Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1976/ Stýrimannanámskeið í Vestmannaeyjum 1957-1958
Stýrimannanámskeið í Vestmannaeyjum Veturinn 1957 til 1958.
Veturinn 1957-58 var haldið stýrimannanámskeið í Vestmannaeyjum á vegum Stýrimannaskólans í Reykjavík og eftir nýrri reglugerð þar um. Námskeið þetta stóð í u.þ.b. 4 mánuði og veitti réttindi til skipstjórnunar á 120 rúmlestra fiskiskipum og minni. Námskeið af þessu tagi höfðu legið niðri um árabil. Var ætlun stjórnvalda að afnema með öllu stýrimannafræðslu aðra en þá sem Stýrimannaskólinn í Reykjavík veitti eftir tveggja ára nám, þ.e. skipstjórnarréttindi á fiskiskipum af ótakmörkuðum stærðum. En fljótlega kom í ljós, að þessar áætlanir stjórnvalda stóðu á ótraustum grunni. Áhugi og jafnvel fjárhagsleg geta sjómanna almennt til að afla sér menntunar fór dvínandi. Undanþágufarganið var farið að tröllríða í flotanum, og fyrir kom að enginn í áhöfn fiskiskipa hafði tilskylda skólamenntun skipstjórnarmanna.
Þá þá var það fyrir forgöngu ýmissa góðra manna, — og er þá á engan hallað þótt sér í lagi séu nefndir Jónas Sigurðsson skólastjóri og Ingólfur Þórðarson kennari við Stýrimannaskólann í Reykjavík, — að hafist var handa við endurupptöku námskeiðahalds í fiskibæjum úti um land, sem veita skyldu takmörkuð réttindi eftir þar til sniðið nám.
Stýrimannanámskeiðið í Vestmannaeyjum 1957—58 var fyrsta námskeiðið, sem haldið var utan Reykjavíkur eftir hinum nýju sjómannafræðslulögum. Forstöðumaður námskeiðsins var Páll Þorbjörnsson skipstjóri og aðalkennari ásamt honum var Friðrik Ásmundsson skipstjóri.
Aðalprófdómarar voru Ingólfur Þórðarson kennari við Stýrimannaskólann í Reykjavík og Angantýr Elíasson skipstjóri.
Námskeiðið var mjög vel sótt og þótti takast hið besta í alla staði. Enginn vafi er á því, að þetta námskeið varð frumhvatinn að stofnun Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum, og allri þeirri giftu, sem sú stofnun leiddi til, að því er snertir sjómannamenntun í Vestmannaeyjum.