Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1974/ Skuttogarinn Vestmannaey
Skuttogarinn Vestmannaey
Aflahæsti íslenski skuttogarinn vetrarvertíðina 1973
Í SJÓMANNADAGSBLAÐI Vestmannaeyja 1972 kynntum við uppbyggingu íslenska togaraflotans og nýju skuttogarana. Þá var áformað, að sameignarfélagið Huginn/Bergur keypti til Vestmannaeyja einn skuttogara af millistærð frá Japan. Allítarleg lýsing er af þeirri gerð skipa í blaðinu.
Skuttogarinn Vestmannaey VE 54 kom til Hafnarfjarðar 19. febrúar 1973, en ákveðið var að gera skipið út þaðan meðan aðstæður voru ófærar í Vestmannaeyjum af völdum eldgossins. Hefur bækistöð skipsins verið þar síðan.
Heimkoma skipsins og móttökur Vestmannaeyinga á glæsilegu fiskiskipi í Eyjaflotann voru aðrar en ætlað var. Eldgosið í Heimaey var þá með miklum krafti og Eyjamenn í vanda staddir og daufir í dálkinn. Framtíð útgerðar og byggðar í Eyjum var óráðin. Útgerð skipsins bauð þó að sjálfsögðu til ágætis fagnaðar um borð í skipinu við komuna. Komu þangað margir Vestmannaeyingar til að samfagna eigendum, og talaði m. a. Lúðvík Jósefsson sjávarútvegsmálaráðherra við þetta tækifæri, en Vestmannaey var fyrsti nýsmíðaði skuttogarinn af 10 systurskipum, sem hafa komið frá Japan.
Vestmannaey var 51 dag á leiðinni heim frá Japan og hafði siglt 13.500 sjómílur, er skipið kom til Íslands. Þeir lögðu af stað frá borginni Muroran á Hokkaido, sem er nyrsta eyjan í Japan, á gamlaársdag, 31. desember 1972. Samkvæmt almanakinu voru þeir því 50 daga á leiðinni, en þegar þeir fóru yfir dagskiptabauginn (180° A. eða V. lengd) og fóru af austurlengd yfir á vesturlengd, skrifuðu þeir sama sólarhringinn tvisvar í skipsdagbókina. Það hefur stundum verið spjallað um það í siglingafræðitímum að það væri skemmtilegt að eiga afmæli, ef svo stæði á! Ekki er vitað hvort nokkur hefur verið svo heppinn um borð í Vestmannaey, en stýrimennirnir kannast vel við þessa sögu. Einfaldast er þessu til skýringar að vísa til Phileas Fogg (í frægri sögu eftir Jules Verne). En í nefndri sögu fór hann á 80 dögum í kringum jörðina skv. almanakinu, þó að hann væri í raun 81 dag í ferðinni. En með því að sigla í austur vinna menn inn á sólina á degi hverjum og með einni hringferð um jörðina einn sólarhring og það gengur víst ekki til lengdar að ætla að fara þannig á bak við tímann í trássi við Guðs og manna lög. Þekkja sjómenn þetta vel. Þeir flýttu síðan klukkunni um 12 tíma á siglingu sinni austur hafið. Vestmannaey var stödd á Kyrrahafi á leið frá Hawaii til Panama, þegar fréttir bárust af eldgosi í Heimaey. Þær fréttir voru fremur óglæsilegar og óhugnanlegar, en þær voru, að Heimaey væri að sökkva í sæ og 5 menn hefðu farist. Málin skýrðust þó von bráðar.
Á heimleiðinni var stansað þrjá daga á Honululu á Hawaii, tvo daga í Panama og að lokum var stutt dvöl á Bermudaeyjum og tekin þar olía og vatn. Hefur ekkert skip frá Vestmannaeyjum siglt áður svo langa leið. Má með sanni segja að mikill sé nú munur á farkostum og heimsiglingu þessa Vestmannaeyjaskips og bátum, sem siglt var yfir hafið frá Danmörku fyrir 50 árum og ritað er um annars staðar í blaðinu.
Vestmannaey VE 54 er mæld 462 rúmtonn brúttó, lestarrými fiskilestar er 330 m³, burðartonnatala (D.W.) er 320 tonn. Fiskilestin tekur með góðu móti 190 tonn af ísvörðum fiski í kössum og í stíum, en með því að „troða“ í lestina má koma í hana 210 tonnum að sögn skipstjóra.
Aðalvélin er 2000 ha. Niigata, 600 snúningar á mínútu, og þriggja blaða skiptiskrúfa. Hraði í reynslusiglingu var 14,1 sml., en venjulegur ganghraði er 12—13 sml. á klst. Aðaltogvindan er knúin af 250 KW, 440 V rafmótor. Meðaltogkraftur er 12 tonn miðað við vírahraðann 100 metra á mínútu. Víramagn á hvorri trommlu getur verið um 820 faðmar af 3¼ tommu vír.* Hingað komið kostaði skipið 120 milljónir króna.
Vestmannaey fór í sína fyrstu veiðiferð 8. mars, en áður hafði verið farið í stutta reynsluferð, þar sem ýmislegt var prófað og lagfært. Síðan hefur allt gengið prýðilega um borð. Aflabrögð hafa verið með miklum ágætum undir skipstjórn Eyjólfs Péturssonar.
Árið 1973 var afli slægður m. haus tæp 2.600 tonn (2.582 tonn), en brúttó aflaverðmæti samtals 53,7 milljónir króna (53.688,679 kr.). Skiptaverðmæti aflans var 45.330.586 kr. Vestmannaey var með langbestan afla skuttogaranna vertíðina 1973, eða 11,1 lest á úthaldsdag.
Þetta ár sigldu þeir tvo túra til Bremerhaven og seldu þar fyrir samtals 12,5 milljónir króna. Skiptaverðmæti siglingatúranna var rúmar 8 millj. kr. Skipið fór í árseftirlit 10. desember og var frá veiðum í mánaðartíma til 10. janúar. Miðað við úthaldstíma er því afli og aflaverðmæti árið 1973 sérstaklega gott og meðalverð á kg. var 18,55 kr. Fiskur úr skipinu hef-ur verið í sérstökum gæðaflokki og hlaut viðurkenningu hjá Fiskmati Ríkisins í fréttablaði fiskmatsins; var allur aflinn, 100%, í 1. flokk. Ber þetta skipshöfn og stýrimönnum gott vitni um vandvirkni og samviskusemi í störfum. Fiskur er ísaður beint í kassa, nema síðast í veiðiferð, þá er ísað í stíur. Er ísvél um borð, sem framleiðir úr sjó 5 tonn af ís á sólarhring.
* í 4. tbl. 1973 af Ægi, riti Fiskifélags Íslands, er ítarleg lýsing á skipinu.
Um borð eru 1500 til 1700 kassar og koma þeir með ca. 105 tonn í kössum. Besti túrinn hefur verið 190 tonn eftir 11 daga útivist -- þetta var í fyrrasumar og var verið að veiðum út af Jökli; aflinn var mestmegnis ýsa.
Áhöfn Vestmannaeyjar er 15 menn. Vaktir eru tvískiptar, 6 tímar á dekki, 6 tímar í koju. Vinna er að sjálfsögðu mikil með þessum góða afla, 12 tímar í sólarhring. Hlutur hjá hásetum sem voru allt árið um borð var um 1200 þúsund krónur.
Ritstjóri blaðsins átti stutt spjall við Eyjólf Pétursson skipstjóra um skip og veiðar. Hann var nýkominn inn úr 11 daga veiðiferð með 160 tonn.
Honum líkar sérstaklega vel við skipið og telur allt annað að stunda veiðar á þannig skipum eða gömlu síðutogurunum. Togspilin um borð hafa reynst sérstaklega vel.
Einn helsti kosturinn er hvað það er miklu betra að halda sér á bleyðum. Ef maður er á þröngu togsvæði, hólum eða trintum, þar sem fiskur er, þá getur maður með skuttogi haldið sig nákvæmlega á bleyðunni með því að hífa vírana inn; alveg að hlerum og snúa síðan skipinu 180° og kasta aftur, þegar skipið er komið á togstefnu. Þetta er mikill munur eða á síðutogi, þar sem varð að gera ráð fyrir beygjunni og hlerar geta festst eða varpan jafnvel snúist.
Okkur gekk fremur illa á síðustu vetrarvertíð, vírarnir voru um tíma ekki réttir og við mældum þá of seint upp.
Besta tækið í sambandi við veiðarnar er lóraninn, þó að við höfum ekki haft sjálfvirkan lórann, sem fylgir sjálfur staðarlínum, þegar hann hefur verið læstur inn á keðjuna. Það hefur stundum verið erfitt að ná tveimur staðarlínum með Loran A. En nú eigum við að fá einn sjálfvirkan Loran C um borð.
Þetta er mjög athyglisverð yfirlýsing hjá ágætum fiskimanni. Sýnir það og sannar enn betur þörfina á að fá Decca-keðjur hér á landi og sjálfritandi skrifara, sem ritar togslóðina, um borð í hvert togskip.
Hefur þú togað með Decca?
Nei, en það sagði mér einn togaraskipstjóri, sem reyndi þetta um borð í togara niður í Norðursjó, að þeir, sem ekki fyndu sömu bleyðuna aftur á Deccatækið væru hreinir klaufar, og það væri bókstaflega barnaleikur að toga vandfarnar togslóðir með Decca-skrifaranum.
Hver einn og einasti togaraskipstjóri á Íslandi myndi skrifa upp á það með þér, að við þörfnumst betri staðarákvarðana á landgrunninu til að fullnýta það.
Aflabrögð hjá Vestmannaey það sem af er árinu 1974 hafa gengið mjög svo prýðilega og 8. júlí er aflinn um 1600 tonn sl. m. haus (1597 tonn) að aflaverðmæti 36,1 milljónir króna (36.077,855 kr.), skiptaverðmæti er ca. 33 milljónir króna.
Eyjólfur Pétursson skipstjóri á Vestmannaey er kornungur maður, fæddur í Laugardal í Vestmannaeyjum 4. nóvember 1946, sonur hjónanna Sigríðar Eyjólfsdóttur og Péturs Þorbjörnssonar skipstjóra. Ber Eyjólfur nafn móðurafa síns Eyjólfs Sigurðssonar í Laugardal, sem var kunnur sjómaður og formaður hér í Eyjum. Standa miklir fiskimenn að Eyjólfi í báðar ættir. Má hér auk föðurins nefna Óskar heitinn Eyjólfsson, móðurbróður Eyjólfs, sem var aflakóngur í Vestmannaeyjum í margar vertíðir, en Óskar fórst við Eyjar árið 1953.
Eyjólfur Pétursson byrjaði sjómennsku 13 ára gamall, sem hálfdrættingur að sumrinu með föður sínum, sem lengst af var skipstjóri á togurunum Pétri Halldórssyni og Þorkeli mána. Pétur Þorbjörnsson er nú skipstjóri á togaranum Freyju, sem er lítill togari, en hann hefur rótfiskað, oft ekki minna en stóru skuttogararnir.
Eyjólfur lauk hinu meira fiskimannaprófi frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík árið 1967 og fór að afloknu prófi 1. stýrimaður á Þorkel mána. Hann var síðan stýrimaður þar og skipstjóri í afleysingum, þar til hann tók við Hallveigu Fróðadóttur árið 1969, 22ja ára gamall. Eyjólfur var skipstjóri með Hallveigu í rúmlega þrjú ár, þar til hann fór til Japans haustið 1972 til að taka á móti Vestmannaey. Þetta má teljast glæsilegur ferill hjá ungum sjómanni.
Er það oft spurning í því mannahallæri sem er á íslenzka fiskiskipaflotanum, hvort ungum mönnum sé kunnugt um þá möguleika, sem starfið býður upp á fyrir þá, sem reynast góðir fiskimenn.
Fyrsti stýrimaður á Vestmannaey árið 1973 var Þorleifur Björnsson, kornungur maður á aldur við Eyjólf. Hann er nú 1. stýrimaður á togaranum Júní. Tók þá við Sverrir Gunnlaugsson, en 2. stýrimaður er Þórarinn Ingi Ólafsson. Þegar Sverrir leysir af sem skipstjóri er Hermann Ragnarsson 2. stýrimaður. Þeir eru allir skólabræður frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum árið 1972. Fyrsti vélstjóri er Örn Aanes; 2. vélstjóri er Guðmundur Alfreðsson. Páll Grétarsson var matsveinn fyrsta árið, nú er matsveinn Baldvin Ágústsson.
Allt harðduglegir menn á besta aldri og flestir Vestmannaeyingar búsettir í Eyjum.
Framkvæmdastjórar útgerðarinnar í landi eru einn af eigendum skipsins og gamall aflakóngur úr Eyjum, Kristinn Pálsson frá Þingholti og sonur hans Magnús. Áformað er að flytja útgerð skipsins til Vestmannaeyja um miðjan ágúst n.k. og gera síðan skipið beint út frá Eyjum og landa aflanum þar.
Með stjórnsamri útgerð, undir skipstjórn aflasæls skipstjóra með dugmikla áhöfn, hefur Vestmannaey þegar verið mikið happaskip og hefur skilað þjóðarbúinu miklum og góðum afla og arði. Á 15 mánaða úthaldstíma á sjónum hefur skipið aflað nœrri þvi 4.200 tonn af fiski, en brúttó aflaverðmasti er nálægt 90 milljónir króna. Þá tölu segja fróðir menn að megi margfalda með þremur, þegar talið er útflutningsverðmæti aflans, er vinnusamar hendur frystihúsanna hafa búið aflann til útflutnings.
Vestmannaeyingar fagna nýju skipi í flota Eyjaskipa. Við óskum eigendum og áhöfn til hamingju með glæsilegt skip og góðan afla.
Heill og gæfa fylgi ávallt skipi og áhöfn.