Portlandi. Ég var svona að pæla í því um tíma að fara austur í bugt en hætti við það, það var orðinn svo mikil traffík þar.

Hvernig er þessi vertíð miðað við í fyrra?
Þetta er búið að vera mjög svipað, bara eiginlega alveg eins, kannski heldur minni ýsa núna. Það var meira af henni í fyrra.

Hvað tekur við núna um vertíðarlokin?
Við höldum eitthvað áfram á netum, alla vega fram að mánaðamótum. Maí kom alveg prýðilega út hjá okkur í fyrra. Svo var alltaf eftir að klára alveg í Skipalyftunni í sambandi við breytinguna, það var eitthvert smotterí eftir. Ætli það fari ekki mánuður í það. Svo veit ég ekki hvað verður þá gert í júlí, það hefur ekki verið talað neitt um það. Ætli það verði ekki prófað á trolli ef einhver aukakvóti verður til. Við erum búnir með okkar kvóta núna.

Löndun.

Hvernig kanntu við skipið eftir breytingarnar?
Mjög vel. Þetta er alveg afskaplega vel heppnað.

Nú sóttir þú stíft í vetur. Hefðirðu getað það, ef þessar breytingar hefðu ekki verið gerðar?
Nei, það tel ég af og frá. Ég er búinn að fá ágætis reynslu af bátnum í vetur í kolbrjáluðum veðrum. Það liggur við að hægt sé að draga í hvaða veðri sem er eins og hann er núna. Annars segja þeir mér að það þurfi að steypa í hann eitthvað smotterí til viðbótar. En þetta er allt annað líf að vera á yfirbyggðu skipi, mannskapurinn er aldrei í neinni hættu, þó svo að það komi gusa af og til inn um lúgurnar.

Er sami mannskapur hjá þér ár eftir ár?
Mikið til já. Og sumir búnir að vera lengi með mér. Ágætis mannskapur, öðruvísi hefst þetta ekki. Og þetta er erfiðisvinna. Það fór einn með okkur af loðnubát í þrjá túra og ég held að hann hafi verið búinn að fá sig fullsaddan að því loknu, handleggirnir eins og símastaurar af sinaskeiðabólgu.

Og útgerðin enn svipuð?
Já, það þarf ekki að kvarta yfir henni. Það stendur aldrei á einu eða neinu, allt fæst sem beðið er um. Það er vel rekið fyrirtæki.

Tómas Ísfeld matsveinn tekur við rjómatertum úr höndum Vilborgar Gísladóttur kaupmanns.

Hvað gerir aflakóngurinn Sigurður Georgsson í frístundum sínum?
Það er nú sitt af hverju. Við erum að dunda okkur í sauðfjárbúskap svona upp á sport. Annars fylgist maður ekkert með því núna, það er allt okkar fé úti í Álsey. Ég var jafnvel að hugsa um að kíkja þangað á morgun ef það yrði leiði.
En í sumarfríum þykir okkur gaman að ferðast. Við eigum sumarbústað uppi í Kjós og þar er mjög gott að vera yfir sumartímann og alveg fram á haust.
En í fríum svona milli róðra og í landlegum les ég mikið. Ég er alger alæta á bækur og tímarit. Les nánast allt sem ég fæ í hendur. En ég á mér engan sérstakan uppáhaldshöfund.
Svo horfi ég talsvert á sjónvarp en er lítill vídeóglápari. Það er ekki nema einhverjar sérlega góðar myndir séu þar á skjá sem ég sest niður við vídeó.

Ertu músíkalskur maður?
Já, ég hugsa það. Ég hef gaman af músík. Einu sinni ætlaði ég í lúðrasveit, var búinn að spila svolítið á saxófón. En það gekk nú einhvern veginn ekki upp.

Uppáhaldstónlist?
Einhver fallegasta músík sem ég hlusta á, eru Straussvalsar. Það þýðir ekki að ég sé einhver sérstakur unnandi klassískrar tónlistar. En það þykir mér falleg tónlist.

Hvernig fannst þér Gleðibankinn?
Svo sem allt í lagi með hann, en ekki neitt sérstakur. Ég tárfelldi ekkert yfir þeim úrslitum. Aftur á móti kom sigurlagið mér ekkert á óvart. Ég var búinn að spá því sigri.

Menn undirbúa að snæða 1000-tonna terturnar. Talið frá vinstri: Stefán Einarsson, Sigurður Einarsson útgerðarmaður, Tómas Ísfeld matsveinn, Sigurður Georgsson skipstjóri, Garðar Ásbjörnsson útgerðarstjóri og Þórarinn Sigurðsson rafvirki slæddist í hópinn.

Hvaða heilræði myndir þú gefa ungum mönnum sem eru að hefja skipstjórn?
Vera þolinmóðir. Það hefur gefist mér hvað best gegnum tíðina. Og fyrst þú minnist á unga skipstjórnarmenn, þá er eitt sem mætti taka upp í námsskrá í stýrimannaskólum. Það er verkstjórn. Á hverju ári koma úr skólanum ágætlega menntaðir og duglegir strákar sem stýrimenn á flotann. Það sem marga þeirra vantar, er að kunna að stjórna mönnum í vinnu. Það er hlutverk stýrimannsins m.a. Sumir hafa þetta í sér, aðrir ekki. Og þetta hlýtur að vera hægt að kenna í skólunum og þetta er yfirmönnum nauðsynlegt að kunna.

Er andinn svipaður um borð á netum og var þegar við vorum ungir?
Þetta hefur breyst svoiítið. Raunar er maður ekki jafn beinn þátttakandi í vinnunni eftir að búið er að byggja yfir dekkið. Maður sér mannskapinn bara í gegnum sjónvarpsmyndavélar. En mér finnst oft sem þessi gamli kraftur sé ekki til staðar. Þú manst þegar við vorum strákar að byrja á þessu. Þá var maður hundskammaður ef stóð á og maður bara tók því og reyndi að gera betur. Þá var það bara viss passi um leið og byrjað var að draga að það gengu hnútur á milli manna, þeir voru skammaðir aftur á garði ef illa gekk að leggja niður og svo gagnkvæmt þegar safnaðist fiskur hjá úrgreiðslumönnum, þá var rykkt í frá garðinum og alltaf fylgdu þessu mergjuð orð um aumingjahátt og ræfildóm. Þetta hleypti alltaf ákveðnu fjöri og stemmningu í mannskapinn og ég er klár á því að það gekk betur að draga fyrir vikið. Ég held að þetta sé á undanhaldi í dag. Menn taka það orðið sem móðgun, ef þeir eru skammaðir á dekki. Það er afturför. Þaö gekk betur hérna í gamla daga þegar voru eilífar skammir framan frá rúllu aftur á garð.

Sigurður Georgsson skipstjóri.

Þú varst nokkurn tíma með Binna í Gröf til sjós?
Já, hann var nokkurs konar kennari hjá mér í 2-3 vikur á Bjarnarey. Finnur á Oddgeirshólum réði hann sem fiskilóðs hjá mér þegar ég var að byrja skipstjórn, þeim tíma gleymir maður seint. Ég lærði mikið af honum. Hann kenndi mér allar bleyðurnar hérna kringum Eyjarnar. Það er svosum ekki mikið sem maður notar það í dag, en gott að hafa það á trollinu, nú Víkin, það er allt það sama í dag og var þá.
Hann vissi þetta allt saman, en það var svolítið skrítið að það var eins og hann vissi þetta ekki fyrr en hann kom á svæðið þá allt í einu opnaðist þetta. Einu sinni vorum við að koma að austan á leið í Sámsálinn. Ég fór að spyrja hann út í Sámsálinn og hann vildi ekkert segja fyrr en við vorum komnir þangað. Þá vildi ég fá að vita eitthvað um Álseyjarbleyðuna en það var alveg það sama, hann vildi ekki gefa mér neitt upp um hana fyrr en við vorum komnir þangað.
Og mælieiningarnar sem hann gaf upp voru dálítið sérstakar þegar um mið var að ræða. Hann gaf upp skipslengd, hálfa skipslengd og faðm. T.d. að hafa Elliðaeyna hálfan faðm undan Bjarnarey eða hálfa skipslengd og heila skipslengd. Ég lærði heilt helvíti af karlinum enda var hann alveg sérstaklega skemmtileg persóna. En hann var dulur maður og maður var lengi að komast að honum.

Það fer vel á því að hafa þessi orð um Binna í Gröf sem lokaorð í þessu viðtali. Allmjög er liðið á kaffikönnuna og nokkuð borð komið á hina gullinleitu framleiðslu franskra vínbænda þegar hér er komið við sögu. Ekki er þess þó að sjá merki á húsráðanda, enda hófsmaður á flesta hluti. Þykir að vísu gaman að skemmta sér með góðum en gengur hægt um gleðinnar dyr eins og segir í Hávamálum. Það er gott að vita af slíkum mönnum við stjórnvöl á flotanum.

Oddsteinn Pálsson, vélstjóri.