Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1983/ Fyrsta sjóferðin með innfæddum í Aden í janúar 1970

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Gísli Jónasson:



Fyrsta sjóferðin með innfæddum í Aden í janúar 1970


Gísli Jónasson

Ég starfaði á árunum 1970-1972 suður í Yemen á vegum FAO, Matvæla-og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þegar ég kom þangað í janúar 1970 var báturinn, sem ég átti að starfa á, ekki tilbúinn. Þá fér ég þennan róður sem hér verður sagt frá.
Formaður FAO stöðvarinnar kom að máli við mig og spurði hvort ég hefði ekki áhuga á að fara á fiskveiðar með þeim innfæddu og sjá veiðiaðferðir þeirra. „Á veiðar með þeim innfæddu?" hugsaði ég og leist ekki meira en svo vel á, hvorki bátinn né mannskapinn. „Ha, jú jú. Ég hef áhuga á því," var ég búinn að segja áður en ég vissi af. Ekki gat ég verið þekktur fyrir að þora ekki á sjóinn með þeim eða hafa engan áhuga á því. Ég átti þó að fara að kenna þessum mönnum snurpunótaveiðar og þarna var ágætt tækifæri að kynnast lifnaðarháttum og fiskveiðum þessara manna. Jú, jú ég hef áhuga á því, og þar með var það ákveðið að ég skyldi fara með þeim innfæddu á veiðar laugardagskvöldið 17. janúar og átti ég að mæta á tilteknum stað kl. 9 um kvöldið. „Dj.... sjálfur," ekki leyst mér of vel á þetta uppátæki, karlarnir hálfsvartir og skuggalegir að mér fannst og báturinn ósköp fúalegur að sjá. „Sambuk" kalla þeir þessa báta, 30 feta langir, breiðir um miðjuna en mjókka mjög til endanna, einkanlega að framan þar sem endar í langri og mjórri trjónu. „Ætli þeir hendi mér ekki fyrir borð," hugsaði ég og kjarkurinn var ekki of mikill, jú allavega ef ekkert fiskast. „Það verður þá að hafa það" hugsa ég, „eitt sinn skal hver deyja," og hætti að velta fyrir mér þeirri hlið málsins.
Senn líður að laugardagskvöldi. Ég fæ mér góða máltíð, borða vel, fæ mér bjór með matnum, gamla góða Carlsberg. Síðan hef ég fataskipti, fer í ullarskyrtu peysuna mína brúnu, sem mín góða kona hafði stungið í töskuna, þótt ég teldi það óþarfa þegar hún var að tína í hana áður en ég fór að heiman. Úti er tuttugu og þriggja stiga hiti á Celsius en hann gæti orðið kaldur með morgninum, gæti farið niður í fimmtán stig og þá er gott að vera í ullarpeysu hugsaði ég. Við 15° er orðið kalt á þessum slóðum. Þægilegasti hitinn hér er 25-30°; það fer að verða kalt þegar það fer niður fyrir 25 stig. Þetta er skrýtið, en svona er það nú samt. 15° hiti heima á Íslandi er góður hiti.
Rétt fyrir klukkan níu stend ég svo fyrir utan hótelið, á ullarpeysunni minni, og er fullheitt að vera í henni. Óðar hóa í mig einir þrír leigubílstjórar sem allir vilja fá að keyra mig, en það er mikið af leigubílstjórum þarna. Ég ætla að taka leigubíl á bryggjuna þó þetta sé ekki nema 20 mínútna gangur, en um illa lýstar götur sumar hverjar er að fara. Ekki er vert að ögra Englendingahöturunum of mikið, þeir vita ekki hvaðan maður er. Þarna spyrja allir að því fyrst hvort maður sé Englendingur, og sé maður það ekki er allt í lagi, en Aden var bresk nýlenda þar til fyrir tveim eða þrem árum. Ég tek til við að prútta við bílstjórann um verðið á ökuferðinni. „500 fils," segir hann (1000 fils=l pund). „Of mikið," segi ég og býð 250 fils. „Oh no," veinar hann og fórnar höndum. Hann slær af 50 filsum og ég bæti 50 við mína upphæð. Við sættumst á 400 fils. Ég þekki ekki skalann þeirra en hef grun um að hann sé að plata mig, ég er viss um að hann sé mér slungnari. Þetta er svartur náungi með útistandandi augu og hann samkjaftar ekki. Þið getið ímyndað ykkur hvernig svertingi með útistandandi augu, sem aldrei lokar munninum, lítur út. Hann keyrði mig nú sem leið lá á þessa bryggju þar sem þeir ætluðu að taka mig á bátnum. Þegar þangað kom var báturinn ekki kominn. Einhvern veginn leist honum ekki á að skilja mig þarna eftir, snjóhvítan Íslendinginn með ljósa hárið á hálfmyrkvaðri bryggjunni.
Hann trúði mér ekki þegar ég sagðist vera að fara út á sjó að veiða fisk með þeim innfæddu, enda enginn bátur kominn ennþá. Hann segist ætla að bíða eftir mér í hálftíma. Ég læt mér það vel líka, enda enginn bátur við bryggjuna. Hann vill endilega keyra mig til baka, en ég ætla að bíða, svo við spjöllum saman á meðan. Hann hatar Englendinga, þessi bílstjóri, eins og margir þar um slóðir, hann vill drepa þá alla. Svo vill hann endilega fá að keyra mig um á morgun og sýna mér staðinn. Ég vil fá að vita verðið á svoleiðis ökuferð. Hann kveður hana mjög ódýra, „special price for you". Hann vill hitta mig strax á morgun, en ég vil vita verðið. Þá dregur hann fram spjald með taxta fyrir leigubíla á staðnum. Ég sá að það var sem mig grunaði; hann hafði platað mig og látið mig greiða of hátt fargjald. Ég benti honum á þetta. „Allt í lagi, allt í lagi, vinur minn," sagði hann. Við sömdum uppá þetta. Jú, rétt var það, við sömdum, ekki gat ég neitað því og nennti ekki að þrasa við kauða um það, og ég sá að ég hafði tapað í þessum fyrstu viðskiptum okkar.

Höfrungar að leik
„Sambuck" að draga hringnet

Loksins kom sambukin upp að bryggjunni, korter yfir níu. Þeir voru þrír um borð og þrír aðrir menn á bryggjunni. Ég snaraði mér um borð og heilsaði körlum. „salaam aleikum," sagði ég. „Aleikum Salaam" svöruðu þeir. Arabar eru hrifnir af því ef maður gerir einhverja tilburði til að tala mál þeirra. Sama þó vitlaust sé borið fram. Þeir virða viljann fyrir verkið. Eitthvað sýndist mér slæmar heimtur á mannskap hjá karli því hann sendi strax þann yngsta upp í bæ, en hinir fóru að klæða sig í einhverja garma utanyfir það sem þeir voru í. Hálfgerðar druslur voru þetta og svo enduðu þeir með því að binda eða vefja heljarmikilli tusku um höfuðið. Alltaf voru þeir að gá upp í bæinn en stutt sást fyrir myrkri. Það vantaði tvo, sögðu þeir. Að síðustu hljóp karlinn upp sjálfur og kom að vörmu spori aftur einsamall og ekkert bólaði á þeim unga sem upp var sendur, en karl skipaði að sleppa, eða svo skildist mér því sleppt var og haldið frá bryggjunni. Þá var klukkan langt gengin tíu. Þeir voru fimm á og ég sá sjötti. Ég var að reyna að spjalla við strákana, einn af þeim talaði dálítið ensku en hinir sáralítið. Ég dró mig aftur eftir og settist á skutpallinn framan við þar sem karlinn stóð við hliðina á vélstjóranum en þeir hafa byggt kassa yfir vélina eins og þeir gera á trillunum heima í Eyjum, þeir sem ekki eru búnir að byggja stýrishús á sínar trillur.
Ég fór með mitt „Faðir vor" í hálfum hljóðum eins og ég er vanur í upphafi sjó-ferðar. Ekki sá ég neina tilburði hjá karli að biðja til Allah. Ég gaf honum gætur í laumi, en hann klappaði á öxlina á vélstjóranum og benti áfram eða aftur eftir því hvort hann vildi fá áfram, afturá eða meiri ferð. Ég fór að spjalla við vélstjórann og dást að vélinni hjá honum, hvað hún væri hrein og falleg. Hann tókst allur á loft við þetta, aumingjans karlinn, þótti hólið um vélina gott. Og satt var það, hrein var vélin og gljáandi. Líklega það eina af bátnum sem hreint var, en vélstjórinn var ekki að sama skapi hreinn. Hann var eitt olíubað frá hvirfli til ilja. Höfuðklúturinn eins og tuska sem hefur verið notuð til að skúra með upp úr olíu, og hann angaði af þessari fínu hráolíu, blessaður karlinn, ósköp mjór og þreytulegur þar sem hann sat á hækjum sér þarna í skotinu aftan við vélina. Það er alveg furðulegt hvað þeir geta látið fara lítið fyrir sér þegar þeir sitja þannig með krosslagða fætur undir sér. En góður var gangurinn í vélinni, hreinn og þýður, 30 hestafla Yamaha japönsk díselvél. Og við brunuðum út höfnina. Skipperinn stóð við stýrið á skutpallinum, gleiður og hálfboginn með mórauða prjónahúfu mikla á höfði og bar við ljósin í bænum.

Rizk-Al-Bahr að snurpunótaveiðum í Adenflóa. Rannsóknir á sardínustofninum var aðal verkefnið.
Kokkurinn á Rizk-Al-Bahr í fullum skrúða

Fljótlega sigldum við út fyrir hafnargarðinn og ljósin hurfu. Nú var eina ljósið, sem við höfðum, máninn hálfur sem lýsti þó það mikið að maður sá vel kringum sig, karlinn við stýrið og landið sem við sigldum meðfram. Stuttu eftir að við komum út fyrir hafnargarðinn á Adenhöfn fór að gefa á, ,,pusa yfir bátinn". Einna mest kom ágjöfin þar sem ég sat (að sjálfsögðu). Vélstjórinn vildi ólmur lána mér ullarteppi eitt mikið og olíublautt sem hann dró undan skutpalhnum, en ég þakkaði fyrir; ,,ask-ku-rak" sagði ég og sá að ég myndi fljótt blotna í gegnum teppið ef svona héldi áfram enda var ég nú orðinn hálfblautur í gegnum ullarpeysuna mína. Ekki var vætan köld, öðru nær, ylvolgur sjórinn, en það gæti orðið kalt síðar um nóttina ef ég væri mjög blautur, svo ég dró mig framundir fremstu þóftuna aftan við stefnið, en það var byggt yfir stefnisrúmið.
Þarna undir þóftunni lágu tveir skipsverjanna. Þar var skjól fyrir ágjöfinni. Þeir tóku mér vel og rýmdu til svo að ég kæmist fyrir þarna hjá þeim undir þóftunni. Ekki dugði þetta skjólið lengi því ágjöfin jókst. Þá teygði annar vinurinn sig fram fyrir þóftuna og náði í segl sem við breiddum yfir okkur. Seglið var bara hreint og þokkalegt, sennilega nýlegt. Annar vatt í sundur samanrúllaðan teppisstranga og lét mig hafa teppi undir höfuðið og þá fór nú að fara bærilega um mann þarna á botninum á sambukinum, utan þess hvað hann lét illa, hjó og steypti stömpum í móti stíminu.
En ekki gerði skipperinn gamli sig líklegan til þess að slá af þótt illa léti. Hann stóð þarna á skutpallinum og stýrði sínum sambuk gegn sjó og vindi út á fiskimiðin. Við þrír undir seglinu spjölluðum saman eftir bestu getu á okkar lélegu ensku að viðbættu fingramáli sem er bara nokkuð gott mál þegar tveir menn (eða maður og kona) tala saman og hvorugur kann annars tungu. Ég hafði áhuga á að vita hvað langt ætti að fara. Annar vinurinn lyfti seglinu og galaði eitthvað til karlsins við stýrið, svo hratt talaði hann að orðin runnu saman fyrir mér. En á eftir sagði hann að það væri minnst klukkutími eftir. Fljótlega færðist ró yfir okkur og sá sem var utast út til bakborða fór að draga ýsur en ég lét hugann reika liggjandi undir þóftu á arabískum sambuk með segl breitt yfir mig á leið út á haf.
Skyldi maður hafa trúað því ef manni hefði verið sagt það hérna á árunum þegar nóg síld var á Rauðatorginu og maður hafði hvað bestan aðbúnað á íslensku síldarbátunum, að maður ætti eftir að kúra við hliðina á þeldökkum araba á leið í fiskróður til þess að kynnast lifnaðarháttum og fiskveiðum araba suður í Adenflóa? Nei. Maður hefði líkt þeim manni við Vellygna-Bjarna sem hefði sagt manni svoleiðis draugasögur á þeim árum. Það fór svo sem ekki illa um mig þarna á botni bátsins við hliðina á þeim þeldökku og ég held mér hafi fest blundur á brá. Að minnsta kosti hrökk ég upp við það að karlinn hóaði og slegið var af vélinni.
Upphófst nú hinn mesti hávaði, allir töluðu í einu með tilheyrandi handapati og látum. Ég leit á klukkuna og í kringum mig. Klukkan var langt gengin í tólf og til lands var mikla ljósadýrð að sjá. Við vorum utan við borg eftir ljósunum að dæma. Vélin var stöðvuð og tekið til við að leggja netin, en við vorum á netaveiðum, eða því sem þeir kalla „gillnetting". Það er eitt net, um 800 metra langt og ca. 10 faðma djúpt. Annars fékk ég aldrei nákvæmt mál á dýptina. Þeir sögðu sitt hvað. Netið var látið reka út, einn var í flotinu og annar í grjótinu, en það voru litlir flatir fjörusteinar krossbundnir á teininn. Svert fannst mér garnið í netinu og það ófiskilegt í alla staði. Og netið rak út. Þetta var svo sem ekki ósvipað og ef reknet eða þorsknet voru látin reka út heima á Fróni. Skipperinn fór að bauka eitthvað undir einni þóftunni og kom þaðan með poka sem í var hitabrúsi. Hann hellti úr brúsanum í lokið og fékk mér. „Ask-ku-rak" sagði ég (þakka þér fyrir) þó mig langaði ekkert í kaffið hjá karli, en ekki gat ég neitað góðu boði og kannski móðgað karlinn. Hvað er hægt að bjóða betra en kaffisopann sinn? Ekki fannst mér kaffið gott, dísætt, hálftyrkneskt kaffibragð, en tyrknenskt kaffi er mjög gott ef það er ekki svona sætt, og mig hálfvelgdi við því.
Á meðan ég var að rembast við að koma kaffinu niður dró skipperinn fram færahönk undan þóftunni og renndi fyrir borð. Ekki ætlar hann að fara að skaka á meðan þeir eru að leggja netin, hann flækir færið í netunum,hugsaði ég, en karl renndi til botns og tók að faðma til baka. Þá rann upp ljós fyrir mér. Hann var að mæla dýpið og ég taldi; einn, tveir, þrír o.s.frv., allt að ellefu. Ellefu faðma dýpi. Um svipað leyti og karl var búinn að mæla dýpið ljúka þeir við að leggja, og ég kláraði kaffið mitt. „Ask-ku-rak" sagði ég og rétti karli málið. Hann fékk sér í málið á eftir en strákarnir fóru með seinna bólfærið á netinu fram á og bundu það á stefnistrjónuna. Það átti þá að láta drífa fyrir netinu.
Sambukinn sneri trjónunni upp í sjó og vind og var rólegri á eftir, það voru kannski þrjú eða fjögur vindstig og svolítil hafgola (vindbára). Nú tóku menn að hreiðra um sig undir nóttina. Þeir vöfðu sig inn í teppin sín og lögðust á botninn í bátnum. Skipperinn breiddi teppi í botninn á milli tveggja þófta og benti mér að leggjast þar. Hann lét mig hafa annað teppi til að hafa ofan á mig. Ekki vildi ég taka öll teppin af karlinum og vildi láta hann hafa annað, en hann hafði eitt eftir og kvað það nóg fyrir sig. Hann sagðist ekki mega fara að sofa fyrr en á morgun, eftir að við værum komnir í land. Mér var ennþá nógu heitt í ullarpeysunni minni enda fötin óðum að þorna utan á mér, svo ég hringaði mig á teppið og breiddi hitt yfir mig til hálfs. Ekki önguðu teppin af rósailmi heldur var lyktin af þeim þung fyrir vitum mér. En hvað þýddi að vera að setja fyrir sig lykt af teppum, um að gera að láta nú fara vel um sig og reyna að sofna. Sjálfsagt yrði ekki farið að draga netið fyrr en með birtu. Og sem ég lá þarna og horfði upp í loftið, hitti ég þá fyrir gamlan og góðan kunningja norðan frá Íslandi. Komin var þarna hátt á loft upp Orion stjörnumerkið með fjósakonurnar í belti risans Orions. Og þarna voru Rigel, Beteigauze og Sirius, skærasta fasta stjarnan á himinhvolfinu. Ekki fannst mér hún ljóma jafn skært þarna suður frá eins og ég bekkti hana frá íslensku heiðskíru vetrarkvöldi. En þarna voru þó alltaf gamlir kunningjar sem gaman var að hitta. Mannskapurinn hafði nú hreiðrað um sig hingað og þangað um bátinn en skipperinn var á stjái. leit í kríngum sig, brá vasaljósi á úrið sitt og kveikti sér í sígarettu meðan sambukinn dinglaði i bandinu eins og óþægur kálfur. Ég velti mér á hliðina og reyndi að láta fara sem best um mig, dró teppið betur yfir mig. Það var heldur tekið að kólna. Hugurinn reikaði víða. Út frá hugrenningum mínum heim til Íslands hef ég sofnað því ég hrökk upp við að báturinn kippti í bandið. Ég reis upp og leit í kringum mig. Ekkert var að sjá nema ljósin í landi og stjörnurnar á himninum. Engin skipaumferð er síðan Súesskurðinum var lokað. Við þarna einir drífandi fyrir netunum, vita ljóslausir, ekki týra uppi nema glóðin í sígarettunni hjá karlinum. Hún hefði sennilega ekki sést langt frá öðrum skipum. Ég lagðist útaf aftur, klukkan var um þrjú og ekki laust við að mér væri orðið hálfkalt svo ég breiddi teppið vel yfir mig.
Fljótlega hef ég sofnað aftur því ekki man ég fyrr en karlinn ræsir mannskapinn. Þá var klukkan hálfsex og að byrja að rofa fyrir degi. Ég rauk upp, settist upp á þóftina. Ekki flýttu karlarnir sér á fætur heldur veltu sér á hina hliðina og kúrðu sig betur niður. Karlinn fór í hitabrúsann sinn og rétti mér málið fullt af kaffi. Ekki fannst mér kaffið jafnvont og kvöldið áður. Þetta var bara hressandi sopi í morgunsárið. En karlinn settist út á lunningu. Nú hlaut hann að fara að biðjast fyrir. Ég hafði heyrt að þeir bæðust alltaf fyrir um sólaruppkomu og sólsetur og nú fór að líða að því að sólin færi að gægjast upp.

Fiskimjölsverksmiðja í Múkalla í uppbyggingu

Ég drakk kaffið mitt og fylgdist með karli í laumi. Ekki gerði hann sig líklegan til bænaathafna. Ég lauk við kaffið mitt og þakkaði fyrir mig, en karlinn kallaði í mannskapinn í annað sinn og risu þeir nú upp og gengu beint í að draga bólfærið. Þeir fengu sér hvorki vott né þurrt allan róðurinn og var kaffibrúsinn karlsins það eina sem ég sá af þess háttar í róðrinum. Fyrst var bólfærið dregið fram á, og með stefnið á bátnum upp í vindinn, en hann hafði lægt mjög og var nú rétt gola. Þegar kom að netinu fóru þeir með korkateininn aftur í skut þar sem skipperinn sat á hækjum sér og dró korkið. Sá fremsti dró steinateininn og vélstjórinn handlangaði korkteininn fram í rúmið þar sem netið var dregið inn. Við hinir röðuðum okkur á garnið. Þetta var ekki ólíkt því og forðum að draga á síldarvertíðum fyrir norðan þegar nótin var dregin á höndum inn í nótabátinn. Fyrst komu nokkrir kuðungar, litlir með horn út úr sér á alla kanta, þeir vildu loka netinu. Síðan komu hauslausir humarhalar (sandlobster). Þeir voru eins og íslenski humarhalinn í laginu nema miklu stærri og létu þeir mjög illa, svo að vont var að greiða þá úr. Síðan kom fyrsti fiskurinn, „Blue fin" túnfiskur og síðan hver fiskurinn af öðrum og glaðnaði nú heldur betur yfir körlum því veiðin virðist lofa góðu. Fiskarnir voru greiddir úr netinu jafnóðum og þeir voru innbyrtir. Karlarnir rauluðu stöðugt fyrir munni sér meðan á drætti stóð. Ekki náði ég því sem þeir rauluðu þó ég reyndi að raula með þeim og vakti það kátínu hjá þeim því sjálfsagt hefur framburðurinn verið eitthvað skrytinn hjá mér. „Danger, danger" (hætta, hætta), hrópuðu þeir í kór þegar inn kom sex til átta tommu langur fiskur í netið þar sem ég var að draga næst blýteininum. Einn þeirra tók um hausinn á fiskinum og greiddi hann úr, síðan sýndi hann mér eitrað bein bak við bak- og hliðaruggana. „Hætta, dauður eftir sólarhring," sagði hann; síðan fleygði hann fiskinum fyrir borð. Tveir aðrir samskonar fiskar komu inn og eitt lítið kvikindi, grátt og loðið, sem einnig var eitrað. Þeir fylgdust vel með því, karlarnir, að láta mig ekki káfa á fiskunum ef þeir voru hættulegir. Ég hjálpaði við að draga inn netið og greiða úr. Þeir virtust hafa vel vit á því sjómennirnir þarna, að draga netið jafnt svo drátturinn yrði sem léttastur. Mér varð tíðlitið til belgsins á netendanum en hann smá þokaðist nær og jafnframt hækkaði í fiskirúminu. Loksins kom endinn inn og var sólin komin hátt á loft og farið að hlýna og alveg komið logn. Nú tóku þeir til við að snúa vélinni í gang en eitthvað var hún þung því ekki lét hún sig fyrr en þriðji og sá sterkasti reyndi, þá fór hún í gang.
Var nú stefnan tekin í átt til Aden. Hálfs annars tíma stím meðfram fjöllóttu gróðursnauðu landi. Ekki urðum við varir við aðra fiskibáta fyrr en rétt áður en við komum að hafnargarðinum. Þar voru þrír litlir bátar með utanborðsvél. Þeir voru að veiða sardínu með kastneti. Til hafnar komum við um tíuleytið um morguninn eftir velheppnaða sjóferð og góðan afla að þeirra sögn. Þegar eftir að lagst var að bryggju var túnfiskurinn borinn á land og settur í skottið á Austin drossíu, ekki ólíkri þeirri sem hann Jón Berg átti þegar við vorum í Stýrimannaskólanum 1958. Þegar skottið var fullt var aftursætið tekið úr bílnum og fiskurinn látinn þar inn, og það passaði, þegar aflinn var kominn upp var bíllinn að sligast undan öllu saman og fiskurinn farinn að renna fram í bílstjórasætið. 96 túnfiskar reyndist aflinn og þótti góður fengur, 8-10 kg hver fiskur. Ég kvaddi karlinn ánægður yfir ferðinni, en hann bauð mér að koma með aftur þegar hann skipti um veiðarfæri og tæki hringnet, en það nota þeir þegar tunglið er ekki á lofti og nótt er myrk. Þá sjá þeir fiskitorfurnar eins og maurildi og geta kastað í kringum torfuna þessum netum; síðan er farið inn í hringinn og fiskurinn fældur í netið. Þetta eru sömu netin og þeir drífa fyrir í anna tíma.

Ég átti síðar eftir, á næstu þremur árum, að hafa gott samstarf við þessa sjómenn. Þetta eru dugnaðarsjómenn, ef þeir fá borgað fyrir vinnuna sína, annars ef kaupið er lítið fæst lítil vinna út úr þeim.
Gísli Jónasson