Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1984/ Skuttogaraútgerð frá Eyjum í 10 ár
Í maí 1983 var haldið upp á það, að 10 ár voru liðin frá því að Vestmannaey VE 54 kom til landsins.
Skipið var smíðað í Japan og var togarinn á heimleið er eldgosið hófst á Heimaey 23. janúar 1973, en togarinn kom til Hafnarfjarðar 19. febrúar 1973. Hafnarfjörður var ,,heimahöfn“ þar til útgerðin var flutt til Eyja um mitt ár 1974.
Á þeim 10 árum sem liðin eru frá komu togarans hafa verið farnar 274 veiðiferðir og heildarfjöldi úthaldsdaga fyrstu 10 árin voru 3.388 eða rúmlega 330 dagar á ári að meðaltali. Af þessum 274 veiðiferðum var í 204 skipti landað í Eyjum, en 46 landanir áttu sér stað á fastalandinu og þá aðallega í Hafnarfirði 1973-1974. Siglingatúrar á þessu tímabili voru 24 og þá var siglt með aflann til Bretlands, Vestur-Þýskalands. Danmerkur eða Færeyja. Ef litið er á heildarfjölda veiðiferða á þessu tímabili, jafnast þetta með rúmlega tveim siglingatúrum á ári.
Mestan afla í einni veiðiferð kom togarinn með 1981 og vigtaði 207.715 kg. En minnsti aflinn kom í fyrstu veiðiferðinni í mars 1973 eða aðeins 1.756 kg.
Á þeim rúmlega 10 árum sem liðin eru frá fyrstu veiðiferðinni hefur togarinn aflað samtals 30.000 tonn af fiski eða að meðaltali um 3.000 tonn á ári.
Það hefur jafnan verið gæfa útgerðar b/v Vestmannaeyjar VE 54 að á togaranum hefur jafnan verið úrvals skipshöfn og voru nokkrir af áhöfninni, sem höfðu lengstan starfsaldur heiðraðir í afmælishófinu.
Þegar litið er til baka yfir þessi 10 ár er margs að minnast, en meðfylgjandi myndir frá sögu útgerðarinnar og skipsins, ættu að segja meira en nokkur orð.