Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1968/Gamanvísur frá Raufarhöfn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Gamanvísur frá Raufarhöfn


Margir Vestmannaeyingar, sem verið hafa á síld fyrir Norðurlandi munu kannast við Sigurð Árnason á Raufarhöfn, en hann starfaði hjá kaupfélaginu á staðnum og afgreiddi m.a. kost til síldarbáta. Sigurður er góður hagyrðingur og hafði jafnan tiltæka vísu um hvaðeina, ef tilefni gafst til. Sjómannadagsblaðið hefur fengið leyfi til að birta nokkrar vísur eftir hann um lífið á Raufarhöfn.

Á Raufarhafnarplönum er lífið tekið létt,
þó lítið sé um það í bækur ritað;
þar þykjast flestar jómfrúr og það er kannski rétt
en þetta getur enginn maður vitað.

Eða kannski mætti eins segja sem svo:

Það fyllist hér allt af fólki senn,
það er fjarskaleg ósköp að gera;
það eru bæði mætir menn
og meyjar, sem eiga að vera.

Hér er á kvöldin ærsl og gleði tóm,
og ýtar hafa á brennivíni sinnu;
og stúlkurnar dansa á hælaháum skóm,
en herrarnir slást í nœturvinnu,

Hér er auma ólukkans törnin,
allt er löðrandi í slori,
en hver á að sjá um blessuð börnin,
sem birtast á næsta vori.

Sigurður kom oft í mötuneyti verksmiðjunnar á Raufarhöfn til ráðskvennanna, og fékk hann þar „eiginlega allt, sem hann vildi“, að eigin sögn. Við brottfór þeirra eitt haustið kvað Sigurður:

Ég skil við ykkur sæll og sáttur,
ég sást oft í þessum stað,
og þið gerðuð fyrir mig meira en þið máttuð,
en menn spyrja: Hvað var það?