Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1975/Halkion kveður Eyjarnar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Halkion kveður Eyjarnar





Stefán S. Stefánsson skipstjóri á Halkion

Á undanförnum árum hefur Halkion VE 205 verið eitt af beztu aflaskipum Eyjanna undir skipstjórn Stefáns Stefánsssonar frá Gerði.
Halkion kom til landsins í árslok 1964 - og er stálskip byggt í Þýzkalandi, 265 rúml. brúttó, með 660 ha. Listervél.
Í vetur var Halkion seldur til Noregs og var afhentur nýjum eigendum hinn 15. apríl s.l. Skip með nafni Halkions hefur verið í eigu sömu ættar talsvert á annað hundrað ár.
Síðastliðið ár, árið 1974, var nettóaflaverðmæti Halkions kr. 34.704.051. - Þetta er stundum einnig nefnt skiptaverðmæti og hafa þá greiðslur í hina ýmsu útflutnings- og verðjöfnunarsjóði verið dregnar frá. Sú upphæð er 16-21% af heildaraflaverðmæti.
Þegar skip með nafni Halkions, í fyrsta skipti í 115 ár, er ekki lengur í röðum Eyjaskipa þykir mörgum skarð fyrir skildi, og vona, að nýr Halkion bætist sem fyrst í flotann.
Lengst var skipstjóri með Halkion Stefán Guðlaugsson í Gerði, eða rétt 40 ár, en 48 vertíðir var hann formaður. Eftir lát Stefáns (1965) og Sigurfinnu Þórðardóttur konu hans (1968) hafa börn þeirra og fósturdóttir; Guðlaugur, Gunnar, Stefán, Þórhildur og Ragna Vilhjálmsdóttir átt og rekið Halkion undanfarin ár.
Stefán Stefánsson hefur verið skipstjóri á þessu skipi allan tímann en hann hóf skipstjórn árið 1957. Stefán hefur alla tíð verið í röð aflasælustu skipstjóra í Vestmannaeyjum og vetrarvertíðina 1962 varð hann aflahæstur og fiskikóngur Eyjanna. Stefán hefur verið sérstaklega farsæll sjómaður og hefur bjargað tveimur skipshöfnum úr sjávarháska og hlotið verðlaunabikar Sjómannadagsins fyrir.
Sjómannadagsblaðið sendir Stefáni og útgerð Halkions bestu kveðjur og árnaðaróskir á sjómannadaginn.

Screen Shot 2016-07-21 at 12.00.50.
Skipshöfnin á Skúla Fógeta VE 185 á vertíðinni 1929. Sitjandi, talið frá vinstri: Tómas Sveinsson vélstjóri Faxastíg Vestm., Karl Guðmundsson skipstjóri, Reykholti, Magnús Valtýsson, Vesturvegi Vestm., Guðmundur Þorsteinsson Ólafsfirði. Standandi talið frá vinstri: Jón Þorsteinsson Ólafsfirði, Angantýr Einarsson Siglufirði (síðar Vestm.eyjum), Ólafur Sveinsson frá Stóru Mörk V-Eyjafjöllum, Árni Sigurðsson Eyjafjöllum, Magnús Jónsson Seljavöllum A- Eyjafjöllum (síðar vélstjóri Vestm.).