Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1968/Ævintýri í Súlnaskeri sumarið 1942

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
HJÁLMAR JÓNSSON:


Ævintýri í Súlnaskeri sumarið 1942


Hjálmar Jónsson frá Dölum.

Þennan stemmtilega dagbókarkafla úr úteyjum skrifaði annar veiðimannanna, sem kemur við sögu, Hjálmar Jónsson frá Dölum. Hinn var Svavar Þórarinsson frá Suðurgarði, frægur fjalla- og sigmaður á sinni tíð (sjá grein um Þrídranga í Sjómannadagsblaði Ve. 1966). Hjálmar er hér ljóslifandi kominn með leikandi fyndni sína og gamanyrði.
Hjálmar frá Dölum er þekktur meðal Vestmannaeyinga sem einn slyngasti veiði- og fjallamaður, sem hér hefur alið aldur. Hann hefur lengstum stundað lundaveiði í Álsey og legið þar við yfir 40 sumur, en auk þess hefur hann oft og iðulega skroppið í aðrar eyjar, og hefur hann verið við lundaveiði í öllum úteyjum Vestmannaeyja nema Smáeyjum. Í ferðum sínum var hann venjulegast forystumaður og m.a. í hinni frægu Eldeyjarferð árið 1939. Hjálmar er fæddur 5. júní 1899 og er ávallt kenndur við bernskuheimili sitt, Dali. Hann er sérstaklega góður og skemmtilegur félagi og er alltaf létt yfir veiðimönnum, þegar „húmoristinn“ Hjalli frá Dölum er með í förum.

Uppi á Súlnaskeri.

Veiðimenn voru Svavar Þórarinsson og Hjálmar Jónsson. Sókningsbátur Gísli J. Johnsen, skipstjóri Sigurjón Ingvarsson.
Fórum frá Vestmannaeyjum kl. 20 föstudaginn 17. júlí, vorum komnir upp á Sker kl. 21:45, byrjuðum þá strax að hala dót okkar upp, og er það örðugt verk fyrir svo fáa menn, þar eð hæð skersins, þar sem dregið er upp, er 60 metrar. Það gekk nú samt sæmilega, vorum búnir að draga upp allt dótið og báturinn farinn kl. 22:45. Fórum síðan að tjalda og ganga frá okkur, fá okkur bita og hita kaffi. Til svefns var gengið kl. 1 þann 18. júlí.
18. SV kaldi, þoka, lítill fugl. Hjálmar 140 st., Svavar 100. Á borðum var súla og kartöflur.
19. Sunnudagur. Svartaþoka og logn allan daginn, sást ekki lundi. Á borðum: Fiskibollur og kartöflur. Var leiðinlegur dagur, því við höfðum ekkert að lesa.
20. V kaldi, fremur lítill lundi við. Hjálmar 260, Svavar 170. Á borðum: lundasúpa.
21. A kaldi. Sókningsdagur. Hjálmar 130, Svavar 170 í hlut. í mannspart 250 stk. Lundanum gefið niður á Helli. Kjöt á borðum.
22. NA stormur til kl. 16. Mjög lítill fugl. Gekk til SV. Hjálmar 180, Svavar 160. Súla á borðum.
23. SA fyrripartinn, lygndi svo. Hjálmar 260, Svavar 240. Fiskibollur, kartöflur.
24. Logn, sólskin, afar heitt. Hjálmar 80, Svavar 90. Sókningsdagur, í hlut 280. Kjöt í sósu. Rabarbaragrautur. Laugardagur. Hjálmar 150, Svavar 100. Logn, sólskin, gífurlegur hiti, fórum heim með Sigurjóni Gottskálkssyni.
27. Mánudagur. Fórum að heiman á trillubátnum Gæfu ásamt Álfseyingum kl. 22. Með okkur fóru tvær stúlkur, Ragnhildur Jónsdóttir og Lolla, hjúkrunarnemar, ásamt Brynjólfi Jónatanssyni, Breiðholti. Ætluðu þau upp í Skerið, ef þeim litist það fært. Kl. 00:20 þann 28. vorum við komnir suður að Skeri. Lagt var af stað upp án þess að hika hið minnsta. Á Bænabringnum var stoppað að gömlum vana og lesin þar bæn, svo er haldið áfram upp. Við þorðum ekki annað en binda yfir um stelpurnar til öryggis þess, að við ekki misstum þær úr höndum okkar, því að allur er varinn góður. Binna þurftum við ekki að binda, því hann er vanur svona ferðalögum. Áfram er haldið, og var ekki frítt við, að við færum heldur hjá okkur og værum hálffeimnir að vera með ungar og fallegar stúlkur í fanginu, í ýmsum stellingum þarna utan í Bjarginu svona langan tíma. Jæja! Allt hefur sín tímamörk, og svo var með þetta ferðalag. Áfram, áfram, áfram, sögðu stelpurnar. Það heyrðist engin upphrópun eða hræðsluhví í þeim, og er þetta þó ægilegt ferðalag fyrir vana karlmenn, hvað þá heldur óvant kvenfólk.
Kl. 1:30 var svo komið upp á brún. Höfðum við verið 50 mínútur frá því við lögðum af stað neðan af Bænabring og er það mjög fljótt farið af óvönu fólki. Síðan er haldið til „bóls“, þ.e. í tjaldið. Kveikt var á prímusnum í logandi hvelli og hitað kaffi, en kaffið er sem allir vita, lífselexír fyrir allt svona ferðafólk, þó ekkert ættum við út í það, því að töðugjaldaskammturinn var ekki kominn í móð þá. Svo var kaffið drukkið. Síðan var farið að skoða eyjuna og ónáða súluna, sem ekki átti sér neinna gesta von um þetta leyti. Fór þá heldur að verða glatt á hjalla, þegar stelpurnar fóru að steypa stömpum og hendast áfram á mögulegan og ómögulegan hátt, því þarna er mjög ógreiðfært yfirferðar, og heyrðust þá hin skerandi hljóð veikara kynsins, sem leita svo undra fljótt til hjartans á sterkara kyninu.

Skrúðganga á Sjómannadaginn 1967.

Súlan var heimsótt, en ekki var hún gestrisin frekar venju, þó þetta væri einstæð heimsókn hjá henni. Hún gargaði og reyndi að bíta gestina, þó er ég á þeirri skoðun, að það hafi verið misskilið af okkur. Söngurinn hafi verið ástaróður, en höggin ástaratlot til stúlknanna. Allt gekk þetta slysalaust, en ekki hljóðalaust. Síðan var farið með gestina í heimsókn á prestssetrið, en svo illa vildi til, að þar var enginn heima. Presturinn var með alla sína fjölskyldu í orlofsferð í Þrídröngum. Gátum við því ekki sýnt þeim þar neitt nema peningaeign prestssins, og þótti þeim sjóður sá bæði mikill og fagur. Aftur er haldið í tjaldið, drukkið kaffi, hlustað á útvarp, borðaður hálfhrár, brimsaltur lundi. Og ýmislegt fleira var haft til gamans og matar og var að því gerður góður rómur. Síðan var farið að tygja sig til ferðar. Var þá farið vestur í svokallaða þró, því að þar er niðurferðin suður af eynni. Farið var með bönd með sér, því þarna er ókleift nema í bandi. Svavar fór svo fyrstur niður. Átti hann að annast meyjarnar til hinztu stundar, það er að segja þar til þær væru komnar heilu og höldnu á bát, en ég tók að mér að binda þær í tóin og gefa þeim niður. Svo fór ég að binda utan um þá, sem ætlaði fyrst niður, það var Lolla. Drottinn minn! Það fór sælukennd hitabylgja um allan minn búk, þegar ég fór að þukla og hnýta, laga og reyra böndin á stúlkunni, og var ég þá ekki ósvipaður feiminni heimasætu. Svo lét ég hana frá mér fara, settist niður og gaf tóið eftir, en Svavar tók hana á sína arma, þegar niður kom. Svo endurtók þetta sama sig aftur, þegar ég fór að binda Dernu. Alveg sama sagan. Síðast fór Binni - og tók ég mér það ekki nærri. Svavari gekk mjóg vel að koma þeim á bát (hvort hann var haldinn slíkum skjálfta, skal ósagt látið). Kl. var 3:15, þegar allir voru komnir á skip.
Þetta er einsdæma ferðalag. Þarna hefur aldrei, svo menn viti, komið kvenfólk upp - og vafasamt, að nokkur kvenmaður hafi sigið í bjarg hér í Eyjum, að minnsta kosti ekki á þessari öld, svo þetta er sérstakt íþróttaafrek hjá þessum stúlkum, sem á það skilið að það sé fært í bækur íþróttafélaganna, ekki síður en margt annað sízt merkilegra.

Hjálmar Jónsson