Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1967/Snarræði. Björgunarafrek Bergsteins Jónassonar hafnarvarðar
Á undanförnum árum hafa oft orðið hörmuleg slys hér í Vestmannaeyjum. Er þessi slysahætta kannski ekki óeðlileg meðal 700-800 manna, sem þurfa að fara á milli báta í myrkri og misjöfnu veðri, eins og var þegar flest skip lágu í höfninni í vetur, 75 skip, flest yfir 200 tonn.
Sem betur fer hefur ekkert slys orðið í höfninni frá síðasta sjómannadegi. Að svo gæfusamlega hefur tekizt til, eigum við fyrst og fremst að þakka hinum ágæta hafnarverði okkar, Bergsteini Jónassyni frá Múla.
Sýndi hann mikið snarræði og æðruleysi s.l. vertíð, þegar maður féll á milli skips og bryggju inni í Friðarhöfn.
Þar eð talsverð hreyfing var við bryggjuna, var þetta að sjálfsögðu mjög hættulegt, ef þunglestað skipið hefði lagzt að bryggjunni, á meðan Bergsteinn var að ná manninum. Var þetta því mjög vasklega gert, og hefur Bergsteinn sýnt mikið snarræði og kjark.
Að verðleikum mun hann því verða heiðraður nú á sjómannadaginn fyrir þetta afrek.
Bergsteinn Jónasson er fæddur í Vestmannaeyjum 17. desember 1912 og hefur alið allan sinn aldur hér; er óhætt að fullyrða, að allir Eyjamenn kannist við Steina á Múla, eins og hann er alltaf kallaður.
Bergsteinn var fyrr á árum einn vinsælasti og þekktasti knattspyrnumaður hér í Vestmannaeyjum. Var hann helzt óvinnandi bakvörður og frægur fyrir langar spyrnur. Lét Bergsteinn sig umsvifalaust síga niður á milli skips og bryggju, og héldu tveir menn í fætur honum. Náði Bergsteinn í axlirnar á manninum, og voru þeir síðan dregnir upp. Keppti Bergsteinn árum saman í meistaraflokki Íþróttafélagsins Þórs og vann því félagi mikið. Er hann nú heiðursfélagi Þórs.
Störf Bergsteins hafa verið mjög samtvinnuð lífi sjómanna, því að hann hefur verið fastráðinn hafnarvörður við Vestmannaeyjahöfn síðan 1939 eða í rúman aldarfjórðung. Hefur hann jafnframt starfi sínu sem hafnarvörður verið verkstjóri hafnarinnar og unnið við flestar hafnarframkvæmdir hér síðan, svo sem Nausthamarsbryggjuna, Nýju skipakvína í Friðarhöfn, viðgerð hafnargarðanna o. fl. Um leið og Bergsteini er óskað til hamingju með þessa gifturíku björgun, árnum við honum áframhaldandi gæfu og gengis í störfum sínum við höfnina.