Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1974/ Helgir menn og helgistaðir

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sr. Karl Sigurbjömsson sóknarprestur í Vestmannaeyjum fyrir altari Landakirkju við fyrstu messu eftir eld, hinn 10. þili 1973. Sr. Karl var kallaður til þjónustu við Vestmannaeyinga, nokkru eftir að sr. Jóhann S. Hliðar kvaddi Eyjarnar haustið 1972 eftir langa og góða þjónustu í Vestmannaeyjum. Sr. Karl Sigurbjörnsson er fæddur í Reykjavík. 5. febrúar 1947. Hann lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands í janúar 1973 og tók vígslu 4. febrúar 1973. Sr. Karl starfaði siðan ásamt sr. Þorsteini L. Jónssyni sóknarpresti meðal Vestmannaeyinga í dreifingunni. Hann flutti til Vestmannaeyja í októbermánuði 1973 ásamt konu sinni Kristínu Guðjónsdóttur, sem ættuð er frá Stokkseyri, og ungri dóttur þeirra hjóna. Sjómenn í Vestmannaeyjum, allir Vestmannaeyingar, bjóða hinn unga prest og fjölskyldu hans velkomin til starfa í Vestmannaeyjum og fornfrægri Landakirkju.
Helgir menn og helgistaðir


SR. KARL SIGURBJÖRNSSON:


FYRSTA kirkja, sem reist var í kristni á íslandi, var byggð í Vestmannaeyjum af viðum, sem Ólafur konungur Tryggvason sendi með Hjalta og Gissuri hvíta vorið 1000. Skyldu þeir reisa þar kirkju sem þeir fyrst kæmu á land. Var kirkjan reist á Hörgaeyri hér í Vestmannaeyjum, í landi landnámsjarðarinnar, Ormsstaða, og helguð Klemensi biskupi í Róm. Á gullöld kaþólsku kirkjunnar (12.-13. öld) er vitað um þrjár kirkjur hér í Eyjum, en þá var kirknafjöldi mikill á Íslandi. Ekki er fjarri lagi að kirkja eða kapella hafi verið á hverjum bæ. Vert er að gefa því gaum, að báðir kirkjustaðirnir hér aðrir en Klemenskirkju, hétu Kirkjubær. Kirkjubær fyrir ofan Leiti var síðar nefndur Ofanleiti til aðgreiningar. Nafnið Kirkjubær er ekki algengt hér á landi (5 staðir alls), og telja sumir það tengt pöpum. Merkastur er Kirkjubær á Síðu, en þar máttu aldrei heiðnir menn búa. Hafi papar verið hér, sem er harla liklegt, þá er ekki ósennilegt, að helgistaðir þeirra hafi verið á Kirkjubæjunum tveim.
Að vissu leyti má segja, að kirkjur hafi gegnt öðru hlutverki til forna en nú. Kirkjan var ekki fyrst og fremst staðurinn þar sem söfnuðurinn kom saman til að lofa Guð og ákalla og hlýða á orð hans, og meðtaka sakramentin. Kirkjan var e. k. orkuver, þaðan sem Guðlegur kraftur streymdi út yfir land og farvegi þeirra helgu athafna, sem þar fóru fram. Í messunni bar presturinn fram fórnina fyrir hönd safnaðarins og tryggði þannig velferð manna, blessun Guðs yfir menn og málleysingja, fisk, fugl og fénað, frjósemi moldar og gæftir á sjó.
Hver kirkja var helguð ákveðnum dýrlingi, sem var verndari kirkjunnar, og var kennd við hann. Dýrlingar voru menn, sem kirkjan hafði tekið í heilagra manna tölu, eftir að þeir lífs og liðnir höfðu sýnt sig vera öðrum fremri í heilögu líferni. Á himnum stóðu þeir frammi fyrir augliti Guðs og fluttu honum bænir ákallenda sinna, en einnig voru þeir greiðasamir og leystu úr margvíslegum vanda manna.
Þeir dýrlingar, sem kirkjurnar hér í Eyjum voru helgaðar, voru allir sérstaklega tengdir sjó og sæfarendum, sem eðlilegt er. Fyrstan skal frægan telja heilagan Klemens. Hann var biskup í Róm, hinn þriðji í röðinni. Hann var lærisveinn og samverkamaður Páls postula, og er nefndur í Filippíbréfinu (4,3). Varðveitt er bréf, sem Klemens reit kirkjunni í Korintu, og er það verðmæt heimild um líf frumkirkjunnar, og elsta dæmið um það, að Rómarbiskup teldi sig hafa umboð til að skipta sér af innri málum annarra kirkna, og lagði þannig grundvöll að páfaveldinu. Eins og postularnir þá leið Klemens píslarvætti. Segir sagan, að hann hafi verið dæmdur vegna trúar sinnar í þrælkunarvinnu í marmaranámum á Krímskaga, og var líflátinn þar, bundinn við akkeri og sökkt í sjó. Síðar var hann verndardýrlingur sjómanna. Akkerið er merki hans, og er til þessa í merki Landakirkju.
Annað merki Klemensar er lamb og brunnur. Segir sagan, að Guðs lamb hafi bent Klemensi á hvernig hann fyndi vatn handa sér og samföngum sínum í hita og þurrki námunnar. Klemens var gott að ákalla, er vatnsskortur var, skýrir það e. t. v. hvers vegna honum var helguð kirkja hér, en aðeins tvær aðrar kirkjur á Íslandi voru honum helgaðar. Hinn 23. nóvember er ártíðardagur Klemensar.
Um Klemensarkirkju eru síðastar heimildir á 13. öld, en þó gæti hún hafa haldist miklu lengur, alla vega sem bænhús og þjónað þeim Eyjabúum, sem bjuggu í kauptúninu sjálfu.
Elstu heimildir um Kirkjubæjarkirkju er máldagi frá 1269. Hún var helguð heilögum Nikulási. Nikulás var biskup í Myra í Litlu Asíu fyrir miðja 4. öld. Hann varð einn vinsælasti dýrlingur kirkjunnar. Verndardýrlingur heilla þjóðlanda (t. d. Rússlands), héraða, biskupsdæma og borga, og óteljandi kirkna. Hann var verndari sjómanna, kaupmanna og barna. Sem barnadýrlingur er hann fyrirrennari jólasveinsins, sem í Vestur-Evrópu og Ameríku er nefndur Sankti Klás. Sagan segir að hann hafi bjargað þrem stúlkubörnum frá því að vera seld í þrældóm með því að varpa þremur gullpokum inn um glugga þeirra. Þess vegna eru börnum gefnar gjafir á degi hans, 6. desember.
Merki Nikulásar er ýmist skip eða akkeri, en bæn hans bjargaði sjómönnum úr sjávarháska, síðan er hann verndari sæfarenda. Fjölmargar kirkjur hér á landi voru honum helgaðar.
Kirkjan á Ofanleiti er ýmist kennd við Pétur eða Andrés. Vel getur hún hafa verið helguð báðum, því algengt var, að dýrlingar væru fleiri en einn við hverja kirkju. En er frá leið hefur Andrés orðið yfirsterkari, því hann er einn nefndur verndardýrlingur kirkjunnar skv. máldaga 1491-1518.
Bræðurnir Símon Pétur og Andrés voru fiskimenn við Galíleuvatn, er Jesús gekk í veg fyrir þá og kallaði þá til fylgdar við sig til að „veiða menn“. Og þeir yfirgáfu netin og fylgdu honum. Frá þessu er skýrt í Mattheusar-, Markúsar- og Jóhannesarguðspjalli. Þótt Andrés yrði fyrri til að hlýða kallinu, þá varð Símon miklu atkvæðameiri í lærisveinahópnum, og djarfur leiðtogi kirkjunnar eftir Hvítasunnuatburðinn. Guðspjöllin og Postulasagan gefa afar glögga og sanna mynd af þessum mikla fiskimanni. Auk þess eru tvö bréf í Nýjatestamentinu eftir Pétur. Pétur varð biskup í Róm og leið píslarvætti þar í hinum grimmúðlegu ofsóknum Nerós keisara gegn kristnum mönnum árið 67, krossfestur með höfuðið niður. Merki hans er því öfugur kross, en oftast þó tveir lyklar, sem mynda X. Á það rætur sínar í orðum Jesú er Símon Pétur hafði játað fyrir munn lærisveinanna, að Jesús væri Kristur, Guðs sonurinn, en hann sagði: „Sæll ert þú, Símon Jónasson, því hold og blóð (þ. e. menn) hefur eigi opinberað þér það, heldur faðir minn í himnunum. En ég segi þér: Þú ert Pétur (: klettur) og á þessum kletti mun ég byggja söfnuð minn, og hlið Heljar skulu eigi verða honum yfirsterkari. Ég mun gefa þér lykla himnaríkis, og sérhvað, sem þú bindur á jörðu, skal bundið verða í himnunum, og sérhvað, sem þú leysir á jörðu, skal leyst verða í himnunum“. (Matt. 16, 17-19).
Kirkjur helgaðar Pétri eru fjölmargar í kristninni, Skálholtsdómkirkja var helguð honum. Dagur hans er 29. júní.
Ef Pétur er fulltrúi prestanna, kennimannanna og leiðtoganna, þá er Andrés fulltrúi trúaðra leikmanna allra tíma. Í 1. kafla Jóhannesarguðspjalls er því lýst, er Andrés fór á eftir Jesú til að kynnast honum, síðan segir: „Hann finnur fyrst bróður sinn Símon, og segir við hann: Við hófum fundið Messías... og hann fór með hann til Jesú“. Hann var ekki einn af þeim, sem eiga bara sína trú fyrir sig. Eins og hinir postularnir var Andrés líflátinn fyrir trú sína, krossfestur á X laga krossi, og segir sagan, að hann hafi hangið tvo sólarhringa á krossinum og prédikað fagnaðarerindið fyrir lýðnum áður en hann lést. Það hefur verið áhrifarík ræða.
Merki Andrésar er X laga kross. Hann var verndardýrlingur fiskimanna, einkum við netaveiði. Andrés yar þjóðardýrlingur Skota, en alls voru 16 kirkjur hér á landi helgaðar honum. Dagur hans er 30. nóvember.
Siðbótin afnam alla dýrkun helgra manna, þótt siðbótarmenn legðu áherslu á, að lífi þeirra, minningu og fordæmi væri sýnd tilhlýðileg virðing. Landakirkja, sem fyrst var reist 1573 er því ekki helguð neinum dýrlingi sérstaklega. En vel má kalla hana arftaka Klemensarkirkju, og síðar kirkna Andrésar og Nikulásar, eftir að þær hurfu. Ekki er úr vegi að minnast þessa, og þá um leið þess sess, sem kirkjan hefur átt í lífi og trú sjómanna hér í Eyjum um aldir.