Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1966/ Brot úr smásögunni „Tíu á Höfðanum“

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Brot úr smásögunni


„Tíu á Höfðanum“


11


Dagarnir líða með harðri sjósókn, saltir og svefnvana, og hugurinn á ekki rúm fyrir annað en net, þorsk og grjót.
Jafnvel þessa fáu svefntíma meðan keyrt er til lands, standa þeir í stífri úrgreiðslu, tosa aftur netum og grjóti, sem ekki sér fyrir endann á. Og þegar þeir vakna, herjar þreytan hverja taug, hvern vöðva.
Og áfram þokast gangan, áfram vestur með söndunum og flotinn eltir. Gullinu er mokað upp, en það sér ekki högg á vatni. Dýptarmælarnir sýna þykkan kökkinn undir, eins og dökkt ský, sem þekur botninn.
Dag frá degi lengjast stímin og sumir eru farnir að landa í næstu höfn. Einn dag þegar Eyjarnar eru eins og heygaltar í bláu kvöldinu, lætur sá gamli draga allt í bátinn.
Það kom kurr í strákana, því hann var nógur, þrjúhundruð í trossu og krapið undir. Hvað átti þetta að þýða? O, ætli hann sé ekki farið að langa á Heimabankann, sagði stýrsi. Þeir eru aldrei í rónni hér ef þeir ná ekki háttum heima. Við komumst í bíó í kvöld, drengir.
En þeir kæra sig ekkert um bíó.
Meiri fisk!
Hann hlýtur að eiga hann vísan, sagði stýrsi.
Hann væri þá ekki að æða þetta úr honum nógum.
Spá hans reyndist rétt. Þeir náðu háttum heima um kvöldið.

12

Það er farið að teygjast úr deginum og páskar á næstu grösum. Allt hefur tekið stakkaskiptum, brekkurnar kringum bæinn orðnar grænar fram á yztu þramir, móbergið undir, sem hregg og særok höfðu litað grágrænt, orðið ljósbrúnt, fugl á hverri syllu.
Vorið er komið.
Það speglast í augum fólksins, lýsir sér í klæðnaði þess, brosi og fasi. Dag hvern stirnir á sæinn eins og spegil, sem brotnar og splundrast undan stefnum skipanna.
Og svo kom hrotan, þessi langþráði endasprettur. Eyktir dags og nátta renna saman í eitt og ekkert er til utan vinna, þorskur, slor.

Stelpurnar í land í hvelli strákar. Kallinn er að koma.

Hún hófst um morguninn á bátabylgjunni, barst út um bæinn.
Þeir eru að hella honum í sig á bankanum.
Um kvöldið fóru svo fyrstu bátarnir að koma inn eins og fjalir á sjónum og spegill hafnarinnar með björgin og fiskiðjuverin á höfði í sér splundraðist undan stefnum þeirra.
Glaðklakkalegir menn veifuðu fangalínum og brostu gegnum slorstorkuna til stúlknanna.
Nú var gaman að lifa.
En um bryggjur spígsporuðu frakkaklæddir menn svo einstaklega fínir og þokkalegir með reiknivélaandlit og pappírshendur. Það má sjá á svip þeirra að þeir eru að leggja saman, margfalda, þríliða og jafna.
Sæljónið kom með þeim fyrstu að. Sá gamli með saltfiskhendurnar lék við hvern sinn fingur, enda flaut inn á skammdekk á kollunni.

13


Þeir komu seint að á skírdag.
Það hafði verið þvargsamt á miðunum, kaflagnir, þræðingar, þras. Þegar fiskur heldur sig á ekki stærra svæði en þessu, hundrað bátar í einni bendu, getur ekki hjá því farið að menn kafleggi hver aðra. Oftast er slíkt jafnað með hógværð, en ef það kemur fyrir oftar en einu sinni, jafnvel tvisvar, þrisvar sinnum, þá er eitthvað bogið við þann sem slíku veldur. Þá er tekið upp í sig á bylgjunni heldur betur og ekki allt úr biblíunni sem sagt er.
Afli var með tregara móti.
Á skírdagskvöld hvarflar hugurinn að allt öðru en vini.
Þessir hraustu menn eru úrvinda.
Þegar þeir hafa skolað af sér slor og blóðslettur, hníga þeir örmagna í skítugar kojurnar og lúgarinn ymur af hrotum.