Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1984/ Eyjapeyjar í siglingum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Friðbjörn Ó. Valtýsson


Eyjapeyjar í siglingum


Sögumaður fram á hvalbak.

Í grein þessari er ætlunin að segja lítillega frá ævintýraferð tveggja eyjapeyja með norskum flutningaskipum fyrir fjórtán árum. Peyjar þessir voru Torfi Haraldsson, viktarmaður með meiru, sómapiltur, og undirritaður.
Við höfðum heyrt talsvert mikið talað um ævintýri þeirra stráka, sem siglt höfðu með norskum skipum um heimsins höf. Það lá því beint við að reyna að redda plássi á einu slíku skipi. Að sjálfsögðu var leitað til Kidda Egils, sérlegs umboðsmanns Mowinkelútgerðarinnar í Bergen. Kiddi var snöggur að bjarga málunum, eitt símtal og plássin klár í hvelli. Guttarnir skráðir á 90 þús. tonna olíuskip og gert að mæta um borð í Le Havre í Frakklandi.
En margt fer öðruvísi en ætlað er. Við læknisskoðun í Reykjavík reyndist Torfi litblindur og ekki gengur það á útkíkkinu. Ferðinni frestað meðan leitað var að öðru plássi þar sem Torfi kæmist í vélarrúm en ég á dekk. Dæmið gekk upp og við skráðir á gamalt 20 þús. tonna olíuskip, sem hét Borga. Þar um borð voru tveir aðrir eyjastrákar, annar þeirra stórfrændi minn, af ætt Danska-Péturs, Valur í Sambó og Óli Kristjánsson. Við hittumst því allir í Kjöben, en þangað var dallurinn kominn. Að sjálfsögðu var haldið að undirlagi Torfa á heimsþekktan jassklúbb Montmartre og hlustað á ýmsa þekkta jassleikara.
Um borð í dallinum, sem var nú heldur gamall og óhrjálegur, þjónaði Torfi sem vélarmaður, en ég sem háseti af lægstu gráðu. Þarna um borð voru ýmsir eftirminnilegir kappar, þó nokkrir Spánverjar auk Nojaranna, og svo við Íslendingarnir.
Ekki átti nú fyrir okkur Torfa að liggja að verða ellidauðir þarna um borð því að eftir stutta siglingu til Amsterdam var okkur sagt að við yrðum fluttir á nýjasta skip útgerðarinnar, ms. Lista, sem þá var verið að hleypa af stokkunum. Þetta reyndist vera 25 þús. tonna bölkari, mjög fallegt skip. Við fórum um borð í skipið í smábæ í Suður-Noregi sem heitir Langesund. Lista átti eftir að reynast okkur gott heimili, um borð voru sundlaug, leikfimisalur og klefarnir mjög vistlegir.
Fyrsta ferð skipsins var með geysimikla olíuleiðslu frá Inningham á Englandi til Bonny í Nigeríu. Við komum við á Kanaríeyjum á leiðinni suður eftir, vorum þar á aðfangadag jóla.

Í góðra vina hópi.

Jólin voru haldin hátíðleg á hafi og ýmislegt gert til hátíðarbrigða. Allir fengu jólapakka frá fólki í Noregi. Allt leit þetta mjög vel út til að byrja með, reglulega hátíðlegt, snaps eftir matinn og fínt, fínt. En það var eins og kveikt hefði verið í púðurtunnu. Aldrei, hvorki fyrr né síðar, höfum við upplifað slík jól. Þetta varð ein allsherjar drykkjuhátíð. Við Torfi urðum því hálf utan gátta þessa daga. Nýja árinu var fagnað við komuna til Nígeríu. Við lágum þar úti á fljóti við ankeri. Það kom í minn hlut að standa næturvaktir allan þann tíma, sem tók að losa dallinn. Rörin voru höfð yfir á pramma úti á fljótinu og gekk það verk heldur seint. Heldur voru þessar næturvaktir leiðigjarnar, ég einn á ferli um skipið. Myrkrið kolsvart allt í kring og heldur drungalegt. Við höfðum verið varaðir við heimsóknum úr landi. Nokkur skip höfðu verið rænd og skipsmenn lamdir sundur og saman, jafnvel drepnir.

Börn sem komu á kanóum út að skipinu til að betla við komuna til Nígeríu.

Viku eftir að við komum til Bonny fengum við einmitt slíka heimsókn. Ég var á rölti fram á hvalbak, svona til að athuga hvort ekki væri allt í sómanum. Allt í einu sé ég kolsvartan haus koma upp ankerisgatið. Hann hafði klifrað upp ankerisfestina. Heldur brá mér nú við þessa óvæntu gestakomu, skil nú reyndar ekkert í því eftir á að ég skyldi ekki taka til fótanna. Ég skipaði manninum til baka sömu leið. Ekki varð hann nú við þeirri ósk minni, þess í stað réðust aftan að mér einir fimm grimmilegir svertingjar með sveðju á lofti. Eyjapeyinn reyndi máttleysislega að slíta sig lausan og öskraði eitthvað út í loftið, en það stoðaði lítið. Þeir voru greinilega ekkert hræddir við þessa norrænu hetju, ég fann þess í stað kalt stálið við hálsinn. Bundinn á höndum og fótum og keflaður að auki, lá hetjan frammi á hvalbak vaktaður af einum hinna svörtu. Þarna fékk ég að dúsa í rúma klukkustund meðan ræningjaflokkurinn sprengdi upp bakkann og stal þaðan öllum málningarlager skipsins, eitt þúsund lítrum. Í málningunni eru mikil verðmæti og var okkur sagt að hún væri ágætis gjaldmiðill. Ég var nú ótrúlega rólegur meðan á þessu stóð, en skíthræddur auðvitað. Gæslumaður minn hótaði öllu illu og ef ég reyndi einhverjar kúnstir yrði ég tafarlaust drepinn og hent í fljótið. Á þessum slóðum væri eitt mannslíf lítils virði. Þegar þeir voru búnir að koma allri málningunni fyrir í bátnum sínum söfnuðust þeir félagarnir í kringum mig og böbbluðu eitthvað óskiljanlegt. Ég beið þess sem koma skyldi. Allt í einu beygir einn gaurinn sig niður að mér með hníf í hendi. Ég lokaði augunum, bjóst við hinu versta, en blessaður blámaðurinn var þá bara að skera af mér böndin, þeir hljóta að hafa vorkennt mér svona mikið, þessir öðlingar.
Það varð að sjálfsögðu mikið uppistand um borð eftir þennan atburð. Rætt var um að vopna vaktmanninn og hafa tvo menn á næturvakt til klukkan fjögur. Það varð úr að ég var vopnaður kylfu og fékk talstöð, sem var opin upp í brú í klefa stýrimanns á bakvakt. Þá var norskur strákur með mér á vakt til klukkan fjögur. Dagarnir liðu, farið var í land nokkrum sinnum, m.a. til að keppa í fótbolta við áhafnir annarra skipa. Við vorum með hörkugott lið og unnum þessa leiki með bursti.

M/s Lista frá Bergen. Byggð í Englandi 1970. Aðalvél: Burmeister & Wain 12.500 hestöfl. Ljósavélar: 3 stk. Ruston 755 hestöfl hver. Olíueyðsla á sólarhring 30-35 þúsund lítrar. Ganghraði 15 1/2 míla. Lengd: 168 m. Breidd: 24,4 m.

Næturvaktirnar voru heldur þreytandi og ekki leið manni nú sem best seinni hluta nætur.
Hálfum mánuði eftir heimsókn ræningjanna var ég á vakt eins og venjulega. Félagi minn var farinn að sofa. Ég var á rölti um skipið er ég varð skyndilega var við hreyfingu nokkra metra frá mér. Voru þeir ekki mættir aftur, helvískir, að læðast að mér. Mér brá rosalega, öskraði í talstöðina, fékk ekkert svar og hentist upp í brú og vakti upp mannskapinn. Við gripum í tómt en fundum kaðalstiga utan á skipinu og ummerki eftir heimsóknina frammi á hvalbak. Þeir hafa því næstum hent sér fyrir borð í það skiptið. Það urðu enn meiri læti út af þessari heimsókn en hinni fyrri, yfirheyrslur og löggur úr landi. Eftir þetta urðu þessar næturvaktir hálfgerð martröð. Það var því mikill léttir að komast frá Nígeríu eftir 26 daga dvöl þar í landi.
Skemmtilegasta borgin, sem við komum í á þessum flækingi, var án efa Monrovia, höfuðborg Líberíu. Vélarbilun varð þess valdandi að við leituðum hafnar þar. Það var iðandi mannlíf í borginni, sem stendur á fallegum stað úti við sjóinn. Það var heldur dapurlegra í Gíneu, þar ríkti hernaðarástand þann tíma sem við dvöldumst þar að lesta boxit. Einhvers konar uppreisn var þá í landinu og voru vopnaðir hermenn um allt, einnig við skipið, svo að ekki var álitlegt að þvælast þar mikið um.
Frá Gíneu héldum við þvert yfir Atlantshafið til eyjarinnar St. Croix í Karíbahafi. Eyja þessi er ein Jómfrúeyja og var áður nýlenda Dana. Stærstu bæirnir á eynni heita Christianssted og Frederikssted, til heiðurs dönsku kóngunum. Hinar frægu bækur danska rithöfundarins Torkilds Hansens gerast einmitt á þessum slóðum.
Leiðir okkar lágu áfram um mörg lönd og alls staðar var eitthvað nýtt að sjá. Við vorum mjög lánssamir að geta ferðast um heiminn á þennan hátt, kynnst örlítið lifnaðarháttum annarra þjóða, upplifað mörg ævintýri og sú reynsla, sem við hlutum á þessu ferðalagi, hefur án efa aukið víðsýni okkar og þroska.
Friðbjörn Ó. Valtýsson