Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1982/Loftskeytastöðin í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Loftskeytastöðin í Vestmannaeyjum


Á þessu ári er loftskeytastöðin í Vestmannaeyjum 60 ára, samkvæmt umburðarbréfi landssímastjóra, O. Forberg. Var Vestmannaeyjaradíó formlega tekið í notkun 22. feb. 1922. Er því vel við hæfi að minnast þessara tímamóta lítillega.

Upphaf radíó-fjarskipta

Fyrstu radíó-tækin voru sett upp á Íslandi árið 1905, þegar baráttan fræga stóð um, hvort heldur ætti að taka upp á Íslandi sæsíma eða þráðlaust samband. Voru þessi radíótæki aðallega til að ná fréttaskeytum frá Írlandi. Þegar sæsíminn varð ofan á, voru þau tekin niður, sama árið.
Fyrsta loftskeytastöð til viðskipta við skip var reist í Reykjavík árið 1918. Þá þegar voru komin Íslensk skip með loftskeytatæki. Loftskeytastöðin Reykjavíkurradíó hóf formlega starfsemi sína 17. júní 1918.
Önnur lítil loftskeytastöð var reist í Flatey á Breiðafirði árið 1919, en Flatey var þá mikið uppgangspláss. Þótti dýrt að leggja sæsíma þangað og var því horfið að því ráði að reisa loftskeytastöð til að leysa fjarskiptamálin þar, aðallega með fjarskipti við land fyrir augum. Tækin, sem voru notuð þar, voru úr fyrsta skipinu, sem fékk loftskeytatæki á Íslandi, e/s Goðafoss, er hafði strandað við Straumnes árið áður.
Vestmannaeyjaradíó var þriðja loftskeytastöðin, sem sett var upp á Íslandi.
Sæsíminn milli lands og Eyja bilaði oft, og varð því horfið að því ráði að byggja loftskeytastöð, var hún fullsmíðuð árið 1921, en var seinna endurbætt mjög verulega, fékk til dæmis taltæki, og var eins og áður sagði, formlega tekin í notkun árið 1922.

Árni Árnason símritari hóf störfhjá Landsíma Íslands árið 1919 og fœr lausn frá störfum árið 1961 sökum veikinda. Hér sést hann við Morse-afgreiðslu er var algengasti afgreiðslumátinn áfyrstu árum fjarskiptanna.

Fyrstu skipin með loftskeytatæki

Árið 1915 fengu e/s Goðafoss og sama ár e/s Gullfoss fyrst íslenskra skipa loftskeytatæki. En þróunin var hæg, og árið 1921 voru aðeins 17 íslensk skip búin loftskeytatækjum. Af þessum skipum voru 4 farþegaskip, 12 togarar og eitt björgunarskip (Þór) og hafði aðeins eitt þeirra taltæki.
Í óprentuðu handritabroti Árna heitins Árnasonar símritara er áður vann á Vestmannaeyjaradíói, en handrit hans eru nú í vörslu Skjalasafns Vestmannaeyja, segir frá því, er fyrsti íslenski mótotbáturinn fékk talstöð. Var það árið 1927. Þá lét Gísli J. Johnsen smíða báta í Danmörku. Hét sá fyrsti Heimaey. Þá segir ennfremur í handriti Árna (eftir Gísla J. Johnsen sjálfum):
,,Á ferðum mínum erlendis hafði ég kynnst talstöðvum, en hafði aðeins séð þær í stórum skipum. Ég hafði lengi brotið heilann um það hvernig best væri að auka öryggi sjómanna. Og þarna sá ég tæki sem hlaut að vera gott fyrir báta sem skip. Þar var öryggið sem ég var að leita að. Ég keypti því talstöð hjá firmanu M.P. Pedersen og lét setja í m/b Heimaey."
Útbreiðsla talstöðva í mótorbátana gekk hálf illa fyrst í stað, eins og nokkuð má marka af ályktun er Slysavarnadeildin Eykyndill í Vestmannaeyjum gerði árið 1936 á aðalfundi sínum og miklar umræður urðu um. Þar segir, að deildin vilji stuðla að því að talstöðvar komist í sem flesta báta, svo fljótt sem auðið verði. Einnig samþykkir Bátaábyrgðarfélag Vestmannaeyja árið 1937 að veita hverjum vélbátaeiganda lán að upphæð kr. 400,- til kaupa á talstöð í bátana. Ýmsu má um kenna að menn voru ekki allir búnir að tileinka sér þessi tæki. Skiptir eflaust miklu máli að heimskreppan mikla 1930 var ný gengin yfir. Hún hafði líka sín áhrif í Eyjum.
En fljótlega urðu þessi tæki samt almenn, og í dag fá skipin ekki haffærisskírteini nema talstöðin sé í lagi, svo mikilvæg eru þessi tæki talin.

Sigurjón Jónsson símritari, starfaði á TFV frá l946 til 1961 en fluttist þá til Reykjavíkur og hóf störf hjá Loftleiðum sem loftsiglingafrœðingur/loftskeytamaður. Vinnur nú við Flugumsjónhjá Flugleiðum
Marinó G. Jónsson símritari á Vm-radíói 1926-1946. Vann síðar hjá Landsíma uns aldurstakmörkunum var náð

Tækjabúnaður þá og nú

Jónas Sigurðsson frá Skuld, nœturvörður á Vm-radíói frá 1942-1960, síðar húsvörður Gagnfrœðaskólans

Fyrstu tækin á Vestmannaeyjaradíói voru Marconi-sendir, 0,5 kw lampastöð, og var hann einnig gerður fyrir tal. Loftnetsmöstrin voru úr tré, 110 feta há, reist rétt norðan við símstöðina. Langdrægni var ekki mikil á nútímamælikvarða. Seinna komu nýrri og betri tæki. Árið 1959, þegar undirritaður hóf vinnu á Vestmannaeyjaradíói, var aðalsendirinn TCR, stríðsframleiðsla, ágætt tæki en lítill styrkur, rúmlega 100 w. Þá þótti gott að geta haft samband við skip niður að Færeyjum og var þá oftast haft samband við m/s Gullfoss, þegar hann var kominn á Færeyjabanka.
Núna eru nýlegir sendar á miðbylgjusviðinu fyrir SSB og langdrægni miklu meiri, 1000-1500 mílur og við góð skilyrði höfum við haft samband við skip niður við Afríkustrendur.
Á þessum fyrstu árum var afgreiðslan við skipin aðallega á morsi, og heldur minna á tali, og þá svo til eingöngu á miðbylgjusviðinu. Nú er miklu minna afgreitt á morsi, aðallega á stuttbylgju. Ennþá er unnið á miðbylgjum, en síðan um síðustu áramót eingöngu á SSB og er mikil framför. Var öllum loftskeytastöðvum, sem ekki voru með SSB, hent, ekki aðeins hér á Íslandi heldur í öllum heiminum. Þess ber að geta að unnið hefur verið að því allsstaðar í heiminum að færa öll loftskeytaviðskipti yfir á SSB undanfarin ár.
SSB er skammstöfun: Single sideband, eða einfalt hliðarband og gerir það að verkum að ekki er hægt að hlusta á skipin á venjuleg viðtæki, það eykur jafnframt langdrægni stöðvarinnar að miklum mun.
Menn gátu hér á árunum látið setja bátabylgjusvið á útvarpstækin sín og var algengt að slíkt væri gert hér í Eyjum. Núna þurfa menn sérstaka móttakara ef þeir ætla að hlusta á bátabylgjuna. Einnig er annað tilkomið, sem ekki var þá, en það er örbylgja VHF. Má segja að öll skip á Íslandi séu með þau tæki, en notkun þeirra hófst um árið 1970 hér á landi. Var þá ekki reiknað með að önnur en stærstu skip fengju sér örbylgju. Nú er svo komið að jafnvel smæstu fleytur eru með örbylgjustöðvar, og má segja að viðskiptin hafi að miklu leyti færst yfir á þetta svið við strendur landsins.

Jón Stefánsson nœturvörður á Vm-radíói frá 1960-1979 nú vaktmaður á Togurum Samtogs í Eyjum
Hjálmar Guðnason símritari á Vm-radíói frá 1962-1978. Er nú kennari við Tónlistarskólann og kapteinn á Bravó
Jón Kr. Óskarsson símritari frá 1964-1973. Starfar nú á Ritsímanum í Reykjavík

Starfsemin

Starfsemi Vestmannaeyjaradíós sem og íslensku strandstöðvanna, miðast fyrst og fremst við öryggissjónarmiðið. Tekjur stöðvanna nægja aldrei fyrir kostnaði. En arðsemi eða tekjur eru hugtök í bókhaldi. Oft er erfitt að gera fylgiskjöl, sem hverju bókhaldi er nauðsyn. Svo væri t.d. ef tekst fyrir tilstilli strandstöðvarinnar að bjarga mannslífi, eða skipi. Það er nokkuð sem aldrei kemur í bókhaldið. Svo segja hinir bókhaldsvísu menn: Það er bullandi tap á radíóinu. Við bara færum þetta annað!
Eðlilegast væri að íslenska ríkið, þ.e. þjóðin öll, ræki strandstöðvarnar beint líkt og gert er víða erlendis, en ekki aðeins símnotendur, þ.e. Póstur og sími. Á hverjum degi eru afgreidd samtöl frá skipunum til lands, skilaboð, fyrirspurnir, tilkynningarskylda, skeyti og sömuleiðis frá landi til skipanna, smárra og stórra.
Alltaf er hlustað á neyðar- og kallbylgjurnar 2182 khz á miðbylgju og á rás 16 á örbylgjusviðinu, 24 tíma hvern sólarhring, 365 daga ársins. Þegar Vestmannaeyjaradíó tók til starfa, var hlustað í 10 mínútur hvern klukkutíma frá kl. 08 á morgnanna til kl. 21 á kvöldin. Opnunartími stöðvarinnar lengdist fljótt, þannig að opið var allan daginn.
Lengi stóð í stappi að fá næturvörð á loftskeytastöðina. Jónas Sigurðsson var fyrsti næturvörðurinn og tók hann til starfa árið 1942. Greiddi Björgunarfélag Vestmannaeyja laun hans fyrst í stað, að öllu eða einhverju leyti. En síðar var hann skipaður fastur starfsmaður.
Á fyrstu árum stöðvarinnar voru verðurskeytin, veðurspá og veðurlýsing hengd út í kassa á útvegg stöðvarinnar. Núna eru þau lesin á vinnutíðnum hverja nótt kl. 01.33 og 05.03. Einnig sjáum við um að taka á móti veðurlýsingu frá Stórhöfða á þriggja tíma fresti allan sólarhringinn og senda inn á tölvu Veðurstofunnar. Mjög áríðandi er að þetta gangi snurðulaust fyrir sig, en þessi veðurlýsing er ein af fjórum á Íslandi sem er send út um allan heim.
Árið 1963 hóf Vestmannaeyjaradíó að afgreiða fiskibátana beint á bátabylgjunni 2311 khz og tók þá á móti tilkynningu um komutíma bátsins og skilaboð ef einhver voru. Reyndist þetta vel og má segja að þetta hafi verið fyrsti vísirinn að tilkynningarskyldu á Íslandi. En eftir sjóslys, er varð á síldveiðum langt norður í höfum, voru samþykkt lög á Alþingi um tilkynningarskyldu íslenskra skipa. Segir þar í fyrstu grein: ,,Öll íslensk skip önnur en varðskip sem búin eru talstöð, skulu tilkynna" o.s.frv.
Talstöðvarnar urðu strax mikilvægur hlutur í búnaði hvers báts, og eru sennilega einhver mikilvægustu björgunartæki hvers skips, ásamt mörgum öðrum, enda hefur þróunin orðið mjög ör í þessari tækni. Varla er hægt að bera saman tækin, sem voru í notkun fyrir 30 árum, og þau sem notuð eru núna.
Þegar menn fóru að geta haft samband við land og sín á milli á miðunum, jókst notkun þessara tækja mjög fljótt.
Á flestum heimilum í Vestmannaeyjum á árunum eftir 1950 var búið að breyta útvarpstækjunum þannig að hægt væri að hlusta á „bátabylgjuna" sem kölluð var. Útvarpsvirkjarnir í Vestmannaeyjum létu jafnvel verksmiðjuframleiða þá hluti, sem til þurfti. Útvarpstæki var í hverjum beituskúr, hverjum vinnustað, sem eitthvað var tengdur sjósókninni. Verslanir við Strandveginn fengu sér jafnvel tæki. Þetta varð til þess, vegna þess hve margir hlustuðu, að farið var að nota hin svokölluðu blindköll, og treyst á það að viðkomandi aðilar heyrðu og skildu skilaboðin. Í stað þess að tala beint í gegnum strandstöðina, bæði til að spara nokkrar krónur, og líka vegna þess, hve þessar talstöðvar voru erfiðar í notkun, miklar stillingar fyrir óvana menn, notuðu menn þessa aðferð til þess að koma frá sér skilaboðum, þótt misjafnlega tækist oft til. Kunna margir eldri Vestmanneyingar margar skemmtilegar sögur um þetta.
Ein var sú, að einn góður skipstjóri talaði við annan á bátabylgjunni og sagði honum að sig vantaði krana, er í land væri komið, og ætlaðist náttúrulega til að þessi skilaboð kæmust rétta boðleið. Vissulega gerðu þau það. Reddarinn í landi pantaði umsvifalaust krana með kranamanni og öllu tilheyrandi, hélt að spil bátsins væri bilað og hann þyrfti krana til að landa aflanum. Er til kom reyndist þetta vera krani á olíutunnu, og fer engum sögum af hver þakkaði hverjum viðvikið.
Tóti í Turninum kann eflaust margar góðar sögur af þessum viðskiptum en í Turninum gamla var talstöðvarmóttakari, og mikið hlustað á bátana. Væri leitt til þess að vita ef þessi sérstæði kafli í útgerðarsögu Eyjanna týndist.
Með nýrri tækni hefur þetta horfið, nú eru flest skip búin VHF örbylgjutækjum, og viðskiptin orðin mest öll á örbylgju.
Nú hringja menn utan af sjó, bæði í útgerðarstjóra og kærustur, og þykir engum mikið, enda sjálfsagt mál á þessari tækniöld, og konurnar hringja á loftskeytastöðina til þess að frétta af bátunum, eða á Vigtarnar, eða þá þær panta samtal við skipið, hvort sem það er á Eyjamiðum eða langt úti í heimi.
Enn er þó ein tegund viðskipta Vestmannaeyjaradíós ótalin, og er það tilkynningarskyldan. Eins og áður sagði ber öllum skipum, samkvæmt lögum, að tilkynna brottför úr höfn, komu til hafnar og einu sinni til tvisvar, eftir árstíma, að tilkynna staðarákvörðun sína. Allar þessar tilkynningar eru sendar á telex til miðstöðvar tilkynningarskyldunnar í Reykjavík. Þessar sendingar urðu rúmlega 29.000 á síðasta ári hjá Vestmannaeyjaradíói. Á þessu ári bætast væntanlega við um 30 bátar hér í Eyjum sem koma inn í þetta kerfi. Þeir eru að vísu litlir, en mannslífið er alltaf jafnmikilvægt, hvort sem skipið er stórt eða lítið.
Margt er eflaust ótalið í þessum sundurlausu línum um Vestmannaeyjaradíó og viðskiptin þar. En nú skal látið staðar numið. Ég vil nota tækifærið og óska öllum sjómönnum til hamingju með sjómannadaginn og þakka þeim fyrir ánægjuleg samskipti á undanförnum árum.
Skrifað á vetrarvertíð 1982 Kjartan Bergsteinsson
Vestmannaeyjaradíó/TFV.