Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1976/ Sjómannaskólarnir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Sjómannaskólarnir

Um Skólamál.

Lýður Brynjólfsson, skólastjóri.
Iðnskólinn í Vestmannaeyjum. (Ljósm.: Sigurgeir)
Kristján Jóhannesson, vélfræðikennari.

Nú síðustu ár hefur þeim röddum farið fjölgandi, sem hafa krafist þess að menntun ungs fólks geti farið fram í heimahéraði og að hægt verði að fá út úr þeirri menntun réttindapróf, er gæfu full réttindi til ýmissa starfa.

Nú alveg síðustu ár höfum við heyrt tvö ný orð um skóla: Grunnskóla og Fjölbrautaskóla. — Ég hef æði oft verið spurður, hvað liggi að baki þessara orða og það er ekki rúm fyrir það hér að gera þessum orðum full skil, enda ekki ætlunin með þessum línum. Þó aðeins: „Grunnskóli" veitir undirstöðu undir framhaldsnám — „Fjölbrautaskóli" veitir nemendum vissar leiðir (val) að settu marki.
Sem dæmi um fjölbrautaskóla er hægt að benda á skólasamsteypu þá, sem hóf göngu sína hér í Eyjum sl. haust. Á ég þar við Iðnskóla, Vélskóla og Stýrimannaskóla, sem hafa unnið saman undir einni stjórn og í sama húsi, og sameiginleg kennsla hefur farið fram í þeim námsgreinum, sem henta fyrir alla. Þetta fyrirkomulag álít ég mjög skynsamlegt.

Í fyrsta lagi nýtist: húsnæði, rafmagn og hiti, ræsting, svo og kennslukraftar mikið betur og leiðir af sér verulegan sparnað hvað reksturskostnað snertir. Þessi skólaeining telur í ár 124 nemendur, og er það að mínu mati mjög heppileg stærð, en gæti þó verið um 150, án þess að kostnaðarauki yrði verulegur. Þessi skólaeining skiptist í þrjár aðalgreinar, eins og áður er sagt.
En í raun og veru verða í þessum skóla valgreinar sem næst 12, ef allar iðngreinarnar eru flokkaðar sundur.

Ég tel, af minni 39 ára starfsreynslu, að hér hafi verið stigið spor í rétta átt, og samstarfið í skólanum hefur verið mjög gott. Ég vil færa kennurum og nemendum þakkir fyrir ánægjulega samveru. Þá ber einnig að þakka sérstaklega þeim: Stefáni Ól. Jónssyni, deildarstjóra Verk- og tæknimenntunardeildar í Menntamálaráðuneytinu, Andrési Guðjónssyni, skólastjóra Vélskóla íslands og Jónasi Sigurðssyni, skólastjóra Stýrimannaskólans í Rvík, sem gerðu sér ferð hingað allir saman, að athuga möguleika á þessu fyrirhugaða skólahaldi. Þeim þremenningum leist vel á allar aðstæður hér varðandi húsnæði og búnað. Skólinn byrjaði því á réttum tíma, og þessir ágætu menn hafa stutt drengilega við bakið á okkur við að gera þetta skólahald sem best og fullkomnast.

Þá vil ég að komi fram, að skólanefnd Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum vill vinna eindregið að því, að strax næsta haust verði 2. stig stýrimannaskóla hér, og sama sinnis er Andrés Guðjónsson, hann vill að hér verði 2. stig vélskóla.

Að lokum vil ég láta þá ósk mína í ljós, að skólinn megi njóta áfram næsta skólaár þeirra kennara, sem nú hafa starfað við skólann í vetur, þvi þá mun þetta allt fara vel og fyrr komast í fast form, eins og áætlað er.
Lýður Brynjólfsson, skólastjóri.

Vélskólinn.

Vélskóli Íslands, Vestmannaeyjum, var settur 6. okt. 1975 í Iðnskólahúsinu; í fyrsta sinn eftir að honum var slitið í maí 1973. Þá fóru skólaslitin fram í hátíðasal Sjómannaskólans í Reykjavík samtímis og Vélskólanum í Reykjavík var slitið. Hafði Vélskólinn hér í Eyjum fengið aðstöðu til að ljúka skólaárinu í húsnæði Vélskólans í Reykjavík, vegna alkunnra ástæðna, og var öll fyrirgreiðsla þeirra þar til sóma, eins og ætíð.

Í febrúar 1974 buðust bæjaryfirvöld hér til að láta Vélskólann hafa Áhaldahús bæjarins til verklegrar kennslu. Var þetta boðið á fundi, sem haldinn var í Menntamálaráðuneytinu að beiðni Vélskólans. Stefnt var að því, að skólinn gæti tekið til starfa um haustið 1974, en af því varð þó ekki. Lýkur því 8. skólaári, og því fyrsta eftir gos, nú í maí, en það byrjar 15. september og stendur yfir í 8½ mánuð.
Skólahald hefur gengið eftir áætlun með þeim breytingum, sem gerðar voru á rekstri skólans í haust.
Fastir nemendur í 1. stigi hafa verið 5, en 7 nemendur til viðbótar taka próf í 1 stigi. Þeir hafa verið utanskólanemendur. Áætlað er, að 2. stig skólans verði hér einnig næsta vetur.

Nemendur Vélskólans ásamt aðalkennara. — Taldir frá vinstri: — Hjálmar Guðnason, Vestmannaeyjum; Finnbogi Guðmundsson, Reykjavík; Ólafur Granz, Vestmannaeyjum; Ómar Guðmundsson, Vestmannaeyjum; Ólafur Sigurðsson, Stykkishólmi; Sigurður Vignisson, Vestmannaeyjum; Guðmundur Jensson, Vestmannaeyjum; Þórður Þórðarson, Þórshöfn; Rafn Jónsson, Þórshöfn; Kristján Jóhannesson, kennari; Brynjar Stefánsson, Vestmannaeyjum; Guðmundur Stefánsson, Vestmannaeyjum. Á myndina vantar Má Jónsson, Vestmannaeyjum. (Ljósm.: Sigurgeir).

Kennarar við skólann hafa verið þessir, og kennt þessar greinar:
Kristján Indriðason, stærðfræði og eðlisfræði, Bergur J. Þórðarson, ensku, dönsku og íslensku; Kristinn Sigurðsson, eldvarnir og björgun, Jón Sighvatsson fjarskiptatækni og rafeindatækni; Unnur Gígja Baldvinsdóttir og Hólmfríður Ólafsdóttir héldu námskeið í skyndihjálp; Kristján Jóhannesson, vélfræði I, II og verklega, rafmagnsfræði, kælitækni, stýritækni, smíðar og flatarteikningu.

Í haust leit jafnvel út fyrir, að skólinn fengi ekki leyfi frá Menntamálaráðuneytinu til að fara af stað, vegna þess að ekki væru nógu margir nemendur. En vegna rösklegrar framgöngu þáverandi bæjarstjóra og velvildar menntamálaráðherra fékk málið afgreiðslu með því að breyta skólahaldi og gera það ódýrara í rekstri. Er væntanlega frá því skýrt af skólastjóra skólanna, Lýð Brynjólfssyni annarsstaðar í blaðinu.
Hús það, sem skólinn fékk til verklegrar kennslu var ekki rýmt fyrr en um það leyti sem skólinn byrjaði í haust. Hefur því þurft að gera breytingar og lagfæringar á því, meðan skólinn hefur staðið. Aðstaða til smíðakennslu er nokkuð góð. Keyptar hafa verið vélar til kennslunnar og nauðsynlegustu verkfæri.
Herbergi til rafsuðukennslu er komið, en ekki fullfrágengið. Einnig hefur verið kennd meðferð logsuðutækja. Verkleg og bókleg kennsla hefur farið fram í eldvörnum, og björgunaræfingar gerðar bæði á sjó og landi. Farið var með Lóðsinum með björgunarbát og gerðar verklegar æfingar á honum, skotið neyðarblysum, báturinn réttur af og fleira. Einnig kynnntu nemendur sér vélarúm Lóðsins.
Verkleg rafmagnsfræðikennsla hefur verið í lágmarki, en von er á fleiri tækjum til þeirra hluta.

Í verklegri vélfræði hefur verið unnið við að taka upp MAK-vél, sem fengin var til skólans úr aflaskipinu Frá, VE. Hefur verið gengið frá henni á steyptum undirstöðum og verður hún sennilega notuð til kennslu næstu árin. Nemendur hafa unnið við að taka vélina upp og setja hana saman, og hefur það reynst mikið og fræðandi starf. Vél þessi var sama og gefin af Óskari Þórarinssyni, og er honum þakkað þetta framlag til skólans.

Vélskólanemendur að störfum í vélasal. - (Ljósm.: Sigurgeir).

Margir aðrir hafa líka sýnt hug sinn til skólans, með góðum gjöfum. T. d. afhentu eigendur Ásvers VE tvær ljósavélar af Lister gerð til skólans. Buch vél var gefin skólanum úr Hvítingi VE, GM-aðalvél frá Einari Sigurjónssyni og Óskari Jónssyni. Einnig hefur Magnús Tómasson frá Hrafnabjörgum gefið skólanum MWM-vél með sígarettukveikju, úr trillu sinni. Þá eru til: Tuxham glóðarhausvél, Caterpillar, GMC bensínvél með rafala og Rolls Roys með rafala hefur skólinn til æfinga frá bænum.
Ekki sakar að geta þess, að elsta ljósavél bæjarins er nú komin hingað aftur eftir mikla hrakninga. Það þyrfti að koma henni sem fyrst upp aftur, ef hún á ekki að skemmast meira.

Skólinn hefur notið góðrar fyrirgreiðslu hjá mörgum fyrirtækjum við uppbygginguna, eins og t. d. Áhaldahúsi bæjarins, vélsmiðjunum, Neista, Tréverki og mörgum fleirum. Eru þeim færðar bestu þakkir fyrir.

Kristján Jóhannesson kennari við Vélskóla íslands, Vestmannaeyjum

Stýrimannaskólainn.

Frá vinstri: Brynjóifur Jónatansson, tækjakennari við Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum frá stofnun; Róbert Dan Jensson, skipstjóri frá Reykjavík, prófdómari (hefur verið prófdómari við Stýrimannaskólann í mörg ár) og Friðrik Ásmundsson, siglingafræðikennari. (Ljósm.: Sigurgeir).
Úr tækjastofu Stýrimannaskólans. (Ljósm.: Sigurgeir).

Lög um Stýrimannaskólann í Vestmannaeyjum voru samþykkt á Alþingi 18 desember 1964, en skólinn hafði þá þegar tekið til starfa, eða 1. Október þess árs. Að sjálfsögðu lagðist starfsemi skólans niður í þessari byggð, þegar eldgosið hófst 23. janúar 1973, en starfseminni var haldið áfram í húsnæði Stýrimannaskólans í Reykjavík til vors 1974, þegar nemendur, sem voru í 1. stigi þegar eldgos hófst, útskrifuðust.

Það var mörgum áhyggjuefni, þegar skólinn varð ekki starfræktur 1974— 1975.
Með samþykki Jónasar Sigurðssonar, skólastjóra Stýrimannaskólans í Reykjavík, Andrésar Guðjónssonar, skólastjóra Vélskóla íslands og Lýðs Brynjólfssonar, skólastjóra Iðnskóla Vestmannaeyja, leyfði Menntamálaráðuneytið í september 1975, að skólinn yrði starfræktur hér þetta skólaár í samvinnu við Iðnskólann og Vélskólann.

Hinn 2. október s.l. hófu þessir skólar sameiginlega göngu sina. Námsgreinar, svo sem enska, danska, íslenska, stærðfræði og eðlisfræði, eru kenndar sameiginlega við þessa skóla. Kennari í málunum hefur verið Bergur Jón Þórðarson, en í stærðfræði og eðlisfræði Kristján Indriðason. Eldvarnir hefur kennt Kristinn Sigurðsson. Sérfög stýrimannaskóla: siglingafræði, siglingareglur og skriflega sjómennsku hefur undirritaður kennt. Brynjólfur Jónatansson hefur kennt á siglinga- og fiskileitartæki. Hann hefur einnig séð um uppsetningu tækjanna að nýju. Jón Sighvatsson hefur kennt reglur um fjarskipti o. fl. í sambandi við loftskeyta- staðarákvörðunartæki. Jón Hauksson hefur kennt sjórétt, Karl Haraldsson heilsufræði og Hallgrímur Þórðarson sjóvinnu.

Nemendur hafa notið fræðslu Framleiðslueftirlits sjávarafurða, bæði í fyrirlestri í skólanum og með tveimur heimsóknum í hraðfrystihús. Haldin var björgunaræfing á Eiðinu og einnig á Básaskersbryggju og Nausthamarsbryggju.
14. febr. sl. var farin kynnisferð til Stýrimannaskólans í Reykjavík. Jónas Sigurðsson skólastj., ásamt tveimur kennurum skólans, eyddu sunnudegi í að sýna okkur tæki skólans. Var það góð ferð.
Farnar voru kynnisferðir í b.v. Vestmannaey og m.s. Gullberg. Skipstjórar þessara skipa, Eyjólfur Pétursson og Guðjón Pálsson, tóku nemendum mjög vel, leiddu þá um allt og sýndu og útskýrðu hinn fullkomna útbúnað skipa sinna.

Siglingafræðitími hjá Friðrik Ásmundssyni. — Nemendur taldir frá vinstri: — Erlendur Þórisson, Vestmannaeyjum; Benóný Friðrik Færseth, Vestmannaeyjum; Ægir Örn Ármannsson, Vestmannaeyjum; Sigmar Gíslason, Vestmannaeyjum; Ólafur Örn Ólafsson, Akureyri.(Ljósm.: Sigurgeir).

Siglt var með Lóðsinum heilan eftirmiðdag. Gerðar voru ýmsar siglingafræðiathuganir og björgunaræfingar. Sigurgeir Ólafsson var skipstjóri á Lóðsinum í þessari ferð, og með í ferðinni voru Kristinn Sigurðsson og Þórarinn Sigurðsson til halds og trausts í sambandi við björgunaræfingar og notkun gúmbjörgunarbáta.

Stýrimannaskólanemendur í heimsókn hjá fiskmatinu. — Bogi Finnbogason, fiskmatsmaður, verður fyrir svörum.(Ljósm.: Sigurgeir).
Sigmar Gíslason, dúx í Stýrimannaskólanum, tekur við verðlaunagrip frá skólastjóra Lýð Brynjólfssyni. (Ljósm.: Sigurgeir).

Ég vil lýsa því yfir hér, að ég tel að gæfa skólans á þessum vetri hafi verið mjög góður nemendahópur, þótt fámennur hafi verið, aðeins 5 menn. Ósk mín og von er sú, að sú ástundun og reglusemi, sem nemendur skólans hafa sýnt í þessu starfi í vetur fylgi þeim út í störfin á hafinu.
Þessir ungu menn heita: Benóný Friðrik Færseth, Erlendur Þórisson, Ólafur Örn Ólafsson, Sigmar Gíslason og Ægir Ármannsson.

Próf hófust 12. apríl og þeim lauk 26. apríl. Í nokkrum greinum hafði þó verið prófað áður.
Prófdómarar voru: Steingrímur Arnar og Róbert Dan Jensson úr Reykjavík i sérfögum stýrimannaskóla, stærðfræði og eðlisfræði. Séra Kjartan Örn Sigurbjörnsson í tungumálum. Allan Magnússon í sjórétti. Einar V. Bjarnason í heilsufræði og Einar Guðmundsson í verklegri sjóvinnu.
Allir nemendur stóðust prófið og hlutu þeir allir 1. einkunn. Hæstu einkunn hlaut Sigmar Gíslason, 141,5 stig, þ. e. meðaleinkunn 8,84.

Skólanefnd Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum skipa 5 menn. Þeir eru: Óskar Matthíasson, formaður, tilnefndur af menntamálaráðherra; Þorsteinn Sigurðsson, tilnefndur af Útvegsbændafélagi Vestmannaeyja; Einar Guðmundsson, tilnefndur af Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Verðandi; Þórður Rafn Sigurðsson, einnig tilnefndur af Verðandi og Sigmar Gíslason, tilnefndur af nemendum.
Þessir menn eru þekktir að því að vilja þessari byggð allt það besta. Þeir eru á einu máli um, að menntun skip stjórnarmanna hér í Vestmannaeyjum er eitt af stærstu nauðsynjamálunum. Ég veit, að þeir ætla að gera allt, sem í þeirra valdi stendur, til að skólinn festi rætur á ný og starfi hér framvegis.

Fyrir nokkru eignaðist skólinn nýjan japanskan veðurkortamóttakara, mjög skemmtilegt tæki. Bræðurnir Snorri og Þór Ólafssynir hafa gefið skólanum radar úr báti sínum, Ólafi Vestmann. Radar þessi er sömu gerðar og sá radar, sem skólinn á og notar. Hann kemur því skólanum sérlega vel.

Ég þakka skólanefnd Stýrimannaskólans ánægjulegt samstarf og samkennurum mínum einnig. Lýð Brynjólfssyni, skólastjóra, sem með áhuga og lagni hefur fléttað starf þessara þriggja skóla saman, færi ég bestu þakkir.

Friðrik Ásmundsson

Frá Vestmannaeyjahöfn