Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1980/Eyjafiskur
Eyjafiskur
Kristján Sigurjónsson og kona hans Margrét Ólafsdóttir, ásamt börnum sínum og tengdabörnum stofnsettu fyrirtækið Eyjafisk, sem einkum hefur sérhæft sig í framleiðslu á svonefndum bitafiski. Hefur reksturinn gengið vel enda stenst framleiðslan fyllilega samanburð við það besta annars staðar á landinu. Fyrirtækið er til húsa við Kirkjuveginn bak við gömlu bókabúðina og er þar orðin hin ágætasta aðstaða við vinnsluna. Á jarðhæð er móttaka, flökun og 16 fermetra frystir. Á annarri hæð er þurrkklefi, minni frystir og pökkunaraðstaða, kaffistofa, snyrting og lítil skrifstofa. Nú getur fyrirtækið unnið um 500 pakkningar daglega af bita-fiski en auk þess er bæði nýr og saltaður fiskur settur í neytendapakkningar og seldur héðan. Alls vinna fimm manns við fyrirtækið.