Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1981/Hugleiðingar um vetrarvertíðina
Eins og venjulega á sjómannadegi er vetrarvertíð nýlokið. Þessa vertíð einkenndi fyrst og fremst mikil stórviðri lengst af og lengsta aflahrota sem menn muna eða frá 28. mars til netaloka 8. maí.
Sjósókn var mjög erfið, en ótrúlega mikill fiskur náðist á land við erfið skilyrði. Besta vertíð hvað aflamagn varðar í mörg ár og okkar gömlu góðu mið hér í næsta nágrenni brugðust svo sannarlega ekki.
Á þessari nýliðnu vertíð hefur örugglega mætt mikið á sjómannastéttinni vegna hinna tíðu stórviðra. Skipstjórnarmenn hafa alla daga þurft að sýna fulla aðgæslu og aðgát. Ég veit að þar hefur stöðug árvekni þurft að vera í fyrirrúmi til að forða slysum og oft hefur þurft að sýna mikla sjómennskuhæfileika, vit, þekkingu og reynslu. Þegar ég hugsa til þessarar vetrarvertíðar lýsi ég aðdáun minni á þessum mönnum fyrir hinn mikla afla, sem þeir fluttu að landi og fyrir hve áfallalítil þessi erfiða vertíð var, ef tillit er tekið til hins erfiða veðurfars.
Í þessu Sjómannadagsblaði er þeim þakkað, sem komu skjótt til hjálpar, þegar neyð blasti við hjá meðbræðrum á sjónum.
Þótt björgun tækist ekki alltaf við þess háttar aðstæður er það vissa mín að þeir sem að björgunartilraununum stóðu hverju sinni gerðu allt sem í mannlegu valdi stóð, til hjálpar.
Ættingjum ungu sjómannanna, Alberts Ólasonar og Guðna Guðmundssonar, sem fórust þegar Heimaey fékk á sig brot, áður en hún rak upp í Þykkvabæjarfjöru, sendi ég dýpstu samúðarkveðjur.
Ég hugsa líka í Garðinn til fjölskyldna æskuvina minna héðan úr Eyjum, bræðranna Bjarna og Jóels Guðmundssona frá Háagarði, sem fórust með báti sínum Báru. Þar fórust langt um aldur fram miklir og gætnir sjómenn, sem voru á góðum og velbúnum báti, eins og allt var hjá þeim.
Ég sendi ættingjum þeirra dýpstu samúðarkveðjur.
Friðrik Ásmundsson