Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1967/Óveður. Kafli úr óprentaðri skáldsögu

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
MAGNÚS JOHANNSSON FRA HAFNARNESI:


ÓVEÐUR


KAFLI ÚR ÓPRENTAÐRI SKÁLDSÖGU


Magnús Jóhannsson frá Hafnarnesi.

Hann hafði verið að melda sig með þetta dögunum saman, dregið í loft og rosabaugað sólina, sem rétt skreið yfir fjallinu. Lognið hafði aldrei verið eins dátt, óveruleg ölduleiðing inn fjörðinn með súgvotti við strönd. Gamlir menn spáðu illa. Hann gerir einhverja manndrápshryðjuna úr þessari svikamollu. Svona hafði veðrið verið, þegar Norðurljósið og Sjöstjarnan fórust, barómetið hangandi niðrá stormi í logninu.
Hann skall á með eldingunni, eins og hendi væri veifað, og allir bátar á sjó. Nær jafnhliða rokinu, skall á blindhríð. Það sást ekki faðmslengd út á fjörðinn í verstu hryðjunum. Húshjallarnir léku sem á þræði, og skekturnar slitnuðu frá bólunum. Það var ekki hundi út sigandi, þó fólk væri að hrekjast milli húsanna í fréttaleit.
Þeir höfðu ekkert látið til sín heyra af sjónum nema Venus, sem hafði skorið á línuna og var á leið til lands. Hann hafði sagt, að það væri ekki snefill af sjóveðri, og úr því hann Þórarinn í Nausti lét það uppi, var hann víst ekki kræsinn.
Það söng í símastaurunum.
Kaupmaðurinn var órór. Hann hellti í sig hverjum sérrísnafsinum eftir annan. Þeir koma ekki með spotta að landi. Þeir hefðu einhverntíma setið í landi í betra veðri en þetta. Hann kallaði í Hillaríus verkstjóra. Er eitthvað til af línutaui?
Það er nú farið að ganga á það, sagði verkstjórinn. Það er ekki einleikinn andskoti, hvað þeir tapa.
Þarna koma þeir með fimm til tíu koppa tóma dag eftir dag, og gengur ekki á öðru en heimtunum. Ætli þeir sturti bara ekki úr döllunum, áður en línan er farin að láta sig að ráði?
Þú verður að halda svolítið í við þá. Þetta bruðl dugar ekki.
Ég hef nú verið að píra í þá, sagði verkstjórinn. En það er nú ekki vel séð. Þetta eru soddan bölvaðir frekjuhundar. Mikil andskotans læti eru þetta í veðrinu. Þeir koma með nokkra dallana tóma í kvöld. Blessaður settu einhverja í að setja upp, sagði kaupmaðurinn. Annars eru þeir vísir til að éta þig, ef ekki er nóg til í ganginn. Hvernig ragast fiskurinn af Sartúnusi?
Bölvanlega, sagði verkstjórinn.
Hvað kemur til?
Blóðgunin maður. Þeir nenna ekki að skera fiskinn. Það verður að reka þessi strákafífl í land. Þetta eru ábyrgðarlausir angurapar, sem hugsa ekki um annað en hafa það sem rólegast. Hvað þýðir að vera að ala upp sjómannastétt, sem gerir ekki annað en sitja niðrí lúkar við kaffiþamb og sígarettureykingar, en lætur fiskinn sjálfdrepast á dekkinu, svo hann verður ekki söluhæfur. Mín hugsjón er að hafa fiskinn sem hvítastan, svo skjanna helvíti hvítan, að þar kemst enginn meyjarblómi í hálfkvisti við. Svo eru þessir bölvaðir sígarettusogarar að sverta þessa hugsjón. Í land með þá! Viltu einn gráan?
Verkstjórinn þáði einn gráan. Hann hvolfdi í sig úr staupinu og dæsti. Já, það er ljóta helvítið að eiga við þetta. Það er ekki orðið hægt að halda fólkinu að vinnu, alltaf þetta helvítis ramb á kamrana. Þar er setið og dormað yfir sígarettureykingum.
Brúnir kaupmannsins sigu. Og þú lætur þetta viðgangast. Það er engin furða, þó lítið afkastist. Þú verður að hafa betri stjórn á fólkinu, píska það miskunnarlaust áfram, fá út úr því það, sem hægt er, reka þá verstu.
Það er nú varhugavert, Steinsen minn góður.
Varhugavert?
Já, allur skarinn myndi þá leggja niður vinnu, þar til þeir brottræku væri teknir í sátt aftur.
Er allt á hverfanda hveli? sagði kaupmaðurinn. Eru allir að verða svikarar?
Ekki er það nú svo slæmt, sagði verkstjórinn. Það er til ágætis fólk innan um. Við eigum stóran hóp tryggra fylgjenda.
Því fólki verðum við að hampa, sagði kaupmaðurinn. Það eru kosningar í vor og nýr frambjóðandi.
Það er annars ljóta ástandið í Naustinu. Halla hlaupin frá Tóta tetrinu. Hver andskotinn stýrir því?
Var hún ekki farin að halda framhjá honum? sagði verkstjórinn.
Þó ekki með kennarafíflinu?
Ætli það? sagði verkstjórinn. Hún hefði þá ekki rekið hann úr fæðinu.
Mér þykir þú segja tíðindin, sagði kaupmaðurinn. En hvar í andskotanum étur hann þá?
Ætli hann slafri ekki í sig í Síberíusoðningunni? sagði verkstjórinn. Þau hafa verið að jolla saman í allt haust, hann og stelpan.
Jæja, ekki dugir þetta, sagði kaupmaðurinn. Drífðu þig nú í uppsetninguna, og láttu það ganga.
Seinna um daginn söfnuðust þorpsbúar út á mararbakkann neðan við Naust og rýndu út í sortann. Stormurinn svipti fólkinu til, og hríðin blindaði. Þetta var nöturlegur hópur. Andlitin áhyggjufull og starandi.
Snjólfur Snjólfsson stóð þarna ásamt stúlkunni. Hún hélt undir hönd hans og ornaði sér í frakkavasa hans. Guð gefi, að pabbi sé ekki á sjó, sagði hún. Þetta er hræðilegt veður.
Öldurnar skullu með dimmum gný upp í mararbakkann, og útsogið minnti á grát með miklum ekka.
Svo sást til fyrsta bátsins.
Það var Venus.
Hann kom allt í einu undan hríðartjaldinu, skauzt áfram, sogaðist aftur á bak, hvarf, kom aftur í ljós.
Menn héldu niðrí sér andanum.
Hann fer sér hægt, var sagt. Það er líka viti meira.
Síðan fóru flestir að taka á móti bátnum og fá fréttir.
Stúlkan og Snjólfur stóðu kyrr.
Útsogið minnir mig alltaf á sorg, sagði hún. Harmþrunginn ástvinagrát.
Það er víst ekki svo galin samlíking, sagði hann. Heitir ekki eitt kvæðið þitt Útsog?
Æ, kveinkaði stúlkan sér. Þetta eru bara órar, ómerkilegir þunglyndis órar. Ég var svo svartsýn, þegar mamma fór á hælið.

Fyrsta sígarettan að morgni dags.

Það er dálítill prósi í því, sagði hann.
Þau stóðu þétt saman í rokinu.
Stundum er ég ógurlega bjartsýn, sagði hún. Þá finnst mér þetta þorp eiga sér glæsta framtíð.
Því ætli það eigi sér ekki framtíð, sagði hann. Í ævintýrunum risu öskubuskurnar upp úr stónni og urðu drottningar. Lífið er eins konar ævintýr.
Síðan þú komst, sagði hún, og lagði vangann að hröktum frakka hans.
Það syrti að. Það litla, sem hafði sézt af sjónum, hvarf nú í hríðina. Þau héldu heim á leið.
Fólkið var að koma neðan frá bryggjunni.
Það hafði orðið slys. Sartúnus er farinn. Venus hafði komið að honum sökkvandi og náð helmingi áhafnarinnar.
Kaupmaðurinn hafði staðið fremst á bryggjunni, þegar þeir renndu að.
Hans fyrsta spurning var, hvort þeir hefðu náð allri línunni.
Aldrei höfðu menn séð Þórarin í Nausti eins dimman í andliti og kannski engin furða með heimilisástæðurnar eins og þær voru.
Spurðu heldur um mannskapinn, hafði hann sagt, þrifið hausingasveðju og höggvið í borðstokkinn. Ef þú hypjar þig ekki sem fljótast upp á kontór, hegg ég þig í spað.
Og það var skammt stórra högga á milli.
Síríus fórst einnig með manni og mús.
Það var dimmt yfir þorpinu, þegar veðrinu slotaði, og sambandslaust við umheiminn.
Stúlkan bjóst hálft í hvoru við föður sínum ofan af fjallinu. Hann var vanur að koma færandi hendi, þegar veður hömluðu ræði. Henni var títt litið til skarðsins, en þar sást enginn á ferð.
Hann hefur kannski ekki treyst sér, vonaði hún. Það er svo þung fræð í fjallinu.
Hún lifði í þeirra von, þar til prófasturinn kom.


Magnús Jóhannsson frá Hafnarnesi.