Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1982/Hjálparsveit skáta Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Hjálparsveit skáta
Vestmannaeyjum



Hjálparsveit skáta í Vestmannaeyjum var stofnuð 6. ágúst 1965. Aðdragandi þeirrar stofnunar var sá að þess var farið á leit við eldri skáta í Skátafélaginu Faxa að þeir sinntu fyrstu skyndihjálp á þjóðhátíð þetta árið og aðstoðuðu þjóðhátíðargesti ef með þyrfti. Það varð úr og var ákveðið að koma upp Hjálparsveit skáta. Þarna kviknaði fyrsti neistinn sem er orðinn að styrkum loga, áhuga og vilja. Síðan hefur sveitin aukið starfsemi sína jafnt og þétt með ötulli vinnu og hlotnast gjafir frá ýmsum aðilum, sem komið hafa í góðar þarfir.
Nú eru virkir félagar um 30, en um 45 menn og konur eru skráð í H.S.V. Frá upphafi hafa um 90 manns starfað með H.S.V.
Megintilgangur og markmið sveitarinnar er að stunda almenna björgunar-, leitar- og hjálparstarfsemi þegar mannslíf eða verðmæti eru í hættu.

Æfing í Heimakletti
Sig í skiphellum
Lagt af stað á Fimmvörðuháls

Á síðastliðnum 16 árum hefur mikið vatn runnið til sjávar. Fyrstu árin voru erfið, en árangursrík. Stofnfélagar byrjuðu með tvær hendur tómar, en fullir áhuga og létu ekki bugast. Gegnum árin hafa húsnæðismál sveitarinnar verið í ólestri, og er svo enn.
Fyrstu árin átti sveitin lítinn útbúnað, en það varð mikil breyting á 1971, þegar henni var gefinn 14 feta plastbátur. Skömmu síðar fékk sveitin styrk til að kaupa utanborðsmótor fyrir bátinn. Nú er sveitin allvel búin til björgunarstarfa. Hún hefur á að skipa velbúnum fjalla- og björgunarbílum.
Sveitin á björgunarbát og línubyssur til björgunar úr sjávarháska. Smærri útbúnað á sveitin góðan, þar á meðal gott safn af kortum og sjúkraútbúnaði ásamt fullkomnum útbúnaði til fjallaferða.
Segja má að fjarskiptamálum Hjálparsveitarinnar sé borgið í bili, því að á síðasta ári var ráðist í það stórvirki að endurnýja öll fjarskiptatæki sveitarinnar. Keyptar voru V.H.F. stöðvar í stjórnstöð í bíla og fyrir leitarhópa.
Til að viðhalda góðri endurnýjun í sveitinni eru teknir inn nýliðar til reynslu í 3 mánuði, en lágmarksaldur er 16 ár. Á reynslutímabilinu gangast þeir undir ýmis námskeið á vegum sveitarinnar. Nú hefur sveitin á að skipa kennurum í skyndihjálp og leitarstjórn. Þessa menntun hafa viðkomandi hlotið í Björgunarskóla Landssambands hjálparsveita skáta (L.H.S.), sem H.S.V. á aðild að, og er einnig stofnaðili að L.H.S. Félagar H.S.V. hafa klifið fræg fjöll í Ölpunum, Afríku og á Íslandi, og með því móti hlotið haldgóða reynslu. Ferðalög utan lands og innan eru stór þáttur í æfingarplani sveitarinnar, með þeim næst góður félagsandi, sem er nauðsynlegur í öllum félögum.
Á þriggja mánaða fresti er gefin út starfsáætlun, sem starfað er eftir, og á henni eru meðal annars fundir, helgarferðir, dagsferðir og ýmis námskeið. Einnig ber að geta sameiginlegra æfinga L.H.S. sem sveitin hefur tekið þátt í og stjórnað. Vert er að minnast á hinar árlegu sjúkraþjónustu, sem sveitin innir af hendi á hverri þjóðhátíð. Um 3.500 manns hafa þegið aðstoð sveitarinnar á þjóðhátíðum frá upphafi.
Helsta fjáröflunarleið sveitarinnar er flugeldasala, sem fram fer um hver áramót. Að framansögðu má sjá að á þessum 16 árum hefur verið starfað ötullega að uppbyggingu sveitarinnar. Stundaðar hafa verið æfingar, tekið þátt í mörgum leitum og sinnt öðrum útköllum. Félagar sveitarinnar eru því ávallt reiðubúnar til hjálpar, ef til þeirra er leitað.
Okkar kjörorð er að verða að gagni ef eitthvað bjátar á.
Sjómenn, megi gæfa og farsæld fylgja ykkur í starfi.

Með bestu kveðju,
Hjálparsveit skáta Vestmannaeyjum.

Í Þórsmerkurferð