Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1968/Svifskip i Vestmannaeyjum sumarið 1967
Eins og getið var um í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja í fyrra stóð til að hér yrði reynt svifskip af gerðinni SRN-6.
Kom skipið um miðjan ágúst og fór fyrstu reynsluferð sína milli lands og Eyja hinn 15. Frá 15. til 29. ágúst fór skipið fjölmargar ferðir með farþega. Veður var mjög gott meðan skipið var hér, og kom því ekki sú reynsla á skipið sem hefði verið nauðsynleg. Sunnudaginn 27. ágúst var þó talsvert brim við sandinn og reyndist skipið þá í alla staði prýðilega út og inn brimgarðinn við Landeyjasand. Skip þetta er af minni gerð svifskipa, og fannst sumum farþega það vera hast, og nokkuð hvimleiður hávaði fylgdi skipinu. Áður en skipið fór til Reykjavíkur fór það upp Ölfusárósa til Selfoss, en sigldi síðan venjulega siglingaleið fyrir Reykjanes. Tilraun þessa má telja mjög merkilega, og með réttri stærð svifskips er hér vafalaust lausn á samgönguvandamálum Vestmannaeyinga og fjölda annarra staða. Gerð svifskipa er í stöðugri þróun og munu nú fást skip, sem myndu henta hér við allar venjulegar aðstæður og gæti gott svifskip haldið uppi bæði öruggum og fljótum ferðum til og frá meginlandinu.
Ekki getur krafa um slíka samgöngubót talizt ósanngjörn, þegar haft er í huga að Eyjamenn borga tugi millj. í vegaskatta til ríkisins, og það var upplýst við veglega brúarvígslu s.l. sumar, að 60 milljónum kr. hefði undanfarin 5 ár verið varið til brúargerðar í einni sýslu, sem telur innan við 3 þúsund íbúa.