Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1977/Vetrarvertíð á áraskipi 1916

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Vetrarvertíð á áraskipi 1916 í Eyjum

Friðfinnur Finnsson frá Oddgeirshólum.

Ég, sem þessar línur festi á blað, er kominn á þann aldur, að ganga stundum á vit minninganna.
Hér ætla ég að segja frá fyrstu vetrarvertíð, sem ég réri í Eyjum, þá 14 ára gamall, á áraskipi, er Þorkell Þórðarson í Sandprýði átti og var formaður fyrir. Þetta var 1916. Minnir mig, að þá hafi verið gerð út 12 áraskip frá Eyjum. Á áraskipunum hófst vertíð seinni hluta janúar. Skipshöfnin var 7 menn, og var það svo á skipum þessum. Byrjað var með 6 bjóð af línu, en í hverju bjóði voru 7 strengir og á hverjum streng 54 krókar.

Mér gekk heldur seint að beita, enda alls óvanur því og aðstaða líka mjög léleg, þar sem enginn sameiginlegur beituskúr var, en hver í sínu aðgerðarplássi. Ég var í fiskikró, sem fóstri minn átti vestur á Pöllum, sem kallaðir voru, síðan er ég var búinn að beita bjóðið, varð ég að aka því á hjólbörum í kró formannsins, en hún var austan við Formannasund. Oft var vont að komast um Strandveginn, þetta var malarvegur oft æði holóttur og blautur í rosatíð, og ég eins og flestir aðrir á kúskinnsskóm.
Þá átti ég ekki vaðstígvél en réri í skinnbrók, eins og allir aðrir í þá daga á áraskipunum.
Róið var klukkan 4—5 á nóttunni á sama tíma og vélbátarnir, en þetta gat breyst eftir veðri. Venjulega var farið á næstu mið á áraskipunum, þetta 1½—2 tíma austur og suðaustur af Eyjum.

Þegar búið var að leggja línuna, var andæft við endabaujuna, þar til farið var að draga eftir 1½—2 tíma. Stundum var líka róið á milli, sem kallað var, fór það eftir straumum, kalsamt var meðan beðið var yfir línunni, ekki síst, ef gaddur var, en segja má, að þetta hafi komist upp í vana, en hart myndi þetta þykja nú til dags, en svona var lífsbaráttan erfið áður fyrr. Þá voru drengir látnir beita á mótorbátunum eða róa á áraskipunum, þetta var okkar skóli í þá daga, sá eini sem við fengum eftir fermingu.

Venjulega komu áraskipin að landi klukkan 1—2 eftir hádegi. Þá var aflanum skipt á bryggju og hirti hver skipsmaður sinn hlut og kom honum í sitt aðgerðarpláss, ýmist á hjólbörum eða handvagni, síðan var farið og skipið sett í naust eftir hvern róður.
Naustin voru í Litlabæjarviki norðan við Strandveginn.

Eftir að búið var að ganga frá skipinu fóru flestir heim til sín til að matast, því að lítið var um slíkt á sjónum. Síðan var farið niður í Fiskikró, sem svo var nefnd og gert að aflanum og honum komið í salt. Var eftir að fara niður í íshús og kaupa síld á bjóðið. Mig minnir að hæfilegt væri 3—4 kíló af síld, svo flakaði maður meðal ýsu og skar hana niður í mátulegar beitur, og var þetta kölluð ljósbeita. Svo beitti maður töluvert af hrognum, oft var langt liðið á kvöldið, þegar ég var búinn að gera að fiskinum og beita bjóðið. Stundum kom líka fóstri minn, Sigurður í Brekkuhúsi, og hjálpaði mér og gekk þá verkið fljótt og vel.

Minnisstæður róður.

Þorkell formaður Þórðarson í Sandprýði og kona hans Guðbjörg Jónsdóttir. — Myndin er tekin í Herjólfsdal á Þjóðhátíð 1937 eða 38.

Þegar loðnan gekk á Eyjamiðin, sem alltaf var nokkuð breytilegt, venjulega frá mars til byrjun apríl, þá fylgdi henni mikil fiskgengd. Þá var lætt við línuna á áraskipunum og tekin handfæri. Það mun hafa verið í byrjun apríl, að við rérum á Helgu, en svo hét skip Þorkels, sem við rérum á. Þegar við komum góðan fiskikpp austur fyrir Bjarnarey, var heldur líflegt um að litast, því allur sjórinn svo langt sem augað eygði var morandi af þorski og ufsa, sem óð uppi. Svoleiðis, að oft sá maður bakugga á ufsanum koma upp úr sjófiskorpunni og þorskinn sá maður greinilega. Þetta var sú stórkostlegasta sjón, sem við á skipinu höfðum séð á okkar ævi, enda mun þetta mjög sjaldgæft, að sjá slíkar fiskitorfur ofansjávar.

Að sjálfsögðu tók það stuttan tíma að fylla skipið, þar sem varla þurfti að sleppa sökkunni. „Blessaðir hendið þið blámanninum, strákar," sagði Þorkell þá, enda var ufsi í engu verði, og fékk hann því lífi að halda. Öll áraskipin hlóðu þarna á stuttum tíma, þá rann á austan kaldi, og voru nú sett upp segl og haldið til Eyja, og ákveðið að róa strax út aftur, var mikil ánægja hjá skipshöfninni yfir þessum fljóttekna afla.
En nú fór ver en skyldi, því austankaldinn jókst, svo að ekki gaf í útróður. Um kvöldið komið rok. Það var mikið talað um þennan róður í Eyjum og kom öllum saman um, að þvílíka fiskmergð hefði enginn séð fyrr.

Lokaróðurinn.

Eftir að loðnan var gengin hjá, hætti að fiskast á færin, þá var línan tekin aftur á áraskipunum, en lítið var þá oft að hafa. Síðasta róðurinn, sem við fórum þessa vertíð var farið inn á Ál, sem kallað var, sem sagt milli lands og Eyja, þar var línan lögð. Síðan renndum við færum til og frá meðan línan lá, lítið fengum við á færin. Svo var baujan tekin, og ætlaði það að ganga heldur illa, því straumur var orðinn svo mikill, að baujan og belgurinn voru alltaf í kafi öðru hvoru, þó tókst að ná inn baujunni og var þá farið að draga. Línan var dregin á höndunum, þá voru línuspilin ekki komin til sögunnar. Þegar búið var að draga tæpt bjóð, slitnaði línan. Var nú róið í átt að næsta miðbóli, en ekkert fannst, bólin voru öll sem sagt í kafi vegna straumþungans. Þorkell formaður sagðist ekki hafa lent í þvílíkri halaklippingu, og sjálfgert að þetta yrði lokaróðurinn, þar sem öll línan væri töpuð. Var nú haldið heim á leið.

Þegar við vorum komnir hálfa leið til Eyja sáum við mótorbát koma á eftir okkur, var þar kominn Guðjón á Sandfelli, sem var að koma heim úr róðri, tók hann okkur í slef, voru allir mjög fegnir og kátir og hlaut Guðjón miklar blessunaróskir fyrir.
Vertíðarhlutur okkar varð um 450 fiskar á mann, og mun það hafa verið meðalhlutur, þessa vertíð á áraskipunum.

Ég á mjög góðar endurminningar frá þessari vertíð, ég var ósköp lítill sjómaður, en öll skipshöfnin var mér mjög góð, og Þorkell þó sá besti, eða eins og besti faðir, enda héldum við ætíð góðum kunningsskap.

Viku eftir lokaróðurinn kallaði Þorkell á skipshöfnina heim að Sandprýði, og fengu þar allir bestu góðgerðir hjá þeim heiðurshjónum. Þarna skildu allir í sátt og samlyndi og þökkuðu hver öðrum fyrir góðan árangur og ánægjulegar samverustundir á vertíðinni.

Sjómenn! Til hamingju með Sjómannadaginn.
Guð og lukkan fylgi ykkur alla daga.

Frá tímum áraskipanna.

Friðfinnur Finnsson, frá Oddgeirshólum