Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1972/ Vetrarvertíðin 1972

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Vetrarvertíðin 1972


VETRARVERTÍÐIN Í Vestmannaeyjum 1972 telst í röð lakari vertíða hvað bolfiskveiðir varðar.
Loðnuafli var aftur á móti frábær og hefur aldrei verið meiri. Þó var fullur sjór af loðnu 12. mars, er veiðar stöðvuðust að mestu, vegna þess að verksmiðjur SV-lands hættu að taka á móti aflanum. Ástæða fyrir stöðvun móttöku var sögð vera brostinn starfsgrundvöllur verksmiðjanna vegna þess að verðjöfnunarsjóður, sem hélt uppi verðinu, væri þurrausinn, verksmiðjur norðan, austan og vestan héldu þó áfram móttöku. Mikið verðfall væri á loðnuafurðum og gæði loðnunnar til vinnslu hefði farið rýrnandi. Löndunarbannið olli mikilli gremju hjá sjómönnum, og töldu sumir (Eggert Gíslason) að veiða hefði mátt upp á óákveðið verð. Væri stöðvun loðnuveiðanna til stórtjóns fyrir þjóðarbúið. Sjómenn töldu ennfremur, að heildarskipulag á móttöku loðnuaflans væri ábótavant og þyrfti að vera mun betra. Loðnubátar biðu t. d. allt að fjóra sólarhringa eftir löndun í höfnum sunnanlands, á sama tíma og svartur sjór var af loðnu fyrir suðausturlandi, en þrær í mörgum höfnum austanlands eins og á Seyðisfirði, Reyðarfirði og Breiðdalsvík voru hálftómar. Hér er að sjálfsögðu mál, sem allir, er hlut eiga að máli, kaupendur loðnunnar og skipstjórnarmenn, verða að leysa sameiginlega á breiðum grundvelli, svo að veiðitíminn nýtist sem best þann tíma, sem loðnan gengur.

Einu sinni var! - Á leið til hafnar með fullfermi.- Guðmundur á Eiðum, matsveinn á Gullveigu 1940, gægist upp um lúkarskappann. Það var víst þá, sem Ási kvað: „Þær heilsuðu okkur með svellandi söng síldarstúlkurnar.“
Á togveiðum - Aðgerð. Ljósm. A. Podolok.

Löndunarstöðvanir hér sunnanlands voru því tíðar og oft mikið þras og jafnvel blaðaskrif í hita veiðanna. Veiðarnar voru stundaðar af miklu kappi og oft kastað í slæmum sjó.

-□-


Veturinn var ákaflega mildur, svo að í minnum verður haft. Festi varla snjó á Norðurlandi hvað þá hér syðra. Hafáttir voru tíðar, svo að þrátt fyrir hagstæða tíð til landsins var veður til sjófanga erfitt og tíð mjög rysjótt einkum framan af vetri. Sjávarhiti var langt yfir meðallag og kenna sumir sjómenn of miklum sjávarhita um aflatregðu á miðum hér syðra.
Vertíð hjá Grindavíkurbátum var eins og hjá Eyjabátum léleg. Aftur á móti var afli báta frá verstöðvum við Breiðafjörð eindæma góður og barst mokafli á land í Ólafsvík, Rifi o. fl. höfnum. Hafðist þar vart undan að bjarga aflanum.
Heildarafli Suðvestanlands, frá Hornafirði til Stykkishólms var frá 1. janúar til 30. apr. 137.900 lestir (1971: 132.300 lestir, 1970: 185.000 lestir). Aflabrögð fyrir Vestfjörðum og fyrir austan voru ágæt.
Á þessu heildaraflamagni vertíðarinnar munar mestu um betri afla á Breiðafjarðarhöfnunum (Rif, Ólafsvík, Grundarfj., Stykkishólmur), sem var á vertíðinni 1972 til 30. apr. 23.400 lestir á móti 14.700 lestum vertíðina 1971; munar hér 8.700 lestum. Í Grindavík var landað 26.000 lestum á móti 34.200 vertíðina 1971.
Hæsti bátur yfir landið á vetrarvertíðinni var Skarðsvík frá Hellissandi, skipstjóri Sigurður Kristjánsson, með rúml. 1500 tonn hinn 15. maí en Breiðafjarðarbátar halda oft mun lengur úti með netin eða allt til mánaðamóta maí/júní.

Það er alltaf sama fjasið í þér um stóra fiska.


Einn Vestmannaeyjabátur reyndi á miðum Breiðafjarðarbáta, en hafði ekki erindi sem erfiði af túrnum.
Fyrsta loðnan barst á land hér í Vestmannaeyjum 25. janúar. Var úr því mokafli og víða sást vaðandi loðna. Viku af febrúar var heildarafli af loðnu orðinn 60.000 tonn, en næstu 3 daga öfluðust 25.000 lestir. Stunduðu þá um 50 bátar loðnuveiðar.
Skv. skýrslu Fiskifélagsins var heildaraflinn 1. mars orðinn 216.000 tonn en var árið 1971, sem var metár, 192.000 tonn.
Vegna löndunarbiða fóru sumir bátar með aflann til Bolungavíkur og Siglufjarðar. Við stöðvunina 12. mars skiptu loðnubátar flestir yfir á netaveiðar.
Samtals varð loðnuaflinn um 280.000 lestir, og er ráðgert að aflaverðmæti upp úr sjó sé 335 milljónir króna (skiptaverðmæti), en afurðaverðmæti ca. 730 milljónir kr.
Nokkuð var fryst af loðnu eða samtals 3.900 tonn á öllu landinu (1971: 2.900 tn.) og er sú framleiðsla eins og áður seld til Japans.
Í Vestmannaeyjum voru fryst samtals 1640 tonn af loðnu.
Í sambandi við frekari nýtingu loðnunnar til manneldis á dýrari markaði var hér í Vestmannaeyjum gerð merkileg tilraun á vegum Sölumiðstöðvar Hraðfrystihúsanna (S.H.). Fór fram athugun á sérstöku tæki, Hrognaskiljara, sem vinnur líkt og hristari og skilur hrognin frá fiskinum við löndun. Fulltrúar kaupenda í Japan fylgdust með þessum tilraunum. Gáfu þær góðar vonir.
Samtals frysti Fiskiðjan 17 tonn af hrognum, en saltað var 5 1/2 tonn. Fór þetta magn út með japönsku skipi nú í maí.
Þá voru gerðar merkilegar veiðarfæratilraunir með norska gerð af loðnuvörpu, sem búin var til í netagerð Ingólfs. Tilraunir þessar fóru fram á vegum Netagerðar Ingólfs og fékk Ingólfur Theódórsson norskan veiðarfæragerðarmann hingað til Eyja til leiðbeiningar. Fóru 4 bátar út með loðnuvörpu og fengu ágætan afla með því að toga á dreifða loðnu eða allt að 100 tonn eftir 20 mínútna tog í smátorfum.
Vestmannaeyjar voru langhæsta löndunarhöfnin með loðnu með samtals 89.200 lestir, næsta höfn var 50.000 lestum lægri; Reykjavík með 39.200 lestir.
Aflahæstu loðnubátar voru:

Eldborg 10.500 lestir
Jón Garðar 9.950 lestir
Gísli Árni 9.260 lestir
-□-


Hinar hefðbundnu bolfiskveiðar með línu og net fóru rólega af stað. Tíðarfar til sjósóknar í janúar var ákaflega erfitt. Afli á línu var sæmilegur, en 11 bátar stunduðu þær veiðar. Mjög tregur afli var í net; togbátar komust vart á sjó.
Bolfiskaflinn var yfirleitt tregur meðan mokið á loðnuna var sem mest; þó fengu nokkrir bátar viðbragð af ufsa um miðjan febrúar, Andvari t. d. 40 tonn í einum róðri við Surtsey. Í febrúarlok höfðu borist 3.400 lestir á land. Aflahæsti bátur var þá Hamraberg með 270 lestir.

Á leið til hafnar.

Margir ungir skipstjórar byrjuðu formennsku á vetrarvertíð: Sigmar Sveinbjörnsson með Hellisey, Gunnlaugur Ólafsson með Ófeig II, Yngvi Geir Skarphéðinsson með Björgu, Sigurjón Óskarsson með Þórunni Sveinsdóttur, Óskar Kristinsson með Sindra, Gísli Einarsson með Sigurfara, Lýður Viðar Ægisson með Björgvin, Hannes Haraldsson með Baldur og Einar Pálsson með Draupni.
Á vertíðinni voru eins og í fyrra gerðir út um 80 bátar, þegar flest var. Á netum voru bátarnir flestir 38, á botnvörpu flestir 35, og á línu flestir 11 bátar.
Er líða tók á mars varð sæmilegt fiskirí. Bátar voru mest austan Eyja og fiskuðu sumir prýðilega og var að mestu þorskur í aflanum á landgrunnsbrúninni hér austur af Eyjum. Sóttu þeir Andvari og Heimey drjúgt þangað.
Í lok mars gerði Huginn ágætan túr út af Skarðsfjöru og fékk um 100 tonn. Sex bátar höfðu þá meira en 300 tonna afla, Hamraberg aflahæst með 420 tonn.
Páskadag bar upp á 2. apríl. Aftakaveður gerði um páskana. Aðfaranótt laugardagsins gerði SA og síðar SV hvassviðri og voru bátar lengi að landi, afli mest 20 tonn, en þeir, sem áttu veiðarfæri á djúpu vatni gátu ekki vitjað neta sinna.
Heildarafli á land var þá 11.000 tonn. Tíð var síðan góð í apríl og um miðjan mánuð skárri afli en engin hrota.
Bátar fóru að taka upp net um mánaðamótin apríl/maí.
Reglulega lokarumbu gerði fyrstu vikuna í maí með A og SA roki.
Ekki urðu alvarleg sjóslys, en nokkur vinnuslys urðu, þó ekki lífshættuleg, en samt alvarleg. Sjómenn fóru í spil; eru slys við tog- og línuveiðar allt of tíð.
Okkar ágæti uppfinningamaður Sigmund hefur nú fundið upp tæki, sem stöðvar spilið áður en slys verður. Vonumst við til að geta kynnt það ásamt fleiri gagnmerkum uppfinningum Sigmunds í næsta blaði.
Hinn 1. mars varð alvarlegur árekstur um 14 sml. NNV af Eyjum, er Frigg og Halkion rákust á. Brotnaði stjórnborðskinnungur á Frigg niður að sjólínu. Gekk stefni Halkions inn í lúkarinn. Svo vel vildi til, að þrír menn, sem sváfu í lúkarnum voru í kojum bakborðsmegin og sakaði ekki. Lóðsinn fór út með 2 froskkafara og var Frigg dreginn til hafnar og gert við bátinn hér í Eyjum.
Þá varð það slys 2. mars, að okkar frægasti fiskimaður, Benóný heitinn Friðriksson, var á leið í róður og féll í sjóinn. Guðmundur Loftsson, Búastöðum, vann þá frækilegt björgunarafrek, er hann bjargaði Binna heitnum úr höfninni. Benóný náði aldrei fullri heilsu eftir þetta og andaðist 12. maí s.l.
Aðkomumaður, Hreinn Birgir Vigfússon, ættaður frá Raufarhöfn, drukknaði í höfninni 18. mars.
Mikið aftakaveður gerði 1. febrúar og varð flutninga- og farþegaskipið Herjólfur að snúa frá Leiðinni. Lá skipið úti um nóttina og tók ferðin frá Reykjavík 37 klst., 23 farþegar voru með skipinu.
Aðfaranótt 10. apríl var mikil mildi, að ekki varð stórslys við Suður-hafnargarðinn, er vélbáturinn Lundi fékk vörpudrasl í skrúfuna, austur á Víkinni, þegar hann var á leið í róður í stormi (10 vindstig) og haugasjó. Stöðvaðist vél bátsins og skipti engum togum, að bátinn rak upp í Suður-hafnargarðinn og barðist þar við í nokkurn tíma. Skellti brimið bátnum þrisvar upp á garðinn. Einn skipverjann, Anton Óskarsson, tók út, en hann náði taki í netadruslurnar, sem hengu við bátinn og náðist aftur.
Skall þarna hurð nærri hælum í svarta myrkri og stórsjó. Báturinn liðaðist allur og var dæmdur ónýtur.
Talið var að trolldræsan hafi verið af enskum togara, sem kom hér til hafnar daginn áður. Bátar fundu næsta dag utan hafnargarða fleiri dræsur, og eru þessi net á floti víði um sjó og hættuleg siglingum.

Skipshöfn við sjórjóðra frá Austurlandi upp úr aldamótum. Frá vinstri: Sitjandi: Guðjón Þorvaldsson formaður, Stakkahlíð (nú Apótek Vestmannaeyja). Guðjón var með áraskipið Olgu 1906 og fyrst formaður á Frí. Hann fór til Ameríku 1910 eða 1911. Jónatan Snorrason, Síðar Breiðholti, vélamaður. Aftari röð: Kristján Egilsson, síðar á Stað. Sænskur maður - nafn óþekkt. Björn Erlendsson, Gerði - maður Jónínu Jónsdóttur.- Um aldamótin og langt fram á öldina var mjög algengt að fólk af Suðurlandi færi til sumarróðra og í atvinnu á Austurlandi. Austfirðingar komu svo í verið til Vestmannaeyja og fleiri verstöðva hér syðra. - Gagnkvæm og mjög gagnleg og margvísleg menningar- og atvinnuleg samskipti og áhrif spruttu af þessum ferðum, t.d. notkun línu (1897) og breytt og léttari gerð áraskipa - færeyskt lag árið 1901.


Athugasemdalaust var skýrt frá því í dagblöðum, að skipsmenn á nefndum togara hefðu unnið við veiðarfæri innan hafnar og slegið undir nýrri vörpu. Virðist eftirlit af hálfu hins opinbera með útlendum skipum við land og í höfn vera of slakt, því að samkvæmt íslenskum lögum skulu erlend veiðiskip hafa öll veiðarfæri búlkuð innan landhelgi. Er mikilvægt að þessu sé fylgt eftir.
Afli á land í Vestmannaeyjum vetrarvertíðina 1972, 1. jan.-15. maí, varð:

Sjö litlir þilfarsbátar, 12 tonn að stærð, gengu í vetur. Hæst var Báran, bátur bræðranna frá Háagarði, formaður Bjarni Guðmundsson. Fengu þeir 150 tonn. Eru þeir fjórir á bátnum, tveir á sjó og tveir í landi.

Lifrarsamlagið tók á móti 1114 tonnum af lifur á vertíðinni frá 1. jan. til 15. maí. (Vertíð 1971:1050 tn.). Voru unnin 662 tonn af lýsi úr hráefninu og nýting því 59,5%. Öll niðursuða hefur legið niðri.
Sjö litlir þilfarsbátar, 12 tonn að stærð, gengu í vetur. Hæst var Báran, bátur bræðranna frá Háagarði, formaður Bjarni Guðmundsson. Fengu þeir 150 tonn. Eru þeir fjórir á bátnum, tveir á sjó og tveir í landi.

Er þetta talsverð viðbót frá því í fyrra. Lýkur hér stuttu yfirliti um aflabrögð og vinnslu vertíðaraflans 1972.