Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1966/ Bænin má aldrei bresta þig!

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Bænin má aldrei bresta þig!


Sjómannadaginn ber að þessu sinni upp á hinn almenna bænadag Þjóðkirkjunnar. Það fer vel á því, því að um aldir hafa bænir stigið upp frá brjóstum íslenzkra sjósóknara er þeir ýttu úr vör, sem og þá, er þeir heilir á húfi höfðu ráðið fleyi sínu til hlunns. Mér er til efs, að önnur stétt manna, hér á Iandi, hafi verið borin eins á bænarörmum sem sjómannastéttin. Vissulega þarf það engan að undra, sem býr við „hið yzta haf“ og veit af margri og sárri reynslu, að þar er, þá nánust varir, allra veðra von. Og hver er sú móðir, eiginkona eða ástvinur. að þeim sé rótt í brjósti, er þau vita af vininum sínum á sjó í tvísýnu veðri eða veðurofsa.
Bænin er vissulega tjáning hins smáa, hins aflvana andspænis ofureflinu.
En bæn kristins manns er miklu meira. Hún er í innsta eðli sínu leiðin til Guðs. Og þessa leið hefir Jesús Kristur frætt okkur um og hvatt okkur til að ganga. Hann kenndi okkur bænina: „Faðir vor . . .“. Og með þessum tveim upphafsorðum bænarinnar snertum við kjarna kristinnar bænariðju.
Við erum í bæninni heima hjá Guði, í því athvarfi, sem veitir hlé í stormum og skjól i skúrum, sem veitir frið, sem er æðri öllum skilningi, og öryggi á stundu neyðarinnar. Að þessu athuguðu ætti bænin að vera okkur indæl iðja.

Séra Jóhann Hlíðar.

Því að bænin er samtal þitt við Guð þinn, sem þú trúir á og treystir.
Nú veit ég af eigin raun, að okkur hættir til að slaka á bæninni,er við komumst af bernsku- og æskuskeiði, og jafnvel hættum með öllu að biðja. Um það ásigkomulag segir Hallgrímur Pétursson:

Andvana lík til einskis neytt
er að sjón, heyrn og máli sneytt;
svo er án bænar sálin snauð,
sjónlaus, köld, dauf og rétt steindauð.

En þeim mun undursamlegra verður það, er maður lærir öðru sinni að biðja. Þegar maður fer í alvöru að reikna með Guði sem lifandi staðreynd og þreifa á, að það er ekki stokkur eða steinn, sem maður ákallar, heldur lifandi Guð, sem „heyrir sínum himni frá hvert hjartaslag þitt jörðu á“.
Þá verður hver reynslan á vegi bænarinnar annarri stærri og undursamlegri, svo að við blátt áfram þreifum á sannleik orðanna: „lykill er hún að Drottins náð“.
Ég sagði, að bænin væri leiðin til Guðs, og það er satt. Hún leiðir okkur að þeirri æskulind, sem gjörbreytir allri afstöðu okkar til lífsins og allra hluta.
Bænin er að vísu engin töfraþula, sem leysir allan lífsvanda okkar á svipstundu. Guð lætur ekki að sér hæða. En bænin er okkur gefin af Guði fyrir Jesúm Krist, til þess að lifandi samband sé með okkur og Guði okkar. Og forréttindi bænarinnar eru þau, að við megum biðja um hvað sem er í Jesú nafni.
Vitandi, að ekkert er svo stórt að Guð megni ekki að leysa það, né svo smátt, að það sé of auðvirðilegt að nefna það.
Ég veit að þú sem sjómaður, skipstjóri, skipseigandi eða annað, átt við þín vandamál að etja. Það geta verið fjárhagsvandamál, vélabilanir, aflaleysi eða einfaldlega einkavandamál, heimiliserfiðleikar. — Þér vildi ég segja: Þú mátt nefna hlutina réttu nafni og umbúðalaust í bæn í Jesú nafni, og þú munt reyna undursamlega hluti, sem munu fylla hjarta þitt af fögnuði og styrkja trú þína og traust til Guðs. Guð vill að þú komir til sín, eins og þú gleðst yfir því, þegar barn þitt sýnir þér trúnaðartraust.
Hann vill hjálpa þér, því máttu trúa. Hann lætur sér annt um þig, því máttu treysta.
Hann hefur gefið þér Jesúm Krist til þess fyrst og fremst að þú eignaðist bjargfestu sáluhjálplegrar trúar, en um leið hefur hann gefið þér kristna trú — trú, sem er hagnýt, sem veitir þér kraft til þess að lifa í dag, honum til dýrðar og öðrum til blessunar. Og þú skalt reyna sannleik orða minna, að látir þú bæn stíga upp til Guðs í dag, þá verður þér undarIega létt um hjartað, þá verður gleði þín sönn og styrkur í mótlæti mikill. Þreyztu ekki á að biðja í erfiðleikum og lausnin bíður á næsta leiti.
Bið og starfa og þú munt fara bratta för. Auðna og blessun mun fylgja þér alla daga. Og þú munt eiga góða heimvon.
Ég bið þess, sjómaður, að Guð geri þig að bænarinnar manni. Þá mun heill hlotnast okkar þjóð.
Með þá bæn í hjarta óska ég þér blessunar á sjómannadeginum.
Guð blessi sjómannastéttina.