Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1980/Verkleg sjóvinna
Verkleg sjóvinna
Það hefur oft verið um það rætt manna á meðal að skólarnir tengdust atvinnulífinu í landinu ekki nægilega og er það bæði satt og rétt. Sá skóli sem ekki gefur nemendum sínum innsýn í það þjóðlíf og samfélag, sem nemendurnir eiga að lifa í, er enginn skóli. Á undanfömum árum hafa augu manna lokist upp fyrir því hver nauðsyn er að tvinna þessa þætti saman við hið eiginlega skólanám og efla þátt hinna verklegu greina í skólunum.
Í vetur var gerð hér tilraun í tveimur bekkjum grunnskólans í þessum dúr og tekin upp kennsla í sjóvinnu í sjálfum skólanum en áður höfðu netaverkstæðin hlaupið undir bagga með 9. bekk, þar sem greinin hefur verið valgrein undanfarin ár. 7. bekk var einnig gefinn kostur á að nema þessa grein og virðist áhugi mikill ríkja þar fyrir slíku námi. Kennslu í þessum greinum annaðist í vetur sá sem hefur ritstjóm þessa blaðs á hendi og má segja að hér hafi fremur verið um tilraun að ræða, hvort unnt væri að færa þessa kennslu inn í skólana, heldur en skipulagt nám. Kennsluaðstaða var langt frá því að vera góð enda aðeins hugsuð til bráðabirgða. Verklega kennslan fór fram í gamla leikfimisalnum í Barnaskólanum en bókleg kennsla 9. bekkjar í siglingafræði uppi á háalofti í Gagnfræðaskólanum.
Þrátt fyrir ýmsa annmarka í framkvæmd þessarar kennslu í vetur, hefur ýmislegt lærst af reynslunni og er í ráði að halda áfram á sömu braut næsta vetur og reyna þá að skapa betri aðstöðu til námsins. Þá hafa verið uppi hugmyndir um að tengja námið ýmsum þáttum utan skólans t.a.m. beitningu. Sigurgeir Jónasson smellti í vetur nokkrum myndum af áhugasömum ungum mönnum við sjóvinnu og siglingafræðinám.