Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1968/Eftir ofviðrið
Nú vaggar sér kyrrláta báran hér blíð,
sem í brotsjónum ólgaði og svall -
í gær, upp við landið var glórulaus hríð
og grimmdarlegt sog og fall.
En í dag kljúfa skipin hinn skyggnda sjá
með skellum og mótorgáska.
Það minnir á æskunnar óðlátu þrá,
sem ætlar sér borgið í háska.
Það gegnir mig furðu, hve gleðin er rík
eftir gærdagsins ferlega dans,
þegar hátt upp á land geystist holskeflubrík
upp af hvítfextum öldu fans.
En þar fara hetjur, sem hefja nú ferð
og hræðast ei átök við græði,
djarfir að ytri og innri gerð
og una sízt makindanæði.
Það skal líka vera öllum lýði ljóst,
hver lárviðinn stærsta ber:
Okkar sjómannastétt, sem við gnötur og gjóst
æ glímir við Ægisher,
— æðrulaus stendur í úfnum sjó,
er ofviðrin hamast og gnauða.
Þótt á hafið sé lagt í logni og ró,
oft um lífið er teflt fram í dauða.
Heill ykkur, vinir, sem haldið á mið
með hetjunnar stórhuga kjark.
Þið eruð vort sterkasta landvarnarlið
og leiðina ratið í mark:
Í sveita síns andlits hver aflar brauðs
með ærlegum höndum, sem starfa
að heilbrigðum nægtum; — við njótum þess
auðs nútímans köllun til þarfa.
Þorsteinn L. Jónsson