Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1977/Frá liðnum dögum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Frá liðnum dögum

Guðmundur Vigfússon segir frá

Á tímamótum.

Guðmundur Vigfússon skipstjóri frá Holti

Haustið 1927 réðst ég formaður til Gísla J. Johnsen á m/b Sísi. Þetta var 14 tonna bátur, byggður í Friðrikssund 1924. Vertíðin 1928 var mín fyrsta vertíð sem formaður í Eyjum; þá var ég 21 árs gamall.
Á komandi hausti eru því 50 ár frá þessum tímamótum starfsævi minnar. Þetta fyrsta formannsár mitt er mér að mörgu leyti í fersku minni, sérstaklega hvað mig sjálfan snertir og æskuheimili mitt, Holt, því þar var ég þá enn í föðurhúsum.
Um líkt leyti og ég hafði afráðið að reyna mig við formennskuna dreymir mig draum, sem mér fannst síður en svo uppörvandi. Mitt áform var þó að reyna eftir mætti að sýna þor og dug með Guðs hjálp.

Draumurinn:

Ég og Jón bróðir minn erum staddir í eldhúsinu á Holti og erum að búa okkur í háttinn — þvo okkur og fá okkur í svanginn — þreyttir eftir grimmilega orustu við einhverja innrásarseggi, sem ráðist höfðu í land á Eiðinu. Vopnin voru sverð og skildir, eins og fornmenn notuðu.
Nú er bankað á eldhúsdyrnar, og við segjum báðir samtímis: „Kom inn." Um leið og við lítum við, vindur sér inn úr dyrunum séra Oddgeir Guðmundsson og heilsar. — Ég er kominn til að láta ykkur vita drengir, að ég þarf að senda 38 menn upp í Ódáðahraun. Bið ég ykkur því að vera viðbúna, ef kallið kæmi og ég þyrfti að senda ykkur. — Kveður nú klerkur eftir að við höfðum þegjandi hlustað á hans boðskap.

Útileguróðurinn 11. febrúar 1928.

Þessa mína fyrstu formannsvertíð hóf ég róðra seinnipart janúar. Eins og venjulega var fiskur tregur við Eyjar fyrrihluta vertíðar. Var því hugur í mér eins og mörgum öðrum að komast á sjó í SV frá Geirfuglaskeri, ef færi gæfist vegna veðurs. Í þá daga þótti langt að róa þangað, en helst var þar aflavon fyrripart vertíðar.

11. febrúar kl. um 0200 hringir vekjaraklukkan. Snarast er í fötin og gáð til veðurs, og það er eins gott og hugsast getur — blankalogn og stjörnubjartur himinn. En bergið í Klifinu þótti mér ískyggilega dökkleitt heiman frá að sjá, þarna í næturstillunni. Því hafði ég áður tekið eftir og reynt, að slík dekkja á Klifinu var sérlega áberandi undir austanátt eða SA áhlaup.
Fer ég nú að ræsa skipshöfn mína. Oft fóru þetta 2 tímar í að komast af stað í róður. Mannskapurinn, sem þurfti að ræsa, var oft dreifður um bæinn endanna á milli. Svo var að koma línunni um borð í bátinn, sem þá lá við ból útá höfn. Skjöktbátinn þurfti að sjósetja, og þegar fjara var, þurfti að bera bjóðin langar leiðir og oft talsvert útfyrir þær litlu bryggjur, sem þá voru til. Það tók því oft drjúgan tíma og erfiði að komast af stað í róðurinn.

Þegar ég var á leið niður í beituskúrinn, eftir að hafa ræst, var ég að hugsa um, að best væri að hafa vaðið fyrir neðan sig í dag og róa ekki mjög langt, því dekkjan í Klifinu hafði lagst illa í mig.
Þegar þetta gerðist var byrjað að birta veðurfregnir í glugga Söluturnsins, sem stóð við Strandgötuna norðan við Mandal. Ekki veit ég hvenær þetta byrjaði fyrst. Eigandi turnsins, Þorlákur heitinn Sverrisson, sá um þetta. Einnig var í glugganum við hliðina á veðurskeytunum sjálfritandi loftvog. Þá var þetta föst venja að líta í veðurgluggann — eins og við nefndum hann stundum -- þegar búið var að ræsa, og það gerði ég líka í þetta sinn. Kom þá spáin heldur betur í bága við mínar hugdettur um aðgát og varasemi.

Veðurspá dagsins 11. febrúar 1928 var stillt og bjart veður. Betra varð ekki á kosið.
Línubjóðunum var ekið niður úr á handvagni, ég held að þau hafi verið 15 í þennan róður. Þegar komið var um borð í Sísí, fór vélamaðurinn að hita og gangsetja vélina en formaðurinn og hásetar að taka bjóðin úr skektunni og ganga frá undir róðurinn og gera klárt til að sleppa bólinu á róðrartímanum. Kl. 0400 kom svo róðrarblússið á loft frá þeim báti, sem það embætti annaðist. Brunaði þá allur bátaflotinn á stað. 77 bátar voru skráðir í Eyjum þetta ár, margir hafa því róið þessa nótt.

Menn máttu hafa sig alla við, til að forðast árekstur bátanna, meðan komist var út úr höfninni áður en bátarnir fóru að dreifast eftir því hvert róið var. Í þetta sinn héldum við á Sísí norðurfyrir Klett — vestur með Eyjum og þaðan í stefnu vestan Geirfuglaskers, og frá Skeri 1 tíma í SV. Þetta var með því lengsta, sem róið var í þá daga. Þarna var línan lögð vestur eftir flákanum á 85—100 föðmum. Kl. rúmlega 8 um morguninn var lögninni lokið, ljósbaujan sett út og andæft við hana. Ekki var línurennan komin í brúk í Eyjum, þegar þetta gerðist, var því lagt á höndum. Enn var veðrið stillt og blítt, og dársléttur sjór.

Einn hásetanna stóð baujuvaktina, en við hinir fjórir lögðum okkur í lúkarnum. Í birtinguna var svo ræst með heitu kaffi, og eftir vel þeginn hvíldarblund eru allir komnir á dekk og línudrátturinn hafinn. Þá þegar er kominn SA stinningskaldi, og eftir því sem á daginn líður bætir í veðrið Og er nú sýnilegt að hverju stefnir. Er því hafður allur hraði á við línudráttinn.
Strax og byrjað var á drættinum varð fuglinn mjög nærgöngull. Til dæmis tók ritan lifrina úr hendi manns og múkkinn lá með síðunni. Það er þekkt og gömul reynsla að fuglinn viti á sig veður. Má því segja, að fuglinn sé þar manninum fremri og noti vel tækifærin sér til bjargar, eftir sinni eðlishvöt.
Um kl. 1400 var lokið við að draga síðasta bjóðið og mátti ekki tæpara standa, því þá herti svo veðrið og var að skella á með byl. Þrátt fyrir að dregið var móti straumi og vaxandi veðri, var aflinn dágóður; um 500 af þorski og löngu og talsvert af ýsu. En ýsa var þá yfirleitt ekki talin með.

Árið 1924. M.b. Sísí að koma nýsmíðuð til Eyja frá Fredriksund í Danmörku.

Nú var byrjað að keyra í átt til lands, með vind á stjórnborðskinnung, og skilaði vel áfram. Báturinn var hæfilega þungaður og bátur og vél í góðu standi, — tvöfalda Danvélin sérlega kraftmikil og örugg.
Siglingatæki voru ekki margbrotin á þessum tíma. Kompásinn alltaf sígildur, vegmælir (logg) var ekki mikið brúkaður í styttri fiskiróðrum, klukkan var yfirleitt látin nægja. Einnig var handlóðið til dýptarmælinga.

Alltaf var sjó og vind að þyngja og kominn svartabylur og engin landsýn frá því lagt var af stað. Þegar keyrt hafði verið á annan tíma, var eins og tjald væri dregið frá í sortanum og myndaðist mjó geil, og þar í gegn sá ég upp á Smáeyjar. Þetta var svo snöggt, eins og hendi væri veifað. En það var nóg til þess að sjá, að stefnan var rétt. Strax á eftir herti svo veðrið, að komið var hreint ofviðri og bylurinn var svo svartur, að ekki sást út fyrir borðstokkinn.
Til að geta haldið kompásstefnunni varð ég að loka öllum stýrishúsgluggum, en hafði opna stjórnborðshurðina, því annars hefði mér ekki tekist að sjá neitt framfyrir vegna sjávar og snjókomu. Eftir um það bil 2'/2 tíma frá því lagt var á stað heimleiðis, fann ég á sjólaginu að farið var að nálgast land. Eftir því sem austar dró, fóru eyjarnar að draga úr öldunni.
Nú var slegið á stopp og hásetarnir þrír kallaðir upp úr lúkarnum, þar sem þeir höfðu verið á heimstíminu, en vélarmaður að sjálfsögðu í vélarhúsi. Tveir hásetanna gengu nú frá sér framundir stafni til að vera á verði við landtökuna, og sá þriðji aftur undir stýrishúsi, til að geta kallað til mín við stýrið skilaboð frá varðmönnunum framá. Síðan var haldið áfram, þó ekki á fullri ferð.

Ekkert hafði dregið úr veðrinu og bylurinn aldrei svartari. Sá ég mér ekki fært að hafa gluggana opna. Um 20 mínútum eftir að farið var að keyra aftur, fannst mér bregða fyrir út um stýrishúsgöngin á stjór eins og meiri dekkju í sortanum, en eins og áður er sagt var sú hurð opin. Nú slæ ég af alveg á stopp og spyr stafnvaktina, hvort hún hafi orðið nokkurs vör. Ekkert hafði hún séð. Nú opna ég gluggana og byrja að snúa hægt í stjór. Þegar 6 strik eru snúin, sjáum við allir samtímis sker framundan, og svo nærri var það, að fiskhakinn hefði náð til þess. Var ég nú fljótur að taka afturábak frá skerinu. Nú gat verið um tvö sker að ræða, þar sem ég vissi að við mundum vera vestan í Smáeyjum. Það gat verið Nafarinn vestan Grasleysu, og það gat verið skerið norður af Jötni, sem er miklu stærra en hitt og meira upp úr. Það var farið að bregða birtu. Og þó að við værum þarna fast uppvið Smáeyjar, glórði ekki í þær. Sæmilegt dýpi er að skerjum þessum, þó allavega betra að því síðarnefnda. Mér fannst nauðsynlegt að vera viss um, hvort skerið þetta væri og snéri því hægt aftur að. Fannst mér þá að ekki léki vafi á að þetta væri stærra skerið.
Ef nú hefði verið hægt að komast sundið milli Grasleysu og Hrauneyjar, var möguleiki á að komast undir Eiðið á svo sem 20 mínútum. Það var stysta leiðin og oft farin. En því var nú ekki að heilsa að þessu sinni, þar sem vart sást fram á stefni á fleytunni og því síður landið. Ef takast átti að ná undir Eiðið, varð að komast á frían sjó NV og N úr skerjunum. Því var ekki annað að gera en slá undan til VNV, til að fá sig frían vestur úr Nafrinum.
Þegar mér þótti hæfilega haldið undan, var tekin stefna til norðausturs, þar til ég þóttist öruggur með að vera kominn vel frír norður úr Smáeyjum. Þá var stefna tekin til suðausturs. Það átti að geta passað undir Eiðið, eftir því sem áður var farið.

Veðrið var orðið mjög hart og beint á móti. Dagsbirtan var horfin og sami kolabylurinn var á. Ég var ekki viss um að skila mundi áfram, þó vélin væri keyrð fullum krafti. Það var líka oft hægt á til að lóða. Eftir þriggja tíma barning á SA-stefnunni er eins og framantil á stjórnborða bregði fyrir dálitlum bjarma gegnum sortann. Álitum við okkur þá komna undir Eiðið og bjarminn væri frá bæjarljósunum.
Dýpið var mælt 7 faðmar og legufærin gerð klár. Meiningin var að reyna að fikra sig austur undir Kambinn, því þar er besta leguplássið í suðaustanátt. Dálítið var látið synda austurá, en þar sem ekki var nokkur vegur að greina bergið í Heimakletti, var látið falla, og tvöfaldar tógtalíur settar á legukeðjuna milli kluss og polla. Illa rykkti í á legufærunum, og virkaði þetta sem nokkurs konar teygjuband og gert til að keðjan hrykki síður.
Rétt eftir að við höfðum lagst, hættum við að grilla í bjarmann af bæjarljósunum. Þau munu hafa bilað og ekki komist í lag um nóttina. Hvergi sást í Klettinn í 100—200 faðma fjarlægð. Dýpið var mælt af og til alla nóttina, og breyttist það aldrei. Leguljós voru sett út og héldum við þeim hreinum. Öðru hverju um nóttina urðum við varir við ljós á bát eða bátum, en gátum ekki greint, hvort það voru einn eða fleiri. Loks undir birtingu um morguninn, þegar veðrinu slotaði og birti til, sáust nokkrir bátar — líklega milli 7 og 10. Eiríkur Ásbjörnsson á m/b Emmu lá talsvert austar en við, vel undir Kambinum — hefur líklega komið uppundir á undan okkur. En Emmu sáum við ekki fyrr en birti.

Við á m/b Sísí urðum síðastir í höfn af þeim bátum, sem voru við Eiðið þessa nótt, og kom það til af því að langur tími fór í að losa akkerið úr botni, sem þó ekki tókst. Það kom í ljós eftirá, að þeim bátum , sem tókst að halda sig við Þeiðið þessa nótt, tókst það vegna leguljósanna á Emmu og Sísí, því engir aðrir bátar, togarar eða önnur skip lágu við Eiðið þessa nótt. En þetta lánaðist ekki nærri öllum, sem uppundir komust, og hrakti marga frá eyjunum. En svo giftulega tókst til, að allir 19 bátarnir, sem ekki náðu höfn samdægurs úr róðrinum 11. febr., komust heilir að landi og án slysa næsta dag.

Þegar við komum í höfn varð útgerðarmaðurinn, Gísli J. Johnsen, einna fyrstur til að bjóða okkur velkomna af sjónum, og spurði hann mig hvort okkur vanhagaði ekki um eitthvað. Sagði ég honum að okkur hefði ekki tekist að ná akkerinu. Eins þætti mér kompásinn ekki nógu stefnufastur, hann svansaði of mikið. Þá segir Gísli: ,, Ég er nú það glaður að sjá ykkur heila í höfn, að smámunina látum við liggja á milli hluta, drengur minn. Nú ferð þú bara upp í búð, þar eru nokkrir nýjir kompásar og þú tekur þann sem þér líst best á. Akkerið og annað, sem ykkur kynni að vanhaga um, er til reiðu."

Jón Vigfússon frá Holti

Kompásinn valdi ég frekar stóran, þýskan að gerð. Hvorki fyrr né síðar hef ég stýrt eftir betri kompás. Þann 12. febrúar var ekki róið, sjórinn engan veginn genginn niður og margir bátanna ókomnir frá deginum áður. Óhugur var í mönnum og áhyggjur eftir svefnlausa nótt hjá mörgum. Óhætt er að segja að fæstir hafi átt von á að svo giftulega færi, að allir næðu heilir í höfn að lokum.
Fram eftir öllum degi var einn og einn bátur að tínast inn, þar til sá síðasti kom undir kvöldið. Sumir höfðu haldið sjó á miðunum þar til veðrinu slotaði, voru bátarnir því mislangt undan. Nú gátu menn með þakklæti í huga gengið til hvíldar og safnað kröftum fyrir komandi dag.
Svo giftusamlega tókst til, að varðskipið Þór, með sinni góðu og sívökulu skipshöfn sem alltaf lagði sig alla fram til aðstoðar og hjálpar okkur Eyjamönnum, heppnaðist að finna eina bátinn, sem var með bilaða vél, og var með hann í togi vestur af Eyjum þar til veðrinu slotaði.

Einn þeirra báta, sem ekki náðu undir Eyjar þessa útilegunótt, var m/b Sigríður VE 240. Hún hafði lagt línuna djúpt í suðvestursjónum og var ekki búin að draga fyrr en um dimmumót. Þá fara þeir að bagsa í átt til Eyja. Þeir sjá ekki út úr augum fyrir veðrinu, og eftir hátt á þriðja tíma slátt og bags gerist það, að þeir eru rétt búnir að keyra á bát, sem þeir halda að geti hafa verið Skógafoss. Formaður á honum var Jónas Sigurðsson frá Skuld. Eftir þetta hættu þeir að keyra, en andæfðu upp í veðrið fram í birtingu um morguninn. Eftir 1½ tíma landstím komu þeir upp að Einadrangi, og voru með þeim seinni í land.
Nóttina fyrir 13. febrúar, þegar sjómenn fóru að huga að útliti dagsins, fannst flestum það ískyggilegt. Því fóru fáir á sjó þennan dag, en þeirra á meðal var ég. Átta bátar munu hafa róið og fóru sumir þeirra ekki fyrr en undir birtingu.
M/b Sigríður fór í sína síðustu sjóferð þessa nótt. Mágur minn, Eiður Jónsson, var skipstjórinn; Jón Vigfússon bróðir minn var vélamaður; hásetarnir þrír voru: Sigurður Vigfússon, ættaður úr Fljótum í Skagafjarðarsýslu, búsettur á Akureyri; Ágúst Pétursson frá Reykjavík og Frímann Sigurðsson, húnvetningur.

Um Sigríðarslysið og bjarggöngu Jóns var á sínum tíma mikið skrifað að vonum, og sú saga því vel kunn. Er því ekki meining mín að rifja upp þann atburð að neinu marki. En ýmsar minningar frá þessum dögum eru mér í fersku minni. Faðir minn, Vigfús Jónsson í Holti, var einn af þremur eigendum bátsins. Hinir voru: Sigurður Sigurðsson, Lögbergi og Kristmann Þorkelsson í Steinholti. Tvær síðustu vertíðir föður míns, 1921 og 1922, var hann formaður með Sigríði, það voru jafnframt mínar fyrstu vertíðir. Vertíðina áður en Sigríður strandaði var ég þar vélamaður hjá Eiði.

Þrátt fyrir suðaustan hvassviðri og mikla snjókomu, sem skall á um hádegið þennan dag, náðu allir þeir bátar landi er á sjó voru, nema Sigríður. Um morguninn 14. febrúar, þegar ekkert hafði enn frést af Sigríði, fór faðir minn að undirbúa leiðangur til leitar af landi. Leiðangurinn var ekki lagður á stað upp úr kl. 1000, þegar Jón bróðir birtist allt í einu inni í eldhúsi, á sokkaleistunum en alklæddur að öðru leyti, þó ekki í sjógalla. Fengum við nú, heimilisfólkið í Holti, að heyra hvað komið hafði fyrir.
Eftir að báturinn strandaði höfðu allir 5 mennirnir komist upp í sylluskúta í berginu, en hann einn komst upp á brún í birtingu morguninn eftir. Alla nóttina höfðu þeir haldið sig þarna á syllunni í að öðru leyti þverhníptu berginu öllu klakasíluðu.

Fljótlega komst björgunarleiðangurinn á stað undir forustu föður minns og Sigurðar Hróbjartssonar á Litlalandi, sem var fjallaköttur mikill og átti að síga niður bergið til mannanna fjögurra. Þeir höfðu öll nauðsynleg áhöld með sér, sigvað og aðrar tilfæringar — og svo heitt kaffi. Áður hafði lent í töluverðu þrasi við Jón, því honum þótti sjálfsagt að hann færi með, til að vísa á stystu leiðina. Honum fannst hver mínúta dýrmæt svo komist yrði sem fyrst til bjargar félögum sínum. En upplýsingar hans þóttu nógu glöggar, enda fannst öllum hann vera búinn að skila sínu.
Kvenfólkinu á heimilinu var falið að annast Jón og koma honum til hvíldar, einnig að undirbúa komu þeirra sem verið var að sækja í bergið.

Mér var falið að ná í Pál Kolka lækni, og brá hann skjótt við. Hann kom við í apótekinu og fékk þar hálfflösku af koníaki og bað mig geyma í rassvasanum. Síðan þrömmuðum við á stað vestur Vestmannabraut, því snjór var svo mikill að ekki var bílfært. Þegar við komum innundir Fiskhella, tókum við stefnuna nyrst á Hamarinn. Ég tróð brautina á undan lækninum í mjög þungri færð, því jafnfallinn snjór náði vel upp fyrir hné og víða voru húsháir skaflar eftir undangengin óveður. Ég man ekki eftir öðrum eins snjó fyrr né síðar í Eyjum.

Þegar við komum vestur á Hamarinn, sáum við ekkert, sem benti til strandsins. Héldum við því suður með brúninni og eftir drjúgan spöl sáum við mikið fuglager undir berginu nokkuð álengdar, sem benti til að eitthvað væri að gerast. Þarna var þá saman kominn mikill fuglaskari að gæða sér á lokadagsafla Sigríðar, og á bjargbrúninni uppyfir komum við fljótt auga á björgunarmennina. Þegar við svo komum til þeirra, var verið að leysa fyrsta skipbrotsmanninn úr uppdráttarvaðnum.
Sigurður Hróbjartsson var kominn á sigbandi til mannanna í berginu og batt hann þá hvern af öðrum í vaðinn. Nú blandaði læknirinn koníakinu í heitt kaffið og gaf skipbrotsmönnum hverjum um sig, um leið og þeir voru komnir upp.

Allt björgunarstarfið á bjargbrúninni gekk bæði fljótt og vel, enda var til staðar yfirdrifið af mannskap. Á heimleiðinni tróðu margir björgunarmannanna brautina í snjónum til að létta undir fæti fyrir skipbrotsmennina, en aðrir voru þeim til stuðnings. Eftir um klukkutíma gang var svo komið heim að Holti.
Eftir að læknirinn hafði gengið úr skugga um að allir skipbrotsmenn væru óbrotnir og sæmilega á sig komnir, varð þeim hvíldin kær. Og morguninn eftir voru þeir furðu hressir og líkamlega vel á sig komnir. En hvaða áhrif svona reynsla kann að hafa á þá, sem fyrir henni verða, skal hér ekki fullyrt um. Sjálfsagt eru þau á ýmsan hátt sálarlegs eðlis.

Eftir að læknirinn hafði gengið úr skugga um að allir skipbrotsmenn væru óbrotnir og sæmilega á sig komnir, varð þeim hvíldin kær. Og morguninn eftir voru þeir furðu hressir og líkamlega vel á sig komnir. En hvaða áhrif svona reynsla kann að hafa á þá, sem fyrir henni verða, skal hér ekki fullyrt um.
Sjálfsagt eru þau á ýmsan hátt sálarlegs eðlis.

Ráðning draumsins.

Að endingu fáein orð vegna draumsins. Ég geymdi hann í huga og sagði ekki frá honum fyrr en ég þóttist vita hvað hann boðaði.

Þegar mig dreymdi hann, var séra Oddgeir Guðmundsson látinn fyrir um 4 árum. Hann hafði skírt og fermt okkur flest systkinin, þar á meðal mig og Jón. Það eina úr draumnum sem ég mundi aldrei glögglega var, hvort talan sem presturinn nefndi var 28 eða 38, en báðar tölurnar voru alltaf i mínum huga.

Nokkrum árum seinna var ég að lesa í riti Slysavarnafélags Íslands. Sé ég þar þá slysaskýrslu nokkurra ára hér við land, og þar stendur að 1928 hafi farist við Ísland 38 menn. Opnast nú fyrir mér — þar sem báðar tölurnar 28 og 38 blasa við mér og ég minnist draumsins — að hann hafi átt við árið 1928 og sé því löngu kominn fram.

Róður í páskavikunni 1933.

Vertíðina 1933 lögðum við á gömlu Voninni VE 279, netin 8. apríl og áttum þau í VNV frá Þrídröngum, við NA homið á Karganum í kringum lítinn hraundrang austur úr aðalhrauninu.
Á árunum fyrir og eftir 1930, að því ári meðtöldu, var mjög gott línufiskirí við Eyjar en misjafnara í netin, enda var þá enginn friður fyrir togurunum. Ef netin voru lögð utan við hraunin á góðan botn, hirtu togararnir allt. Sumar vertíðirnar á þessu tímabili hreyfðu sumir bátar ekki netin, en réru alla vertíðina með línu. Margt bjóðið fór í togarana og oft stór hluti línunnar. Þó voru nokkur góð línusvæði, sem togararnir sóttu lítið eða ekki á, og ekki voru aflasælar slóðir fyrir net.

Vonin VE 279, 26 tonn. Byggð í Noregi 1919, keypt til Vestmannaeyja 1928.

Á skírdag, 13. apríl, lögðum við á gömlu Voninni á stað snemma morguns í róður, til að vitja um netin. Veðurspáin mun hafa verið vaxandi suðaustanátt þegar á daginn liði, hvassviðri og snjókoma síðdegis.
Í birtinguna var komið að netunum og er þá kominn frískur SA vindur. Strax var byrjað að draga og tvær 15 neta trossur dregnar inn, án þess að leggja þær aftur. Samt var afli mjög góður, sérstaklega í þær miðjar. Nú er þriðja trossan dregin, sú lá í norður og suður þétt vestan við áðurnefndan hraunstand, — og hún lögð á sama. Þá var farið í fjórðu trossuna og þá síðustu, því þá var hámarkið að hafa 4 trossur. Hún lá sömu stefnu og þriðja trossan, nema þétt austan við standinn. Þessi trossa var einnig lögð á sama.
Nú var lestin orðin full upp í lúgukarm og er þá ekki annað eftir en leggja 2 fyrstu trossurnar á sama og þær voru dregnar upp af: aðra sunnan við standinn til vesturs og hina þétt með honum að norðan í sömu stefnu. Lágu því tvær seinna lögðu trossurnar í þverkross yfir þær sem lágu austan og vestan við standinn, og hann því milli allra trossanna — innibyrgður í ferhyrning af netum.

Skipshöfn Vonarinnar VE 113 á síldveiðum fyrir Norðurlandi 1946. Myndin tekin við Ásbyrgi í skemmtitúr, sem farinn var snemma á úthaldinu.Frá vinstri: 1. Árni Guðjónsson frá Breiðholti; 2. Þorvaldur Örn Vigfússon frá Holti; 3. Rafn Kristjánsson frá Flatey á Skjálfanda; 4. Einar Sv. Jóhannesson (á Lóðsinum); 5. Guðmundur Guðlaugsson, Lundi; 6. Guðmundur Þorsteinsson, Landagötu; 7. Hermann Jónsson, Hásteinsvegi 5; 8. Jón Nikulasson, Kirkjubæ; 9. Guðmundur Vigfússon; 10. Guðlaugur Vigfússon; 11. Jón Vigfússon; 12. Kristján Björnsson frá Kirkjulandi; 13. Björn Jónsson frá Hofsósi; 14. Bernódus Kristjánsson frá Stað; 15. Gísli Friðrik Johnsen, Brekku. Einn skipverja, Jónas Guðmundsson frá Flatey, vantar á myndina.

Þegar við drógum þarna fyrst, 9.apríl, hafði ein trossan lent yfir fyrrnefndan stand, og slitum við þar niður 3 net. Setti ég þá bauju á standinn í þeim tilgangi að ná netunum upp við tækifæri. Þessi bauja stóð þarna til 27. apríl, er við tókum netin upp. Þá var að verða tregt og því skipt yfir á línuna. Eftir þennan hálfa mánuð, sem við höfðum netin í sjó, gáfu þau okkur 23465 fiska, eftir aflaskýrslu minni. 13 daga var dregið, páskadagarnir gengu úr og 25. og 26. apríl. Þar sem þetta var allt saman hraunafiskur eins og hann gerðist þá, með afbrigðum vænn — þá voru ekki neinir ókynþroska stútungar — hef ég áætlað þetta 230 tonn upp úr sjó, því stundum þurfti ekki 100 í tonnið. Á þessum tíma var fiskurinn talinn en ekki vigtaður. Það var seinna.

Þá er að segja frá heimsiglingunni þennan skírdag. Stefnan var tekin norðan Smáeyja milli Dranga, sunnan Litlaboða, sem er suður af Þrídröngum. Þungt var í móti að sækja; komið rok og snjóslitringur en tiltölulega sjólítið. Gamla Vonin var mjúk í mótstími og átti til að renna sér í ölduna og vera blaut á framendann.
Sem fyrr segir var lestin full af fiski og Vonin því vel þunguð, — var hún því oft hálf lunningarfull. Það kom þó ekki að sök, því lensportin voru stór og góð og rann vel út af henni. En verst var að koma vildi leki með kinnungunum að ofan, ef þeir urðu fyrir einhverju hnjaski, sem oft vildi verða við bryggjur.
Gamla Vonin var norskbyggð, — orðin 24 ára gömul. Í þá daga þóttu norskir bátar ekki sterkbyggðir, en yfirleitt taldir mjög góðir sjóbátar, og það var gamla Vonin. Og vegna svona leka hafði lensidælan nú vart undan.
Rétt fyrir dimmumótin var komið undir Eiðið og veðrið þá orðið það hart, að tvísýnt þótti að leggja í Flóann og komast í höfn. Eins og kunnugt er, var þessi leið erfið í SA-veðrum, oft tvísýn og jafnvel ófær. En við gosið 1973 er mér sagt að þetta hafi gjörbreyst til batnaðar.

Ég hafði fullan hug á að ná í höfn, ef mögulegt væri. Við Eiðið var stoppað lítinn tíma, þar sem hreinsuð var lensidæla og annað í vél yfirfarið og gengið úr skugga um að allt væri í lagi. Ofan dekks var allt lagfært og betur bundið, eftir því sem með þurfti. Síðan ákvað ég að halda í Faxasund og kanna útlitið, enda þótt mér þætti hæpið að takast mætti að komast í höfn. Ég þóttist hafa í bakhöndinni að snúa aftur undir Eiðið, ef mér litist ekki á sjólagið austanvið.
Þegar farið var framhjá Lat og Faxa fannst mér grilla sæmilega í klettana, þó farið væri að bregða birtu, enda má alveg skríða þar með landinu. Þegar komið var vel austur úr sundinu herti bylinn, og veðrið var í sínum versta ham. Óhætt er að segja að skyggni var ekkert og sjólagið, — þó ekkert sæist, — var óskaplegt.

Guðlaugur Vigfússon frá Holti
Axel Vigfússon frá Holti tók á sinn hátt virkan þátt í þróttmikilli útgerð bræðra sinna. Hvarf frá Heimaey með gosinu 1973, og líklega fyrir fullt og allt, — því miður.

Feginn hefði ég nú viljað geta notað áform mitt um að snúa aftur, en fannst eins og á stóð óráðlegt að leggja bátinn undir flatt og Faxasund ekki breitt, ef eitthvað færi úrskeiðis á snúningnum. Hætturnar voru á bæði borð, — Faxasker annars vegar og Faxanefið hins vegar. Mátti því ekki mikið útaf bera, ef komast ætti vest¬ur úr sundinu. Ég tók því þann kostinn, þó ekki væri hann góður, að halda áfram.
Ekki mátti keyra vélina mikið vegna sjóanna, sem helltu sér hver af öðrum framanyfir bátinn, og varð alveg að slá af þegar hörðustu hnútarnir skullu yfir.
Það var ógerningur að gera sér grein fyrir hvort nokkuð miðaði áfram, samt vonaði ég og hélt að eitthvað miðaði í áttina.
Nú allt í einu rekur Jón bróðir hausinn upp úr vélarhúslúgunni, sem var aftantil í stýrishúsinu hjá mér, og segir að mikill sjór sé kominn í bátinn. Annaðhvort sé lensidælan stífluð eða lekinn sé að aukast. Þar með var hann horfinn niður aftur.

Einhvern veginn tókst að kalla hásetana til dekks, og meðan þeir voru að koma sér að dælunni sló ég alveg af ferðinni, en reyndi sem ég gat að halda bátnum sem best uppí.
Þegar allir hásetarnir voru komnir upp á dekk, nema Guðlaugur bróðir minn, sem var kominn í lúkarskappann, ríður þessi feikna brotsjór yfir bátinn framanfrá og langs aftur eftir honum, og fannst mér hann um leið hnykkjast afturábak og vera að stingast niður á afturendann. Eftir brotið svamlaði ég í stýrishúsinu hálffullu af sjó, en enginn af 5 eða 6 mönnunum, sem á dekki voru, losnuðu við bátinn, þó ótrúlegt sé. Ekki stoppaði vélin við áfallið, gat ég því sett á ferð og samstundis slegið bátnum undan, þó lunningarfullur væri.

Fljótt rann út af bátnum við ferðina, og var nú settur út poki með tvisti og smurolíu, til að lægja brotsjóina. Svona pokar komu oft að góðu gagni, og einnig þarna. Ekki vissi ég fyrr en í land var komið að lúkarskappinn hafði farið af við áfallið. Þá sagði Guðlaugur mér að hann hefði álitið sig gera mest gagn með því að fara ekki úr gatinu, en breiða sem best úr sér, til að sem minnst kæmist niður af sjó. Þetta mun hafa verið hans fyrsta vertíð, þá 16 ára gamall. Nú varð að giska á hvort nægilega langt væri komið til suðurs í flóann, til að taka stefnuna beint á hafnarmynnið. Frekar hallaðist ég að því að svo væri ekki, og tók því stefnuna meira vestlæga í fyrstu, - með sjó og vind á afturhornið bakborðsmegin. Ekki sást frekar en áður út fyrir borðstokkinn fyrir veðurofsanum, snjókomunni og náttmyrkrinu. Sjórinn hafði nú talsvert aukist i bátnum og dælurnar ekki vel virkar. Hásetarnir strituðu við dekkdæluna og Jón við lensidæluna í vélarhúsinu við vondar aðstæður, því sjór var kominn upp á palla og vélin farin að hiksta, því að loftport hennar voru farin að soga til sín sjo.

Þegar haldið hafði verið svona undan drjúglanga stund, finnst mér sjóirnir vera orðnir svo ofsalegir, að það dettur í mig, — eða það er eins og sagt sé við mig að við séum að keyra á land við Urðirnar. Þrátt fyrir hættuna því samfara að leggja bátnum undir flatt í þessum ofsasjó, sný ég samstundis hart í stjór og held drjúga stund til norðurs. Enn hikstar vélin en gengur þó.

Eftir þessa drjúgu stund, sem ég man ekki til að hafa mælt á klukkuna, sný ég til vesturs. Og rétt í sömu mund og komið var á vestlægu stefnuna, grilli ég vitann á syðri hafnargarðinum og er hann þá lítið eitt til bakborða, svo ekki þurfti að breyta um strik innfyrir garð. En um leið og við sluppum inn fyrir garðinn stoppaði vélin, en nógur var krafturinn í veðrinu til að láta synda undan á reiðanum vestur að Básaskersbryggju, og var látið reka upp að við austurkantinn.
Þó svo hafi átt að heita að ég héldi við stýrið í þessum páskavikuróðri 1933, hefur annar okkur öllum æðri ráðið stefnunni.

Síldveiðar með tveggja báta snurpunót — veiðiaðferð, sem varla sést framar. Þetta eru þeir á Voninni að háfa sumarið 1946.Í stóra bátnum eru, eins og venja var, stýrimaður og vélstjóri (þarna Einar Sveinn og Jón í Holti). Í fremri nótabátnum sjást frá vinstri: Beddi á Stað, Jónas Guðmundsson, Hermann Jónsson, Guðmundur Guðlaugsson og Kristján á Kirkjulandi. Og í aftari bátnum: Rafn Kristjánsson, Guðmundur Þorsteinsson og Bói í Holti.