Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1986/Úr dagbók Danska Péturs
Á veiðum fyrir vestan Portland um nóttina og út af Pétursey. Drógum austur á Vík um morguninn. Fengum tvisvar 1200 kg af ýsu á grunn við Vík. Vorum að toga austast á Víkinni, 5,6 smál. í Reynisdranga, þegar Vestmannaeyjaradíó kallaði á 16 og bað um aðstoð við að leita að manni í froskbúningi sem hafði verið að kafa vestan við Reynisdranga og átti í einhverjum erfiðleikum. Vindur norð-vestan 5-6. Brim við ströndina. Hífðum strax og tókum allt upp í rennu. Austur við Reynisdranga sáum við fuglager og á sömu stundu var kallað að flugvélin sæi manninn. Keyrðum við á staðinn og var maðurinn kominn um borð kl. 17:50. Keyrðum til Eyja og vorum í höfn kl. 21:40.
Tilkynningaskyldan send til Eyja.
Maðurinn, sem við björguðum úr sjónum fyrir austan Reynisdranga, heitir Björn Guðmundur Markússon. Hann var kaldur en hress að öðru leyti. Honum var gefið heitt að drekka og fór svo í koju og svaf þar til við komum að Eyjum.