Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1979/Lúðrasveit Vestmannaeyja 40 ára
Lúðrasveit Vestmannaeyja átti 40 ára afmæli hinn 22. mars sl. en þann dag árið 1939 var sveitin stofnuð.
Sjómannadagurinn í Vestmannaeyjum á sveitinni mikið að þakka, því fáir munu þeir sjómannadagar vera, sem sveitin hefur ekki komið við sögu, bæði við skrúðgönguna upp að kirkju og einnig á Stakkagerðistúni.
Það er mikið starf, sem félagar í Lúðrasveitinni eru búnir að vinna í þessi 40 ár og allt í sjálfboðavinnu við misjöfn skilyrði til æfinga. Mikil bót var þó ráðin á aðstöðunni, þegar sveitin fékk inni í Arnardrangi með allt sitt og er þar nú allsherjar félagsmiðstöð hennar.
Núverandi stjórnandi er Hjálmar Guðnason frá Vegamótum en formaður Lúðrasveitarinnar er Magnús Jónasson frá Grundarbrekku.
Sjómannadagsblaðið óskar Lúðrasveitinni til hamingju með afmælið og óskar þess ennfremur, að hún megi um ókomna framtíð verða sá þáttur í hátíðarhöldum sjómannadagsins, sem verið hefur.