Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1979/Nokkrar hugleiðingar um vetrarvertíðina 1979

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Nokkrar hugleiðingar um vetrarvertíð '79 og framtíðina


Hilmar Rósmundsson

Eigi að taka saman smá pistil um vertíðina 1979, væri nánast hægt að endurrita það sem sagt var um vertíðina '78 svo áþekkar voru þær í flestu. Þó bar nú dökkan skugga á, sem við höfum verið blessunarlega lausir við alllengi, þar sem á miðri vertíðinni fórst vélbáturinn Ver Ve 200 og með honum 4 vaskir sjómenn, og í vertíðarlok fórst Eskifjarðarbátur með 6 góðkunningjum okkar, sem mikið höfðu sótt sjóinn héðan.
Blessuð sé minning þeirra allra.
Að öðru leyti gekk vertíðin stóráfallalaust, mikið var róið enda tíð óvenju hagstæð og aflabrögð heldur skárri en á vertíð '78.
Þrír af skuttogurum okkar hafa stundað bolfiskveiðar og aflað þokkalega það sem af er árinu, sá fjórði stundaði loðnuveiðar á vertíðinni og aflaði vel, en hefur að mestu legið síðan vegna bilana.
Stóru loðnuskipin héldu norður í Dumbshaf, er vika var af janúar, þar sem loðnuveiðar voru leyfðar frá 10. þess mánaðar. Höfðu þau þar útivist langa og stranga, svo sem við má búast á þeim árstíma. Þeir sem best eru búnir til þeirra veiða höfðu árangur sem erfiði og öfluðu vel, en hinir, sem að ýmsu leyti eru vanbúnir til þeirra höfðu lítið annað en erfiðið fyrr en loðnan kom upp undir landið. Reyndum skipstjórum kom saman um það, að mikið loðnu magn hafi verið á sinni eðlilegu vertíðargöngu en fræðingarnir, sem telja fiskana í sjónum, voru á öðru máli. Ég hef þó fyrir satt að gangan hafi verið lítt könnuð og ekkert með henni fylgst. Loðnuveiðar voru síðan bannaðar frá hádegi 18. mars þar sem ekki þótti ráðtegt að veiða meira að sinni.

Skipshöfnin á Þórunni Sveinsdóttar, vetrarvertiðina 1979. Fremri röð talið frá vinstri: Óskar Óskarsson Landeyjum, stýrimaður, Páll Einarsson V-Eyjafjöllum háseti, Ólafur Kristinsson Þykkvabæ háseti, Haraldur Þ Gunnarsson Vestm. háseti, Böðvar Sverrisson frá Eyrarbakka 2. vélstjóri. Aftari röð frá vinstri Matthías Sveinsson Vestm. 1. vélstjóri, Ægir Sigurðsson Vestm. matsveinn, Sigurjón Óskarsson Vestm. skipstjóri, Björn Óskarsson Landeyjum háseti, Guðmundur Guðmundsson V-Landeyjum háseti, Guðni R Jónasson V-Landeyjum háseti.
Skipshöfnin á Gullbergi í vertíðarlok 1979. Talið frá vinstri: Þorbergur Torfason frá Suðursveit, 2. stýrimaður, Haraldur Óskarsson Vestm. háseti, Guðjón Pálsson Vestm. skipstjóri, Kristinn Sigurðsson Vestm, háseti, Vigfús Guðlaugsson Vestm. 1. stýrimaður, Gunnar Haraldsson Vestm. 2. vélstjóri, Sveinbjörn Jónsson Vestm. háseti, Jón Oddson frá Siglufirði, háseti, Ólafur Sigmundsson Vestm. l.vélstjóri, Rúnar Þórarinsson Vestm. háseti, Eyjólfur Guðjónsson Vestm. háseti, Hreinn Gunnarsson Vestm. háseti, Hlöðver Haraldsson Vestm, háseti, Gunnar Sveinbjörnsson frá Pórshöfn matsveinn.
Helgi Ágústsson skipstjóri á b/v Sindra, þeim togara sem mest aflaverðmæti hafði árið 1978.

Allmargir bátar úr heimaflotanum, hófu veiðar, mjög fljótlega upp úr áramótunum. Afli var mjög tregur framan af. Helst voru það línubátarnir sem eitthvað kroppuðu, en þeim bátum sem róa með það veiðarfæri hefur fjölgað nokkuð nú síðustu vertíðir og á trúlega eftir að fjölga meira verði á annað borð einhver grundvöllur fyrir rekstri fiskibáts í náinni framtíð. Það er þó ýmsum annmörkum háð, hvort unnt verður að auka línuútgerð í framtíðinni. Stofnkostnaður til þeirra veiða er mikill, og rekstrarkostnaður verulegur, þá eru þeir orðnir vandfundnir hér, sem talist geta góðir beitingamenn. Einnig eru bestu línumiðin oftast þakin netatrossum og verulegur hluti þess fisks, sem á línuna fæst, hér, í lægstu verðflokkum. Varla er hægt að segja að afli glæddist að ráði, fyrr en með marsmánuði. Sá mánuður skilaði flestum sæmilegum afla, sem og verulegur hluti aprílmánaðar. Var það eins og oft áður að afli þessara tveggja mánuða bar uppi vertíðaraflann. Í páskaviku frá 10-17 apríl var sett þorskveiðibann, sem þýddi það að netabátarnir urðu að taka upp, en togbátar að forðast þorskinn. Reitings afli var í nokkra daga, eftir að veiðar hófust á ný, en undir lok aprílmánaðar dró verulega úr afla, enda lagðist hann þá í langvarandi norðan garra, en slík vorhlaup hafa ætíð haft slæm áhrif á fiskgengd hér. 30. apríl voru svo þorskveiðar endanlega stöðvaðar á þessari vertíð, að ráðuneytis boði og banni. Stór hluti netaflotans sem hafði aðstöðu til þess að fara á togveiðar, hafði þá þegar útbúið sig til þeirra veiða, til þess að verða tilbúnir í slaginn þann 1. maí, þegar togveiðar yrðu leyfðar á svæðinu austan skarðsfjöru, en eins og þeir vita sem til þekkja hefur oft fengist góður afli á því svæði í einn sólarhring, eða svo, eftir verulega friðun fyrir botnsköfum. Sjómenn frá Vestmannaeyjum hafa þó oftast farið á mis við þessa glefsu, þar sem þeir verða einir íslenskra sjómanna að virða það vafasama ákvæði í 26. gr. samninga milli sjómanna og útvegsmanna sem segir, að ekki skuli róið eða verið á sjó 1. maí. Ég hef alltaf haldið að 1. maí væri alþjóðlegur frídagur verkamanna, þess vegna gæti ákvæðið í sjómannasamningunum verið eitthvað á þá leið að eigi skuli leyfð löndun og móttaka á fiski 1. maí, því að þar yrði verkamaðurinn að leggja hönd að. Togbátaskipstjórar hér fóru þess á leit við sjávarútvegsráðuneytið í vetur, að togveiðar á umræddu svæði yrðu ekki heimilaðar fyrr en 3. maí ár hvert, þeirri málaleitan var hafnað, á vafasömum forsendum. Svæðið var síðan opnað 1. maí, en þá brá svo við að enginn afli fékkst við Ingólfshöfða en góður ýsuafli í tvo sólarhringa á Síðugrunni.

B/v Sindri
„Tveir á toppnum". Þórunn Sveinsdóttir og Andvari, sem varð annar aflahæsti bátur á vertíðinni.
Logi Snædal Jónsson.

Síðarihluta aprílmánaðar hófu allmargir bátar svokallaðar spærlingsveiðar með leyfi ráðuneytis, en undir vísindalegu eftirliti. Réttara væri að kalla þær veiðar á þessum árstíma, eftirlitslaust seiðadráp. Enda fór fljótlega svo, að sjómönnunum ofbauð hvað í vörpurnar kom og hættu veiðum um tíma. Þá vaknaði hið vísindalega eftirlit af værum blundi, og var nú fylgst nokkuð með ástandi miðanna, veiðar leyfðar á takmörkuðu svæði en árangur lélegur. Ég hef hér stiklað á stóru um gang síðustu vetrarvertíðar, og er trúlega óhætt að segja að hún hafi verið sæmileg, sér í lagi ef miðað er við síðustu vertíðar á undan. Þó held ég að óhætt sé að fullyrða, að hefði blýteinninn ekki komið til sögunnar, hefði aflinn í þorskanetin ekki orðið merkilegur.
Þá er komið að spurningunni stóru, hverjar eru framtíðarhorfur þessara mála?
Maímánuður hefur oft reynst togveiðibátum hér mjög drjúgur, en nú brá svo við að aðeins fyrstu daga hans fékkst þokkalegur afli en síðan ekki söguna meir. Með hliðsjón af því olíuverði sem tók gildi 15. maí sl. hefi ég ekki trú á því að togveiðar verði stundaðar lengi í miklu tregfiski, verði ekkert að gert.
Sá tími hlýtur að markast af því hve lengi bankinn eða olíufélögin treysta sér til að gera bátana út. Ýmsir hyggjast reyna fyrir sér með önnur veiðarfæri, sem ekki eru eins olíufrek, svo sem handfæri, lúðulínu eða þorskanet, en árangur af því er óráðinn.
Margir hófu humarveiðar þegar þær voru leyfðar þann 21. maí. Stór floti báta keyrði austur í Skeiðarár- og Breiðamerkurdýpi en þar var þá ekkert annað að hafa en kalýsu. Óvenju köldum sjó er kennt um þessa aflatregðu, og er það trúlega hárrétt skýring, því án efa hefur fátt meiri áhrif á fiskigengd en hiti sjávar. Það er annars furðulegt að slíkt geti skeð í dag, að stór floti keyri hundruð sjómílna á steindauð fiskimið. Auðvitað átti Hafrannsóknarstofnunin að vera búin að kanna ástand þessara miða áður en veiðar voru leyfðar, og gefa út skýrslu þar um. Það hefði sparað mörgum fýluferð, þyrmt lífi margrar smáýsunnar og sparað margan rándýran olíupottinn. Nei, ég held að þetta sé allt eitt vísindalegt apparat, eins og fleira í þessu þjóðfélagi. Stærstu loðnuskipin héldu á Færeyjamið til kolmunnaveiða, til þess að endurgjalda frændum okkar heimsóknina á loðnumiðin okkar, en þá kemur í ljós að Íslendingar eiga víst ekkert kolmunnaveiðiskip, þau ná engum árangri þrátt fyrir góða veiði t.d. Norðmanna, sem eru á sérsmíðuðum kolmunnaskipum með miklu stærri vélar og vörpur. Ef til vill verður næsta stóra átak okkar í stækkun flotans að láta byggja nokkra tugi slíkra skipa, það væri alveg eftir annarri endaleysu í þessum málum. Önnur loðnuskip eru bundin, þau fá ekki leyfi til frekari veiða með þorskanetum þetta árið. Þau hafa víst fengið sinn skerf úr gullkistunni. Nú hafa fiskifræðingar lagt til að loðnuveiðar verði minnkaðar um nær helming frá því sem verið hefur, og auk þess talið fullvíst að Norðmenn og Færeyingar muni taka drjúgan skerf af þeim kvóta. Sé það ætlunin að útiloka þessi stóru og dýru skip frá öðru en að slást um nokkur loðnutonn, þá verður þess ekki langt að bíða, að einnig þar skapist vandræða ástand. Hinum 80 eða 90 fullkomnu skuttogurum er nú vegna lélegs þorskstofns, beint í hina, að því er sagt er sterku karfa, ufsa og grálúðustofna. En verðið á þeim tegundum er ekki hærra en það að talið er sæmilegt ef þeim tekst að afla fyrir olíunni. Það er ekki hægt að segja með sanni, að útlitið sé glæsilegt hjá fiskiskipaflotanum, en hvað er til ráða? Hvar er þessi þjóð stödd ef verulegur samdráttur verður í afla?
Ýmsir hafa bennt á hin gömlu vinsælu en vitlausu úrræði, það er að lækka gengið verulega þannig að margar, margar litlar krónur fáist fyrir útflutninginn, sem síðan mætti nota til þess að greiða fyrir olíu og annað, sem við þurfum að fá erlendis frá, en auðvitað hækkar gengisfelling allan okkar innflutning um jafn mörg prósent og henni nemur, og ríflega það, svo ég tali ekki um allar erlendu skuldirnar. Gengisfellingar hafa að mínum dómi, alltaf skapað meiri vanda, en þær hafa leyst, þær mynda vítahring, sem aldrei tekst að loka, og sama hringavitleysan heldur áfram í íslensku efnahagslífi.
Vestmannaeyjum 25. maí 1979 Hilmar Rósmundsson.