Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1984/ Eykyndill 50 ára

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Eykyndill 50 ára



Slysavarnadeildin Eykyndill var stofnuð á Pálmasunnudag í húsi K.F.U.M. 25. mars 1934. Á þeim fundi voru lög deildarinnar samþykkt og deildinni gefið nafnið Eykyndill. Á fyrsta ári gengu 264 konur í deildina. Mun ég nú segja lauslega frá því sem Eykyndill hefur látið til sín taka hvað varðar slysavarnir sjómanna. Verður þetta þó ekki tæmandi upptalning.
Strax á stofnári er farið að huga að þeim málum. Ólafur Ó. Lárusson læknir er fenginn til að halda námskeið í lífgunaraðferðum. 46 sjómenn sóttu námskeiðið. Var þetta fyrsta af mörgum námskeiðum sem Eykyndill stóð fyrir í hjálp í viðlögum þar sem ýmist voru kennarar héðan úr bænum eða frá Slysavarnafélagi Íslands. Jón Oddgeir Jónsson mun oftast hafa séð um þessi námskeið. Einnig lagði Eykyndill fram fé og stóð fyrir sundkennslu sjómanna. Þá gerði Ríkharður Jónsson veggskjöld fyrir Eykyndil sem veittur var sem verðlaun í stakkasundi. Var sá skjöldur gerður 1935, og væri gaman að fá vitneskju um ef einhver veit hver hlaut hann í verðlaun.
Í björgunarskútusjóð Faxaflóa, og seinna til björgunarflugvélar sendi Eykyndill fé, svo að út fyrir Eyjarnar hafa konurnar séð. Árið 1935 eru send mótmæli gegn því að varðskipið Þór verði selt eða starfsemi þess skert á nokkurn hátt.
Frá upphafi hefur verið góð samvinna við Björgunarfélag Vestmannaeyja og 1936 er það aðstoðað við kaup á talstöðum í 20 báta. Gefnar eru ljósaluktir í björgunarbátinn á Skansinum 1939. Einnig eru gefnir seinna ljóskastarar á Skansinn, á Básaskersbryggju og rafljós sett í bátaskýlið á Skansinum.

Núverandi stjórn Eykyndils, talið frá vinstri aftari röð: Esther Valdimarsdóttir, Martea Guðmundsdóttir, Oktavía Andersen og Kolbrún Ósk Óskarsdóttir. Fremri röð t.f.v.: Lára Þorgeirsdóttir gjaldkeri, Rósa Magnúsdóttir formaður og Inga Eymundsdóttir ritari.

Farið er að safna í miðunarstöðvarsjóð 1943 og er hún síðan reist á Stórhöfða 1950. Hún kostaði kr. 11.011,88. Í ljós kom að hún kom ekki að gagni þar og var hún því flutt niður á Strembu 1953 og rekin þar þar til hennar var ekki þörf lengur vegna breyttrar tækni í fjarskiptum.
Mikill áhugi var á að koma upp ljósbauju við Eiðið þar sem á þessum árum þurftu bátar oft að liggja þar í vari þegar Leiðin var ófær. Var þessari ljósbauju komið þar fyrir 1952 og var þar allmörg ár. Hafnarsjóður tók við henni 1955, en Eykyndill greiddi af og til kostnað við hana. Svo fór að lokum að baujan losnaði upp, var tekin í land og var ekki sett út aftur, enda bátar orðnir stærri og betri í sjó að leggja.
Þegar farið er að undirbúa komu Lóðsins hingað árið 1954 fer Eykyndill að leggja fram fé, búnað og margs konar tæki til hans og hefur gert oft síðan. Safnað er fé í bænum árið 1950 til byggingar skipbrotsmannaskýlis á Faxaskeri. Komst það upp sama ár og tók Eykyndill að sér að sjá um allan búnað í það og hefur gert síðan. Byggingarkostnaður var kr. 32.877,46. 1966 bjó Eykyndill húsið í Surtsey matvælum og fatnaði.
Stýrimannaskóla Vestmannaeyja hefur Eykyndill styrkt gegnum árin. Nú síðast 1982 var gefinn Sigmundsgálgi til kennslu og æfinga.
Segja má að sundlaug sé sjávarplássi nauðsyn og hefur Eykyndill bæði gefið fé og tæki í íþróttamiðstöðina okkar.

Stofnfélagar Slysavarnadeildarinnar Eykyndils heiðraðir á 50 ára afmæli deildarinnar. T.f.v.: Jórunn Guðjónsdóttir, Elínborg Sigurbjörnsdóttir, Ásta Guðjónsdóttir, Rósa Magnúsdóttir form. Eykyndils, Una Helgadóttir, Ragnheiður Jónsdóttir, Ágústa Jónsdóttir, Þórunn Sigurðardóttir, Halldóra Sigurðardóttir og Sigríður Ágústsdóttir.

Í þessi fimmtíu ár hafa komið fram ýmsar tillögur og ábendingar frá Eykyndli sem eiga við enn í dag. Á aðalfundi Eykyndils 1935 var eftirfarandi tillaga borin upp af frú Helgu Rafnsdóttur:
„Fundurinn lítur svo á að tilgangi þessara samtaka verði betur náð, ef félagið beitir sér fyrir því í orði og verki að vekja áhuga almennings á nauðsyn góðs útbúnaðar á skipum og annarra öryggisráðstafana áður en lagt er úr höfn."
Var þetta samþykkt. Á aðalfundi 1944 kom fram tillaga frá frú Sylvíu Guðmundsdóttur:
„Fundurinn samþykkir að skora á S.V.F.Í. að beita sér fyrir því eftir fremsta mætti að náin skyldmenni séu ekki í sama skiprúmi.“
Var þetta einnig samþykkt. Þessar tillögur voru orð í tíma töluð þá og svo er ekki síður nú. Eykyndill hefur verið býsna naskur á framfarir í slysavörnum. Í mars 1946 er sent bréf til S.V.F.Í. þar sem bent er á nauðsyn þess að fram fari athugun á hvort ekki sé rétt að búa fiskibáta gúmbjörgunarbátum. Nú á fimmtugasta afmælisári Eykyndils er sleppibúnaður gúmbáta aðalmálið. Þá er vert að hvetja sjómenn í dag eins og 1934 að huga vel að öllum öryggisbúnaði báta sinna og kunna að fara með hann áður en lagt er úr höfn.
Við Eykyndilskonur höfum búið við einstakan velvilja og hlýhug bæjarbúa gagnvart starfi okkar þessi fimmtíu ár og eigum þá ósk að ekki verði breyting þar á næstu fimmtíu árin.
Á 50 ára afmælisfagnaði Eykyndils, sem haldinn var 14. mars, fundum við greinilega góðviljann til deildarinnar. Bárust þá Eykyndli margar góðar gjafir og heillaóskir víðs vegar að.
Okkur til óblandinnar ánægju voru níu af tuttugu og fjórum stofnfélögum, sem enn eru hér í bænum, með okkur á afmælishófinu. Færði Eykyndill þeim örlítinn þakklætisvott fyrir fimmtíu ára starf í deildinni.
Eykyndill vill færa öllum velunnurum sínum bestu þakkir fyrir vináttu og góða samvinnu á liðnum árum. Þá vill Eykyndill hvetja sjómenn til að huga vel að sínum öryggismálum og sofa ekki á verðinum.
Að lokum sendir Eykyndill öllum sjómönnum og aðstandendum þeirra velfarnaðar- og hamingjuóskir á þessum heiðursdegi sjómanna og um alla framtíð.
Guð blessi ykkur.
Fyrir hönd svd. Eykyndils.

Rósa Magnúsdóttir.