Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1977/Netagerðin Ingólfur 30 ára

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Netagerðin Ingólfur 30 ára

Ingólfur Theodórsson, netagerðarmeistari, og kona hans Sigríður Sigurðardóttir frá Skuld.

Á þessu ári eru liðin 30 ár frá þvi Netagerðin Ingólfur var sett á stofn hér í Vestmannaeyjum.
Ennfremur vill svo til að stofnandi hennar og aðaleigandi, Ingólfur Theódórsson netagerðarmeistari, á 50 ára starfsafmæli á þessu ári, en hann hóf störf í iðn sinni árið 1927.

Netagerðin Ingólfur er fyrir löngu þekkt orðin sem ein fullkomnasta og stórvirkasta netastöð landsins og nýtur hún trausts og virðingar meðal sjómanna og útvegsmanna um land allt.

Koma Ingólfs Theodórssonar til Vestmannaeyja á sínum tíma, árið 1939, sem síðan leiddi til stofnunar Netagerðarinnar Ingólfs árið 1947, breytti mörgu í síldarútvegi Eyjamanna og nánast skapaði nýja atvinnugrein hér í Vestmannaeyjum, sem var uppsetning síldarnóta, varðveisla þeirra og viðhald. Áður höfðu útgerðarmenn látið vinna þessi störf annarsstaðar.
Netagerðin Ingólfur hefur sýnt sjómönnum í Vestmannaeyjum og samtökum þeirra ýmiskonar sóma. Árið 1963 gaf hún t. d. Sjómannadagsráði Vestmannaeyja fagran grip til verðlaunaveitinga á Sjómannadegi, Ingólfsstöngina svonefndu, sem allir þekkja.
Í tilefni þeirra merkistímamóta, sem nú ganga yfir, fékk blaðið Ingólf Theodórsson til að líta yfir farinn veg til örfárra þátta sögu sinnar og netagerðarinnar. Fer frásögn hans hér á eftir:

Ég er fæddur á Siglufirði 10. nóvember 1912. Foreldrar mínir voru hjónin Guðrún Ólafsdóttir og Theodór Pálsson skipstjóri þar á staðnum. Þegar ég var strákur að alast upp á Siglufirði, var síldarútvegurinn þar kominn í fullan gang. Það er margs að minnast frá þeim árum — margt þurfti að skoða. Þá voru norðmennirnir upp á sitt besta og við strákarnir fengum hjá þeim 25 aura um tímann fyrir að velta tómum tunnum. Ég man einnig vel eftir mér að leik í flæðarmálinu framundan húsinu heima. Allar þessar minningar eru mér kærar.

Netagerðin Ingólfur.

Ég fluttist til Reykjavíkur vorið 1927 og lenti vegna kunningsskapar í vinnu hjá Birni Benediktssyni netagerðarmanni, fyrst í að snúa tauma, en strax um haustið byrjaði ég að læra netagerð. Og ég hef verið í þessu starfi síðan.
Ég fékk mitt meistarabréf 1938, því þá voru lög um netagerð sem iðngrein fyrst látin koma til framkvæmda, þó að þau væru búin að vera til nokkuð lengi.
Frá Birni Benediktssyni var alltaf farið til Siglufjarðar á hverju sumri. Bátunum var fylgt eftir. Sumarið 1937 fékk ég frí til að fara á síldveiðar til að kynnast notkun veiðarfæranna af eigin raun. Þá var ég á Eldborginni með Ólafi Magnússyni. Við lönduðum á Hjalteyri.

Það sem olli því að ég flutti búferlum til Vestmannaeyja var að útvegsmenn, undir forystu Jóns á Hólmi og Guðmundar í Viðey, voru sumarið 1939 með í huga að setja á stofn verkstæði, og þeir voru að leita eftir manni. Margir bátar voru á þessum árum gerðir út til sumarsíldveiða frá Eyjum og voru þeir með næturnar í viðskiptum út um allt land, sérstaklega þó norður á Akureyri. Það ástand var óeðlilegt og að mörgu leyti óhentugt, og vildu útvegsmenn breytingu þar á. Ég hafði unnið talsvert að nótaviðgerðum fyrir Sighvat heitinn Bjarnason skipstjóra, og það var að öllu leyti fyrir hans tilstilli að ég lenti í þessu og kom hingað þá um haustið.

Siglufjörður 1946

Útvegsmenn ráku hér verkstæði frá 1939—1947, má segja með smáhvíld 1943. Ég veitti verkstæðinu forstöðu. Ég byrjaði í gamla Bjarmahúsinu, sem seinna var kallað Kárahús, og stóð þar sem salthús Ísfélags Vestmannaeyja stendur nú, sunnan Strandvegar. Þarna var verið með síldarnætur eingöngu, því hér voru fyrir í bænum tvö troll- og dragnótaverkstæði. Reykdal Jónsson og Jón faðir hans ráku annað en Magnús Magnússon og Þórður Gíslason hitt.

Ég var í Bjarmahúsinu í eitt ár. Þá var verkstæðið flutt upp að Vesturhúsum, í gamla fjósið þar. Um haustið 1943 komu Eyjabátar allir sem einn heim með nætur sínar, og hvergi var nægilegt húsrými til á einum stað. Þá var tekið það ráð að reka verkstæðið á tveimur stöðum; á Vesturhúsum og einnig í Kuða. Margir sjómenn unnu þá í þessu allt haustið og fram að vertíð.
Eftir þetta var lagað betur til á Vesturhúsum, bæði fjósið og hlaðan tekin undir, og þar var verkstæðið svo til húsa til vors 1947. Þá hættu útvegsmenn rekstri sínum og ég hófst handa við byggingu míns eigin verkstæðis þar sem það er nú, þó að þá hafi verið byggður aðeins lítill hluti þess sem er í dag. Ég vil sérstaklega geta þess, að það var fyrst og fremst fyrir tilverknað og aðstoð Björgvins Jónssonar í Úthlíð, að mér opnuðust möguleikar til að hefja byggingu eigin netagerðar. Hann var mér mjög innan handar, m. a. við að tala við ráðamenn, sem ég þekkti ekki neitt.

Mikla erfiðleika var við að stríða á þessum fyrstu árum, en það er eins og þeir gleymist fyrst af öllu, og af erfiðleikunum lærir maður. Einhvern veginn slampaðist allt af og útgerðarmenn hér í Vestmannaeyjum hafa alltaf verið mér mjög tryggir, alveg frá upphafi. Árið 1963 stækkaði ég verkstæðið í þá stærð, sem það er nú.

Frá vinstri: Eggert Páll Theodórsson, hálf-bróðir Ingólfs, lagerstjóri hjá Síldarverk-smiðjum ríkisins á Siglufirði; Ingólfur Theodórsson; faðir Ingólfs Theodór Pálsson, skipstjóri á Siglufirði (f. 27. jan. 1873 — d. 4. febrúar 1957) og Eggert Thedórsson, albróðir Ingólfs, netagerðarm. í Reykjavík. Myndin er tekin á ferðalagi i Fljótum árið 1940 (líklega).

Eftir að ég stofnaði mitt eigið verkstæði hélst það áfram að menn komu með nætur sínar að norðan á haustin og við tókum við þeim og þurrkuðum þær — fyrst úti og síðan í hjalli. Á þessum árum var bómull í nótunum og mátti segja að þær grotnuðu niður í höndunum á manni, ef þær voru ekki því betur þurrkaðar. Stundum voru næturnar endurlitaðar með svonefndum barkarlit. Þær voru þá dregnar gegnum heitt vatn blandað litnum. Allt slíkt tilheyrði verkefnum netastöðvarinnar, en aðstöðu með heitt vatn og gufu fengum við í Lifrarsamlaginu hjá Pétri Andersen, sem vildi allt fyrir okkur gera. Á vorin fylgdum við á eftir síldveiðiflotanum norður fyrir land og höfðum viðlegu eingöngu á Siglufirði fyrstu árin. Vinnan á Siglufirði fór öll fram undir beru lofti, á bryggjum og plönum. Oft var hitinn mikill og sólbruninn afskaplegur, þar sem verið var að vinna í tjörunótunum. Fyrir kom að við sólbrunnum svo mikið, að blæddi úr okkur. Eitt vorið fengum við frú eina hér í Vestmannaeyjum til að sauma á okkur barðastóra hatta til varnar gegn sólinni. Þetta var Marý, systir Binna í Gröf. Það var mikið fjör, þegar við fyrst marséruðum eftir götunum á Siglufirði með hattana. Allir í hinum netaflokkunum gerðu grín að okkur fyrst í stað. En þeir gerðu það ekki eftir fyrstu sólarvikuna. Þá vildu margir vita hvar hægt væri að fá svona hatta.

Samkeppnin milli netaverkstæðanna var geysihörð á þessum árum. Margar nætur komu uppsettar frá Noregi, en mikið var um að þyrfti að fella þær upp fyrir íslandsveiðarnar, því þær hlupu svo mikið á teinum. Bómullin vildi líka hlaupa og mismikið, og það voru eiginlega sálræn atriði hvernig vinna skyldi við þetta, svo að vel færi. Ég man að maður var eins og festur upp á þráð þegar maður hafði sett upp nýja nót eða þá breytt eldri nót verulega — hvort nú fengist afli í veiðarfærið.

Starfsmenn Netagerðarinnar Ingólfs í janúarmánuði 1977.

Viðskipti síldarflotans við verkstæðin fór ákaflega mikið eftir því, hvaða netagerðarmönnum skipstjórarnir treystu best. Í þeim efnum voru menn síst sammála, og bar þá kannski ekki allt upp á sama daginn heldur. Og um þessi mál voru oft sögð orð, sem menn sáu seinna að áttu sér enga stoð. Það var fyrst 1934 að ég var forsvarsmaður fyrir netaflokki Björns Benediklssonar á Siglufirði. Við fengum ekkert að gera og ég var orðinn helaumur og kenndi mér um þetta - hélt að menn tryðu mér ekki fyrir verki. Menn voru nú ekki alltaf í sparifötunum í þá daga. En ég segi þarna við strákana í leiðindum og ergelsi að nú ætli ég í sparifötin og út að skemmta mér. Þá var það einhver, sem hjá mér var, sem hnoðaði þessu saman:

Ingólfur, sem ótal göt
og allar rifur skoðar,
ætlar nú í önnur föt.
Eitthvað þetta boðar.

Og það var orð að sönnu. Ég komst aldrei í sparifötin, því að í þeim töluðu orðum kemur maður í gættina með skilaboð frá Sveinbirni frá Endagerði, skipstjóra á Geir goða, um að ég lagfærði nót fyrir sig, sem ég svo gerði. Þar með var björninn unninn. Þetta var 2. ágúst, og eftir það var meira en nóg að gera hjá okkur fram á haust.

Haunkin

Sem dæmi um andrúmsloftið, sem stundum ríkti milli netaflokkanna á Siglufirði á þessum árum, get ég sagt eftirfarandi sögu:
Það var árið 1944. Guðmundur Vigfússon frá Holti var á síldveiðum fyrir norðan á Voninni, og var með veiðarfærin í viðskiptum hjá mér. Nú varð Guðmundur óánægður með nótina og við þá ekki eitthvað sammála nema hvað hann tekur hana og afhendir öðrum netameistara til yfirferðar og breytinga. Mínir menn urðu afar sárir út af þessu, því við höfðum lagt okkur alla fram við að gera Guðmundi til hæfis. Hann var þá mikill aflamaður og afar vandlátur með veiðarfæri sín.
Rétt eftir að þetta gerðist skrapp Ólafur Árnason frá Odda — sem þá var hjá mér — inn á Akureyri til að finna konu sína, sem þar var þá. Ætlaði hann að koma til baka daginn eftir. Að kvöldi þess dags er Óli fór, bárust okkur óyggjandi fregnir af því, að nót Vonarinnar hefði síst skánað í höndum annarra. Og Óli þurfti auðvitað að njóta þessara tíðinda án tafar, og var honum því send eftirfarandi orðsending:

Guðjón Kristinsson, skipstjóri

Nótin verri á Voninni,
við af hlátri orgum.
Vertu kyrr hjá konunni
komdu ekki á morgun.

Sjálfsagt þótti að lengja í orlofi Óla, vegna þessara gleðilegu frétta.

Síðar hættu menn sem kunnugt er að framleiða síldarnætur úr bómull og fóru að nota gerfiefni. Þá breyttust þessi viðhorf öll. Samkeppnin hélst að vísu áfram, en byggðist á öðrum forsendum. Ýmsir af gömlu skipstjórunum, sem skiptu við mig í gamla daga, halda enn tryggð við mig. Þar má t. d. nefna Stefán Pétursson á Húsavík. Hann byrjaði skipti við mig þegar hann var skipstjóri á tvílembingunum Vísi og Barða, og allir þeir stóru bátar, sem hann hefur gert út á seinni árum, hafa verið í viðskiptum hjá mér — að ég tel vegna gamalla kynna okkar. Svona er með marga fleiri. Sumar útgerðir hafa þannig fylgt mér frá því ég man eftir. Ég hef verið afar heppinn með svona lagað í lífinu.
Fyrstu síldarárin og lengi frameftir voru eingöngu notaðar svonefndar snurpunætur, þ. e. tveggja báta nætur. Þær voru á margan hátt óhentugar fyrir litlu bátana. Eftir þær komu hringnæturnar, sem enn eru í notkun.

Ég var svo heppinn að verða fyrstur til að setja upp hringnót hér á landi. Þessi fyrsta hringnót var útbúin árið 1938 úr allskonar drasli fengnu héðan og þaðan frá, og fyrir Jóngeir heitinn Eyrbekk, sem þá var skipstjóri á Óðni, 9 tonna pung norðan frá Siglufirði. Frá þessu segir í ævisögu Jóngeirs, „Tekið í blökkina", er Jónas Árnason skrifaði. Seinna þetta sama sumar komu svo Dagsbrún og Kristjana með hringnætur og síðan hver báturinn af öðrum.

Hringnæturnar ollu byltingu í síldveiðunum hér við land, og ég er svo lítið ánægður með að hafa átt þennan þátt í upphaii þeirra. Ég hef svo gert mér far um að fylgjast sem best með hinni öru þróun nótaveiðanna á seinni árum, og reynt að vera fremur veitandi en þiggjandi í þeim efnum.

jú, jú, þetta gengur allt saman ágætlega

Ég kvæntist 1944. Kona mín er Sigríður Sigurðardóttir, ættuð frá Skuld. Það var nú mikið fyrir hennar áeggjan og stuðning að ég fór út í að byggja upp mitt eigið verkstæði á sínum tíma. Ég hef svo notið hennar fylgdar síðan, sem betur fer. Við höfum eignast sex börn og eru fimm á lífi. Yngstu bömunum — tvíburum — hélt ég undir skírn á fimmtugsafmælinu mínu.
Geri aðrir betur.

Netagerð hefur verið atvinna mín um dagana og hef ég fáu sinnt öðru í þeim efnum. Þó fór ég í útgerð 1953. Keypti þá bát, sem hét Garðar og skírði upp og nefndi Sæbjörgu. Annars gekk þessi bátur venjulega undir nafninu Haunkin. Þennan bát átti ég til 1958. Þá var hann ónýtur.
1954 keypti ég annan bát, sem ég skírði Hafbjörgu. Sá bátur hét einu sinni Lyv og var frá Akureyri. Faðir minn var einu sinni skipstjóri á Lyvinu, og man ég eftir mér sem smástrák eitthvað að bjástra með honum þar um borð.
Ég hætti svo í útgerðinni 1962. Bæði var að ég hafði nóg annað að gera, svo var ástandið þannig í útgerðinni þá, að ekki var komandi nálægt henni.

Það var ævintýri líkast hvað útgerðin á Haunkinni gekk vel. Það var auðvitað Guðjóni Kristinssyni að þakka og aflasæld hans, og svo fleiri mönnum, sem voru þar um borð. Guðjón var mikill aflamaður og sérstæður aflamaður. Hann var sem sjómaður mikið til alinn upp hjá Sighvati í Ási.

Mér er ofarlega í huga, hvað ég hef alltaf verið heppinn með starfsfólk. Snemma byrjuðu þeir hjá mér Finnbogi Ólafsson og Óskar Haraldsson, sem nú reka Net h. f., og seinna kom svo Júlíus Hallgrímsson meðeigandi þeirra. Allt eru þetta afbragðsmenn. Síðan má nefna Ásbjörn Þórðarson, Þórð í Varmadal, Sigurð Stefánsson, Rögnvald Jónsson og marga marga fleiri. Svo komu sjómenn oft í vinnu tíma og tíma milli vertíða. Og þetta mannalán loðir við mig ennþá.

Því trúir enginn maður, hve þakklátur ég er öllu þessu góða fólki, sem fyrir mig og með mér hefur starfað langan dag og átt þátt í mörgu því ánægjulegasta, sem á daga mína hefur drifið.
Og nú þyrfti maður sannarlega að byggja og stækka. — En það er féleysi sem hamlar. — Svo eru árin orðin nokkuð mörg. — Ég vil nú ekki viðurkenna að ég sé orðinn gamall. — En það kemur samt að því að maður verður að gera það.