Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1976/ Nokkur þakkar- og kveðjuorð
DR. RICHARD BECK:
Nokkur þakkar-og kveðjuorð
Ég vil biðja Sjómannadagsblaðið að flytja Vestmannaeyingum hjartanlegar þakkir okkar hjónanna fyrir höfðinglegar viðtökur og ógleymanlegar samverustundir á Þjóðhátíð þeirra 1974 og innilegar kveðjur okkar og blessunaróskir. Jafnframt væri ég blaðinu mjög þakklátur fyrir að birta meðfylgjandi ritfregn. Hún er þannig tilkomin.
Í þakkar skyni fyrir kvæði eftir mig (,Kveðja til íslenskra sjómanna"), sem hann hafði lesið í íslenzkum blöðum, var Páll heitinn Oddgeirsson svo vinsamlegur að senda mér eigi aðeins elskulegt þakkarbréf, heldur einnig einkar hlýlega áritað eintak af Minningarriti sínu um sjómenn í Vestmannaeyjum og hinn fagra og svipmikla minnisvarða þeim til heiðurs. Var eintakið af ritinu til mín meðal annars þannig áritað: „Á sjómannadaginn 8. júní 1952." Mér þótti afar vænt um þessa sendingu, og þann hlýhug í minn garð, sem henni fylgdi, enda geymi ég ritið sem dýrmæta gjöf í bókasafni mínu.
Finnst mér ég ekki geta sent Sjómannadagsblaðinu að þessu sinni, samhliða þökkum og kveðjum okkar hjóna, annað, sem betur sæmir, en þessi umsögn mín um Minningarrit Páls Oddgeirssonar sjómönnum í Vestmannaeyjum til verðugs heiðurs og þakka. Bæta má ég því við, að umsögn mín, sem hér fylgir, kom í vikublaðinu Lögbergi í Winnipeg 18. september 1952.
MINNINGARRIT UM HETJUR HAFSINS.
„Föðurland vort hálft er
hafið helgað þúsund feðra dáð.
Þangað lífsbjörg þjóðin sótti,
þar mun verða stríðið háð.
Yfir logn og banabylgju
bjarmi skín af Drottins náð.
Föðurland vort hálft er hafið,
hetjulífi' og dauða skráð."
Þannig farast Jóni Magnússyni skáldi orð í hinum fagra og hjartnæma sjómannasálmi sínum, er að verðugu hefur verið tekinn upp í nýjustu útgáfu íslenzku Sálmabókarinnar; og skáldið dregur hér á áhrifamikinn hátt athygli lesendanna að því, hversu grundvallandi hið áhættusama starf sjómannsins hefur verið og er í lífi og afkomu þjóðarinnar, þó að hann eigi nú, góðu heilli, við stórum meira öryggi að búa í ótrauðri sjósókninni heldur en áður var.
En hafið hefur heimtað sínar fórnir, og heimtar enn, þó að sjómaðurinn standi nú stórum betur að vígi en fyrrum í óvægri baráttunni við æðisgang sævar og storma. Öll sjávarbyggðarlög Íslands eiga sammerkt um það að hafa goldið sínar mannfórnir í sókninni hörðu og hættusömu eftir lífsbjörg út á hafið; en óhætt mun mega segja, að engin þeirra, að minnsta kosti í hlutfalli við fólksfjölda, hafi orðið að sjá á bak í djúpsins þöglu gröf fleiri hraustum sonum úr sjómannahópi sínum heldur en Vestmannaeyingar. Sannarlega eiga þessar hetjur hafsins, hvaðan sem þær eru af landinu, það skilið, að nöfnum þeirra sé á lofti haldið. Þar hafa Vestmannaeyingar nú riðið fyrstir á vaðið, sjálfum sér til heiðurs og öðrum landshlutum eða byggðarlögum til fyrirmyndar.
Frá þessu brautryðjendastarfi þeirra er sagt í Minningarriti, sem út kom í Vestmannaeyjum í marz síðastliðnum, og gefið var út af hálfu Páls Oddgeirssonar (prests Gudmundsen) fyrrv. kaupmanns og útgerðarmanns þar í Eyjunum, sem samið hefur ritið og safnað til þess; en Páll hafði átt forgönguna að því, að sjómönnum og öðrum úr Vestmannaeyjum, er farist hafa í slysförum síðan um aldamót, hefur nú verið reistur þar veglegur minnisvarði.
Þeim atburði og fyrstu tildrögum hans lýsir Halldór Guðjónsson, skólastjóri í Eyjunum, á þessa leið í hinum greinargóða formála sínum að Minningarritinu:
„Sunnudaginn 21. október 1951 var afhjúpað minnismerki drukknaðra við Vestmannaeyjar — hrapaðra í björgum eyja — og þeirra, sem létu líf í flugferðum.
Forsaga þessa máls hefst á þjóðhátíð Vestmannaeyja 11. ágúst 1935. Þá flutti Páll Oddgeirsson, kaupmaður, ræðu fyrir minni sjómanna og stofnaði nefndan dag sjóð í því augnamiði að reist yrði veglegt minnismerki í Vestmannaeyjum."
Síðan rekur Halldór skólastjóri framhaldssögu minnisvarðamálsins, minnist þeirra, sem þar hafa mest komið við sögu, og hyllir að verðleikum sérstaklega Pál Oddgeirsson, upphafsmann málsins og formann sjóðstjórnar, fyrir forgöngu hans og ötulleik í málinu, og fyrir margháttaða nytjastarfsemi hans í þágu Vestmannaeyja og órofa tryggð hans við þessar æskustöðvar sínar.
Lýsir skólastjóri síðan afhjúpun minnisvarðans, sem var um allt hin virðulegasta og hugþekkasta. Sóknarpresturinn, séra Halldór Kolbeins, prédikaði, og „snérist ræða hans um minningu hinna föllnu og tilgang og tákn minnismerkisins." Þeir, sem þekkja til ræðumennsku séra Halldórs, efast ekki um, að honum hafi mælst vel við það tækifæri. Aðalræðuna við afhjúpunina flutti Páll Oddgeirsson, og fleiri tóku þar einnig til máls, eins og frekar mun sagt verða.
Um minnismerkið sjálft fer Halldór skólastjóri þessum orðum: „Guðmundur Einarsson, listamaður, frá Miðdal, hefur gert líkneskið, sem stendur á allháum fótstalli. Er sjálft líkanið, sjómaður í fullum klæðum með tilheyrandi áhöldum, glæsilegt listaverk og sameinar sem best má verða hin tvö sjónarmið: fegurð og táknræni. Merkið er að vísu til minningar um fleiri en sjómenn, eða þá, sem Ægir hefur heimt til helju. En það er þó fyrst og fremst sjómenn, sem byggja þessar eyjar og flestar fórnir hafa fært. Og það sem ég tel bezt um listaverkið er einmitt það, að það minnir einkum á hreysti sjómannsins og störf þeirrar stéttar, og er því réttilega hvorttveggja í senn, minnismerki hinna föllnu og hinna lifandi og starfandi, hraustu sjómannastéttar í Vestmannaeyjum. Stéttar, sem aldrei mun gefast upp í baráttunni við hamfarir hafsins, er um eyjarnar lýkur."
Annars er ritið, eins og nafnið bendir til, helgað minningu hinna sömu og sjálft minnismerki. En í ritinu eru, auk hins prýðilega formála, ágæt ræða Páls Oddgeirssonar við afhjúpunina, sem þrungin er innilegri samúð og djúpu trúartrausti, og gagnorðar og markvissar ræður þeirra Ólafs Kristjánssonar, bæjarstjóra, og Steingríms Benediktssonar, barnakennara. Þá eru hér frásagnir um fyrsta slys við Vestmannaeyjar á 20. öldinni, um Björgunarfélag Vestmannaeyja og fyrsta íslenzka strandvarnaskipið, um Skipa- og Bátaábyrgðarfélag Eyjanna, um Slysavarnadeild kvenna, og önnur kvenfélög í Eyjum, sem unnið hafa mikið að mannúðar- og menningamálum, og um Guðmund Einarsson, myndhöggvara frá Miðdal, sem gerði, eins og fyrr segir, hið glæsilega minnismerki, en hann er fjölhæfur og löngu víðkunnur listamaður. Næst er að skrá yfir þá, er drukknað hafa við Vestmannaeyjar, eða hrapað þar í björg, og þá sem látið hafa lífið í flugferðum. Síðan er stutt frásögn um slysfarir fyrri tíma ogloks hin trúarheiti kveðjusálmur Hjalta Jónssonar, skipstjóra, er hann orti skömmu fyrir andlát sitt, og sunginn var við útför hans.
Þá ber þess að geta, sem eigi er minnst um vert, en það eru hinar mörgu myndir í ritinu, meðal annars fjöldi mynda af þeim, sem farist hafa, og auðvitað af sjálfu minnismerkinu. Jafnframt er ritið hið snotrasta að ytri frágangi. Haldast þar í hendur mikill fróðleikur, eins og þegar hefur verið gefið í skyn, og sambærilegur búningur.
Sveitungar Páls Oddgeirssonar sérstaklega, og í rauninni allir þjóðhollir landar hans, skulda honum þökk fyrir þá athafnarsemi, sem hann hefur sýnt við minningu sjómanna og annarra með forgöngu sinni um minnisvarðamálið og með Minningarritinu. Eiga þar við spakleg orð Davíðs skálds Stefánssonar:
,,Minning þeirra, er afrek unnu
yljar þeim, sem verkin skilja."