Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1972/ Slysavarnardeildin Eykyndill
VARLA VERÐUR gefið út Sjómannadagsblað í Vestmannaeyjum, svo í lagi sé, án þess að minnst sé á margþætta og árangursríka starfsemi Slysavarnadeildarinnar Eykyndils gegn um árin og áratugina. Enda hætt við að sjómönnum þætti á skorta í málgagn sitt, ef það gleymdist.
Starfsemi deildarinnar er og hefur einkum verið fólgin í því, að afla fjár til slysavarna og skyldra hluta og ekki síður í afskiptasemi og tillögugerðum, m. a. til yfirvalda, um slysavarnir almennt og eins það, sem betur mætti fara í tilteknum tilvikum.
Þar sem Eykyndill er deild í Slysavarnafélagi Íslands, hefur bróðurpartur teknanna runnið í sameiginlegan sjóð félagsins til nota í víðtæku slysavarnastarfi þess vítt um landið og við strendur þess. Nokkrum hluta teknanna hefur þó verið varið til einkanota hér heimafyrir, og er það nú allmikið fé árlega og hefur aukist seinni árin.
Frá árinu 1969 hefur deildin stofnað tvo sjóði: Sundlaugarsjóð, sem nú varðveitir talsvert fé, og Minningarsjóð Sigríðar Magnúsdóttur. En frú Sigríður var í forsvari fyrir deildinni um áratuga skeið, sem kunnugt er. Hlutverk Minningarsjóðs frú Sigríðar er tækjakaup til nýja sjúkrahússins. Úr þeim sjóði hefur nú verið varið kr. 100.000,00 til kaupa á fullkominni sjúkratækjatösku, sem ætlað er að vera tiltæk læknum í bráðum slysatilfellum á sjó eða landi.
Eykyndill hefur metið að verðleikum starfrækslu sjómannastofu K.F.U.M. og K, og lagt þeirri starfsemi til talsvert fé. Einnig hefur deildin látið sér mjög annt um björgunar- og hafnsögubátinn Lóðsinn og oftsinnis fært honum gjafir, svo sem tækjabúnað ýmiss konar og annan búnað til nota í slysatilfellum. Nemur verðmæti þeirra gjafa nú orðið hundruðum þúsunda króna samtals.
Sem fyrr segir hefur deildin haft afskipti af ýmsum tilteknum slysavarnamálum hér innan byggðarlagsins. Til dæmis skrifaði deildin yfirvöldum bréf um Vilpu á sínum tíma; um nauðsyn á nýjum sjúkrabíl; um bættar eldvarnir, um hættuna, sem stafar frá opnum safnþróm á víðavangi; um að sett verði upp handföng við bryggjustigana o.s.frv. Þannig mætti áfram telja.
Núverandi formaður deildarinnar er frú Anna Halldórsdóttir.
Á þessum hátíðardegi sendir sjómannastéttin Slysavarnadeildinni Eykyndli kæra kveðju sína og þakkar henni gifturík störf í sína þágu á liðnum áratugum. z.