Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/Ýsa í soðið

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ýsa í soðið


Á uppvaxtarárum sínum átti Ólafur Skúla-son, síðar dómprófastur og vígslubiskup, heima í Keflavík. Það var á þeim árum er fyrsta fiskbúðin þar var opnuð. Sonur fisksalans og Ólafur voru leikbræður.
Dag nokkurn hafði fisksalinn falið syni sínum á hendur búðina því að hann var fjarverandi. Salan gekk vel og var nú aðeins ein ýsa eftir, enda klukkan að nálgast lokun. Lengi vel lét enginn sjá sig og Ieit helst út fyrir að ýsan yrði óseld. Rétt áður en lokað var kom kona sem ætlaði að kaupa ýsu í soðið. Þessi eina ýsa var tekin úr ís í kassa og látin á vigt.
Þrjár krónur kostar ýsan.
Já, sagði konan, hún er heldur lítil. Vil fá aðra heldur stærri. Strákur kastar ýsunni í kassann, hrærir svo mjög þessari einu ýsu í kassanum. Tekur hana aftur upp og setur á vigtina.
Nú kostar hún þrjár krónur og fjörutíu.
Já, já, segir konan. Eg ætla að fá hina líka. Þá verður þetta gott. Stráksi komst í mestu vandræði. Önnur ýsa var ekki til og þessi eina tvíverðlögð. Talið var að konan hefði séð við bragði stráksins. Hún lét ekki plata sig. Fór hún heim með ýsuna sem kostaði 3 krónur. — Úr ræðu séra Ólafs Skúlasonar sem hald-in var í Fíladelfíu 2. febrúar 1986.