Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1980/Nýjungar í atvinnulífi Vestmanneyinga
Nýjungar í atvinnulífi Vestmannaeyinga
Oft hefur verið á það minnst að auka þyrfti fjölbreytni í atvinnulífi okkar og skapa fleiri tækifæri í atvinnu fólks. Óþarfi er minna hér á skipalyftuna sem nú virðist loks hilla undir að verði að veruleika og á áreiðanlega eftir að verða mikil lyftistöng fyrir þjónustugreinar sjávarútvegsins hér. En það er einnig gleðiefni að geta bent á nýjar greinar í atvinnulífinu, greinar sem skotið hafa upp kollinum hér á síðustu misserum.
Forráðamenn Vélsmiðjunnar Magna þoldu illa að horfa upp á það, að þeir útgerðarmenn sem hugðust byggja yfir skip sín þyrftu að leita út fyrir byggðarlagið með þá þjónustu og þrátt fyrir ýmsa erfiðleika og illa aðstöðu, ákváðu þeir að taka að sér að byggja yfir Álseyna hér heima. Verkið hófst í haust og því lauk í febrúar. Ber mönnum saman um að vel hafi tekist til og gefi þessi smíði ekkert eftir því sem annars staðar gerist best. Um leið og við óskum Magna til hamingju með Álseyna er það ósk okkar og von að vélsmiðjurnar hér verði í framtíðinni færar um að taka að sér þessa þjónustu og aðra ámóta sjálfum sér og byggðarlaginu til hagsbóta.
Þá er það einnig ánægjuefni að geta sagt frá tveimur nýjum greinum í fiskiðnaði sem hafist var handa um á árinu. Það eru fyrirtækin Eyjafiskur og Niðursuðuverksmiðja Lifrasamlagsins. Við segjum frá þessum nýju fyrirtækjum í máli og myndum hér á eftir.