Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1983/ Fangalínugerð Þórðar Stefánssonar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Arnmundur Þorbjörnsson
Snúningsrokkurinn í Trabantinum
Doddi við vélina, riðillinn kemur af spólunum og í gegnum valsana
Fangalínugerð Þórðar Stefánssonar


Í húsi Þórðar Stefánssonar við Faxastíg 2a hér í bæ, fer fram allsérstæð framleiðsla á landfestartógi sem er búið til úr þorskanetariðli.
Upphaf þess er að Þórður, (alltaf kallaður Doddi) sem var skipstjóri og útgerðarmaður, varð skyndilega veikur árið 1956 og varð að fara til aðgerðar í Danmörku. Þegar Doddi kom aftur heim eftir þá aðgerð var hann blindur og talsvert lamaður. Þetta var auðvitað mikið áfall fyrir harðduglegan og vaxandi aflamann.

Hönnuðurinn íbygginn á svipinn, horfir yfir vélina

Ég sem þessar línur skrifa var sameignarmaður Dodda síðustu árin. Doddi var góður félagi, harðduglegur og ósérhlífinn. Þegar Doddi fór að hressast var strax farið að hugsa um hvað hægt væri að gera og hvort eitthvað væri að gera fyrir blindan mann. Var þá helst hugað að ýmsu sem við kom útgerð. Útgerðarmenn í Vestmannaeyjum tóku þessu vel og 1958 fór Doddi að setja upp línu og hnýta á tauma.
Þegar Doddi talar um þessi ár er hann mjög þakklátur þessum mönnum sem hjálp-uðu honum á þessum erfiðu árum.
Er Doddi var skipstjóri sá hann, eins og fleiri, bát Ingólfs Theódórsonar, m/s Sæbjörgu, bundna við bryggju með allsérstæðu tógi úr þorskanetariðli. Er Ingólfur sennilega fyrstur að búa til landfestar úr þessu efni. Nú kom sú hugsun upp hjá Dodda að reyna þetta og reyndust faðir Dodda, Stefán Erlendsson, og bróðir hans, Erlendur, honum miklar hjálparhellur í þessu.
Fyrst var byrjað með því að nota trabantstation bíl sem þeir feðgar áttu, og var snúningsrokkur settur fyrir innan afturhurðina. Þá varð að vera úti við þessa vinnu því þetta þurfti svo mikið pláss, um 20 faðmar frá trabantinum og í staur við hinn endann. Þetta var heldur ekki hægt að gera nema í góðu veðri.
Það var svo Elli, bróðir hans, sem fór að hugsa um að búa til vél svo Doddi gæti verið inni við að búa til þessi tóg. Þetta tókst honum, og svo vel að þessi vél, sem er búin að ganga nú í rúm 20 ár, og er smíðuð að mestu leyti af hinum mikla völundarsmiði, Guðjóni Jónssyni í Magna, framleiðir nú helmingi sverari tóg en þegar byrjað var á þessari framleiðslu.
Doddi þarf að hafa með sér sjáandi fólk til að greiða í sundur slöngurnar svo hann geti vafið þær upp á spólurnar. Fyrst var faðir hans með honum. Hann var asmasjúklingur og var með Dodda svo lengi sem hann gat unnið. Síðan hafa ýmsir unnið með honum við þetta og er Doddi mjög þakklátur því fólki sem með honum hefur verið.
Í fyrstu voru það aðallega útgerðir í Vestmannaeyjum sem keyptu þessi tóg, en eftir að höfnin varð svo góð, sem raun er á orðin, hefur Doddi fengið góða sölumenn víðsvegar á landinu. Í Þorlákshöfn hefur Gísli Guðmundsson netagerðamaður verið aðalsölumaðurinn og hefur mikið verið selt í höfnina. Hafa útgerðarmenn tekið þessu tógi vel. Allstaðar hafa þessi tóg reynst vel og ættu útgerðarmenn að athuga það, að það er enginn svikinn að binda báta sína með fangalínum frá Dodda.
Þegar maður kemur til Dodda og sér hann við vélina og allt í gangi, er maður hissa á því að blindur maður geti stjórnað þessu öllu. En það er sannarlega allt í lagi hjá Dodda. Þessu var öllu haganlega komið fyrir og hann stjórnar þessu öllu sjálfur. Hjá Dodda mætir manni ekki biturleiki, þrátt fyrir mótlæti í lífinu, heldur talar hann um hvað menn hafi alltaf verið tilbúnir að hjálpa sér og fyrir þetta er hann afar þakklátur. Við sem þekkjum Dodda vitum hvað hin mikla guðstrú Dodda hefur hjálpað honum í erfiðleikum hans.
Það er útgerðarmönnum í Vestmannaeyjum og annars staðar á landinu til mikils sóma hvernig þeir hafa tekið framtaki Dodda. Og þeir verða ekki sviknir af handaverkum hans.

Menn fylgjast með þegar Trabantinn er að snúa saman riðilinn. Fremst á myndinni er faðir Dodda (með gleraugu)
Doddi við rúllu sem er tilbúin til kaupenda

Arnmundur Þorbjörnsson