Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1971/ Konan við gluggann
BJÖRK
Konan við gluggann
Hún sat við gluggann, horfði út á haf
og himins til, á björtu sumarkveldi,
um skýin lék sér gullið geisla traf,
þá grund og sær hlaut koss frá sólar eldi.
Móti, himni brosti báran hrein
og bærðist varla , strauks við geisla dúka,
sem vildi, hún græða allra manna mein
og mjúkri hendi tár af augum strjúka.
Hún sat við gluggann, horfði út á haf
og hreyfði létt við minninganna blöðum,
fjölda mynda fékk þar lesið af,
sem fólgnar lágu í þéttum, skýrum röðum.
Þær sýndu henni undangengin ár,
sem ýmist deildu skuggum eða gleði.
Hún sá þar renna sorgarinnar tár
og sælubros, er fæddist klökkvu geði.
Hve mörgum stundum undanfarin ár
var eytt við gluggann, mun ei nokkur vega,
en tíðum var þá tárum döggvuð brá
og taugar þandar - hugur blandinn trega.
Og hún þekkti eflaust, hvað það er,
ein í húmi nætur bíða - vona
og hlusta hvernig hafið byltir sér.
Hljótt þá grætur íslenzk sjómannskona.
Hvernig gæti hlátur hjarta gist
á hafi er stríða faðir, sonur, bróðir
og maki hennar? Þá hún fann það fyrst
hvar fólgnir voru hjartans dýrstu sjóðir.
Æ var leitað þá um þrek til hans,
sem þráir sár hvers manns að ra um bundið
og bergði þyrst af bmnni kærleikans,
blessun þar, hún einatt hafði fundið.
Þegar aldan bát að landi bar
og birtust vinir - engin var til baka,
gleymd á burtu vökunóttin var
og voðasýnir hverfa óðum taka.
Góðleg aftur gæfan brosa sést,
því gleðilindin tær um hugann streymir
og lofgjörð hrein frá léttu hjarta berst
til lífgjafans, sem engu barni gleymir.
Enn hjalar báran blítt við fjörustein
og bærist létt við sólargeisla dúka,
sem vilji hún græða allra manna mein
og mildri hendi tár af augum strjúka.
- Þannig hefir gengið öld af öld
og enn mun sjást við gluggann bíða - vona
í hljóðri bæn um koldimm vetraxkvöld
með kvíðinn huga íslenzk sjómannskona.