Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1967/Brim í Víkinni

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Brim í Vikinni.


Brim í Víkinni. Ljósm. Ólafur Gunnarsson.

Enginn þekkir hafið, svo duttlungafullt er það í öllum sínum margbreytileika. Þvílík tignarró, sem yfir því hvílir á lognværu sumardægri, þegar það breiðir úr glitrandi fleti sínum í yzta fjarska... og svo í vetrarstormunum, þvilíkar hamfarir, þegar úthafsaldan kemur æðandi uppá grunnið og fellur á björgum... Að morgni er hafið máski stillt og að því er virðist meinlaust, en að kvöldi sama dags kann það að ýfast í þann ógnarvald, sem engu þyrmir...
Þeir sem búa á ströndinni og eiga lífsafkomu sína undir þessari viðsjálu höfuðskepnu, verða því oft að gjalda dýrar fórnir — úti á miðum beið björgin, og þangað varð að sækja hana, hvað sem það kynni að kosta.
Meðan farkostirnir voru enn smáir og vanbúnir öryggistækjum — hversu margt ástvinabrjóst fylltist ekki kvíða, þegar báturinn var ekki kominn að landi á eðlilegum tíma. Og sár biðin og ómældir harmarnir, þegar einskis varð að bíða.
Víst hafa farkostirnir stækkað, öryggið aukizt, víst hefur líf okkar strandbúanna tekið stakkaskiptum á sjó og landi, en við megum aldrei gleyma, að ávinningar okkar hafa kostað reynslu strits, kvíða, fórna og harma.
Og enn mun hafið reynast viðsjált og fullrar aðgátar þörf þeim, sem þar glíma.